05.04.1965
Efri deild: 62. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

157. mál, Myndlista- og handíðaskóli Íslands

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Þegar um barnaskóla og gagnfræðaskóla er að ræða, er það mjög eðlileg tilhögun, að kostnaður skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga, vegna þess fyrst og fremst, að nemendur í umræddum skólum eru eingöngu úr viðkomandi sveitarfélagi. Hér horfir málið allt öðruvísi við. Myndlista– og handíðaskóli Íslands er engan veginn fyrir Reykvíkinga eina, heldur fyrir alla jafnt, að sínu leyti eins og menntaskólarnir. Þar af leiðir, að öll skipting á kostnaði milli þess sveitarfélags, sem skólinn af tilviljun er í og ríkisins er óeðlilegur. Þetta er meginatriði og það er auðvitað skýringin á því, að lög um skólakerfið voru sett á þann veg, að fyrstu tvö stigin í kerfinu skyldu kostuð sameiginlega af þessum aðilum, en ríkið eitt greiða fyrir 3. og 4. stigið, menntaskóla, sérskóla og háskóla. Þetta liggur nokkurn veginn í augum uppi, ef málið er athugað.

Myndlista– og handíðaskóli Íslands er sumpart kennaraskóli og sumpart skóli, þar sem gerðar eru miklar kröfur til nemenda, venjulega þær, að þeir hafi annaðhvort lokið landsprófi eða gagnfræðaprófi. Þetta gildir um aðaldeildir skólans, myndlistadeildina, sem er bæði forskóli og framhaldsskóli og einnig um kennaradeildirnar. Um listiðnadeildina er óákveðið enn, hver verða gerð inntökuskilyrði í þá deild. Það verður ákveðið með reglugerð, svo að um það getum við ekki dæmt. En námskeiðin, sem ætluð eru að nokkru leyti almenningi, eru alger aukageta hjá skólanum. Skólinn sem slíkur skal gangast fyrir námskeiðum fyrir almenning. Þau námskeið eru að sjálfsögðu ekki fyrir Reykvíkinga eina, heldur alla landsmenn, sem óska að sækja þessi námskeið. Hér er því mjög skýrt afmarkað svið og ekki blöðum um það að fletta að, að öllu eðlilegu hefði þessi ríkisskóli átt að kostast eingöngu af ríkissjóði. Hitt skil ég ósköp vel, að forráðamenn ríkisvaldsins hafi gjarnan viljað seilast til þess að fá hinn öfluga borgarsjóð til þess að vera með í fyrirtækinu hvað kostnað snertir. Ég skal líka taka það fram, að ég tel það alveg óeðlilegt, að fræðsluráð Reykjavíkur eigi að gera till. til menntmrh. um kennara skólans. Ég tel það alveg fráleitt og hárrétt hjá hv. frsm., að því þyrfti að breyta, um leið og brtt. mín yrði samþ. En ef til vill stend ég einn uppi með þennan málstað í hv. þd. Ég hefði einna helzt vænzt þess að fá stuðning frá hv. frsm., sem þó hefur talið rétt að andmæla brtt. minni. En ég get ekki neitað því, að í því tilfelli finnst mér, að sá höggvi, sem hlífa skyldi.