18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Kristján Thorlacíus:

Herra forseti. Ég mun ekki að ráði ræða efni þess frv., sem hér liggur fyrir. Eins og nú er komið, verður vafalaust ekki hjá því komizt að greiða þær verðuppbætur og aðra styrki til framleiðslunnar, sem frv. gerir ráð fyrir. Út af 3. gr. frv. vil ég þó láta í ljós þá skoðun, að ég tel höfuðnauðsyn, að rækileg athugun fari fram á hag togaraútgerðarinnar og aðstæðum til togaraútgerðar hér á landi.

En ég tel rétt að víkja nokkuð að þeirri yfirlýsingu, sem fram kemur í grg, með þessu frv., að ríkisstj. hafi ákveðið að skera niður um 20% greiðslur til verklegra framkvæmda skv. fjárl. fyrir árið 1965 og nota þær 120 millj., sem þannig fást, í rekstrarkostnað ríkisins. Það var allmargt, sem núverandi hæstv. ríkisstj. lofaði að framkvæma, þegar hún tók við völdum fyrir 5 árum. Meðal þess, sem tilkynnt var með nokkru yfirlæti í upphafi valdatíma ríkisstj., var, að hverfa ætti frá því uppbótakerfi og styrkjakerfi, sem áður gilti, og taka upp annað efnahagskerfi, sem að því miði að draga efnahag og atvinnulíf landsmanna úr sandbleytunni upp á fastan grunn, eins og hæstv. fjmrh. komst að orði í fjárlagaræðu sinni, er hann mælti fyrir frv. til fjárl. fyrir árið 1960. Niðurskurður verklegra framkvæmda er eitt a! mörgum táknum þess, að ríkisstj. hefur gefizt upp við að framfylgja þeirri meginstefnu, sem hún mótaði í upphafi. Meðal annarra stefnumála ríkisstj. var aukinn sparnaður í rekstri ríkisins og lækkun skatta og annarra opinberra gjalda. Þessar fyrirætlanir ríkisstj. hafa þó mistekizt svo algerlega, að aldrei hefur óhófseyðsla ríkissjóðs verið meiri en nú og skattar og tollaálögur á almenning svo ofboðsleg, að menn fá engan veginn undir þeim risið.

Það var ekki aðeins við myndun núv. ríkisstj., að lofað var skatta- og tollalækkunum, heldur hefur ríkisstj. þráfaldlega síðan verið að lofa lækkun á álógum, og á s.l. sumri var því hátíðlega lýst yfir af ríkísstjórnarinnar hálfu, að henni þættu skattaálögur allt of háar og þetta mundi vissulega verða lagað á yfirstandandi ári. Síðan þessar yfirlýsingar voru gefnar í fyrrasumar, hefur söluskatturinn verið stórhækkaður, og var sú hækkun áætluð 270 millj. af sjálfri ríkisstj. Í kjölfarið kemur sá stórfelldi niðurskurður á framlögum til verklegra framkvæmda, sem boðaður er í grg. þess frv., sem hér er til umræðu.

Þær raunverulegu ástæður, sem liggja til þeirra stórkostlega auknu álaga, sem framkvæmdar voru með hækkun söluskattsins í vetur, og þeirrar nýstárlegu tekjuöflunar, sem gert er ráð fyrir með þeim niðurskurði, sem nú hefur verið ákveðinn, eru afleiðingar af misheppnaðri stjórnarstefnu. Efnahagsráðunautar ríkisstj. fóru ekki dult með það, að voði væri fyrir dyrum, ef ekki tækist að framfylgja hinni nýju efnahagsmálastefnu. Nú er þessi spá efnahagsráðunautanna að koma fram. Framkvæmd á hinni svokölluðu viðreisnarstefnu ríkisstj. hefur mistekizt, og nú verður að reyta menn inn að skyrtunni í nýtt uppbóta- og styrkjakerfi, sem kemur ofan á hinar þungbæru álögur, sem fyrir voru.

Það er vissulega rétt, sem bent hefur verið á í þessum umr., að leita ber fyrst annarra ráða heldur en skera stórlega niður fjárframlög til hinna nauðsynlegustu framkvæmda, og það má sannarlega benda á liði, sem vel má spara á og óhæfilegt er að gera ekki alvarlegt átak til að skera niður. Það hefur verið margbent á ýmsa af þeim liðum, sem sjálfsagt er að skera niður, og suma ætti auðvitað hreinlega að fella niður alveg, fyrr en gripið er til þess úrræðis að stöðva hinar nauðsynlegustu framkvæmdir, svo sem byggingu sjúkrahúsa, skólahúsnæðis, vegaframkvæmdir o.s.frv. Sjálfur benti hæstv. fjmrh. í sinni fyrstu fjárlagaræðu fyrir 5 árum á 11 atriði, sem þyrftu athugunar við og mundi vera hægt að lækka. Hæstv. fjmrh. fór í fjárlagaræðu sinni 1960 all rækilega út í að lýsa hinni nýju leið til sparnaðar, sem hann ætlaði að fara, og sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Og enda þótt einhverjir kunni að kalla þetta undarlegan sparnað, að byrja á því að setja á stofn skrifstofudeild,“ — hann var að tala um hagsýslustofnun, — „þá er reynslan sú alls staðar, að þessi kostnaður borgar sig upp í beinhörðum peningum á stuttum tíma og það margfaldlega. Kostnaður við strangara eftirlit og umbætur í vinnubrögðum er vanur að skila hagnaði fljótlega.“

Þetta voru orð hæstv. fjmrh., er hann mælti í febr. 1960. Það var von, að hann væri bjartsýnn og vongóður um, að sparnaðarfyrirætlanir hans tækjust. Því skyldi ekki takast að draga úr kostnaði hér undir hans stjórn eins og hagsýslufyrirkomulagið hafði margborgað sig í beinhörðum peningum annars staðar að hans sögn? En þetta fór því miður á annan veg, eins og svo margt annað, og skýringin á því er mjög einföld að mínum dómi. Það var valin röng aðferð við framkvæmd hinnar svonefndu hagsýslu. Það hefði að mínum dómi átt að byrja á því að mennta íslenzka sérfræðinga til þessara starfa. Það var ekki gert, heldur sóttir erlendir menn, sem sjálfsagt eru vel færir í sinni grein, en þeir þekkja ekki íslenzkar aðstæður, sem á margan hátt eru aðrar en í þeirra landi.

Eitt af því, sem endurskipuleggja átti samkv. ummælum hæstv. fjmrh., var Skipaútgerð ríkisins. Hann sagði í fjárlagaræðu 1960, að hallinn á Skipaútgerðinni væri áætlaður 15 millj. í fjárlagafrv. fyrir 1960. Enn fremur sagði hæstv. ráðh., að tekið yrði til sérstakrar athugunar, hvort ekki væri hægt að draga verulega eða að öllu leyti úr þessum miklu útgjöldum ríkissjóðs án þess að draga úr nauðsynlegri þjónustu við landsbyggðina. Og þetta urðu ekki orðin tóm. Hingað var fenginn norskur sérfræðingur til að athuga rekstur strandferðaskipanna, og hann gerði till. um breytingar. En þær reyndust óframkvæmanlegar. Þessar till. höfðu verið miðaðar við siglingaaðstæður innan skerjagarðsins í Noregi, en sérfræðingurinn þekkti ekkert til siglinga við hina brimasömu strönd Íslands. Ríkisreikningurinn fyrir árið 1963 sýnir, að hallinn á Skipaútgerðinni það ár hefur orðið tæpar 24 millj. kr., og sami halli er í áætlun fjárl. fyrir árið 1965. Þannig fór um sjóferð þá, og þannig hefur því miður farið um alla þá tilraun til sparnaðar, sem hæstv. fjmrh. byrjaði á, og þess vegna þarf að beita þeim þungu skattaálögum, sem nú er gert.

Ég mun nú fara nokkrum orðum um aðra þá liði sem ríkisstj. ætlaði að koma við sparnaði á samkv. yfirlýsingu hennar við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1960. Þegar fjárlög voru til afgreiðslu 1960, hafði utanrrn. að sögn ríkisstj. haft til sérstakrar athugunar, með hverjum hætti mætti koma við sparnaði varðandi utanríkisþjónustuna. Árangurinn af þeirri athugun er ekki sjáanlegur enn þá. Af þessu leiddi ekkert annað en vafasamar tilfærslur á sendiherrum. Innflutningsskrifstofan var lögð niður og kostnaðurinn af þeim störfum, sem hún hafði gegnt, færður yfir á ríkisbankana. Lækka átti kostnað við skyldusparnað, en sá kostnaður var 1959 2 millj. 150 þús. kr. Þessi kostnaður er áætlaður 3 millj. kr. í fjárl. fyrir árið 1965. Kostnaður við framkvæmd orlofslaga var áætlaður 625 þús. kr. í fjárlagafrv, fyrir árið 1960. Þetta þótti hæstv, ríkisstj. mikið, og var gefið fyrirheit af hennar hálfu, að unnt mundi að lækka verulega. Þessi fjárhæð er nú tvöfölduð í fjárl. fyrir árið 1965. Oft hefur verið halli á rekstri póstsjóðs. Ríkisstj. sagði 1960, að ætlunin væri að láta hann bera sig, póstsjóðinn. Þetta var gert með því að hækka burðargjöldin. Með þessu móti varð hagnaður árið 1960 6.7 millj. Á árinu 1964 varð hagnaðurinn 37 þús. Endurskoða átti bílakostnað ríkisins og starfsmanna þess og setja um það fastari reglur. Ég held, að fullyrða megi, að sparnaðar hafi litið orðið vart, en hér er erfitt um samanburð, þar sem bílakostnaður er ekki færður í einu lagi í ríkisreikningnum. Gefið var fyrirheit um að leggja niður ýmsar launaðar nefndir. Varla held ég, að mikið hafi farið fyrir því. Bráðnauðsynlegt var talið að ganga fastara og betur eftir innheimtu ríkistekna. Í þessu sambandi má geta þess, að sett hefur verið á fót sérstök stofnun í Reykjavík til að innheimta opinber gjöld fyrir ríkissjóð og Reykjavíkurborg. Það er ekki að efa, að hert hefur verið mjög á innheimtu gjalda hjá almenningi. En dæmið um stóreignaskattinn, sem hv. 1. þm. Austf. nefndi í fyrradag, sýnir, að ekki er eins fast sótt að um innheimtu hjá öllum almenningi. Loks er að minnast á gerbreytingu, sem gerð var á fyrirkomulagi skattálagningar og skattheimtu, þegar allar undirskattanefndir voru lagðar niður, svo og allar yfirskattanefndir. Í staðinn var fjölgað skattstjórum og sett á stofn embætti ríkisskattstjóra. Kostnaður við undirskattanefndir, yfirskattanefndir og ríkisskattanefndir fyrir breytinguna var samkv. upplýsingum hæstv. fjmrh. í fjárlagaræðunni 1960 3 millj. kr. á ári. Allur kostnaður við skattlagningu var á árinu 1959 8 millj. 763 þús. Þegar breytingin var komin til framkvæmda árið 1963, var kostnaðurinn af þessum málum 18.5 millj., og í fjárl. 1965 er kostnaðurinn við skattálagninguna áætlaður 21 millj.

Þannig hefur farið með sparnaðinn hjá hæstv. ríkisstj. Þar sem bezt hefur tekizt, er ástandið óbreytt. Annars staðar hafa orðið stórfelldar hækkanir. Síðan núv. ríkisstj. tók við völdum hefur risnukostnaður, ráðstefnukostnaður og annar ferðakostnaður samtals numið um 23.6 millj. kr. .Ég vil ekki fullyrða, að losna hefði mátt alveg við þennan kostnað. En það fullyrði ég, að mátt hefði að skaðlausu fækka bæði veizlum og utanferðum hjá hæstv. ríkisstjórn.

Í umr. um frv. til læknaskipunarlaga hér um daginn bar byggingu hjúkrunarskóla nokkuð á góma. Ég spurði þá ríkisstj., hvort treysta mætti því, að sú 7 millj. kr. fjárveiting, sem var í fjárl. 1965 til byggingar hjúkrunarskóla, yrði ekki skorin niður eins og önnur fjárfestingarframlög. Ekkert svar fékkst við þeirri fsp. Ég vil þess vegna endurtaka þessa fsp. og leyfi mér að vænta svars frá hæstv. ríkisstj. um þetta atriði.

Það hefur mörgum orðið undrunarefni, hve ómakleg orð féllu í sambandi við hjúkrunarskólann af hálfu hæstv. forsrh. og menntmrh. hér um daginn. Þetta var út af því, að ég skýrði frá áskorunum, sem sendar höfðu verið ríkisstjórn frá 70 læknum og læknanemum og 300 hjúkrunarkonum, áskorunum um að hraða byggingu hjúkrunarskólans. Hæstv. ráðh. kölluðu þessar áskoranir óviðeigandi vinnubrögð og gamanþætti, og þetta átti að vera af því, að þessir hæstv. ráðh. hefðu þegar verið búnir að leysa málið, þegar áskoranirnar bárust. Mér skildist helzt á þeim, að þeir vildu biðjast undan því algerlega, að aðrir væru nokkuð að skipta sér af þessu húsbyggingarmáli. Samtök hjúkrunarkvenna hafa frá öndverðu barizt fyrir stofnun hjúkrunarskóla hér á landi og alltaf borið málefni hans mjög fyrir brjósti. Sama er að segja um húsbyggingarmál skólans. Þeim mun ómaklegri eru hrakyrði hæstv. ráðh. um þessa stétt. Eg gat ekki betur skilið hæstv. forsrh. en hann kenndi því um í sambandi við vöntun á húsnæði fyrir hjúkrunarskólann, að forráðamenn skólans hefðu lagt of mikið upp úr því að hafa heimavist í skólanum, þess vegna hefði verið vanrækt að byggja kennslustofur fram að þessu. Þegar hafizt var handa um byggingu hjúkrunarskólans 1952, var orðinn tilfinnanlegur skortur á húsnæði í landsspítalanum, en í húsakynnum hans var þá heimavist hjúkrunarskólans og samkv. lögum var þá skylda, að hjúkrunarnemar byggju í heimavist. Til þess að losa húsnæði í landsspítalanum fyrir barnadeild var ákveðið 1952 að byggja fyrst þann hluta húss fyrir hjúkrunarskólann, sem nota skyldi fyrir heimavist. Þetta er skýringin á því, að heimavist skólans var byggð fyrst. Þegar gengið var frá teikningum 1952, efaðist enginn um, að skólinn þyrfti heimavist, hvorki þáverandi skólastjóri, skólanefnd, sem jafnframt var byggingarnefnd skólans, né heilbrmrh., sem skólinn heyrði þá undir, og teikningar voru auðvitað gerðar bæði af kennslustofum og heimavist ásamt öðrum vistarverum, sem með þurfti. Það var af þessum ástæðum, sem fyrst var lögð áherzla á heimavistina. Síðan var gert ráð fyrir, að haldið yrði áfram með bygginguna og kennslustofur byggðar í öðrum áfanga.

Ég hef fengið upplýsingar um það frá landlækni, sem er formaður skólanefndar hjúkrunarskólans, hvað skólanefndin hefur gert í byggingarmálum skólans. Samkv. yfirliti og fundargerðarbókum skólanefndar hefur húsameistara ríkisins verið falið að endurskoða teikningar af öðrum áfanga byggingarinnar á fundi skólanefndar 11. maí 1957. Þetta er síðan ítrekað á fundum skólanefndarinnar árin 1958 og 1960. Árið 1961 gerir landlæknir rn. og fjvn. grein fyrir húsnæðis- og fjárþörf skólans og biður húsameistara ríkisins um kostnaðaráætlun. Siðan er skólanefnd sífellt að endurnýja beiðnir um endurskoðun teikninga allt fram til ársins 1963, en þá var ráðinn sérstakur húsameistari til að breyta teikningunum. Mér finnst rétt, að það komi hér fram, að þegar hjúkrunarskólinn varð 30 ára, en það var á árinu 1961, vakti skólastjóri hans athygli á því opinberlega, hver nauðsyn væri á því að hefjast þegar handa um áframhaldandi byggingarframkvæmdir við skólann. Skólastjóri benti þá á, að þrjú sjúkrahús væru í smíðum hér í bænum, og spurði, hvar þá ætti að fá hjúkrunarlið, þegar þau væru tilbúin, þessi sjúkrahús, og tækju til starfa. Skólastjórinn benti þá á, að bygging viðbótarhúsnæðis mundi varla taka minna en 5 ár, og frá þeim tíma, að húsið væri fullbyggt, mundu liða 3 ár, þangað til fleiri hjúkrunarkonur færu að útskrifast en nú er. Það mundu því liða 8 ár, frá því að hafizt væri handa um framkvæmdir, þangað til stækkun skólans færi að gera gagn að því er tæki til fjölgunar hjúkrunarkvenna. Skólastjórinn sagði þá, það er í nóv. 1961, að bersýnilegt væri, að til stórra og skjótra aðgerða þyrfti að grípa um framhaldsframkvæmdir, ef forða ætti frá neyðarástandi í þessum málum.

Hæstv. menntmrh. skýrði frá því um daginn, að fundur hefði verið haldinn 6. maí 1964 í hjúkrunarskólanum og allir hefðu á þeim fundi verið sammála um að hefja ekki byggingarframkvæmdir fyrr en vorið 1965. Sannleikurinn er sá, að skólastjórinn lét þá í ljós ósk um, að byrjað væri á byggingunni strax vorið 1964. En ríkisstj. hafði þá þegar ákveðið að nota ekki lánsheimild til byggingarframkvæmdanna. Það voru þessi málalok vorið 1964, sem sýndu læknum og hjúkrunarkonum fram á, að án baráttu þessara stétta væri mikil hætta á ferðum í byggingarmálinu. Sjúkrahúslæknar og aðrir læknar skrifuðu þá undir áskorun um að hefja bygginguna 1964, og Hjúkrunarfélag Íslands hélt félagsfund 11. ágúst 1964 og samþykkti þar áskorun, sem byrjað var að safna undirskriftum undir á fundinum. 300 hjúkrunarkonur undirrituðu áskorun þessa og afhentu ríkisstjórn í síðasta mánuði, en auðvitað hefur ríkisstj. vitað það og það fyrir löngu, að slík áskorun væri á leiðinni, og auðvitað hefur það hert á þessum málum. Það er þessi áhugi hjúkrunarstéttarinnar og læknastéttarinnar, sem hæstv. forsrh. kallaði mjög óviðeigandi aðferðir og hæstv. menntmrh, leyfði sér að nefna gamanþátt hér í umr. um daginn.

Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að hjúkrunarkonum og læknum er bezt kunnugt um, að hér eru engin gamanmál á ferð og ekkert einkamál einstakra ráðh., hvernig að heilbrigðismálum er unnið, þótt ríkisstj. virðist standa í þeirri trú. Hæstv. ríkisstj. hefur með síðustu aðgerðum sínum bezt sannað það sjálf, að svo sannarlega er þörf á áskorunum og eftirrekstri, til þess að koma áleiðis framkvæmdum vegna heilbrigðismálanna í þessu landi og annarra nauðsynjamála. Niðurskurður ríkisstj. á fé til verklegra framkvæmda er afleiðing af lélegri stjórnarstefnu, sem er álíka nothæf í íslenzkum þjóðmálum og áætlun um bætt skipulag á rekstri Skipaútgerðarinnar, sem reyndist, þegar á átti að herða, vera miðuð við siglingar innan skerjagarðsins í Noregi.