01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hér, var fjhn. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meirihl. n. vill samþykkja frv. óbreytt, en ég tel rétt að gera á því nokkrar breytingar og flyt fjórar brtt. við frv. á þskj. 394. Vil ég nú í stuttu máli gera grein fyrir þessum brtt. mínum.

1. brtt. mín er við 2. gr. frv., en í henni er lagt til, að 33 millj. kr. verði varið á árinu 1965 til framleiðniaukningar frystihúsa og annarra endurbóta á framleiðslu frystra fiskafurða. Þessu legg ég til að verði breytt þannig, að þessari upphæð verði varið til framleiðniaukningar í fiskiðnaði og til annarra endurbóta í framleiðslu fiskafurða. Eins og menn veita athygli, legg ég til, að þessari upphæð verði varið til allra greina fiskframleiðslunnar jafnt, en ekki aðeins til hraðfrystiiðnaðarins, eins og gert er ráð fyrir í frv. Mér þykir engin ástæða til þess, að verið sé að greiða sérstaka styrki til hraðfrystihúsanna einna vegna þeirra framleiðslu, en skilja eftir þá framleiðendur, sem framleiða saltfisk, skreið og aðrar fiskafurðir úr því hráefni, sem þessir aðilar verða að kaupa á nákvæmlega sama verði og þeir, sem framleiða hraðfrysta fiskinn. Það hafa komið fram umkvartanir frá þessum aðilum, sem sérstaklega verka fisk í salt og skreið, og ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að ef á að fara að gera hér upp á milli, þá er aðstaða þeirra, sem verka fisk í skreið, núna veikust og mun veikari en hinna, sem verka fisk í hraðfrystingu. Till. mín beinist því að því, að þessum styrk verði varið til allra þessara fiskverkunaraðferða jafnt, en ekki ein tekin út úr eins og lagt er til í frv.

2. brtt. mín, sem einnig er við 2. gr., er þannig, með leyfi hæstv. forseta, að við greinina bætist: „f reglunum skal ákveðið, að þær fiskframleiðslustöðvar, sem hafa erfiða rekstraraðstöðu, njóti hlutfallslega hærri styrks en hinar, sem betri aðstöðu hafa.“ Ég vil, að á það sé lögð áherzla, að í þeim reglum, sem sjútvmrh. á að setja um skiptingu þessarar fjárhæðar eða þessa styrks, sé það alveg skýlaus meining Alþ., að ráðstafanir verði gerðar til þess, að styrkurinn renni fyrst og fremst til þeirra, sem þurfa mest á styrknum að halda eða hafa lakasta rekstraraðstöðu.

Ég tel rangt með slíka fjárhæð sem þessa, sem er að sjálfsögðu ekki nema tiltölulega lítill hluti af heildarframleiðslukostnaðinum, að haga framkvæmdinni eins og nú hefur verið gert, að fjárhæðin renni svo að segja öll til þeirra aðila, sem enginn vafi getur leikið á að hafa rekið með hagnaði, en þannig hefur þetta verið. Stærstu frystihúsin, sem hafa mest hráefni til þess að vinna úr og m.a. hafa haft þá sérstöðu að geta unnið úr miklu af síld, þar sem rekstrarafkoman er almennt talin betri, fá meginhlutann af þessari styrkupphæð. Ég tel þetta rangt og legg því til, að það verði skýrt tekið fram, að í reglunum, sem fara á eftir í þessum efnum, verði ákveðið, að þessi upphæð skuli fyrst og fremst renna til þeirra, sem hafa erfiða rekstraraðstöðu.

3. brtt. mín er við 3. gr. frv., en hún fjallar um bætur til togaranna. Þar legg ég til, að tekið verði tillit til þess við úthlutun á styrk til togaranna, hvort þeir hafi verið gerðir út fyrir innlendan markað eða fyrir erlendan markað. Ég álít, að styrkurinn, miðað við úthaldstíma, eigi að verða helmingi meiri fyrir þann tíma, sem skipin hafa verið gerð út fyrir innlendan markað, heldur en fyrir þann tíma, sem þau hafa verið gerð út fyrir erlendan markað.

4. brtt. mín, sem einnig er við 3. gr., er um, að tekið verði upp sérstakt ákvæði til bráðabirgða, þess efnis, að ríkisstj. skipi 5 manna nefnd, strax eftir að lög þessi hafa verið samþykkt, til þess að gera till. til Alþingis um nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma togaraútgerð landsmanna á rekstrarhæfan grundvöll. Ég álít, að það sé ekki við það unandi að greiða marga tugi millj. kr. í beina rekstrarstyrki og það eftir þeim reglum, sem nú er gert til togaraútgerðarinnar í landinu, án þess að Alþingi láti rannsaka rekstrarvandamál togaranna sérstaklega og geri tilraunir til þess að skapa togaraútgerðinni í landinu betri rekstraraðstöðu en nú er.

Þetta eru sem sagt megintill., sem ég legg til að samþykktar verði við þetta frv. Ég ræddi nokkuð um efni frv. og efnahagsmálin almennt við 1. umr. málsins og sé því ekki ástæðu til þess að fara út í neinar framhaldsumr, um það, en hef gert grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt við frv. og legg áherzlu á að nái samþykki.