09.11.1965
Efri deild: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Frsm. 2. minni hl (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Hæstv. félmrh. lagði áherzlu á það, að við minnihlutamenn, sem viljum ekki samþykkja sexföldun skattsins, sexföldun fasteignamats í eignarskatti, bentum ekki á neina fjáröflunarleið aðra. Í sjálfu sér er ekki endilega skylda stjórnarandstöðu að benda stjórn á úrræði. Fyrst og fremst er það skylda stjórnarandstöðunnar að benda ríkisstj. á það, þegar hún er að gera þá hluti, sem illa standast. Sjálfri ber henni að leita úrræðanna. Hún hefur tekið það að sér. En í þessu falli var þetta ekki rétt hjá hæstv. ráðh., hvað okkur framsóknarmenn snertir, því að ég tók fram í ræðu minni, að ég teldi eðlilegra að hækka eignarskattinn blátt áfram, breyta lögum um hann til hækkunar, heldur en hafa þessa aðferð, ef ríkissjóður væri svo illa staddur, að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart húsnæðismálastofnuninni á annan hátt.

Þá sagðist hæstv. félmrh. vera nokkuð hissa á því, hvað ég hefði lagt mikla áherzlu á það, að verið væri í þessari löggjöf af hæstv. ríkisstj. að ganga á rétt Alþ. með því að semja utan Alþ. og láta svo fylgismenn sína beita meiri hluta til að fullnægja þeirri samningagjörð með lagasetningu á Alþingi. Ég hvika ekki frá því, að með þessu móti er verið að skerða vald Alþ., það er verið að ganga á hlut þingræðisins, og þess verður að gæta að fara þar ekki of langt, ef ekki á illa að fara. Fyrst er það skerðing, síðan getur komið annað, þó að ég talaði ekki um það, að það væri með þessu gert, en að vísu er löggjafarsetningin hér gerð að einu saman formsatriði, þegar samið er við aðila utan Alþ. og samningarnir, eins og þeir hafa verið gerðir, lögfestir með meirihlutavaldi þeirra, sem sömdu, á Alþ. gegn mótmælum þeirra, sem ekki tóku þátt í samningunum. Hann vildi benda á það, hæstv. ráðh., að ég hefði ásamt honum verið stuðningsmaður stjórnar, vinstri stjórnarinnar, sem studdist við svonefnda 19 manna nefnd. En sá mikli munur var á því, sem þá gerðist og nú, að 19 manna nefndin var ráðgjafarnefnd ríkisstj. Og við það er ekkert að athuga, þó að ríkisstj. hafi sér til ráðuneytis fulltrúa stétta þjóðfélagsins. En það tel ég of langt gengið og við það að athuga, svo að varúð þurfi að gjalda við því, að ríkisstj. geri samninga utan Alþ., leggi þá fram á Alþ, í liðum, eins og hér er gert á þskj., og þar sé allt óhagganlegt fyrir löggjafarsamkomuna til breytinga. Og svo langt gekk þetta í fyrra, að hinn samningsaðilinn, mótaðilinn, sagði við ríkisstj. og Alþ.: „Það er verið að svíkja samninginn, sem gerður var utan Alþ.“ Og ríkisstj. og hennar stuðningsmenn beygðu sig og tóku til greina athugasemdina, sem kom utan að. Ég tala ekki um í þessu sambandi, að verið sé að stofna Alþ. götunnar, ég tala ekki um það, það var sagt hér áður. En það er verið að fara með valdið út úr Alþ. og gera lagasetninguna formsatriði.

En viðvíkjandi því, að ég óskaði eftir því við hæstv. forseta, að umr. yrði frestað, en hæstv. félmrh. taldi, að eins vel mætti láta málið ganga til 3. umr. og taka till. til athugunar milli umr., vil ég segja það, að ég vildi miklu frekar óska þess, að umr. yrði frestað. Það eru 2 till. á þskj. 72, sem þurfa að fylgjast að, og það er dálítið óþægilegt að slíta þær í sundur, óþægilegt er líka að taka þær til baka. Mér finnst langeðlilegast, að till. séu athugaðar, áður en atkvgr. fer fram um einstakar greinar frv.