24.11.1964
Efri deild: 22. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

5. mál, verðtrygging launa

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Við vitum það allir, að hv. síðasti ræðumaður, 9. þm. Reykv., er ágætur læknir og þekkir það þess vegna mjög vel af eigin raun, að það fer mjög eftir ástandi sjúklingsins, hvaða læknislyf á að gefa. Það getur stundum verið stórhættulegt að gefa sjúklingi sama læknislyf og getur bjargað lífi hans í annað skipti. Þetta er eitt af frumatriðum læknisfræðinnar, sem hv. þm. auðvitað þekkir gjörla. Hann átti líka kollgátuna að því, þegar hann spurði um það, hvort ríkisstj. teldi, að verðtrygging launa ætti stundum við og stundum ekki. Það er alveg rétt. Ríkisstj. lítur þannig á, alveg eins og ég veit að hann lítur á um ýmis læknislyf í sínu mikilsverða starfi. Ég hygg, að það sé ótvírætt, að eins og á stóð 1960, var ekki fært að halda reglunum um verðlagsuppbót óbreyttum og skynsamlegt að afnema þær. En eins og á stóð í vor, þegar hægt var að semja um nokkurn vinnufrið og ekki meiri kjarabreytingar en svo, að ef annað tekst sæmilega til, ætti verðlagsuppbót nú ekki að þurfa að hleypa af stað nýrri verðbólguskriðu eða auka verðbólguvöxtinn úr hófi, hvernig sem við viljum arða það, þá var skynsamlegt að verða við þeirri ósk verkalýðsfélaganna að semja um verðtryggingu. Það var skýrt tekið fram af ríkisstj., að sú skuldbinding af hálfu ríkisstj. stæði einungis meðan þeir samningar stæðu, sem gerðir voru í júní í sumar, og jafnvel ráðgert og vitað, að slík tímabinding yrði sett í bráðabirgðalög, ef þau yrðu gefin út um málið. Nú voru brbl. ekki út gefin, heldur frv. lagt fyrir Alþingi, og að athuguðu máli þótti ekki eðlilegt að hafa neinn tímafrest um gildi þeirra. Eins og nú var skynsamlegt að taka aðra afstöðu en 1960 vegna breyttra aðstæðna, verður að meta það á seinni tímum, hvaða gagnráðstafanir verður að gera gegn verðbólguvexti, ef hann ætlar að verða þjóðfélaginu stórhættuleg eða banvæn meinsemd, en um það getum við ekki efast, að svo er í raun og veru, ef verðbólgan vex úr hófi.

Í sjálfu sér læt ég mig engu skipta ögranir út af því, að stjórninni hafi hér snúizt hugur. Jafnvel þótt svo væri, er það sízt afsökunarefni. Það þekkjum við allir, að menn skipta oft um skoðun, hver og einn, einstaklingar, flokkar, þm., ríkisstj., Alþingi, svo að þrætur um það, hvort algert samræmi sé í því, sem skeður á nokkurra ára bili, eru einstaklega ófrjóar. En hér eiga þær enn þá síður við, þar sem atvikin eru önnur, og þar sem það er í raun og veru svo, að hér er verið að berjast á móti sjúkdómi í efnahagslífinu, og það verður hverju sinni að beita því meðali til hindrunar honum eða linunar afleiðinga hans, sem þá á bezt við. Það hefur ríkisstj. eftir föngum leitazt við að gera. Ég get að lokum, — ég hygg, að ég sé búinn að svara öðrum spurningum, þeim sem hv. þm. bar fram til mín, — þá get ég fullvissað hann um, að því fer fjarri, að viðreisnin sé enn dauð. Ég spái því, að hún eigi eftir að lifa lengi, eftir að hans pólitísku sögu er lokið.