05.04.1966
Efri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Framlagning þessa frv., svo og þau stórskeyti, sem hæstv. viðskmrh. hafði hér á lofti rétt áðan, gefa mér tilefni til þess að segja fáein orð. Ég mun í fyrsta lagi segja fáein orð um gerðardóma í milliríkjadeilum almennt. Í annan stað mun ég víkja að þeim gerðardómssamningi, sem felst í þessum milliríkjasamningi, sem hér liggur fyrir til samþykktar. Ég mun í því sambandi leitast við að sýna fram á, að þessi samningur er að því er Ísland varðar gersamlega þarflaus, en að hinu leytinu tiltölulega skaðlítill, kannske skaðlaus. Ég mun enn fremur leitast við að sýna fram á, að þessi samningur verður á engan hátt notaður sem rökstuðningur eða til réttlætingar á því ákvæði í hinum fyrirhuguðu álsamningum við svissneska alúminíumfélagið, sem um hefur verið deilt, þ.e.a.s. gerðardómsákvæði 47. gr. í þeim samningi. Og ég mun náttúrlega í því sambandi víkja lítillega að þeim einkennilegu röksemdum, sem hæstv. viðskmrh. hafði uppi í því sambandi varðandi olíusamninga við Rússland.

Gerðardómar í milliríkjadeilum eru gamalþekkt úrræði til þess að leysa úr deilum með friðsamlegum hætti. Það má jafnvel rekja þá allar götur aftur til borgríkjanna á Grikklandi. Það kvað að vísu lítið að þeim um langt skeið, en þeir komu aftur í notkun að verulegu ráði fyrir aldamótin 1800 og hafa siðan meira eða minna verið notaðir til þess að leysa ýmiss konar milliríkjadeilur með friðsamlegum hætti. Þessir gerðardómar voru þó á þeim tíma þannig, að það var samið um hverja deilu, þegar hún hafði komið upp, og það var samið um sérstakan gerðardóm í það og það skiptið. Það var m.ö.o. ekki til á þeirri tíð neinn fastur gerðardómur, sem hægt væri að grípa til og vísa milliríkjadeilum til. En á þessu varð breyting árið 1899. Það var á fjölþjóðlegri ráðstefnu, sem haldin var í Haag, gerð samþykkt um að setja á fót fastan milliríkjagerðardóm. Sú samþykkt var svo endurskoðuð á ráðstefnu, sem síðar var haldin í Haag, eða árið 1907, og þá gerðust fleiri ríki aðilar að þessum fasta milliríkjagerðardómi. En þó að það sé þar talað um fastan milliríkjagerðardóm, er það í raun og veru svo, að það er ekki um fastan dómstól að ræða, heldur var fyrirkomulagið það, að aðildarríkin að þessari samþykkt bentu á ákveðna tölu manna, sem þau töldu hæfa til þess að taka sæti í gerðardómi, og síðan voru nöfn þessara manna sett á skrá, og þau voru þá til taks, þegar ríki komu sér saman um að leggja mál fyrir gerðardóm, og í raun og veru fólst ekki í þessu annað og meira en það. Að vísu voru svo líka í þessari samþykkt um hinn fasta milliríkjagerðardóm í Haag sett ákvæði um málsmeðferð fyrir gerðardómi sem átti að koma til greina í hvert eitt skipti. ef ekki væri þá öðruvísi um samið, og að því var auðvitað mikið hagræði. En aðalreglan var eftir sem áður sú, að sérstakur samningur var gerður um það í hvert og eitt einstakt skipti, sem leitað skyldi til gerðardómsins. En þó þekktist það líka, að ríki gerðu með sér samninga um það að vísa málefnum á tilteknum sviðum til gerðardóms með ýmsum takmörkunum, þannig að það voru bæði til sérstakir gerðardómssamningar og svo almennir gerðardómssamningar.

Þetta skipulag, sem sett var þarna upp fyrst 1899 og endurskoðað 1907, hefur haldizt allar götur síðan, og það hefur mörgum málum verið visað til þessa fasta milliríkjagerðardóms, og það hafa ýmis mál verið leyst fyrir hans tilstilli. Auðvitað eru það aðeins ríki, sem hafa verið og geta verið aðilar að þeim fasta milliríkjagerðardómi. Og Ísland er m. a., að vísu kannske með vafasamri heimild, talið aðili að þessum fasta milliríkjagerðardómi frá 1907, og í þá samninga, sem utanrrn, hefur birt og taldir eru gildandi fyrir Ísland, er sá samningur eða sú samþykkt tekin, þannig að Ísland hefur verið aðili að slíkum gerðardómi og getur leitað til hans, ef samningar takast um það við önnur ríki eftir atvikum. Ísland hefur líka gert nokkuð almenna gerðardómssamninga við önnur ríki, þ. á m. hefur það gert gerðardómssamninga við hvert Norðurlandanna um sig. Þeir gerðardómssamningar eru frá árinu 1930, og þar er einmitt gert ráð fyrir því, að þeim deilumálum, sem þar er um að tefla, verði vísað til þessa fasta milliríkjagerðardóms í Haag, sem ég áðan var um að tala. Það er þess vegna auðvitað svo, að Ísland hefur tekið þátt í því að gera samninga við önnur ríki um gerðardóma. Mér er hins vegar ekki kunnugt, að nokkru sinni hafi á það reynt, að Ísland þyrfti að sækja mál fyrir slíkum gerðardómi eða það hafi sótt mál fyrir þvílíkum gerðardómi. En það hefur samið um það.

Ég minni aðeins á þessi almennu atriði um gerðardóma almennt til þess að undirstrika, að það er auðvitað síður en svo, að það sé nokkuð út af fyrir sig að athuga við það, að ákvæði um gerðardóma séu í venjulegum milliríkjasamningum, í samningum, sem eru gerðir á milli ríkisstj. Slík ákvæði eru alltíð, og það er sízt af öllu ástæða fyrir Ísland að vera sérstaklega að amast við þvílíkum samningsákvæðum, því að þau miða að því eða geta miðað að því að leysa ýmsar milliríkjadeilur með friðsamlegum hætti. Ég hef talið sérstaka ástæðu til þess að leggja á þetta áherzlu, vegna þess að sú gagnrýni á ákvæðin í hinum fyrirhuguðu álsamningum, á gerðardómsákvæðin þar, má ekki með neinu móti túlka á þá lund, að ég sé almennt andvígur gerðardómum í milliríkjadeilum. Þetta tók ég algerlega skýrt fram í þeirri einu ræðu, sem ég hef flutt um eða komið inn á fyrirhugaða álsamninga, þeirri ræðu, sem ég flutti í sambandi við vantraustsumr. á ríkisstj., þannig að það er hverjum þeim manni, sem læs er, mjög auðvelt að ganga úr skugga um það, að ég hef í því, sem ég hef sagt um þetta mál, greint algerlega glöggt á milli þess, hvort um væri að ræða milliríkjasamninga og gerðardómsákvæði í milliríkjasamningum eða svo aftur í samningum, sem eru þess háttar eins og fyrirhugaðir álbræðslusamningar. En þrátt fyrir það, þó að þetta kæmi skýrt fram í ræðu minni þá og hafi komið skýrt fram, er hún var prentuð, hefur nokkuð borið á því, að formælendur fyrirhugaðra álsamninga hafi ekki gert þennan greinarmun og vilja tala um gerðardómssamninga almennt og í einu lagi og gefa þá þar með óbeint í skyn, að ég hafi verið að gagnrýna gerðardómssamninga almennt. En því fer fjarri, og ég vil enn og aftur undirstrika það, að það er á því reginmunur, hvort um er að tefla gerðardómsákvæði í venjulegum milliríkjasamningum eða í samningum eins ríkis aftur við útlent einkafyrirtæki og þá með þeim hætti, sem í álsamningnum greinir. Ég held, að þetta sé sæmilega skýrt, að gagnrýni mín hefur ekki á nokkurn hátt beinzt að því og ég hef talið það út af fyrir sig eðlilegt, að slík ákvæði væru í milliríkjasamningum.

Ég veit nú ekki, hvort það verður hér eftir fremur í umr. um þessi mál tekið tillit til þess, sem ég hef hér sagt um þetta, og gerður á því greinarmunur eða hvort áróðurspostular stjórnarflokkanna blanda þessu saman eftir sem áður og reyna þá að gera mál mitt frekar tortryggilegt með þeim hætti, og við því er náttúrlega ekkert að gera. Það verður hver að haga sínum málflutningi eins og bezt á við lund hvers og eins og hann telur þjóna sínum málstað bezt. En sannleikurinn er nú sá, að málflutningsmenn þurfa sjaldan að grípa til slíks, nema málstaðurinn sé veikur.

Ég læt þetta nægja um gerðardómssamninga almennt, — gerðardómssamninga, sem samið er um í venjulegum milliríkjasamningum. Ég mun þá aðeins víkja örfáum orðum að þessum samningi, sem þetta frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um. Og fyrsta spurningin, sem þar rís, er sú: Um hvað er þessi samningur, og á milli hverra er þessi samningur? Því er fljótsvarað, eins og reyndar kom fram, a.m.k. óbeint, í ræðu hæstv. ráðh., að þessi samningur er milliríkjasamningur. Sá samningur, sem hér er um að tefla, er milliríkjasamningur. Hann er gerður milli ríkisstjórna. Það er ekki verið að gera neinn samning hér við neitt einstakt einkafyrirtæki. Það er verið að gera samning hér á milli ríkisstjórna. Samningurinn er að vísu gerður fyrir frumkvæði Alþjóðabankans, en þessi samningur er milliríkjasamningur með venjulegum hætti. (Gripið fram í) Já, nema bara hvað ég legg það ekki í vana minn að vera með algerri þarfleysu, og ég ætla að koma að því síðar og sýna fram á það, að þetta sé algerlega óþarft tildur, sem ekki geti haft neitt annað í för með sér en kostnað fyrir ríkissjóð og 1—2 sendiferðir á ári fyrir gæðinga ríkisstj. á ríkisins kostnað. En um hvað er þá þessi samningur, sem er á milli ríkisstj.? Hann er um það að setja á stofn sáttanefnd og gerðardóm og þó eiginlega ekki einu sinni um það, heldur er hann í raun og veru um nákvæmlega það sama á sínu sviði og gerðardómssamþykktin frá 1907: Hann er um það, að hvert aðildarríkjanna tilnefni af sinni hálfu ákveðna tölu hæfra manna til þess að taka sæti í sáttanefnd eða gerðarstofnun, ef til hennar og þegar til hennar þarf að gripa. Og við athugun á þessum samningi verður það ljóst, að ákvæði Haag-samþykktarinnar frá 1907 eru að mörgu leyti höfð til fyrirmyndar. En samningur þessi er í raun og veru ekki um annað en að setja á skrá slíka hæfa menn, sem aðilar geti gripið til og kvatt í gerð eða sáttanefnd, ef þeir koma sér saman um þá málsmeðferð í einhverju ákveðnu tilfelli. Þessi samningur út af fyrir sig felur ekki í sér neina skuldbindingu til að leggja eitt einasta mál í gerð eða til sátta á vegum þessara stofnana, sem settar eru upp með honum. Það er ljóst af ákvæðum samningsins og kemur enda skýrt fram í þeirri stuttu grg., sem þessu frv. fylgir, og reyndar var það viðurkennt af hæstv. viðskmrh., að svo væri, að þessi samningur væri algerlega óskuldbindandi.

Ég mundi nú kjósa, að hæstv. viðskmrh. væri við. (Forseti: Hæstv. ráðh. var búinn að ákveða að fara á áríðandi fund núna kl. 3, sem gert var ráð fyrir að yrði a.m.k. hálftíma, hvort hv. þm. vill fresta ræðu sinni á meðan, þangað til hann kæmi aftur?) Ég sé nú ekki ástæðu til þess, en hitt verð ég að segja, að þetta er náttúrlega í hæsta máta óviðeigandi framkoma hjá hæstv. viðskmrh. En það verður hver að haga sínum gerðum eins og hann álitur sæmilegast í því efni, og ég mun þá halda mínu máli hér áfram, en að sjálfsögðu ræða málið eins og hann væri hér viðstaddur, og hann um það, hvort hann svarar eða svarar ekki. Ég hafði hugsað mér að bera fram nokkrar fsp. til hans. Ég veit ekki, hvort hér er einhver ráðh., sem er viðbúinn að svara þeim fsp. En ég mun bera þær fram.

Ég sagði, að þessi samningur, sem hér liggur fyrir, fæli ekki í sér neina skuldbindingu til þess að leggja eitt einasta mál í gerð. Það verður ljóst, ef athugað er niðurlag þeirrar stuttu grg., sem hér fylgir með. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með aðild að samningnum felst ekki skuldbinding um að skjóta þangað deilumálum, heldur opnast einungis leið fyrir Ísland með aðild að samningnum að notfæra sér það fyrirkomulag, sem samningurinn gerir ráð fyrir.“

Í niðurlagi inngangsins að samningnum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samningsríkin lýsa því yfir, að ekkert samningsríki skuli einungis sökum þess, að það hafi fullgilt, viðurkennt eða staðfest þennan samning, og án samþykkis teljast vera skuldbundið til þess að leggja nokkurt sérstakt deilumál í sátt eða gerð.“

Það er naumast hægt að segja það skýrar en þarna er sagt, að þessi samningur út af fyrir sig feli ekki í sér neina skuldbindingu fyrir aðila, sem að honum standa, til þess að leggja í sátt eða gerð með þeim hætti, sem þar er ráð fyrir gert, eitt einasta mál. Og svo til enn frekari áherzlu vildi ég leyfa mér að benda á 1. líð 25. gr. í þessum samningi. Þar segir: „Lögsaga stofnunarinnar tekur til sérhverrar lagalegrar deilu, sem upp kemur í beinu sambandi við fjárfestingu milli aðildarríkja eða einhvers stjórnlagalegs hluta“ — hvað sem með því er nú meint — „eða stofnunar aðildarríkis, sem það kann að tilnefna af sinni hálfu gagnvart stofnuninni, og þegna annars aðildarríkis, sem deiluaðilar samþykkja skriflega, að vísað sé til stofnunarinnar.“

M.ö.o.: það liggur alveg ljóst fyrir af þessum ákvæðum, sem ég hef vitnað til, að samningurinn sem slíkur felur ekki í sér skyldu til þess að leggja neitt ágreiningsmál til gerðardómsins, heldur þarf samning um það í hvert einstakt skipti, sem deilu á að visa til gerðardómsins. Og það verður enn ljósara, ef litið er á 4. lið 25. gr., en þar segir:

„Sérhvert samningsríki getur, þegar það fullgildir, samþykkir eða staðfestir þennan samning eða einhvern tíma síðar, tilkynnt stofnuninni um þá tegund eða tegundir deilumála, sem hið sama ríki teldi, að kæmu til álita, að lögð væru undir lögsögu stofnunarinnar.“

Það er m.ö.o. þarna gert ráð fyrir því, að ríkið geti fyrir fram tilkynnt það, hvaða mál eða tegundir mála það séu, sem geti komið til álita, að sérstakur samningur verði gerður um á sínum tíma, ef deila kynni að koma upp í sambandi við það.

Það þarf, eins og ljóst er af þessum ákvæðum, skriflegt samkomulag hverju sinni um deilu, sem risin er, til þess að það sátta- eða gerðardómsfyrirkomulag, sem hér er um að tefla, verði notað. Þess vegna er það raunverulega svo, að þó að Ísland fullgildi þennan samning, þá felur sú fullgilding ekki í sér aðra skuldbindingu fyrir Ísland út af fyrir sig heldur en þá að taka að sinum hluta þátt í greiðslu kostnaðar við þetta fyrirkomulag. Fullgilding á þessum samningi felur ein út af fyrir sig ekki í sér skyldu til þess fyrir Ísland að leggja nokkurt deilumál í gerð.

Af því, sem ég hef rakið um þessa samninga, er alveg ljóst, að þó að Ísland fullgildi þennan samning, verður gerðardómsákvæðið í hinum fyrirhuguðu álsamningum hvorki betra né verra fyrir það. Það breytir út af fyrir sig engu til né frá um það ákvæði. Það er ekkert slíkt samband eða samræmi á milli þessara tveggja samninga, eins og hæstv. viðskmrh. var nú öðru hverju að gefa í skyn, enda er þessi samningur, milliríkjasamningur, gerður, eins og hann gerði grein fyrir, alveg óháð þessum álsamningum, sem til stendur að gera milli Íslands og hins svissneska alúminíumfélags, og kom það glöggt fram af því, sem hæstv. ráðh. sagði um sögulegan aðdraganda að setningu þessa samnings.

Þessi samningur verður ekki á neinn hátt borinn saman við gerðardómsákvæðið í fyrirhuguðum álsamningum. Hér er, eins og ég hef þegar margtekið fram og allir hv. þdm. geta gengið úr skugga um, um að tefla milliríkjasamning, en álsamningurinn er samningur á milli ríkisstj. annars vegar og á milli erlends einkafyrirtækis, hlutafélags, hins vegar, og svo samningur ríkisins við fyrirtæki, sem skrásett er hér á landi og talið íslenzkt fyrirtæki og skipað að meiri hluta til íslenzkum ríkisborgurum í stjórn, þannig að hér er ólíku saman að jafna að því leyti til, að aðilarnir að þessum samningum eru allt aðrir. En auk þess er svo efni samningsins allt annað, eins og hver maður sér. Eins og ég hef sýnt hér fram á alveg óvefengjanlega, þá felst ekki í þessum samningi nein skuldbinding um að leggja neitt mál í gerð. En í gerðardómsákvæði í 47. gr. álsamninganna er fyrir fram bindandi og endanlega um það samið, að þar tilgreind ágreiningsmál, — og þó auðvitað mjög teygjanleg ágreiningsmál. — skuli útkljáð með gerð, þau deilumál, sem þar er um að tefla milli Íslands annars vegar við hið svissneska alúminíumfélag og við dótturfélag þess, sem íslenzkt er kallað. Þess vegna fæ ég ekki með nokkru móti fallizt á þá skoðun, sem kom fram hjá forsrh. í útvarpsumr. um vantraust nýlega, þar sem hann sagði, með leyfi hæstv. forseta: „Gerðardómsákvæðin eru í samræmi við alþjóðlegan samning, sem 33 ríki, þ. á m. öll Norðurlöndin, hafa undirritað. Réttarríki er engin minnkun að því að taka þátt í slíkum samningum. Það hefur ekkert að óttast. Enda er hér berum orðum tekið fram, að dæma skal eftir íslenzkum lögum.“

Hvernig er nú hægt að segja annað eins og þetta, eftir að menn hafa kynnt sér þann samning, sem hér hefur verið lagður fram og fylgir þessu lagafrv., og séð ákvæðin, sem eru í 47. gr. álsamninganna? Annars vegar er sem sagt hreinn milliríkjasamningur, eins og hér er, og hins vegar samningur á milli ríkis og einkafyrirtækis. Annars vegar er samningur, sem felur ekki í sér neina skuldbindingu, eins og þessi hér, og hins vegar er samningur, sem felur í sér endanlega og alveg óafturtæka skuldbindingu um það að leggja ágreiningsmál á tilteknu sviði í gerð. Það er náttúrlega alveg furðulegt, að hæstv. forsrh. skuli láta slík ummæli frá sér fara, að segja, að þessi gerðardómsákvæði 47. gr. séu í samræmi við þennan samning. Ég verð að segja það eins og er, að mér sýnist það hrein fjarstæða. Ég vil hins vegar ekki væna hæstv. forsrh. um það, að hann hafi vitandi vits farið með villandi upplýsingar í sinni ræðu, að því er þetta varðar, heldur vildi ég mega líta svo á, að hann hefði haft þessi orð um hönd, án þess að hafa aðstöðu þá í svipinn til þess að kynna sér nægilega þá tvo samninga, sem hér er um að tefla, og má þá segja, að það sé kannske að nokkru leyti afsakanlegt. Hins vegar verða þær afsakanir ekki með neinu móti bornar fram til réttlætingar á ummælum hæstv. viðskmrh., sem hann hafði hér áðan, því að það var sannarlega enginn tímastíll. sem hann fór með hér áðan, heldur var það heimaritgerð í bezta lagi, og hann hefði haft nægan tíma til þess að ganga úr skugga um, hvað rétt væri í þessu efni, áður en hann fór með þá staðlausu stafi, sem hann leyfði sér að fara með í því sambandi. Og sama má raunar segja um leiðarahöfund Vísis, sem á sínum tíma tók upp ummæli forsrh. að þessu leyti alveg hrá og birti þau og lagði svo út af þeim með viðeigandi hætti. Hann hefði vissulega átt að vita betur, vegna þess að hann hafði tóm til þess að kanna málið. Nú, en það var einu sinni sagt, að skáld þyrftu að skrifa til að lífa, og sjálfsagt þurfa þau að gera það enn og það sem verra er, að jafnvel doktorar í lögum þurfa að skrifa til að lifa, og þess vegna verður maður að taka því með skilningi, þó að sitt hvað hrjóti úr þeirra penna að óathuguðu máli.

Ég get þess vegna ekki séð, að í þessum ummælum forsrh., sem ég hef hér vitnað til, geti falizt nokkur rök fyrir gerðardómsákvæði álsamningsins, og ég get ekki séð, að í þessum samningi út af fyrir sig felist nein rök fyrir gerðardómsákvæði áisamningsins. Hitt er allt annað mál, sem forsrh. benti á líka og gætu út af fyrir sig verið rök fyrir því gerðardómsákvæði og gætu komið til skoðunar, sem sé þau, að hinn svissneski viðsemjandi tæki á sig svo mikla ábyrgð, fjárhagslegar skuldbindingar og þar með ábyrgð á sínu dótturfélagi, og af þeim sökum yrði að teljast eðlilegt, að hann hefði gert kröfu um það, að ágreiningsmál, sem að því lytu, væru sett undir alþjóðlegan gerðardóm. Þetta eru, eins og ég sagði, rök, sem út af fyrir sig gætu komið til skoðunar, og er ég þó ekki með því að fallast á þau á neinn hátt. En sá er bara galli á þessum rökstuðningi, að aðalforstjóri hins svissneska álfélags hefur ekki fært þessi rök fram, þegar hann hefur verið að rökstyðja, að það væri samið í þessum álsamningum um þann sérstaka gerðardóm, sem þar segir. Hann sagði, að krafan um þetta, um slíka málsmeðferð, hefði verið gerð vegna þess, að hér á landi hefðu ekki áður komið fyrir nein þvílík mál af því tagi, þess vegna skorti íslenzka dómstóla reynslu í þessum efnum. Þetta voru hans orð, eftir því sem þau voru flutt í ríkisútvarpinu í fregnum af þeim blaðamannafundi, sem fram fór. En hæstv. viðskmrh. vitnaði ekki til þeirra orða hér áðan, heldur var hann enn að tala um þessa ábyrgð og þótti nauðsynlegt að hafa slíkt ákvæði, vegna þess að Svisslendingarnir bæru ábyrgð á fjárskuldbindingum fyrirtækisins, íslenzka álfélagsins. Það hefði nú ekki aldeilis þurft að semja um slíkt í Noregi. Þar hefðu þeir ekki þurft að bera ábyrgð og taka á sig ábyrgð, Svisslendingarnir. Þeir ábyrgðust bara með hlutabréfunum, engu öðru. En slík ábyrgð hefði nú líklega verið nokkuð ónóg hér á landi, að manni skildist.

Ég verð að segja um þennan málflutning, að það hefði ekki sakað, þó að svo sem einn tími f viðbót í heimahúsum hefði farið í það að undirbúa fyrirlesturinn áðan, því að ég hélt satt að segja, að hlutafélög bæru ábyrgð á sinum skuldbindingum með öllum sínum eignum, og ég hefði haldið, að það væru ekki svo litlar eignir, sem þessi álbræðsla, það hlutafélag, hið íslenzka álfélag, sem svo er kallað, á hér á landi, og það mega verða meiri ábyrgðirnar og áföllin, sem falla á hið svissneska álfélag, ef eignir þess hér á landi, eignir sem sagt Íslenzka álfélagsins, hrökkva ekki til að mæta þeim. En skv. íslenzkum lögum er það nú svo, að þær eignir standa allar til ábyrgðar á skuldbindingum þess hlutafélags.

Hæstv. forsrh. gat þess í útvarpsræðu sinni sem rökstuðnings fyrir gerðardómsákvæðinu í álsamningunum, að þau væru í samræmi við alþjóðlegan samning, þennan samning, sem hér er um að tefla, en ég hef nú sýnt fram á, að svo er náttúrlega alls ekki, en hann heldur áfram til þess að fylgja eftir rökstuðningnum og herða enn betur á: sem 33 ríki, þ. á m. öll Norðurlöndin, hafa undirritað. Þetta ætti nú að duga. Að vísu verður að geta þess um leið, sem ég fer þó hjá í þessum efnum, að það er ekki alls kostar fullkomið samræmi á milli þess, sem segir um þetta efni, undirritun þessa samnings, í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og svo í grg. með álsamningnum, og í ræðu hæstv. forsrh. Í grg. með þessu frv., sem hér liggur fyrir, segir að 35 ríki hafi undirritað hann. Meðal ríkja þeirra, sem undirritað hafa, eru Danmörk, Svíþjóð, Ítalía, Þýzkaland, Bretland og Bandaríkin. Þarna er hvorki nefndur Noregur né Finniand, en forsrh. segir, að öll Norðurlöndin hafi undirritað, og í grg, með álsamningnum er það líka fullyrt, að öll Norðurlöndin hafi undirritað þennan samning. Á einum staðnum segir, að 35 ríki hafi undirritað, á hinum staðnum segir, að 33 ríki hafi undirritað. Og nú er bagalegt, að enginn ráðherra skuli vera hér við til þess að geta upplýst, hvað rétt er í þessu efni. Þetta var nú einmitt eitt af þeim atriðum, sem ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðh. um, til þess að fá samræmi í þetta, því að þetta á hann nefnilega að vita, af því að það er hægt að vita þetta með auðveldum hætti. Alþjóðabankinn á sem sé að senda tilkynningu til hvers ríkis, um leið og undirskrift einhvers annars ríkis fer fram, þannig að það hljóta að liggja fyrir um það nákvæmar upplýsingar hér í einhverju ráðuneyti og þá væntanlega viðskiptamálaráðuneytinu, því að Alþjóðabankinn heyrir undir viðskmrh., þannig að það ætti að vera hægt að fá þetta upplýst.

Þetta vil ég í fyrsta lagi spyrja ráðh. um, hvað er hið sanna í þessu efni, hvað er rétt, hvort eru það 35 ríki, sem eru búin að undirrita, — eða eru það 33, og eru Norðurlöndin öll búin að undirrita eða eru bara Danmörk og Svíþjóð búin að undirrita?

En hér hafa brugðizt krosstré sem önnur tré, því að það er ekki einu sinni sá óþreytti sjútvmrh. hér viðstaddur í deildinni. En það er ekki þar fyrir, þetta skiptir ekki nokkru máli, hverjir hafa undirritað þennan samning, og það er það versta í ummælum ráðh. að vera að flagga með það, að svona og svona mörg ríki hafi undirritað samninginn, og reyna með því að læða því inn hjá almenningi, að svona og svona mörg ríki séu að gera þessa samninga. Það er nefnilega alls ekki svo. Það veit hver einasti laganemi, sem opnað hefur nokkra bók í þjóðarétti, að það er greint á milli, þegar um milliríkjasamninga er að tefla, undirritunar samninga og fullgildingar samninga, og það veit það hver maður, sem einhverja nasasjón hefur af þjóðarétti, að undirritun eins ríkis undir milliríkjasamning hefur yfirleitt enga lagalega skuldbindingu. Yfirleitt eru milliríkjasamningar gerðir með þeim fyrirvara, sem tekinn er fram berum orðum í þeim, að þeir öðlist ekki gildi, fyrr en þeir hafa verið fullgiltir með þeim hætti, sem stjórnskipunarlög hvers ríkis segja til um, og ekki fyrr en ákveðin tala ríkjanna hefur fullgilt þá. Og það er jafnvel talið, að þó að slíkur fyrirvari sé ekki gerður berum orðum, þá séu milliríkjasamningar yfirleitt gerðir með þeim fyrirvara, að undirskriftin ein út af fyrir sig sé ekki skuldbindandi. Það er algild regla, að milliríkjasamningar eru t.d. undirritaðir á ráðstefnum, sem gengið hafa frá uppkasti um þá, að þeir eru undirskrifaðir þar, en þeir taka ekki gildi þá um leið, heldur taka þeir ekki gildi, fyrr en þeir hafa verið fullgiltir af ákveðinni tölu ríkja. Þetta veit hver maður. En svo leyfa þessir hv. herrar sér að vera að tala um það, að svona og svona mörg ríki hafi undirritað samningana, enda þótt þar með sé ekkert um það sagt, hvort þau muni nokkru sinni fullgilda samningana eða ekki. Það er svo algengt, að tala þeirra milliríkjasamninga er legio, sem hefur verið ritað undir á ráðstefnum eða utan ráðstefna, án þess að þeir hafi nokkru sinni verið fullgiltir. Það er fjöldi af milliríkjasamningum, sem hafa verið gerðir, sem ég gæti talið upp hér jafnvel óviðbúinn, sem hefur verið samþykktur og undirritaður, en aldrei öðlazt gildi, af því að aldrei hefur nægileg tala ríkja fullgilt samningana. En svo er verið að reyna að láta það lita svo út, að þessi samningur sé eitthvað þýðingarmikill og hafi fengið eitthvað mikið gildi, af því að 33 eða 35 ríki, — nú er hæstv. viðskmrh. kominn, og nú getur hann upplýst það, hvað er hið rétta í því efni, hvort 35 ríki hafa undirritað eða 33. Upplýsingarnar eiga að liggja í viðskiptamálaráðuneytinu og hann á að geta séð það þar, hvort Norðurlöndin öll hafa undirritað eða bara Noregur og Svíþjóð. Á öðrum hvorum staðnum er sagt hér vitlaust frá og rangt farið með, því að þessum plöggum, sem hér hafa verið lögð fram, ber ekki saman, og það er anzi leiðinlegt, að gögnum, sem lögð eru fram samtímis í þinginu, skuli ekki bera saman um svona einfalt atriði eins og þetta, enda þótt það sé ákaflega veigalitið, eins og ég hef sýnt fram á. Það skiptir sem sagt engu máli, hve mörg ríki hafa ritað undir þessa samninga. Það eina, sem máli skiptir, er það, hve mörg ríki hafa fullgilt þessa samninga.

Ríki, sem undirritað hefur slíkan samning, þarf ekki frekar að hugsa um það, það er algjörlega óskuldbundið við að fullgilda þann samning. Það þarf ekki að færa nokkra ástæðu fram fyrir þeirri undanfærslu sinni seinna að fullgilda samninginn. Það er alveg sjáifrátt um það. Þó að Danmörk og Svíþjóð, kannske Noregur, kannske Finnland, — ég veit ekki, hvað er rétt í þessu, — hafi undirritað samninginn, þá felst ekki í því nein skuldbinding af þeirra hálfu um það, að þau muni nokkru sinni fullgilda þennan samning, og það er engin vissa um það, og það veit enginn um það, hvort þau muni nokkru sinni fullgilda þennan samning, og hæstv. viðskmrh. veit náttúrlega ekkert um það frekar en ég, hvort þau muni nokkru sinni fullgilda þennan samning.

En hvers vegna er verið að tala um þetta, að það séu svo eða svo mörg ríki búin að undirskrifa? Satt að segja ofbýður mér ekki þessi tala þeirra ríkja, sem búin eru að undirskrifa, –ég veit ekki alveg nákvæmlega, hve mörg aðildarríki eru að Alþjóðabankanum, en það veit hæstv. viðskmrh. alveg upp á sina tíu fingur og getur upplýst það hér á eftir, en ég hygg, að þau séu talsvert fleiri en 33 eða 35, þannig á jafnvel álitlegur hluti af ríkjunum, sem eru aðilar að Alþjóðabankanum, eftir að undirrita. En höfuðspurningin er þessi: Hvað mörg ríki eru búin að fullgilda þennan samning? Hvers vegna er það ekki sagt? Vill ekki hæstv. viðskmrh. upplýsa það hér á eftir, og vill hann ekki upplýsa, hver þau ríki eru? Ég hef það fyrir satt, að það séu aðeins 4 ríki, — aðeins 4 ríki búin að fullgilda þennan samning, og það séu af eðlilegum ástæðum ríki í Afríku, sem hafa mikla þörf fyrir erlent fjármagn og sækjast af eðlilegum ástæðum eftir erlendu fjármagni, en búa við réttarfar, sem hefur ekki langa reynslu að baki og er kannske ekki öruggt talið, og er það engin ástæða til fyrir okkur að líta smáum augum á þau ríki, en þetta er staðreynd. Hvers vegna er ekki sagt frá því, hve mörg ríki eru búin að fullgilda þennan samning? Ef það eru nú ekki nema 4 búin að fullgilda, þá getur Ísland að vísu kannske orðið fimmta ríkið. Það getur því tekið dálítinn tíma, þangað til þessi samningur öðlast gildi. Það hefur t.d. verið nefndur mannréttindadómstóll í þessu sambandi. Hvað skyldi það hafa tekið langan tíma fyrir Evrópuríkin, sem þekkja hvert annað jafnvel og þau gera og þekkja réttarástandið í hverju ríki fyrir sig jafnvel og þau gera, — hvað skyldi það hafa tekið langan tíma að fá þann samning fullgiltan? Það tók 5 ár, frá því að sá samningur var gerður og þangað til hann gekk í gildi, vegna þess að það skorti á tiltekna tölu um fullgildingu á honum. Það þurftu 8 ríki að fullgilda hann, til þess að hann öðlaðist gildi, og það stóð á því 8., og áttunda ríkið var að vísu Ísland. Hann öðlaðist ekki gildi, fyrr en Ísland fullgilti hann, og það tók 5 ár. Og þegar menn lita til þess, þá gæti ég trúað, að það tæki nokkurn tíma, þangað til 20 ríki verða búin að fullgilda þennan samning, sem hér er um að tefla. Að vísu má segja, að ég geti ekkert fullyrt um það. Það er alveg rétt, ég get ekkert fullyrt um það og það getur náttúrlega hæstv. viðskmrh, ekki heldur. En eitt er víst, að það hlýtur að taka talsverðan tíma, þangað til þetta fyrirkomulag er komið í gagnið, þannig að því verði beitt gagnvart gerðardómsákvæði 47. gr., því að samkv. því ákvæði er það skilyrði, að Sviss sé líka búið að fullgilda þennan samning. En nú stendur þannig á, að Sviss er ekki aðili að Alþjóðabankanum, og þess vegna getur það samkv. ákvæðum í þessum samningi ekki komið til greina með að fullgilda hann, fyrr en 20 ríki eru búin að fullgilda samninginn, þannig að það verður sjálfsagt nokkur dráttur á því, að þessi samningur komi alveg fullkomlega í gildi og verði orðinn bindandi milliríkjasamningur. Það verður því nokkuð seint að ætla að sækja rök til hans fyrir gerðardómsákvæði álsamninganna.

Ég hef hér sýnt fram á það, hversu villandi þær upplýsingar eru, sem farið hefur verið með í sambandi við þetta mál að þessu leyti til, að það hefur alltaf verið talað um undirskriftir og hve mörg ríki hafi undirritað samningana, í stað þess að tala um það, sem rétt er, hve mörg ríki hafa fullgilt samningana. Það er algerlega óljóst, hvenær þessi samningur gengur í gildi. En til þess að undirstrika það, að ég fer hér með rétt mál, vil ég bara benda á 67. gr. samningsins annars vegar, sem fjallar um undirskriftirnar, og 68. gr., sem fjallar um fullgildinguna. Það er auðvitað, eins og sjálfsagt er, í þessum samningi greint algerlega glöggt á milli þessa tvenns, og að því vék að vísu hæstv. viðskmrh. áðan, en hann fór ekki út í það að gera grein fyrir því, hver munur væri á undirskrift milliríkjasamnings og fullgildingu hans, en það hef ég hér gert, og ég vona, að þeir tali nú meir um fullgildinguna hér eftir heldur en undirskriftina og tali þá jafnan, þegar þeir benda til þessa samnings sem rökstuðnings fyrir ákvæðinu í álsamningnum, um það, hvaða ríki það eru, sem búin eru að fullgilda samninginn.

Ég hef með þessu sýnt fram á, að það er ekki hægt að sækja rök í þennan samning fyrir gerðardómsákvæði í álbræðslusamningunum og að yfirleitt er ekkert samband á milli þessa tvenns, svo að út af fyrir sig mætti ósköp vel samþykkja og fullgilda þennan samning, sem hér liggur fyrir. Hann mundi engu breyta um álbræðslusamningsákvæðin. En hins vegar vil ég segja það, sem ég sagði í upphafi, að þessi samningur er, að því er Ísland varðar, alveg gersamlega þarflaus. Þessi samningur er um fyrirkomulag til lausnar á fjárfestingardeilum, þ.e.a.s. deilum milli aðila, sem hafa lagt fé í fjárfestingar í öðru ríki. Það á að vera samkv. þessum samningi til staðar sáttastofnun og gerðarstofnun, þegar og ef aðilar að slíkum deilumálum semja svo um sín á milli, að þeir skuli leggja málin til sátta eða gerðar hjá þessari alþjóðlegu stofnun En það er ekki nein þörf á því fyrir Ísland að gerast aðili að slíku, og það er af því, að Íslendingar hafa ekki lagt fé í fyrirtæki erlendis. Það eru engar ástæður til þess að ætla það, að þeir muni leggja fé í fyrirtæki erlendis. Út frá því sjónarmiði er Íslandi þess vegna engin þörf á ákvæði sem þessu. Og að því er varðar hina hliðina, að útlendingar kynnu að leggja fé í framkvæmdir hér á landi, er heldur engin þörf á slíkum ákvæðum að því er Ísland varðar. Og það er af því, að það er viðurkennd regla í íslenzkum lögum, að útlendingar, þ.e.a.s. aðrir en íslenzkir ríkisborgarar, njóta alveg fullkominnar eignarréttarverndar hér á landi. 67. gr. stjórnarskrárinnar um eignarréttinn verndar eignir útlendinga alveg með sama hætti og eignir Íslendinga. Hver sá útlendingur, sem hér kynni að vilja fjárfesta, þarf þess vegna engum ótta að vera sleginn um það, að það fé verði af honum tekið, án þess að hann fái fullar bætur þar fyrir. Það segir okkar stjórnarskrá, að hann skuli fá. Hitt er allt annað mál, að löggjöfin getur á ýmsum tíma greitt með misjöfnum hætti fyrir því, að útlendingar leggi fé sitt í framkvæmdir hér á landi. En hafi þeir gert það og gert það með þeim skilyrðum, sem löggjöfin setur á hverjum tíma, njóta þeir alveg fullrar verndar fyrir þær eignir, og er fyllilega óhætt að treysta íslenzkum dómstólum í því efni.

Það er rétt, að viðhorf löggjafans til æskileika á fjárfestingu útlendra aðila getur verið mismunandi. Það er langt síðan það kom fram hér á Alþ., að meiningar manna voru deildar um það efni. Það má jafnvel fara aftur til ársins 1891. Þá byrjuðu fyrst deilur um það hér á landi, hvort það væri æskilegt að fá útlendinga með fjármagn hingað til landsins. Þá voru sumir, sem töldu það varhugavert, að útlendingar eignuðust hér fasteignaréttindi, og það yrði að fara varlega í því efni. Aðrir aftur á móti höfðu það viðhorf, að það væri æskilegt að laða að útlent fjármagn hér til hagnýtingar á auðlindum landsins. Það má segja, að íslenzk löggjöf hafi lengi vel farið bil beggja í þessum efnum, vegna þess að t.d. samkv. l. frá 1919 um eignarrétt og afnotarétt fasteigna var ekki miðað við ríkisborgararétt í þessu efni, heldur var miðað við búsetu, þannig að útlendingar, sem hér voru fast búsettir, nutu samkv. þeim lögum sömu aðstöðu til að eiga hér fasteignir eins og íslenzkir menn. Núna aftur á móti er alveg nýlega með nýsamþykktum lögum frá Alþ. búið að breyta um stefnu að verulegu leyti í þessu efni, þannig að það er búið að þrengja möguleika útlendinga til þess að leggja í fjárfestingu og framkvæmdir hér á landi, vegna þess að meginstefna eftir þeim lögum er sú, að það séu Íslendingar einir, sem hafi án leyfis rétt til þess að eiga hér fasteignir og afnotarétt þeirra, og hlutafélög því aðeins, að yfirgnæfandi hluti hlutafjárins sé í eigu Íslendinga, þannig að það eru út af fyrir sig ekki mikil líkindi til þess, — stefna löggjafarinnar er þannig, að það er ekki ýtt undir eða greitt fyrir því, að erlendir ríkisborgarar eignist hér fasteignir. En ef þeir eignast þær og að öðru leyti þær framkvæmdir, sem þeir kynnu að leggja hér í, og það fé, sem þeir kynnu að eiga hér, nýtur á allan hátt sömu verndar og fé innlendra manna. Þess vegna er engin ástæða fyrir útlendinga til neinnar tortryggni í þessum efnum, og þeir hafa enga ástæðu til að vantreysta íslenzkum dómstólum í þeim efnum. Þeir munu njóta alveg fullkominnar verndar eins og innlendir menn.

Því verður ekki neitað, að það er dálitið annað viðhorf í sumum nýjum ríkjum, sem búa við réttarfar, sem er óstöðugt og ekki þrautreynt, eins og er hér á landi. Þá er það skiljanlegt út af fyrir sig, að þeir útlendingar, sem leggja þar í fjárfrekar framkvæmdir, vilji áskilja sérstakt fyrirkomulag til þess að leysa úr deilum, sem varða þá fjárfestingu, og þetta er ákaflega vel þekkt fyrirbæri. Deilur út af slíkum efnum hafa risið á undanförnum árum, mjög oft, a.m.k. á þessari öld og kannske eitthvað lengur aftur. Og við hverja er það, sem þær deilur hafa risið? Þær deilur hafa yfirleitt risið við Afríku- og Asíuríki út af fjárfestingu, sem evrópskir aðilar hafa lagt í í þessum löndum. Það hefur oft komið til árekstra út af þessu. Þetta vandamál hefur oft einmitt komið til umr, á alþjóðlegum ráðstefnum. Þess vegna er það út af fyrir sig ekkert óskiljanlegt, að Alþjóðabankinn skuli hafa beitt sér fyrir slíku fyrirkomulagi sem þessu, sem hægt væri að grípa til, ef deila risi á milli þessara aðila, og þeir gætu þá notazt við. En að því er Ísland varðar, er þörfin engin fyrir þetta fyrirkomulag. Og sá gerðardómur, sem hér er um að tefla og upp er settur og um er fjallað í 1. mgr. 47. gr. álsamninganna, er náttúrlega ekki á nokkurn hátt betri út af fyrir sig heldur en sá gerðardómur, sem fjallað er um í 2. mgr. 47. gr. Það er náttúrlega ómögulegt að halda því fram, að sá gerðardómur, sem skipaður er samkv. þessum samningi og er þannig, að hvor aðilinn tilnefnir sinn aðilann og Alþjóðabankinn tilnefni formann, sé eitthvað betri eða öruggari gerðardómur heldur en hinn, sem tilnefndur er samkv. 2. mgr. 47. gr., þar sem hvor aðilinn tilnefnir sinn aðilann, en forseti Alþjóðadómstólsins tilnefnir oddamanninn. Því fer auðvitað fjarri, að það sé hægt að segja, að þessi SID-gerðardómur sé betri eða tryggi meira réttaröryggi. Ég geri ekki mikinn mun þeirra. Eg mundi þó að öðru jöfnu álita það, að við tilnefningu af hálfu forseta Alþjóðadómstólsins mundi fyrst og fremst höfð í huga lagaþekking og réttaröryggi og hann mundi velja slíkan mann sem oddamann. Þegar aftur á móti forstjóri Alþjóðabankans tilnefnir, gæti verið, að hann hefði hagfræðinga og aðra slíka fyrst og fremst í huga, og það er ekki alveg gefið, að þeir mundu vera eins fastir á svellinu í réttarörygginu og hinir, þannig að það er svo sem, alveg burtséð frá því, hvort þessi álsamningur verður samþ. eða ekki, engin ástæða til þess út af fyrir sig að vera að keppast við það að koma því undir gerðardóm samkv. 1. mgr. 47. gr. Það ætti ekki að ýta neitt á eftir fullgildingu þessa samnings, sem hér liggur fyrir, því að gerðardómssamningur samkv. 2. mgr. er sízt lakari. Annars er ekki svo sem neinn munur á því, það er ekki það atriði, sem ég eða aðrir hafa gagnrýnt, hvernig hinn alþjóðlegi gerðardómur er skipaður. Hann er skipaður á alveg forsvaranlegan hátt, á venjulegan hátt, eins og gerðardómar eru skipaðir. Það er annað, það er þetta að semja svo um, að eitt ríki semji um málefni sín við útlent einkafyrirtæki undir útlendan dóm, alþjóðlegan dóm, skulum við segja. (Gripið fram í.) Ég ætla að koma að olíunni seinna. Hún er ekki gleymd, hún er geymd. En allra helzt þó það, sem ég fyrir mitt leyti hef alveg sérstaklega gagnrýnt. Það er það ákvæði, að það skuli vera samið svo um, að ágreiningsmál við hið íslenzka álfélag, sem er skrásett hér á landi sem íslenzkt hlutafélag, sem sagt er í þessum álsamningum, að skuli lúta íslenzkum lögum, sem skipað er að meiri hl. til íslenzkum ríkisborgurum í stjórn, skuli vera tekið undan íslenzkum dómstólum og ríkisstj. skuli semja þannig um bæði viðskipti sín við það álfélag og viðskipti Hafnarfjarðarbæjar við það álfélag um ófyrirsjáanlegan tíma og viðskipti Landsvirkjunar við það. Ef hæstv. ráðh, vill heyra um olíuna, verður hann að bíða. Það er það, sem fyrst og fremst er athugavert við þessa samninga, sem er í 47. gr. Það er það, sem ég hef viðhaft þau orð um, að ég teldi ekki hægt fyrir fullvalda réttarríki að skrifa undir slíkt. Það er auðvitað mitt mat, aðrir geta haft á því annað mat. Það er einnig sjálft orðalagið á 47. gr., þau ósköp, sem eru sett á pappír, sem mér finnst ekki vera hægt að skrifa undir, eins og það, að það skuli tekin þessi gerðardómsmeðferð, ef ekki verður samkomulag um að leggja málin fyrir íslenzka dómstóla. Allt málið hefði náttúrlega haft annan blæ, ef þetta hefði verið orðað á þveröfugan veg, ef það hefði sem sagt verið orðað svo, að málin heyri undir íslenzka dómstóla, nema samkomulag verði um annað hverju sinni. Þá hefði þetta lítið allt öðruvísi út, og satt að segja skil ég ekkert í því, að gengið skuli hafa verið frá samningsákvæði svona.

En eitt var það þó, sem hæstv. viðskmrh. vildi telja þessum SID-gerðardómi til gildis fram yfir gerðardóm samkv. 2. mgr. 47. gr., og það var það, að hann sagði, hæstv. viðskmrh., að þegar Sviss væri búið að fullgilda samninginn og ágreiningsmálið gæti farið fyrir þann gerðardóm, væri úrskurður þess gerðardóms aðfararhæfur í hverju samningslandi fyrir sig. Þetta held ég, að hæstv. viðskmrh. verði að athuga betur. Ég er ekki eins sannfærður um það og hann, að úrskurðir þessa gerðardóms séu aðfararhæfir í hverju samningslandi um sig. Og um þetta segir í grg. með stóra málinu á bls. 96, með leyfi forseta:

„Gerðardómsmeðferð samkv. SID-samþykktinni mun m. a. hafa þann kost umfram önnur úrræði, að úrskurðir gerðardómsins yrðu svo til sjálfkrafa aðfararhæfir í öllum aðildarríkjum samþykktarinnar.“

Ekki er mér vel ljóst, hvernig sá úrskurður er, sem er svo til aðfararhæfur. Það virðist vanta þarna einhvern herzlumun á. Og það verður kannske ljósara, þegar litið er á bls. 97 í þessum aths., því að þar segir efst:

„Með því er að sjálfsögðu ekki átt við það, að úrskurðurinn verði aðfararhæfur í þessum löndum, án þess að fleira þurfi til að koma.“

Ég er nú hræddur um, að hæstv. viðskmrh. þurfi að endurskoða skoðun sína um það, hvort þessi úrskurður er aðfararhæfur eða ekki.

Ég ætla nú að víkja næst nokkrum orðum að ræðu hæstv. viðskmrh, um olíuflutningana, olíuflutningasamningana, en hann er nú farinn einu sinni enn. (Forseti: Hæstv. ráðh, hefur farið í símann, sýnist mér.) Ég get þá á meðan aðeins vikið að því og sagt það, að svona milliríkjasamningar eru, eins og kunnugt er, oft á mjög knúsuðu og erfiðu máli. Það er mikið vandaverk að þýða þá, og þess eru mörg dæmi, að mönnum hafi nokkuð skotizt í því efni. Og til þess að þýða þessa milliríkjasamninga á sæmilegt mál þarf allt í senn, kunnáttu á því erlenda máli, sem þeir eru skráðir á, kunnáttu og smekk á íslenzkt mál og þekkingu á lögum. Því er ekki að neita, að mér sýnast talsverðir agnúar á þýðingu á þessum samningi og það svo í sumum greinum, að það sé varla hægt fyrir Alþ. að láta það frá sér fara í þeirri mynd, sem þeir eru nú. Sumt er það að vísu smekksatriði, og ég skal viðurkenna það, að ég er ekki svo mikill málamaður, að ég geti tekið mér mikið úrskurðarvald í þeim efnum. Þó skal ég aðeins sem dæmi nefna fáein atriði. Ég vil nefna hér á bls. 2., það er kannske smekksatriði, þar sem er ofarlega í fyrra dálki talað um að hafa það hugfast, að öðru hverju geta deilur risið upp í sambandi við þetta. Ég nota nú ekki þetta orð „upp“ þarna, heldur læt ég nægja „að rísa“. Hins vegar heitir það „komið upp“, þannig að það mætti að ófyrirsynju falla niður. Ég bendi t.d. á d-lið á 4. bls., þar sem segir, að það skuli „ganga frá samkomulagi við bankann um afnot af starfsemi hans og þjónustu“. Ég viðurkenni, að hina hliðstæðu enskusetningu er ekki auðvelt að þýða, en heldur finnst mér óeðlilegt að tala um afnot af starfsemi. Það er dálitið annað, sem átt er við. En þetta eru sem sagt aukaatriði og eins t.d. í 18. gr., þar sem talað er um það, að stofnunin skuli „talin fullgildur lögaðili.“ Þetta er smekksatriði, ég mundi nota orðið réttaraðili.

Í 25. gr. er talað um aðildarríki, það er nú allt í lagi, „eða einhvers stjórnlagalegs hluta eða stofnunar aðildarríkis“. Ég held, að það hljóti að þurfa að finna annað orð yfir það, sem kallað er stjórnlagalegur hluti ríkis, en það er skýrt svo, að með því sé t.d. átt við Hafnarfjarðarkaupstað, og á bls. 11 er líka talað um „samþykki stjórnlagalegs hluta“. Í 2. mgr. 42. gr. segir: „Eigi er dómnum heimilt að kveða upp non liquet úrskurð“. Ég er ekki viss um, að menn hér almennt skilji, við hvað er átt með því. Spurning er, hvort ekki er hægt að notast við „frávísunardóm“ yfir þetta. Það er venjulega kallað svo hér. Og svo er það 54. gr., sem ráðh. hefur sennilega stuðzt við, þegar hann áðan var að tala um það, að úrskurðurinn væri aðfararhæfur. Það er að vísu afsakanlegt. Það stendur þarna í íslenzku þýðingunni að „fullnægja með lagaaðför innan landssvæða.“ En ég dreg mjög í efa, að þetta sé rétt þýðing, og ég held, að það þurfi að athugast.

Ég skal nú ekki fara meira út í þessi atriði. En þá var það að lokum þetta, sem hæstv. ráðh. vék að í sinni ræðu og gerði að aðalinnihaldi hennar, að rökstyðja það, að gerðardómsákvæði þau, sem eru í 47. gr. álsamninganna, væru fyllilega réttlætanleg, af því að þau ættu sér margar hliðstæður, settu sér hliðstæð ákvæði í mörgum samningum, held ég, að hann hafi orðað það, og það væri fráleitt að vera að tala um það sem skerðingu á fullveldi, þó að menn gerðust aðilar að þessum samningi. Það hefur náttúrlega ekki nokkur lifandi maður talað um skerðingu á fullveldi, þó að Ísland gerðist aðili að þessum samningi. Það er áreiðanlegt, að það skiptir ekki nokkru máli í þessu tilfelli, því að eins og ég hef sagt, hefur þessi samningur ekki í för með sér nokkra skuldbindingu fyrir það, nema greiða nokkrar fjárgreiðslur. En hann sagði, hæstv. ráðh., og lagði mikla áherzlu á, að gerðardómsákvæði 47. gr. ættu sér margar hliðstæður í öðrum samningum. Hann gat þó ekki nefnt og nefndi ekki nema eitt einasta dæmi, og það voru olíuviðskiptasamningar við Rússland. Með því eina dæmi ætlaði hann að sanna þessa staðhæfingu sína um það, að gerðardómsákvæði slík sem eru í 47. gr. væru í mörgum samningum, og hann talaði stórt um það, hæstv. ráðh., og sagði, að það væri mjög mörgum mönnum kunnugt um slík ákvæði í öðrum samningum. Ég verð að játa mína fáfræði, að mér er ekki kunnugt um þvílík ákvæði í t.d. samningum, sem Norðurlöndin hafa gert. Ég þekki ekki slík ákvæði í þeim samningum, sem þau eru aðili að. Það má vera, að þau finnist þar, þá bið ég hæstv. ráðh. að benda mér á þá samninga. Það er skylt að hafa það, sem sannara reynist. En það er nú ekki annað, sem ég hef sagt um það, en að ég efaðist um, að slík samningsákvæði væru í samningum nálægra ríkja. Vill hæstv. ráðh. benda á einhverja af þeim samningum þeirra ríkja, sem slík ákvæði eru í, þar sem svo er samið um, að viðkomandi land, t.d. Danmörk eða Svíþjóð, er samningsaðili gagnvart erlendu hlutafélagi, og það er svo fyrir mælt, að ágreiningsmál þau, sem spretta kynnu út af þeim samningi, skyldu lögð fyrir alþjóðlegan gerðardóm, eða það, sem ég fyrst og fremst hef lagt áherzlu á, að svo sé samið um af hálfu einhverra þessara ríkisstj. í þeim löndum, sem okkur eru nálægust, að ágreiningur ríkisins við skrásett félög þar í landinu skuli heyra undir alþjóðlegan gerðardóm? Þeir hafa allt á sínum snærum, þessir hæstv. ráðh. Þeir hafa þekkinguna og þeir hafa starfsliðið, og það er ekki annað fyrir þá en bara finna þessa samninga og benda á þá. Það er ofur einfalt. Þá er það leyst. Þá hafa þeir sýnt fram á það, að ég hafi farið þarna með staðhæfingu, sem hafi gengið of langt, en þeir hafi rétt mál að flytja. Hvers vegna gera þeir þetta ekki? Það mundi leysa málið. Þá þyrfti ekki lengur að vera að deila um þetta. Finni þeir samningana og komi þeir með þá og bendi á, hvar hægt er að finna þá, þá er hægt að sjá, hvor hefur rétt fyrir sér.

Hins vegar hef ég aldrei talað um Rússland í þessu sambandi eða samninga, sem það gerði. En þá þóttist nú hæstv. ráðh. báðum fótum í jötu standa, þegar hann gat farið að tala um olíuviðskiptin við Rússland og það hefði tíðkazt ekki bara í tíð þessarar núv. stjórnar, heldur hefði það tíðkazt í tíð núv. formanns Framsfl. og þáv. viðskmrh., að slíkir samningar væru gerðir. Að vísu var hæstv. viðskmrh. einnig innanborðs á því skipi, sem að þeim samningum stóð. En er það svo einkennilegt, að þessi ákvæði skuli vera í rússnesku samningunum um olíuna? Í fyrsta lagi gildir nokkuð annað um viðskiptasamninga heldur en aðra samninga. Um viðskiptasamninga eru algildar reglur. Þeir eru gerðir til mjög takmarkaðs tíma yfirleitt, og þeir eru gerðir samkv. venju af utanrrh. eða viðkomandi ráðh., án þess að þeir séu bornir undir þing o.s.frv., þannig að það gilda allt aðrar reglur um þá í sjálfu sér heldur en aðra milliríkjasamninga. Og við höfum keypt olíu í Rússlandi. Mér skilst að vísu, að það séu olíufélögin hér á landi, sem raunverulega hafa keypt þá olíu, þó að það sé svo, að rn. sem sagt og ríkið séu að formi til samningsaðili. Hann undraðist það mjög, að þau viðskipti skyldu lögð undir gerðardóm í Rússlandi. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., hvernig hann heldur, að það sé, ef gerðir eru síldarsamningar um kaup á síld við síldarútvegsnefnd hér á landi og kaupendur væru eitthvað óánægðir með þá síld? Til hvaða dómstóla ætli þeir yrðu að leita, kaupendur þeirrar síldar? Ætli þeir yrðu ekki að leita til íslenzkra dómstóla? Ég hygg það. Reglan er nú sú, þegar um viðskipti er að tefla á milli landa, að sá, sem kröfu ætlar að gera út af þeim viðskiptum, verður að jafnaði að halda sig að dómstólum þess lands, þar sem varan er af hendi látin, þannig að ég get ekki séð, að þetta sé svo ákaflega mikil sönnun í sjálfu sér sem hæstv. viðskmrh. vildi vera láta, þó að það hafi verið samið svo um, að ágreiningsmál út af þessum olíukaupum skyldu úrskurðuð af þar tilgreindum gerðardómi í stað þess að fara fyrir venjulega dómstóla í landinu. En það hefðu viðskiptin væntanlega orðið að fara, ef ekki hefði verið samið svona um.

Sem sagt, þessir olíuviðskiptasamningar eru náttúrlega svo allt annars eðlis heldur en þeir samningar, sem hér er um að ræða, að það er sama aðferð að taka þá til meðferðar í rökræðum um þessi mál eins og það er, þegar einn maður er að tala um a og svo kemur næsti maður og ætlar að svara hans mótbáru varðandi a með því að tala um það, sem á við um b, því að þetta er svo gersamlega ólíkt. En auk þess kemur það til varðandi olíusamningana við Rússland, að þar er um að ræða milliríkjasamninga. Utanríkisverzlun Rússlands er í höndum ríkisins, það eru sérstök fyrirtæki að vísu, sem annast um hana, en hún er í höndum ríkisins, og það er einmitt þess vegna, sem út af þeim viðskiptum hafa risið deilur viða um lönd, af því að reglan er sú, að það er ekki talið samrýmast ríkishugtakinu, að það heyri undir dómstóla annars ríkis, og þess vegna hafa Rússar einmitt haldið því fram í viðskiptum sínum, að í viðskiptasamningum, sem þeir gera, sé það ríkið, sem standi að baki þeim. Ég get t.d. bent á bækur um þjóðarétt, þar sem þetta er tekið til meðferðar, þar sem þeir hafa sem sagt neitað að lúta undir venjulega dómstóla í viðskiptalandinu, af því að þetta sé ríkisverzlun. Þetta á ekki bara við um olíu, þetta á við um margs konar viðskipti, utanríkisviðskipti Rússlands. Og þess vegna hefur það verið svo, að inn í viðskiptasamninga Rússa við önnur ríki hefur yfirleitt verið tekið ákvæði um sérstaka dómstólameðferð í þeim viðskiptasamningum, af því að viðsemjendurnir hafa rekið sig á þetta, að fram hjá þessum agnúa urðu þeir að komast. Ég er ekki svo kunnugur því að öðru leyti, hvernig þetta er gert i einstökum atriðum, en ég veit, að þessa spurningu hefur almennt borið mjög viða á góma og hefur leitt til þess, að sérstakt fyrirkomulag hefur verið tekið upp í þessum samningum.

Það fer ekkert á milli mála, og því er haldið stíft fram af Rússa hálfu, að utanríkisverzlunin sé í höndum ríkisins, og þess vegna á ég bágt með að trúa því og trúi ekki öðru, fyrr en þá auðvitað þegar ég sé þessa samninga, sem gerðir hafa verið, en það sé undirritað á þann veg, — þó að það sé eitthvert sérstakt fyrirtæki eða hvað það nú heitir, sem skrifar undir og gerir samninginn, trúi ég ekki öðru en það sé fyrir hönd rússneska ríkisins eða utanríkisverzlunarinnar. Það er rétt að leggja þá samninga fram á borðið. En hvað sem því líður, er þetta tilfelli svo, að þessu er háttað þannig um rússnesku olíuviðskiptin.

Annars ætla ég ekki að fara að ræða hér lengur um olíuviðskiptin við Rússa, enda tel ég, að það skipti ekki nokkru máli í sambandi við þessi gerðardómsákvæði í 47. gr., þegar við ræðum um það, og það verður tækifæri til þess að gera það nánar, þegar álmálið sjálft kemur hér til meðferðar, þá skulu þeir vera búnir að búa sig undir það og finna þá samninga nágrannaríkjanna, sem séu sambærilegir við þessa álsamninga. Það er það, sem um hefur verið deilt. Ég hef aldrei sagt, að það finnist engir slíkir samningar sem þessir. Ég hygg, að slíkir samningar sem þessir hafi verið gerðir. Eg býst við því, að þeir geti komið fram með einhverja fyrirmynd að slíkum samningum. En hvers vegna koma þeir ekki með þær fyrirmyndir? Þær eru, að því er ég bezt veit, ekki frá nágrannalöndum okkar. Þær eru aftur kannske frá öðrum ríkjum.

Já, herra forseti. Ég hef verið nokkuð langorður, en ég hef ekkert samvizkubit af því, af því að hæstv. ráðh. hefur verið svo óstöðugur í sæti, að það hefur tekið lengri tíma þess vegna að flytja það, sem ég vildi hér gera og var aðalefni minnar ræðu, en það var þetta, að ég vildi fyrst og fremst undirstrika, að það verður jafnan að gera glöggan greinarmun á venjulegum milliríkjasamningum og því samningsfyrirbæri, sem álsamningurinn er. Það er ekkert athugavert við gerðardómsákvæði í venjulegum milliríkjasamningi. Hins vegar er það vægast sagt ákaflega óvenjulegt og að mínu mati lítilsvirðing fyrir íslenzka dómstóla í samningi eins og álsamningnum. Ég hef enn fremur sýnt fram á það, að það verður ekki í þetta frv. og þann samning, sem því fylgir, sótt nein fyrirmynd fyrir ákvæðum í álsamningnum. Að vísu er þar gert ráð fyrir úrskurði, ef svo er um samið sérstaklega á milli ríkis og þegns, og ákvæði um það, að það megi í víssum samböndum skoða innlendan þegn sem útlendan, og það er líklega það ákvæði, sem hér hefur verið haft sérstaklega í huga. En það verður að byggjast á samningum hverju sinni, og ég hef sýnt fram á það, að í þessu frv. og þessum samningi út af fyrir sig felst ekki nokkur skuldbinding fyrir Ísland nema aðeins til þess að greiða kostnaðinn. Ég hef loks sýnt fram á það, að útlendingar njóta alveg fullrar verndar hér á landi fyrir sín eignarréttindi, og þess vegna er engin þörf á því fyrir Ísland að gerast aðili að þessum samningi. Það eru engar líkur á því, að útlendingar, sem hér kynnu að festa fé sitt, þurfi eða vildu leita til þvílíkrar stofnunar, vegna þess að þeir vita, að þeir gætu sótt rétt sinn og fengið hann verndaðan að fullu fyrir íslenzkum dómstólum. Það eru á hinn bóginn engin líkindi til þess, að Íslendingar fari að festa fé erlendis. Þess vegna er þetta náttúrlega alveg þarflaust. Hins vegar er það, eins og ég sagði, að þetta gerir svo sem ekkert til, þó að þetta verði fullgilt, Ísland verði þarna fimmta ríkið. En annars á nú hæstv. ráðh. eftir að upplýsa það og upplýsir það á eftir, hver þau ríki eru, sem eru búin að fullgilda. Svo get ég ekki skilizt við þetta mál án þess að benda á það, að mér fyndist, að alla vega ætti 2. gr. þessa frv. að falla niður, ef samningurinn verður fullgiltur, en þar segir: „Þegar samningur sá, sem ræðir um í 1. gr., hefur verið undirritaður af Íslands hálfu, skulu ákvæði hans hafa lagagildi á Íslandi.“ Ég held, að þetta ákvæði hljóti að vera tekið upp alveg eftir 2. gr. í álsamningnum. Ég sé ekki, að það séu nein ákvæði í þessum samningi, sem séu þess eðlis, að þau eigi að hafa lagagildi á Íslandi, og kemur ekki til greina þegar af þeirri ástæðu, að það eru út af fyrir sig í þessum samningi ekki neinar sérstakar skuldbindingar. Ég held sem sagt, að ef ríkisstj. ætlar að fullgilda þennan samning og láta samþykkja hann á þessu þingi, þurfi að betrumbæta sitthvað í þessu. En ég mundi telja hyggilegast, eða að það mundi ekki skaða, þó að málinu væri nú frestað um eitt ár í viðbót og séð til, hvort ekki bættust við einhver ríki, sem fullgiltu samninginn á því tímabili.