05.04.1966
Efri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég er satt að segja undrandi á því, hversu málflutningur hv. stjórnarandstæðinga, sem talað hafa, er sundurlaus og sjálfum sér ósamkvæmur. Annars vegar er því haldið fram af hálfu þeirra beggja, að þess — —(Gripið fram í.) Ég held nú, að ég lifi það af að hafa ekki heyrt alla ræðu hv. þm. Ég held, að ég hafi heyrt öll meginatriði hennar, en hitt verða hann og forseti og aðrir þdm. að fyrirgefa mér, þó að ég verði að fara til ákveðinna funda í mínu ráðuneyti, funda, sem ákveðnir hafa verið með viku fyrirvara, þó að þingfundur standi yfir. Fjarvist mín var rúmt korter eða tæpar 20 mín., og ég hygg ekki, að það hafi getað haft nein úrslitaáhrif á ræðu hv. þm. Hins vegar þykir mér það leiðinlegt, ef ég her ábyrgð á því, hve sundurlaus og lítilfjörleg hún í raun og veru var í sinni röksemdafærslu. En nú skal ég koma að því, hvers vegna ég verð að telja málflutning hans og raunar hv. 5. þm. Reykn. jafnsundurlausan og sjálfum sér ósamkvæman og ég gat um áðan.

Annars vegar er því haldið fram af hálfu þeirra beggja, sérstaklega af hálfu Ólafs Jóhannessonar prófessors, að samningurinn, sem hér er til umr., sé í raun og veru mjög lítils verður, það skipti litlu eða engu máli fyrir Ísland, hvort það undirskrifi og löggildi þennan samning eða ekki. Þm. bendir alveg réttilega á það, að engum manni með viti geti komið til hugar, að fullgilding Íslands á þessum samningi tákni nokkurs konar skerðingu á íslenzku fullveldi. Hann hefur alveg réttilega þann skilning á samningnum, að hann er rammasamningur, hann setur upp alþjóðlega stofnun, skipuleggur alþjóðlega málsmeðferð og setur almennar reglur um það hvernig fara skuli með ákveðnar alþjóðlegar deilur. Hann leggur hins vegar engu ríki, sem gerist aðili að honum, þá skyldu á herðar að nota sér stofnanir eða málsmeðferð samningsins. Það er komið undir samkomulagi málsaðila beggja, hvort þeir gera það eða ekki. Þetta eru hins vegar engin rök fyrir því að telja samningsgerðina lítilvæga. Það, sem hér er að gerast, er stórmerkur hlutur í alþjóðarétti og alþjóðasamningum. Það er verið að koma á fót alþjóðastofnun, sem á að hafa það verkefni að fjalla um mál, sem engin alþjóðastofnun hefur hingað til fjallað um. Það er verið að vinna að því að gera samning, sem setja mun reglur um mál. sem fram að þessu í áratugi a.m.k. hafa leitt til vandræða í skiptum á milli ríkja og einstaklinga. Það var sannarlega ekki seinna vænna, að gerð yrði alvarleg tilraun til þess að koma á fót slíkri alþjóðastofnun og koma á slíkum alþjóðasamningi. Hann skyldar engan til þess að notfæra sér þessar reglur eða notfæra sér stofnunina, en hann veitir öllum aðilum heimild til að notfæra sér hana, og árangurinn, sem af þessu hlýzt, er auðvitað sá, að ef þetta allt saman kemst í kring, verður það tryggt, að með hliðstæð deilumál verði farið með hliðstæðum hætti, hvort sem deilumálin koma upp í Evrópu, Asíu, Afríku eða Ameríku eða milli aðila í Afríku og Asíu eða Evrópu og Ameríku.

Og þetta hlýtur auðvitað að teljast mjög mikilsvert. Smám saman hljóta að skapast vissar réttarvenjur sem afleiðing af starfsemi slíkrar stofnunar, sem smám saman leiða til stóraukins réttaröryggis í alþjóðlegum skiptum. En því þarf ég ekki að lýsa, það er kunnara en frá þurfi að segja, að það fer í vöxt, hefur farið stórkostlega í vöxt á undanförnum áratugum og fer enn þá stórkostlega í vöxt á næstu áratugum, að einstaklingar og fyrirtæki eins ríkis festi fé innan vébanda annars ríkis. Þróunin hefur verið í þessa átt í efnahagsmálum heimsins á undanförnum áratugum, og sú þróun heldur áreiðanlega áfram.

Þess vegna tel ég það vera algerlega villandi og rangan málflutning af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, þegar þeir gera lítið úr þessum samningi, vegna þess að hann er ekki bindandi. Samningurinn getur sannarlega verið mikilvægur þrátt fyrir það. Stofnun, sem komin er á fót, getur sannarlega verið mikilvæg þrátt fyrir það, þó að hún skyldi ekki neinn aðila til að hagnýta sér þær reglur eða skipulag, sem samningurinn og stofnunin gerir ráð fyrir. Engu að síður halda báðir fast við sinn keip, að það sé algerlega ástæðulaust fyrir Ísland að gerast aðili að þessum samningi, og raunar vara við að gerast aðilar að honum. En þetta er áherandi ósamræmi. Ef menn segja í einu orðinu, að samningurinn sé ómerkilegur og hafi enga þýðingu, hvaða ástæða er þá til að vara svona sterklega við því að gerast aðili að honum? Þetta tvennt getur með engu móti farið saman.

Það, sem mér þykir þó vera óviðkunnanlegast í málflutningi hv. þm., er að gera þessa fyrirhuguðu samningsgerð tortryggilega vegna þess, að hingað til hafa ekki nema 4 svokölluð vanþróuð ríki, svo að þeirra orð séu notuð, svokölluð nýfrjáls ríki í Afríku staðfest samninginn. Það liggur við, að maður verði að láta í ljós, að manni ofbjóði slíkur málflutningur, og það ekki hvað sízt þegar hann er viðhafður af hálfu hv. 5. þm. Reykn., sem setur sig sjaldan úr færi til þess, en notar þá allt aðra tegund af orðum, — setur sig sjaldan úr færi til þess að lýsa samúð með frelsisbaráttu hinna áður undirokuðu þjóða, hinum svokölluðu nýfrjálsu þjóðum. Þegar maður les málgagn hans, Þjóðviljann, liður varla svo vika, að þar sé ekki um að ræða hástemmdar, heitar samúðaryfirlýsingar með sjálfstæðisbaráttu þessara ríkja, sem nú eru kölluð nýfrjáls eða vanþróuð, og undirstrikað sterklega og alveg réttilega, hversu sjálfstæðisbarátta þeirra hafi verið réttmæt og sjálfsögð og hversu sjálfsagt sé að styðja þessi ríki í baráttu þeirra fyrir því að tryggja sjálfstæði sitt og treysta efnahag sinn. Ég tel, að ekkert ríki í raun og veru, — ekkert ríki í Evrópu a.m.k., — ætti að hafa ríkari skilning á sjálfstæðisbaráttu hinna svokölluðu nýfrjálsu eða vanþróuðu landa, hvort sem þau eru í Afríku, Asíu eða annars staðar, heldur en einmitt Íslendingar, og þess vegna kemur mér það mjög spánskt fyrir sjónir, þegar um þau er talað beinlínis í niðrandi merkingu, og lögð á það áherzla, að það sé Íslandi til vansæmdar, til beinnar vansæmdár, að Ísland gerist fimmta ríkið til þess að staðfesta slíkan samning á eftir slíkum ríkjum. Það á að vera einhver blettur á Íslandi að verða eitt af fimm í hópi fjögurra nýfrjálsra ríkja. Ummæli þm. verða á engan annan hátt skilin en þennan.

Ég vil, áður en ég greini frá því, hvaða ríki þetta eru, sem hafa þegar staðfest samninginn og hafa undirskrifað, þá vil ég mótmæla harðlega þeim aðdróttunum, þeim beinu aðdróttunum í garð þessara ágætu nýfrjálsu, nýsjálfstæðu ríkja í Afríku um það, að réttarfar þeirra sé að einhverju leyti svo óöruggt, að það sé ástæðan fyrir því, að þau hafa talið sig knúin til þess að flýta sér að staðfesta samninginn, eða að einhverjir aðrir aðilar, einkaaðilar í öðrum stórveldum, hafi krafizt þess, að þau flýttu sér að staðfesta slíkan samning, til þess að unnt væri að festa fé í þessum ríkjum. Þetta eru ummæli, sem eru ósæmileg á Alþingi Íslendinga.

Skv. upplýsingum, sem ég hef frá fulltrúa Norðurlanda í stjórn Alþjóðabankans, höfðu til 17. marz 1966 eftirfarandi fjögur ríki fullgilt samninginn: Nígería gerði þáð 23. ágúst 1965. Máretania gerði það 11. jan. 1966, Fílabeinsströndin gerði það 16. febr. 1966. Mið-Afríkulýðveldið gerði það 23. febr. 1966. En svo að segja í hverjum hálfum mánuði nú, eða a.m.k. í hverjum mánuði bætast við ríki, sem ýmist fullgilda samninginn eða undirskrifa hann. Hér hef ég skrá yfir þau ríki, sem hafa undirskrifað samninginn, en það eru 35 ríki. Þegar frv. um álsamninginn var lagt fyrir Alþingi, það var eldra, það var gengið frá því, áður en gengið var frá þessu frv., þá höfðu 33 ríki staðfest samninginn. Þess vegna stendur talan 33 um undirskriftaraðila í frv. með álsamningnum. Síðan það frv. var lagt fram, þær upplýsingar voru miðaðar við 9. febrúar, en síðan eða til 16. marz hafa tvö ríki undirskrifað samninginn, Grikkland og Kýpur. Ég sé ekki ástæðu til að lesa allan þennan lista yfir þessi 35 ríki, en bendi á, að meðal þeirra eru Bretland, sem undirskrifaði í maí 1965, Bandaríkin, þau undirskrifuðu í ágúst 1965, Japan, sem undirskrifaði í sept. 1965, Svíþjóð, sem undirskrifaði í sept. 1965, Lúxembúrg einnig í sept., Danmörk í okt.; Ítalía í nóv., Belgía í des., Frakkland seinna í des. og Þýzkaland í janúarmánuði 1966. Því miður slæddist sú villa inn í grg. álfrv., að meðal þeirra 33 ríkja, sem þá hefðu undirskrifað, væru öll Norðurlöndin. Aðeins tvö Norðurlandanna hafa þegar undirskrifað, þ.e.a.s. Svíþjóð og Danmörk, en málið er komið fyrir finnska þingið, það er komið þegar til meðferðar í finnska þinginu, og verið er að undirbúa að leggja málið fyrir norska þingið.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði mikið úr, að það væri með öllu óvist, að þau ríki, sem hefðu undirskrifað samninginn, mundu fullgilda hann. Hv. þm. veit án efa jafnvel og ég, að þegar um t.d. þau Evrópuríki, sem ég nefndi áðan, er að ræða, þá mundi ríkisstj. ekki detta í hug að undirskrifa samninginn, nema því aðeins að hún hefði þá ákveðnu fyrirætlan að leggja samninginn fyrir hlutaðeigandi þing og fá hann samþykktan þar, ef ekki yrðu stjórnarskipti í millitíðinni. Þetta getur hver maður með fullu viti sagt sér, að þannig eru málavextir. Auðvitað getur enginn tryggt það, að ekki verði stjórnarskipti í millitíðinni og önnur stjórn kunni að líta öðruvísi á. Hitt er annað mál, og það vita líka allir og hv. þm. enn þá betur en ég, að málsmeðferð í löggjafarþingum lýðræðisríkjanna er mjög seinvirk og það getur tekið langan tíma að fá fullgildingu á jafnvel einföldustu samningum, eins og þessi í raun og veru hlýtur að teljast. Enn fremur er mikið misræmi í málflutningi, þegar annars vegar er sagt: Þessi samningur hefur litla þýðingu, hann er ekki bindandi, skiptir í raun og veru afskaplega litlu máli, — að láta sér þá detta í hug, að ríki, sem hafi undirskrifað samninginn, mundi hverfa frá því að leggja hann fram til fullgildingar, eða þingið mundi hverfa frá því að fullgilda hann. Það er ekki hell brú í þessum málflutningi. Ef hér væri um að ræða einhvern mjög stórkostlegan milliríkjasamning eða mjög stórkostlega alþjóðastofnun, sem fengi völd, víðtækt gerðardómsvald eða eitthvað því um líkt, þá gæti maður skilið, að það ættu eftir að verða stórdeilur um málið, þannig að ekki væri víst, hvort undirskrift ríkisstj. þýddi raunverulega staðfestingu, en þegar þm. hafa verið að segja: Þetta er lítilfjörlegur samningur í raun og veru, — hvaða skynsamleg ástæða er þá til þess að ætla, að undirskrift ríkisstj. þýði ekki líka staðfestingu þess meiri hluta á þingi, sem styður ríkisstj.? Hér er í raun og veru um svo barnalegan málflutning að ræða, að mig furðar á jafnreyndum þingmönnum og hér er um að ræða að gera þetta að verulegu atriði í málflutningi sínum.

Ástæðan til þess, að það er æskilegt, mjög æskilegt, vildi ég segja, að Ísland staðfesti þennan samning nú, er einfaldlega sú, að við erum einmitt núna að fjalla um samning milli íslenzka ríkisins og erlends einkaaðila. Það hlýtur að vera sjálfsögð ósk af hálfu Íslands, að um deilu út af þeim samningi sé farið að sem mestu leyti eftir alþjóðlegum reglum og alþjóðlegum venjum. Það þarf engum að koma það á óvart, að í slíkum samningi sem þessum milli íslenzka ríkisins og erlends einkaaðila þurfi að vera gerðardómsákvæði. Það þarf að vera gerðardómsákvæði, undan því er ómögulegt að komast og mikil spurning, hvort rétt væri að sækjast eftir því að komast undan því. Það er í alla staði eðlilegt, enda fjölmörg dæmi um það önnur, að einmitt í slíkum samningum milli ríkis og erlends einkaaðila séu gerðardómsákvæði. Og þá er auðvitað sjálfsagt, — ég tala einungis frá íslenzku sjónarmiði, — þá er auðvitað sjálfsagt, að þessi gerðardómsákvæði séu sem almennust, séu sams konar og ákvæði í öðrum deilum, að tryggja það, að úrskurðir verði í sem nánustu samræmi við þær venjur, sem eru að myndast á alþjóðlegum vettvangi. Það er tryggt í samningnum, að dómurinn á að dæma eftir íslenzkum lögum og alþjóðlegum reglum.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, að hann hefði ekkert við samsetningu gerðardómsins að athuga skv. þessu frv. Það er einmitt þess vegna, að ég er honum alveg sammála, að við höfum ekkert við hann að athuga. Þess vegna hefur Ísland einmitt viljað, að þetta skipulag gilti í gerðardómsmálum út af þessum samningi. Ég vil segja, að það hafi viljað svo vel til, að um sama leyti og við Íslendingar erum að semja við svissneska álfélagið, þá er alþjóðahreyfing í gangi í þá átt að koma upp alþjóðlegri stofnun til þess að fjalla um þau deilumál, sem kunna að geta komið upp milli íslenzka ríkisins og hins erlenda einkafyrirtækis.

Ég skil ekki þá menn, sem mundu telja betra að hafa einfalt gerðardómsákvæði í samningunum en að hafa ákvæði, sem tryggir málsmeðferð skv. alþjóðasamningi og alþjóðareglum, sams konar málsmeðferð og augljóst er, að mikill meiri hluti helztu aðila heimsverzlunarinnar ætla sér að samþykkja. Er hægt að tryggja íslenzka hagsmuni betur en að sjá svo um, að með hugsanleg deilumál milli íslenzka ríkisins og erlendra einkafyrirtækja sé farið eftir sömu reglum og á sama hátt og öll helztu aðildarríki heimsviðskiptanna telja eðlilegt í slíku tilfelli? Það er auðvitað af þessum sökum, sem Íslendingar grípa það fegins hendi að gerast aðili að þessari nýju alþjóðastofnun, að þessum væntanlega alþjóðasamningi, í stað þess að þurfa að hafa einfalt gerðardómsákvæði í samningnum, sem eingöngu tæki til íslenzka ríkisins og hins erlenda einkafyrirtækis.

Þetta eru mjög einfaldar staðreyndir í sambandi við málið.

Báðir hv. ræðumenn gerðu nokkrar tilraunir, en þó ekki alvarlegar og satt að segja mjög veikburða, til þess að bera á móti því, sem ég hafði sagt í ræðu minni, að samningur iðnmrn. við svissneska álfélagið væri hliðstæður samningi viðskmrn. við sovézka olíusölufélagið um olíuviðskipti. Þeir gátu þó auðvitað ekki borið á móti því, að í báðum tilfellum er um gerðardóm að ræða, í báðum tilfellum er íslenzka ríkið aðili að samningunum. Íslenzka ríkið er aðili að samningunum í báðum tilfellunum, og gagnaðilinn er ekki ríkisvald, er ekki ríki, heldur viðskiptafyrirtæki. Í báðum tilfellunum er gagnaðilinn ekki ríki, heldur viðskiptafyrirtæki. Að þessu leyti eru tilfellin algerlega sambærileg. (Gripið fram í.) Ég kem að því hér á eftir einmitt. — Hér er ekki um það að ræða, að fyrirtæki sé að semja við fyrirtæki. Í slíkum samningum er mjög algengt, að um ýmiss konar gerðardómsákvæði sé að ræða. T.d. í samningum Sölumiðstöðvarinnar og S.Í.S. við Prodintorg í Moskvu eða innflutningsfyrirtæki í Varsjá og Prag er um margs konar gerðardómsákvæði að ræða, — ég hef þau hér hjá mér, ég vitna ekki til þeirra, vegna þess að það er auðvitað ekki sambærilegt. Samningar eins fyrirtækis við annað fyrirtæki eru auðvitað ekki sambærilegir því, sem hér er um að ræða. Hér er ekki heldur um samninga ríkis við ríki að ræða. Það var eina haldreipi hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafs Jóhannessonar prófessors, að hann vildi staðhæfa, að samningur íslenzka viðskmrn. við rússneska olíusalann sé raunverulega samningur við rússneska ríkið og þess vegna væri þetta ekki sambærilegt. Ég greip fram í fyrir honum og sagði, að þetta væri misskilningur, en hann bað um sannanir fyrir slíku. Á sönnuninni held ég hér í höndunum, þar sem er frumrit nýjasta olíusamningsins við Sovétríkin, og þar segir á bls. 10, í 12. gr., hverjir séu samningsaðilarnir. Hvergi í samningnum er þess getið, að þeir tveir, sem undirskrifa sem seljendur f. h. hins rússneska olíuútflutningsfyrirtækis, undirskrifi fyrir hönd ríkisins eða með neinu öðru umboði en sem forstjórar þess fyrirtækis, sem hér es um að ræða. Þessar 10 blaðsíður samningsins má lesa allar, og það kemur ekkert fram annað, eins og ég raunar staðhæfði í ræðu minni og vissi með fullkomnu öryggi, að hið sovézka útflutningsfyrirtæki er sjálfstæður réttaraðili, sem selur án umboðs eða heimildar frá viðskiptamálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti eða nokkru öðru ráðuneyti í ríkisstjórn Sovétríkjanna. Allar mótbárur hv. 3. þm. Norðurl. v., sem byggðar voru á þessu, eru því fallnar alveg um sjálfar sig. Olíusamningurinn er ekki samningur ríkis við ríki, hann er samningur íslenzka ríkisins við sovésk útflutningsfyrirtæki, og það er þess vegna, að hann er nákvæmlega hliðstæður samningi iðnmrn. við svissneska álfélagið.

Þegar svo samningarnir eru bornir saman, kemur í ljós, að í samningnum við svissneska álfélagið er um að ræða alþjóðagerðardóm, sem á að dæma eftir íslenzkum lögum og alþjóðareglum, en í olíusamningnum við rússneska olíuútflutningsfyrirtækið er um að ræða sovézkan gerðardóm, sem á að dæma eftir sovézkum reglum. Ég skil ekki í, að nokkrum manni með óbrjálaða dómgreind geti blandazt hugur um það, að auðvitað er betra fyrir íslenzka hagsmuni að láta deilur út af fjárfestingu eða viðskiptum koma til úrskurðar hjá alþjóðagerðardómi, sem dæma á eftir íslenzkum reglum, íslenzkum lögum og alþjóðareglum, heldur en eftir erlendum gerðardómi, sem á að dæma eftir eigin reglum. Það þarf meira en lítið brjálaða dómgreind til þess að skilja ekki, að það fyrra er betra fyrir íslenzka hagsmuni. Það, sem er í álsamningnum, er betra en það, sem er um þetta efni í olíusölusamningnum.

Hitt er annað mál, að það er alger misskilningur hjá hv. 5. þm. Reykn., að ég hafi verið hneykslaður á olíusamningnum eða hneykslaður á hv. fyrirrennara mínum, Lúðvík Jósefssyni, fyrir að hafa gert þennan samning, eins og hans fyrirrennari hafði gert og eins og ég hef gert sem eftirmaður hans. Það sagði ég aldrei. Ég gagnrýndi vinstri stjórnina ekki neitt fyrir það að hafa gert samninginn og það af þeirri einföldu ástæðu, að ég veit, að það var skilyrði af hálfu Sovétríkjanna, þegar samningurinn var fyrst gerður, að þetta gerðardómsákvæði væri i samningnum, og ég tel þá hagsmuni, sem um er að ræða við gerð þess samnings, svo stórkostlega, að mér kom ekki til hugar að mæla með því að setja þetta gerðardómsákvæði fyrir sig, þó að það sé íslenzkum hagsmunum óhagstæðara en það gerðardómsákvæði, sem er í álsamningnum.

Ég er alveg sammála þeim fyrsta viðskmrh., sem gerði samninginn 1953, — ætli það hafi ekki verið Ingólfur Jónsson, — og sammála því, sem Lúðvík Jósefsson gerði á vinstristjórnarárunum, og þarf ekki að taka fram, að ég gagnrýni ekki það, sem ég hef sjálfur gert síðan 1959, — ég hefði ekki gert það, ef ég teldi ástæðu til þess að gagnrýna það. Um annað var ekki að ræða, og ég óttast slík gerðardómsákvæði ekki svo mjög, jafnvel þótt um sovézkan gerðardóm sé að ræða, þar eð reglurnar, sem hann fer eftir, eru þekktar. Ég sé enga ástæðu til þess að vantreysta þeim gerðardómi svo mjög, að það hefði átt að láta samningsgerðina stranda á þessu atriði. Ég hneykslaðist því ekki á vinstri stjórninni, alls ekki á Lúðvík Jósefssoni á þeim árum, né heldur á Hermanni Jónassyni, sem þá var dómsmrh., eins og ég benti á áðan. Ég hneykslast á þeim núna. Nú hneykslast ég á þeim fyrir það, að þeir skuli gagnrýna jafnsterklega og með jafnhörðum orðum gerðardómsákvæði í öðrum samningi, sem eru sýnu hagstæðari en þau gerðardómsákvæði, sem þeir sjálfir hafa ýmist stutt beinlínis, beinlínis gert, staðið að, en hins vegar látið óátalin í þrettán ár. Það er ekki ég, sem hef verið að bregðast vinstri stjórninni, eins og hv. 5. þm. Reykn. var að gefa í skyn, það er ekki ég, sem var að afneita henni, það eru Lúðvík Jósefsson og Hermann Jónasson, það eru Eysteinn Jónsson og Hannibal Valdimarsson, sem eru að afneita gerðum sínum í vinstri stjórninni með sinni hörðu og ósanngjörnu gagnrýni á gerðardómsákvæðið í álsamningnum.

Ég held, að með þessu hafi ég vikið að því, sem máli skiptir í ræðum þeirra tveggja málsvara stjórnarandstöðuflokkanna, sem talað hafa, og tel í raun og veru, að öll málsatriði í sambandi við þann samning, sem hér liggur fyrir, séu að fullu upplýst, hafi að fullu upplýstst í þessum umr. Ég vil því að síðustu aðeins endurtaka, að ég tel það ótvírætt vera í þágu íslenzkra hagsmuna, að Alþingi fullgildi þennan samning, til þess að von geti verið til þess, að hugsanlegar deilur milli íslenzka ríkisins og svissneska álfélagsins fái þá réttarmeðferð, sem þessi samningur gerir ráð fyrir, sem þessi samningur veitir Íslandi rétt til þess að hagnýta sér.