08.04.1965
Neðri deild: 65. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

102. mál, jarðræktarlög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja, en mér virtist gæta mishermis í ræðu hæstv. landbrh. hér áðan, sem sjálfsagt hefur ekki komið fram viljandi frá honum, en ástæða er til að leiðrétta.

Hæstv. ráðh. komst svo að orði, að út á ræktun í túnum, sem eru undir ákveðnu marki, þ.e.a.s. 25 ha., væri jarðræktarframlag að viðbættu sérstöku framlagi samkv. landnámsl. 50% af ræktunar- og girðingarkostnaði. Því miður eru ákvæði l. ekki á þann veg, heldur segir, með leyfi hæstv. forseta, í lögunum: „Óafturkræft framlag má þó ekki vera hærra en sem nemi að viðbættu framlagi samkv. jarðræktarl. 50% af ræktunar- og girðingarkostnaði“ o.s.frv. Þessi 50% eru hámark þess, sem greitt er og greiða á. Og í 2. gr. landnámsl. er ákveðin fjárupphæð, sem veitt er ár hvert um nokkurt árabil til þessara útgjalda. Það hefur að sjálfsögðu verið þetta, sem hæstv. ráðh. vildi segja. En þó að þetta sé svona í l., er þess nú að vænta, og ég vil mega vænta þess, að þetta ákvæði l. verði framkvæmt á þann hátt, að framlag samkv. landnámsl. verði greitt að fullu upp í það hámark, sem heimilað er, og þá séð fyrir fjármunum til þess.