20.04.1965
Neðri deild: 70. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

157. mál, Myndlista- og handíðaskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og var samþ. þar með einróma meðmælum hv. menntmn. og að lokum með shlj. atkv. hv. Ed. Um aðeins eitt efnisatriði hafði komið fram brtt., sem smávægilegur ágreiningur varð um í hv. Ed., en það var till. um það, að Myndlista- og handíðaskólinn yrði ríkisskóli að öllu leyti, þ.e. kostnaður við hann skyldi einvörðungu greiðast úr ríkissjóði. En þetta frv. gerir ráð fyrir því, að skólinn sé kostaður sameiginlega, aðallega að hálfu leyti af hvorum aðila, ríkissjóði og Reykjavíkurborg, svo sem nú á sér stað um skólann. Sá háttur er hafður á um greiðslu kostnaðar við skólann í fullu samráði við forráðamenn Reykjavíkurborgar.

Ég skal fara fáeinum orðum um efni þessa frv. Með frv. er lagt til, að í fyrsta sinn verði nú sett heildarlöggjöf um myndlista- og handíðakennslu hér á landi. Þessi kennsla fer nú fyrst og fremst fram í Handíða- og myndlistaskólanum í Reykjavik og er sá skóli nú orðið algerlega rekinn af opinberum aðilum, þ.e. af ríkinu og Reykjavíkurborg, þó að hann hafi í upphafi verið einkaskóli, stofnaður af Lúðvíg Guðmundssyni haustið 1939. En áður höfðu ýmsir drátthagir menn og listmálarar um lengri eða skemmri tíma haldið uppi nokkurri kennslu fyrir almenning í teiknun og listmálun, fyrst og fremst í einkatímum, en einnig á námskeiðum, en um reglulegt skólahald á þessu sviði var ekki að ræða, fyrr en Lúðvíg Guðmundsson stofnaði Handiðaskólann árið 1939 og vann með því hið merkasta brautryðjandastarf, sem honum ber miklar og sérstakar þakkir fyrir. En smám saman þróuðust mál þannig, þó að skólinn hafi byrjað sem einkaskóli, að hið opinbera, eins og líka algerlega eðlilegt var, ríki og Reykjavíkurborg, tók að sér rekstur skólans og greiðslu kostnaðar við hann. Þó er það svo, að nú eru ekki önnur lagaákvæði í gildi um Handíða- og myndlistaskólann en ein gr. í l. um iðnskóla frá 1945, en í þeirri gr. segir svo, með leyfi hæstv, forseta:

„Heimilt er að láta listiðnadeildir Handiða- og myndlistaskólans í Reykjavík njóta sömu réttinda um styrk úr ríkissjóði samkv. 2. tölulið þessrar gr., að fullnægðum sömu skilyrðum.“

M.ö.o.: ríkissjóði var með þessari lagagr. heimilað að styrkja Handíða- og myndlistaskólann með sama hætti og hann styrkir iðnskóla og samkv. þessari lagaheimild hefur kostnaður við rekstur Handíða- og myndlistaskólans verið greiddur. Í lögum um menntun kennara frá 1947 var sérstakur kafli um svonefndan Handíðakennaraskóla Íslands og var þar kveðið svo á, að stofna skyldi skóla til þess að veita menntun þeim, sem vilja gerast sérkennarar í handíðum við barnaskóla, skóla gagnfræðastigsins og húsmæðraskóla og skyldi þessi skóli nefnast, eins og ég sagði áðan, Handíðakennaraskóli Íslands. En þangað til sá skóli væri stofnaður, skyldi kennsla sú, sem honum væri ætlað að inna af höndum, fara fram í kennaradeild Handíða- og myndlistaskólans í Reykjavík. Þessi skóli var aldrei stofnaður og hefur þessi sérkennsla til handa kennurum fram til þessa dags farið fram í Handíða- og myndlistaskólanum í Reykjavík. En með hinum nýju lögum um Kennaraskóla Íslands, sem samþ. voru fyrir tveimur árum, voru þessi lagaákvæði um Handiðakennaraskóla Íslands felld úr gildi og þess vegna eru nú alls engin lög í gildi um sérkennaramenntun í handavinnugreinum. Ekki hvað sízt þess vegna er nú nauðsynlegt að setja ný lagaákvæði um þetta efni.

Þess vegna var það, sem menntmrn. fól í sept. 1963 þeim Kurt Zier skólastjóra Handíða- og myndlistaskólans, Helga Elíassyni fræðslumálastjóra, dr. Brodda Jóhannessyni skólastjóra kennaraskólans og Lúðvíg Guðmundssyni fyrrv. skólastjóra Handíðaskólans að semja frv. til nýrra 1. um Handíða- og myndlistaskóla Íslands. Þeir hafa samið það frv., sem hér er nú lagt fyrir hina hv. Nd., og grg., sem því fylgir. Ég skal nú í örfáum orðum gera grein fyrir meginatriðunum í skipun myndlistakennslunnar, eins og hún verður, ef þetta frv. nær fram að ganga.

Það er gert ráð fyrir því að breyta nafni skólans í Myndlista- og handíðaskóla í stað Handíða- og myndlistaskóla í samræmi við það, að myndrænar listir skipa nú — og hafa gert undanfarin ár — meginrúm í kennslu skólans. Tilgangur skólans er að veita kennslu, menntun og þjálfun í myndlistum, í listiðnum og búa nemendur undir kennslustörf í vefnaði, teiknun og öðrum greinum myndrænna lista, sem kenndar eru í skólum landsins. Gert er ráð fyrir að skipta skólanum í fjórar námsdeildir, myndlistadeild, kennaradeild, listiðnadeild og námskeiðshald. Myndlistadeildin er kjarni skólans. Hún starfar eingöngu í föstum dagdeildum og er námstími 4 ár. Myndlistadeildin sjálf skiptist í fjóra námsflokka eða fjóra bekki, þ.e. tveggja ára forskóla og tveggja ára framhaldsflokka, þannig að skólinn verður í raun og veru fjögurra ára skóli. Fyrra ár forskólans er reynsluár nemandans, sem tekinn er í skólann. Hann kemur þangað að jafnaði með gagnfræða- eða miðskólapróf, og er lágmarksaldur 16 ár. Listrænn undirbúningur er þó að sjálfsögðu mjög misjafn, oft enginn og veitir þetta fyrsta ár í forskólanum því umsækjendum öllum jafna aðstöðu og möguleika til náms, en þar eru kenndar undirstöðugreinar. Á öðru ári er síðan haldið áfram kennslu í þeim greinum, sem grundvöllur var lagður að á fyrsta skólaárinu og auk þess bætt við nýjum greinum. Að loknu þessu tveggja ára forskólanámi á nemandinn að hafa öðlazt reynslu á hæfileikum sínum og kennarar hans þá að vera orðnir færir um að dæma um námsgetu og árangur hans. Þess vegna getur nemandinn þá í samráði við kennara sína ákveðið frekari námstilhögun og hvaða sérgrein hann hyggst velja sér. Samkv. fyrirhuguðu skipulagi skólans verður þá um tvo aðalmöguleika að ræða. Í fyrsta lagi getur nemandinn valið sér listnám, hreint listnám og í öðru lagi getur hann látið innrita sig í aðra hvora af tveim kennaradeildum skólans. Ef hann velur listnám, kemur ýmislegt til greina, frjáls myndlist og einnig hagnýtar listgreinar, auglýsingateikning, umbúðateikning, gluggaskreytingar og þar fram eftir götum. Ef nemandinn aftur á móti lætur innrita sig í aðra hvora af hinum tveimur kennaradeildum skólans, er þar annars vegar um að ræða teiknikennaradeild, sem er tveggja ára nám og lýkur með teiknikennaraprófi og veitir kennararéttindi og hins vegar er um að ræða vefnaðarkennaradeild, sem líka er tveggja ára nám, en þangað komast líka nemendur með annað undirbúningsnám, t.d. eftir að hafa stundað undirbúningsnám í almennum vefnaði í húsmæðraskólum eða að loknu námi í handavinnudeild í kennaraskólanum.

Eins og ég gat um áðan, er starf Handíða- og myndlistaskólans ekki aðeins fólgið í því námi, sem ég nú hef mjög stuttlega lýst og er annars vegar hreint fjögurra ára listnám eða kennaranám í teiknun eða vefnaði, heldur er starf skólans einnig fólgið í mjög víðtæku námskeiðshaldi, sem aðallega fer fram síðdegis eða á kvöldin, en þar er almenningi gefinn kostur á námi í ýmsum greinum myndlista og listiðnaðar. Á þessum námskeiðum eru námsefnin mjög fjölþætt og tilgangur þeirra því mjög margvíslegur. Ýmsir af þeim, sem stundað hafa slík kvöldnámskeið, sækja síðar um inngöngu í dagdeildum skólans til þess að stunda hið reglulega listnám eða kennaranámið, ef þeir að öðru leyti hafa réttindi til slíks.

Nú í vetur eru rúmlega 300 nemendur í öllum deildum skólans. Á kvöld- og síðdegisnámskeiðunum eru 159 nemendur í vetur, í æfingaskóla vegna kennaradeildar, þ.e. barnateiknun, eru um 80 nemendur, og í föstum dagdeildum skólans, þ.e. við hið reglulega skólahald, eru nú 55 nemendur. En kjarni skólans er að sjálfsögðu þessir föstu nemendur í dagdeildum skólans. Þar eru af 50 nemendum 20 í kennaradeildunum, þ.e. verðandi kennarar,

8 í vefnaðarkennaradeildinni, en 12 í teiknikennaradeildinni, svo að um 30% af nemendum í föstum deildum skólans eru kennaraefni.

Nú starfa auk skólastjóra 17 kennarar við Handíða- og myndlistaskólann, en aðeins einn þeirra er fastur kennari auk skólastjórans, allir hinir eru stundakennarar. Á þessu þarf nauðsynlega að verða breyting og er að því stefnt með þessu frv. Er gert ráð fyrir því, að við skólann starfi fjórir fastir kennarar auk skólastjóra, einn í hverri af aðaldeildum myndlistarnámsins, þ.e. við myndlistadeildina, teiknikennaradeildina, vefnaðarkennaradeildina og listiðnadeildina. Þó er ekki skylt að skipa alla þessa kennara þegar í stað, enda nokkur vafi á því, hvort völ er þegar í stað á hæfum kennurum í allar þessar stöður, en í þær mun verða skipað smám saman, eftir því sem völ verður á hæfum kennurum.

Að síðustu vil ég geta þess varðandi rekstrarkostnað skólans, að gert er ráð fyrir því, að hann verði 1.8 millj. kr. á ári, þegar ákvæði l. eru komin til fullra framkvæmda. Hlutur ríkisins af þessari fjárhæð verður 1.3 millj. kr., en hlutur Reykjavíkurborgar rúm 1/2 millj. Fjárveiting á fjárl. 1965 mun duga til þess að greiða þann kostnað, sem skólinn mun hafa á þessu ári, og í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar mun vera nægilegt fé til þess að greiða kostnaðinn við skólann á þessu ári. Á árinu 1966 og síðar mun hins vegar þurfa að auka fjárveitingu til skólans nokkuð, eftir því sem föstum kennurum fjölgar í stað stundakennaranna, sem nú annast þar kennslu.

Að síðustu skal ég svo láta þess getið, að ég tel hér vera um mjög merkilegt lagafrv. að ræða og vænti þess, að hv. Nd. sjái sér fært að afgreiða þetta frv. nú á þessu þingi. Það er enginn efi á því, að Handíða- og myndlistaskólinn hefur gegnt mjög merku og mikilvægu hlutverki í íslenzkum skólamálum og í íslenzkri listmenningu. Nái þetta frv. fram að ganga, mun starfsaðstaða skólans batna að miklum mun og skólinn því geta rækt hlutverk sitt miklu betur en hann hefur gert undanfarin ár og áratugi, vegna þess að skipulag hans mun komast í mun fastara horf, en verið hefur, sérstaklega í kjölfar þess, að í stað stundakennara er gert ráð fyrir því að komi fastir kennarar, einn fastur kennari að hverri aðaldeild skólans. En á því er enginn efi, að hverri þjóð er nauðsynlegt, að í skólakerfi hennar sé veittur kostur á góðri og vel grundvallaðri menntun í hvers konar myndlistum og þá ekki síður, að kennaramenntun á þessum sviðum sé vel og skynsamlega skipulögð.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.