30.03.1965
Neðri deild: 60. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

9. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til athugunar frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar og leggur n. til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem n. gerir till. um á sérstöku þskj. Einn nm. skrifar þó undir nál, með fyrirvara og annar nm. var fjarstaddur, þegar frv. var afgreitt í nefndinni.

Frv. þessu var vísað til 2. umr. 26. okt. s.1. Má því segja, að n. hafi haft rúman tíma til athugunar á frv. Það stafar þó ekki eingöngu af trassaskap nm., að frv hefur ekki verið afgreitt fyrr úr n., heldur fremur vegna þess, að sú venja er nú að komast á, að frv. um veitingu ríkisborgararéttar séu ekkí afgreidd, fyrr en síðari hluta vetrar, enda eru nýjar umsóknir um ríkisborgararétt að berast venjulega fram undir þinglok.

Við afgreiðslu þessa frv. og athugun á nýjum umsóknum um ríkísborgararétt hefur að þessu sinni, nema annars sé getið, verið fylgt þeim reglum, sem allshn. beggja þd. komu sér saman um fyrir hér um bil 10 árum og síðan hefur verið fylgt í höfuðdráttum. Eru reglur þessar að venju prentaðar í nál. 27 af þeim umsækjendum um íslenzkan ríkisborgararétt, sem upp eru taldir í frv. og í brtt. allshn., fullnægja þeim skilyrðum, sem í reglum þessum eru sett fyrir veitingu íslenzks ríkisborgararéttar, og tel ég því ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þá umsækjendur. Hins vegar fullnægir 21 umsækjandi, sem getið er í frv. og brtt. n., ekki þessum skilyrðum og mun ég því í stuttu máli gera grein fyrir því, af hvaða ástæðum allshn. leggur samt sem áður til, að þessum umsækjendum verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur.

16 þessara umsækjenda eru júgóslavneskir flóttamenn, sem komu hingað til lands á árinu 1959. Áður, en þeir komu til landsins, var þeim heitið því af íslenzkum stjórnvöldum, að þeir mundu verða aðstoðaðir við að öðlast hér íslenzkan borgararétt, svo fljótt sem lög leyfðu, ef þeir óskuðu þess og reyndust annars nýtir og góðir borgarar. Einnig var þeim tjáð, að hér á landi væri fyrir hópur ungverskra flóttamanna og væri líklegt, að hið sama yrði látið ganga yfir þá og hina ungversku flóttamenn í sambandi við veitingu ríkisborgararéttar. Fyrir 2–3 árum var allmörgum hinna ungversku flóttamanna veittur íslenzkur borgararéttur og er því talið eðlilegt eftir það, sem á undan er gengið, að hinum júgóslavnesku umsækjendum verði nú veittur sami réttur, þegar þeir eru búnir að dveljast hér á landi jafnlengi eða lengur og hinir ungversku flóttamenn voru búnir að gera, þegar þeim var veittur hér borgararéttur. Dómsmrn. og félmrn. hafa fyrir sitt leyti mælt með því, að hinum júgóslavnesku umsækjendum verði nú veittur íslenzkur borgararéttur. Fjórir af þeim umsækjendum, sem ekki fullnægja áðurnefndum skilyrðum, eru ungverskir flóttamenn, sem komu hingað til lands á árinu 1956 og hafa dvalizt hér samfleytt síðan. Sé ég ekki annað, en þeim mundi hafa verið veittur íslenzkur ríkisborgararéttur á þinginu 1962–63 eins og allmörgum öðrum samlöndum þeirra, ef þeir hefðu þá sótt um borgararétt, sem þeir gerðu þó ekki af einhverjum ástæðum. Dómsmrn. hefur fyrir sitt leyti mælt með því, að þessum fjórum umsækjendum verði nú veittur íslenzkur borgararéttur.

Þá er loks ein kona, Þórunn Sofía Jóhannsdóttir Ashkenazy, sem í frv. er lagt til að öðlist nú íslenzkan ríkisborgararétt, þótt hún fullnægi strangt tekið ekki þeim skilyrðum, sem sett hafa verið fyrir veitingu íslenzks borgararéttar. Er hún íslenzk í húð og hár og hafði að sjálfsögðu íslenzkt ríkisfang, þar til hún giftist rússneskum manni fyrir nokkrum árum, en hefur nú afsalað sér rússneskum borgararétti, sem hún öðlaðist við giftinguna.

Eftir því sem bezt er vitað, hefur enginn þeirra umsækjenda, sem upp eru taldir í frv. og brtt. allshn., sætt þeim viðurlögum hér á landi, að það hindri eftir settum reglum, að þeim verði veittur íslenzkur borgararéttur.

Eins og ég áður sagði, herra forseti, legg ég til, að þessu frv. verði síðan vísað til 3. umr. og það samþ. ásamt þeim brtt., sem allshn flytur á sérstöku þskj.