21.03.1966
Efri deild: 53. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

113. mál, ríkisreikningurinn 1964

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það mætti vitanlega margt segja um ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e., sem hann var að enda hér í sambandi við afgreiðslu ríkisreikningsins fyrir árið 1964, en ég skal reyna að fara ekki meira en ástæða er til út í þá sálma að ræða í einstökum atriðum þau mál, er hann minntist á.

Ég get fullkomlega tekið undir þau orð hans, að það er sjálfsagt, að farið sé eftir till. endurskoðunarmanna ríkisins eða Alþ., varðandi þær athugasemdir, sem þeir gera í sambandi við ríkisreikninginn, enda hefur stofnunum og var þegar í sumar ritað í sambandi við þær athugasemdir, sem þær varða, og fyrir þær lagt að haga málum sínum framvegis í samræmi við þær athugasemdir, þannig að okkur 1. þm. Norðurl. e. ber að sjálfsögðu ekki á milli um, að það beri að taka tillit til þeirra athugasemda að fullu, enda tel ég þær vera hófsamar og eiga við full rök að styðjast.

Varðandi aftur þær athugasemdir hv. 1. þm. Norðurl. e., að hér hefðu útgjöld farið stórkostlega úr hófi fram og það sýndi, að það hefði verið með lítilli gætni farið með ríkisfé, miðað við það, hvað hver reikningur hefði farið langt umfram fjárlög, þá eru á meginhluta þeirra útgjalda fullgildar skýringar, sem ég hygg nú raunar, að hv. 1. þm. Norðurl. e. sé fullkunnugt um, því að ég gerði rækilega grein fyrir því í fjárlagaræðu minni í haust, að ástæðan fyrir því, að útgjöld ríkíssjóðs 1964 hefðu farið svo langt fram úr áætlun sem raun ber vitni um, stafaði að meginhluta til af atvikum, sem til komu eftir að fjárlög voru afgreidd. Má í því sambandi geta þess, að svo sem ríkisreikningur ber með sér, þá hafa útgjöld samkv. sérstökum lögum orðið um 200 millj. kr., en eru aðeins áætlaðar 5 millj. til að mæta þeim útgjöldum í fjárl. Þetta stafar bæði af aðstoð við útgerðina og ýmsum öðrum ráðstöfunum, sem gerðar voru, eftir að fjárlög voru afgr., og ekki lágu fyrir upplýsingar um, þegar það var gert. Í annan stað var mönnum jafnframt kunnugt um það, að á þessu ári var í sambandi við samkomulag við verkalýðsfélögin fallizt á það að setja aftur vísitöluna í samband við kjarasamningana á miðju ári, og þetta leiddi af sér stórkostlega aukningu niðurgreiðslna til að halda niðri vöruverði, og útgjaldaauki af þeim sökum nemur um 200 millj. kr. Þetta eru langstærstu liðirnir, útskýra mjög verulegan hluta þeirra umframútgjalda, sem eru hjá ríkissjóði þetta ár, og hygg ég ekki, að það sé hægt að segja, að þetta bendi til einhverrar óreiðu í sambandi við þessar umframgreiðslur, heldur koma hér til atriði, sem eðli málsins samkv. lágu ekki fyrir, þegar fjárl. voru afgr., og það eina, sem segja má að geti verið ásökunarefni í því sambandi, er að hafa ekki nægilega snemma á því ári gert ráðstafanir til nýrrar tekjuöflunar til þess að mæta þessum útgjöldum, sem þó raunar var gert varðandi hluta þeirra með hækkun söluskattsins, sem einnig var afgr., eftir að fjárlög voru samþ. hér endanlega, til þess að mæta útgjaldaaukanum vegna aðstoðar við útgerðina og fleira í því sambandi. En þetta leiðir að sjálfsögðu af sér, að áætlanir fjárl. hafa mjög raskazt, þannig að ríkisreikningur er þetta miklu hærri samanborið við fjárlög eins og raun ber vitni um.

Þetta held ég, að hv. þm. muni vera fullkomlega ljóst. Hann er svo glöggur og gætinn maður, að hann gerir sér fulla grein fyrir því. En mér finnst ekki alls kostar sanngjarnt að láta ekki þessar skýringar fylgja, þegar átalið er, hversu útgjöld fjárl. þetta ár hafa farið umfram fjárlög.

Varðandi hina einstöku liði, sem hv. þm. vitnaði í að væru óeðlilega háir og sýndu, að ekki hefði verið haldið nógu vel á málum, svo sem að kostnaður við kjarasamninga hefði farið mjög verulega fram úr áætlun, sameiginlegur kostnaður við embættisrekstur og skattheimta og annað þess konar, út í þá sálma skal ég ekki sérstaklega fara. Ég býst ekki við, að í því felist ásakanir um það, að t.d. við kjarasamningana hafi verið greiddar út einhverjar óeðlilegar fjárhæðir. Það má vissulega harma það, að þessi kostnaður hefur orðið svo mikill sem raun ber vitni um, en eins og sakir stóðu, varð ekki hjá því komizt, og ég hef ekki ástæðu til að halda, að það hafi verið af neinni ógætni haldið á þeim útgjöldum.

Kostnaðurinn við embættisrekstur, hinn sameiginlegi kostnaður, var áætlaður of lágt. Það getur vel verið, að megi segja, að eitthvað megi spara í því efni. Það hefur löngum verið vinsælt að tala um sameiginlegan embættisrekstur stjórnarráðsins og annarra þeirra stofnana sem dæmi um það, hvar mætti spara í ríkisrekstrinum. Það hefur verið frá því að ég man fyrst eftir, að ég hafði afskipti af stjórnmálum, en hins vegar lítið út úr því komið, enda reyndin sú, að ég hygg, að það sé ákaflega erfitt að komast hjá að inna þessar greiðslur af hendi. nema þá hugsanlega kannske með einhverjum verulegum skipulagsbreytingum, sem ég verð þó að segja, að ég fæ ekki séð, hvernig má við koma. Hitt er annað mál, að þessi eilífa gagnrýni á kostnað við stjórnarráðið og sameiginlegan embættisrekstur og aðra slíka útgjaldaliði við stjórnsýsluna hefur því miður oft og tíðum orðið þess valdandi, að þessi kostnaður hefur verið áætlaður of lágt í fjárl., og þá í rauninni verður útkoman sú, að þetta kemur fram í ríkisreikningi á sínum tíma. Ég verð persónulega að segja, að ég álít, að sú aðferð þjóni engum tilgangi, þegar það er vitanlegt, að kostnaðurinn hlýtur að fara fram úr áætlun, það sé eins gott að sýna þá áætlun raunhæfa strax.

Varðandi kostnaðinn við skattheimtuna skal það fúslega játað, að endurskipulagning skattheimtunnar hefur ekki leitt af sér þann beina sparnað, sem gert var ráð fyrir. Það breytir hins vegar engu um það, að þessi skipulagsbreyting var að mínum dómi mjög til bóta og hefur lagt grundvöll að því, að með allt öðrum og nýjum hætti er hægt að taka á skattamálunum. En það er hárrétt hjá hv. þm., að áætlanir um það, að þetta mundi leiða af sér töluverðan sparnað, hafa ekki rætzt og því hefur þetta farið fram úr áætlun, bæði á árinu 1964 og 1965, og í fjárl. ársins 1966 hefur verið gengið út frá því að taka inn áætlun, sem raunsæ mætti teljast í sambandi við skattheimtukostnaðinn, og verða menn að sjálfsögðu að hafa sínar skoðanir um það, hversu þar hafi verið skynsamlega að málum unnið. En ég held ekki hér heldur, að sé hægt að álíta, að neitt hafi verið greitt óeðlilega umfram það, sem þessi kostnaður raunverulega reyndist óhjákvæmilegur.

Varðandi nefndakostnað og kostnað við undirbúning lagafrv. er það ekkert sérstakt í sambandi við þennan ríkisreikning. Það hafa áratugum saman að vísu verið mismunandi háar fjárhæðir í þessu sambandi, en verið í öllum ríkisreikningum, frá því að ég man fyrst eftir, allverulegar fjárhæðir. Ég er hv. 1. þm. Norðurl. e. sammála um, að það beri að spyrna hér við fótum svo sem auðið er. En ég held ekki, að það sé hægt að færa þetta fram sem neinar sérstakar röksemdir fyrir því, að á árinu 1964 hafi verið eitthvað ógætilegar á þessum málum haldið, heldur en hefur verið tíðkað langa hríð, og ég vil ekki halda heldur, hver fjmrh. sem hefur átt hlut að máli í það og það skiptið, að ekki hafi verið reynt að sporna hér við fótum eins og kostur er. En þetta hefur nú einu sinni verið svo, t.d. með undirbúning lagafrv., að það er oft og tíðum mjög erfitt að leggja beinlínis á starfsmenn stjórnarráðsins þá skyldu að undirbúa öll slík mál, auk þess sem oft eru til kvaddir menn utan stjórnarráðsins vegna ýmiss konar sérþekkingar á þeim málefnum, sem um er að ræða, og verður þá að sjálfsögðu að greiða þeim mönnum fyrir það verk.

Ríkisábyrgðirnar nefndi hv. 1. þm. Norðurl. e. einnig. Það er alveg rétt hjá honum, að það eru mjög óskemmtilegar fjárhæðir, sem ríkið hefur orðið að leggja út vegna ríkisábyrgða, og er glögg ábending um, að það hefði mátt fara með meiri hófsemi í ríkisábyrgðir á undanförnum árum og áratugum heldur en gert hefur verið. Ég hins vegar minni enn á það, sem er tvímælalaus staðreynd, að þessi mál hafa mjög komizt í betra horf, eftir að lög um ríkisábyrgðasjóð voru sett, og m. a. varðandi það, sem hann minntist á, að erfitt væri að sannreyna eða tryggja það, að sanngirni og réttsýni væri látin ráða í sambandi við innheimtuaðgerðir, held ég, að það sé þó til stórra bóta, að þetta er komið í hendur hlutlauss aðila, þannig að stjórnmálaleg sjónarmið koma þar ekki til greina. Ríkisábyrgðasjóður hefur með höndum þessar innheimtur og það er reynt með öllum tiltækum ráðum að innheimta þetta fé. Ég er hins vegar sammála honum um, að það er eðlilegt t.d. um sveitarfélög, sem reyna að standa í skilum, að það hitti þau illa að sjá, að það séu lagðar út stórar fjárhæðir fyrir önnur sveitarfélög. Þetta bendir ekki til þess út af fyrir sig, að þessi sveitarfélög, sem hlut eiga að máli, hafi vísvitandi verið að láta falla ábyrgðir á ríkið. Hér hafa hins vegar þau óhöpp orðið, að þessir aðilar hafa ekki geta staðið við sinar skuldbindingar. En auðvitað verður að leggja alla áherzlu á að innheimta þetta fé.

Í sambandi við ríkisábyrgðirnar, ef út í það ætti að fara, það skal ég ekki gera hér, er auðvitað hægt að benda á mjög raunaleg óhöpp og raunaleg atvik, sem þar hafa átt sér stað, og vissulega hefði farið betur allra hluta vegna, að sumt hefði þar verið ógert. Það má því segja, að það sé oft og tíðum hægara að vera gáfaður eftir á. Það, sem er tilfinnanlegast í sambandi við ríkisábyrgðirnar, eru ríkisábyrgðir vegna togaranna, sem hafa fallið með mjög miklum þunga á ríkisábyrgðasjóð og verið einn versti þátturinn í þeim ábyrgðum á undanförnum árum og eru það eins og sakir standa nú. Hins vegar er í sambandi við vanskil þeirra ríkisábyrgða lögð sérstök áherzla á að reyna að fá viðbótartryggingar til þess að koma í veg fyrir, að þar verði um beint tap að ræða á fjármunum ríkisins. En einmitt þessi atvik og ýmis önnur, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. minntist á, tel ég, að sé gott að sé drepið á og vakin athygli á, vegna þess að það gerir mönnum ljóst, að það er nauðsynlegt að hafa mikið aðhald og gæzlu á í sambandi við veitingu ríkisábyrgða, því að þar beinlínis getur verið um að ræða að ráðstafa stórum fjárhæðum af almannafé. Og ég minnist þess nú, að þegar voru sett lög um ríkisábyrgðasjóð, kom fram æðimikil gagnrýni, jafnvel frá hv. 1. þm. Norðurl. e., um það, að með þeim aðgerðum væri verið að setja allt of strangar hömlur varðandi veitingu ríkisábyrgða. Þessar hömlur hafa hins vegar leitt til þess, að síðan tekin var upp sú meginregla um veitingu ríkisábyrgða, sem lög um ríkisábyrgðasjóð gera ráð fyrir, hafa ekki komið til nokkur teljandi vanskil varðandi þær ríkisábyrgðir, sem síðar hafa verið veittar. Það, sem hér er um að ræða, eru eingöngu ábyrgðir, sem veittar hafa verið, áður en lög um ríkisábyrgðasjóð tóku gildi. En það er full ástæða til þess að vænta, að eftir því sem árin líða muni útgjöld ríkissjóðs vegna vanskila ríkisábyrgða fara verulega minnkandi, og veit ég, að hv. 1. þm. Norðurl. e. er mér sammála um, að það sé vel, ef svo fer.