23.03.1965
Neðri deild: 58. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

140. mál, umferðarlög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel, að þurft hefði að gera meiri breytingar á umferðarl. en stefnt er að með þessu frv. Sérstaklega er það eitt atriði í þeim, sem ég tel að þyrfti að breyta hið allra fyrsta. Öllum er kunnugt um hin tíðu umferðarslys hér á landi og það er einnig vitað mál, að mörg af þessum slysum stafa af því, að ökumenn eru ölvaðir við akstur. Ég tel, að það þurfi að setja miklu strangari ákvæði, en nú eru í l. um ökuleyfissviptingu þeirra manna, sem gera sig seka um það að hreyfa ökutæki, þegar þeir eru undir áhrifum áfengis. Og ég tel, að þessa breytingu hefði þurft að gera nú, úr því að l. á að breyta á annað borð. Hins vegar er sagt hér í aths., að umferðarlaganefnd vinni að frekari endurskoðun löggjafarinnar og vildi ég mega treysta því, að hún taki þetta atriði til sérstakrar athugunar. Ég tel enga ástæðu til að láta þá menn hafa ökuleyfi, sem hafa gerzt brotlegir við þetta ákvæði umferðarlaganna.