12.04.1965
Neðri deild: 67. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

173. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar tollskráin nýja var lögð fyrir Alþ. 1963, var það tekið fram, að þó að hún yrði samþ. með ýmsum þeim lagfæringum, sem hún fól í sér, mundi haldið áfram athugun og endurskoðun á tollamálum. Í samræmi við það fól ég í des. 1963 tollskrárnefnd að athuga og gera till. um lækkun á tollum af vélum og ýmsum tækjum vegna atvinnuveganna. N. var sérstaklega falið að athuga, hvort hentugt þætti og mögulegt væri að lækka tolla af vélum til vinnslu útflutningsafurða meira en á vélum og tækjum til annarra nota, enn fremur að athuga sérstaklega áhrif lækkunar á vélatollum á samkeppnisaðstöðu hins íslenzka iðnaðar og að sjálfsögðu að semja grg. um þann tekjumissi, sem ríkissjóður yrði fyrir vegna þessara tollalækkana. Í grg. eða aths. við þetta lagafrv. er birt orðrétt það bréf, sem ég ritaði tollskrárn., og hefur hún fyrir nokkru skilað till. um þetta efni.

Meginbreytingin, sem hún lagði til og felst í frv., er sú, að almenn lækkun á vélatollum verði úr 35 niður í 25%, en tollar lækki úr 35 niður í 10% á vélum og tækjum til vinnslu útflutningsafurða, öðrum en þeim, sem jafnframt eru framleiddar í landinu sjálfu. Á slíkum vélum verði tollurinn 15%. En auk þess hefur verið ákveðið að endurgreiða tolla af efni til slíkrar vélaframleiðslu innanlands og enn fremur að fella niður söluskatt af sölu hinnar innlendu vélaframleiðslu. Þessar ráðstafanir hafa verið gerðar með hliðsjón af hinni innlendu vélaframleiðslu, og þegar þess er gætt, að tollar á hinum innfluttu vélum vegna útflutningsatvinnuveganna lækka svo mjög, taka slíkt stökk eins og hér er gert ráð fyrir, úr 35% niður í 10%, er þetta óhjákvæmileg og sjálfsögð aðstoð við hinn innlenda iðnað.

Í meðförum hv. Ed. voru gerðar nokkrar formbreytingar á frv. og tvær efnisbreytingar. Önnur er sú, að geymar úr ryðfríu stáli fyrir mjólk eru farnir að ryðja sér til rúms, og er gert ráð fyrir því, að þeir komi í vaxandi mæli í stað mjólkurbrúsa. Mjólkurbrúsar eru með 10% tolli, en þessir geymar eru nú með 50% tolli. Í frv, var eftir till. tollskrárn. upphaflega gert ráð fyrir, að tollur af þessum geymum færi niður í 25%, en var ákveðið í Ed. að fara með hann niður í 10% eða sama toll og er nú á mjólkurbrúsum.

Önnur breytingin er sú að heimila að lækka eða endurgreiða gjöld af heilum, innfluttum dráttarbrautum, þannig að gjöld af þeim verði 10% verðtollur: Það hefur verið undirbúið og gert ráð fyrir því, að á næstunni verði nokkuð um slíkan innflutning að ræða, og þykir rétt að veita þessa tollalækkun á slíkum dráttarbrautum.

Í hv. Ed. höfðu, þegar málið var til meðferðar þar, fjhn, beggja deilda samstarf um athugun á málinu. Um leið og ég legg til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn., vil ég bera fram þau tilmæli, að hv. fjhn. afgreiði málið þannig, að 3. umr. og endanleg afgreiðsla geti orðið á morgun. Það er að sjálfsögðu mikil nauðsyn, þegar frv. er flutt um lækkanir á tollum, eins og hér er um að ræða, að málið nái skjótrí afgreiðslu í þinginu, vegna þess að vitanlega stöðvast allar tollaafgreiðslur, meðan málið liggur hér fyrir.