29.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 2. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Í fjarveru hv. 4. þm. Norðurl. e., Björns Jónssonar, tók ég sæti í hinni svonefndu álbræðslunefnd, og það hefur því fallið í minn hlut að gefa út nál. hér í þessari hv. d. af hálfu okkar Alþb.-manna.

Þetta mál er nú orðið mjög rætt hér á Alþ., og m.a. gerði ég allítarlega grein fyrir afstöðu minni til málsins við 1. umr. þess. Ég ætla því ekki að fara um það mjög mörgum orðum nú en vil þó leggja áherzlu á nokkur atriði, sem ég tel ástæðu til að gera frekari grein fyrir heldur en ég hef áður gert. Það er e.t.v. minni ástæða en ella til þess að fjalla mjög um einstaka smærri þætti slíks máls sem þessa, vegna þess að það er öðru vísi háttað um það heldur en flest þau þingmál, sem við erum venjulega að fjalla um. Hér er ekki um það að ræða að knýja íram lagfæringar á einstökum atriðum þessa máls. Hér er um að ræða, eins og alkunnugt er, fullgerðan samning, þar sem ekki verður breytt einum einasta stafkrók og ekki liggur annað fyrir Alþ. heldur en það að gera annað tveggja að játa eða neita, að fullgilda samninginn eða að hafna honum. Þess vegna má segja, að það sé nú þýðingarminna heldur en ella að vera að elta ólar við ýmis smærri atriði slíks máls, og með tilliti til þessa mun ég eingöngu leggja áherzlu á fáein atriði, sem ég tel höfuðatriði og skipta sköpum um það, hvort menn geta verið með slíku máli sem þessu eða alfarið á móti.

Ég vil þá fyrst ítreka það, sem ég vék nokkuð að við l. umr. málsins, að ég tel, að það verði ekki réttilega metið sem einangrað mál, ekki réttilega metið án þess að tekið sé tillit til þess, að það er og hlýtur að vera stefnumarkandi á ýmsa lund. Það skiptir sköpum um það, hvort við höldum áfram þeirri stefnu í uppbyggingu okkar atvinnuvega, sem fylgt hefur verið á undanförnum árum og áratugum að við byggjum þá upp sjálfir fyrir okkar eigið aflafé og það fjármagn, sem okkur tekst með eðlilegu móti að fá að láni til arðvænlegra fyrirtækja. Meginspurningin er þessi: Á að breyta um stefnu í sambandi við uppbyggingu okkar atvinnuvega? Hæstv. ríkisstj. hefur sýnt það greinilega, að hún vill breyta hér um stefnu, og fylgismenn hennar virðast ætla að skipa sér um það og fylgja því sjónarmiði, að nú skuli breytt um stefnu.

Það er ekkert launungarmál, að í herbúðum stjórnarliða hefur á undanförnum missirum verið rætt um ýmislegt fleira í sambandi við erlenda fjárfestingu heldur en þessa samninga við hið svissneska fyrirtæki. Það hefur verið rætt um hliðstæða samninga, sem gætu komið til greina við aðra aðila, og það hefur verið rætt um, að erlendir aðilar kæmu á ýmsan annan hátt inn í íslenzkt atvinnulíf og jafnvel tækju þátt í því að byggja upp íslenzkan fiskiðnað, og fleira hefur verið nefnt í því sambandi. Og ég lít þannig á, að þó að raddirnar um þetta, um stóriðju í öðrum greinum og í ríkara mæli heldur en um er fjallað í þessum samningi, þó að þær raddir hafi nú hljóðnað nokkuð um skeið, sé það af þeirri ástæðu einni, að það þyki hentugt í bili meðan verið er að marka stefnuna, meðan verið er að koma þessu máli fram, að hafa hægt um það, að annað og meira kunni og eigi að fylgja á eftir.

Í ljósi þess, sem um þessi mál öll hefur verið rætt, til að mynda í blöðum stjórnarsinna undanfarin missiri, tel ég, að beri að líta á þetta einstaka mál. Það er í sjálfu sér nægilega stórt út af fyrir sig, en þó er það í rauninni miklu stærra, þegar á það er litið í sambandi við allar þær umr., sem orðið hafa um þá stóriðjudrauma erlendra aðila, sem ýmsir menn hér á landi hafa verið að láta sig dreyma um nú um skeið. M.ö.o., ég lít þannig á, að þessi samningur við Sviss Aluminium sé í fyrsta lagi stefnumarkandi um það, hvort eigi að breyta til að því er varðar uppbyggingu íslenzkra atvinnuvega og hagnýtingu íslenzkra auðæfa. En hann er líka stefnumarkandi um það, á hvaða grundvelli samið kann að verða eða samið verður um hliðstæð atriði í framtíðinni.

Það hefur verið mikið gert af því að gylla það fyrir mönnum í sambandi við þennan samning, að ýmsar aðrar þjóðir hafi að meira eða minna leyti farið inn á þá braut að hleypa erlendu fjármagni inn í atvinnulíf sitt, og alveg sérstaklega hefur fordæmi Norðmanna verið hampað í því sambandi. Ég taldi mig gera þessu atriði nokkur skil í ræðu minni hér við 1. umr. og skal ekki fjölyrða mjög mikið um það, en vil þó ekki láta hjá líða að minna á það enn þá einu sinni, að við höfum mjög verulega og mikla sérstöðu, þar sem við erum aðeins 190 þús. manna þjóð og getum því í rauninni ekki borið okkur saman við neina nálæga þjóð að því er snertir fólksfjölda eða afl atvinnuvega okkar eða annað, sem máli skiptir í sambandi við slík mál sem þessi. Hitt er svo sjálfsagt að hafa í huga, hver reynslan hefur verið af þeirri leið, sem farin hefur verið fram að þessu, að við byggðum upp atvinnuvegi okkar sjálfir án þess að veita sterkum erlendum aðilum beinan íhlutunarrétt í sambandi við uppbyggingu okkar atvinnuvega.

Ég vil telja, að þrátt fyrir ýmis misstig, sem stigin hafa verið, sé reynslan sú, að við eigum eflaust að byggja á henni og halda þeirri stefnu. Það blasa hvarvetna við okkur ónýttir möguleikar, og ég vil benda á það alveg sérstaklega, að við erum í því efni betur settir heldur en mjög margar og jafnvel flestar aðrar þjóðir. Við eigum í sambandi við okkar tiltölulega stóra land, sem enn er engan veginn hálfnýtt, og í sambandi við auðæfi sjávarins og í sambandi við afl fossanna eigum við varasjóð enn um skeið, sem aðrar þjóðir margar hverjar fjölmennari og þéttbýlli eiga ekki. Og eitt af því, sem við eigum, er raforkan, og það er ástæða til þess að benda á það enn einu sinni, þó að það hafi stundum verið gert áður, að það afl fossanna okkar, sem er virkjanlegt á hagkvæmu eða viðráðanlegu verði, er engan veginn óþrjótandi. Það er ekki meira heldur en svo, að talið er, að þó að ekki komi til annað heldur en hliðstæð þróun í þessum málum, hliðstæð aukning orkunotkunar og verið hefur undanfarin ár, verði öll okkar virkjanlega raforka fullnýtt svona nokkurn veginn á því tímabili, sem sá samningur, sem hér um ræðir, tekur til eða getur tekið til. En þá er þess vitanlega að gæta, að það er mjög mismikið, sem það kostar að virkja fossana okkar, og því verður þess ekki langt að bíða, að sú raforka, sem ódýrust er, verði fullnýtt af okkur Ísíendingum sjálfum. Það hafa verið leidd rök að því, að sú raforka, sem getur talizt beinlínis ódýr, verði fullnýtt eftir 20 ár eða svo, jafnvel án allrar stóriðju, án þess að ráðizt sé í það, sem venjulega er kallað stóriðja, þar sem það er staðreynd, að orkunotkun hér og víða erlendis tvöfaldast a.m.k. á hverjum áratug.

Andstaðan gegn þessu máli, þessum samningum, sem hér liggja fyrir, við Swiss Aluminium, það má segja, að hún byggist á tvennu. Ýmsir eru andvígir því að meginstefnu, að hér verði gerð stórfelld breyting á þann veg, að erlendum auðfélögum sé hleypt í áhrifaaðstöðu í íslenzku efnahags- og atvinnulífi, og telja, að hér sé aðeins um fyrsta sporið að ræða í þá átt. Þeir eru því andvígir af prinsipástæðum, að farið sé út á þá braut með slíkum hætti, sem hér er til stofnað. En það eru einnig margir menn í þessu landi andvígir þessum sérstaka samningi, sem hér liggur fyrir, ekki af prinsipástæðum, ekki vegna þess að þeir geti ekki út af fyrir sig hugsað sér það og talið það undir vissum kringumstæðum eðlilegt og jafnvel æskilegt, að erlent fjármagn sé hagnýtt á einhvern þann hátt, að erlendir aðilar fái að byggja hér verksmiðjur. Þeir telja sem sagt, að stóriðja í eigu erlendra manna og raforkusala til þeirra frá íslenzkum raforkuverum, geti átt rétt á sér undir ákveðnum kringumstæðum og að uppfylltum vissum skilyrðum, þ.e.a.s. svo framarlega sem viðhlítandi samningar nást um þau efni. Og það eru vafalaust mjög margir menn í landinu andvígir þessum samningi af þeim ástæðum, að þeir telja, að hvorugt sé fyrir hendi, nú sé óheppilegur tími vægast sagt, til þess að efna til slíkrar stórfelldrar fjárfestingar, þegar þannig er ástatt í okkar atvinnulífi, að víðast hvar og þó alveg sérstaklega hér á Suðurlandi er skortur á fólki til flestra eða allra starfa. Það er vinnuaflsskortur á þessu svæði og raunar mjög víða um íand, og hér ríkir mikil og vaxandi verðbólga. Öðru máli mundi gegna, telja þessir menn — og þeir eru sjálfsagt margir — og vissulega gegnir öðru máli, ef hér væru erfiðir tímar, þ.e.a.s. atvinnuleysi og samdráttur í atvinnulífi.

Ég skal til þess að stytta mál mitt reyna að taka saman nokkur þau atriði, sem ég tel, að hljóti að ráða úrslitum um það frá sjónarmiði allra þeirra, sem hafa þessa skoðun, að undir vissum kringumstæðum kunni að vera hugsanlegt að efna hér til stóriðjuframkvæmda útlendinga, en þau skilyrði séu ekki fyrir hendi nú. Ég skal taka það saman í stuttu máli, hvaða atriði það eru, sem valda því, að þeir hljóta að vera og eru andvígir þessu máli.

Það er í fyrsta lagi, eins og ég áðan sagði, að tímarnir eru ekki þannig, verðbólgutímar eru ekki þannig, að slíkt sé æskilegt.

Það er í öðru lagi, að menn gagnrýna eðlilega staðsetningu slíkrar verksmiðju og benda þar á það, að með mjög öðrum hætti hafi Norðmenn farið að í þessum efnum, þar sem þeir staðsetja til að mynda hina nýjustu verksmiðju, Husnesverksmiðjuna, að heita má í fámenninu og til þess að efla byggðajafnvægið hjá sér.

Þá hafa menn bent á það og lagt á það áherzlu, algerlega réttilega, að slík stórframkvæmd sem þessi jafnhliða raforkuframkvæmdum og öðrum stórframkvæmdum opinberum hljóti að hafa uggvænleg áhrif á uppbyggingu íslenzkra atvinnuvega, sem suma hverja a.m.k. skortir mjög mannafla og eru að berjast við dýrtíðina, sem allt ætlar að kæfa.

Í fjórða lagi hefur hvað eftir annað verið á það bent, að þessi samningur gerir ráð fyrir því, að hinir erlendu aðilar, sem hér eiga að koma inn í atvinnulífið, eigi að njóta margvíslegra fríðinda umfram innlendan atvinnurekstur. Hér eigi að vera um það að ræða, eins og margoft hefur verið bent á, að það eru veittar undanþágur á undanþágur ofan frá íslenzkum lögum, frá þeim lögum og reglum, sem innlendur atvinnurekstur verður við að búa.

Í fimmta lagi hefur það verið sannað, að raforkuverð samkv. þessum samningi er lægra heldur en annars staðar þekkist, a.m.k. á Vesturlöndum, og það verð er nær óbreytanlegt í 25 ár, hvað sem gerist í raforkumálum okkar Íslendinga, hver sem kostnaður verður við rafvirkjanir okkar eftir 10–15–20 ár.

Í sjötta lagi hafa verið færð að því fullgild rök, að um sé að ræða í þessum samningi, þar sem eru gerðardómsákvæði hans, afsal á vissum þætti lögsögu og því fylgi í rauninni a.m.k. óbein viðurkenning þess, að ekki sé litið á Ísland sem fullkomið réttarríki.

Ég fullyrði, að andstaða þeirra manna, sem venjulega eru nefndir og eru stjórnarandstæðingar, þ.e.a.s. þm. stjórnarandstöðunnar og ákveðinna fylgismanna þeirra, að andstaða manna við þessa samningagerð í því formi, sem hún er, er mikil. Þessi andstaða nær langt inn í raðir stjórnarflokkanna. Ég ætla ekki að rekja öll þau mótmæli, sem borizt hafa utan af landsbyggðinni, mótmæli gegn þessum samningum. Ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. hafi kynnzt þeim nokkuð. Ég skal láta nægja að benda á það, að ýmsir af forustumönnum stærstu landssambanda hafa mótmælt þessum samningum ýmist einróma eða mikill meiri hl. gegn litlum minni hl. Ég minni á hin eindregnu mótmæli stjórnar A.S.Í., en A.S.Í. er, eins og allir vita, fjölmennustu og á marga lund einhver áhrifamestu heildarsamtök í landinu. Og undir þau mótmæli hafa, að því er verkalýðshreyfinguna snertir, tekið fjöldamörg sérsambönd og stór og smá verkamannafélög. Ég minni á mótmæli Búnaðarþings. Ég minni á það, að margir útgerðarmenn hafa mótmælt þessari samningagerð og varað við afleiðingum hennar. Ég minni á það, að í einu af hinum stærstu kjördæmum landsins, í Norðurl. e., hefur farið fram eins konar skoðanakönnun ef svo mætti segja, að því er snertir þetta mál. Og þar hafa nær 500 menn í ýmsum trúnaðarstöðum á sviði félagsmála og stjórnmála mótmælt harðlega þessari samningagerð, og það mun vera á milli 80 og 90% þeirra manna, sem þar gat verið um að ræða og til var leitað. Af þessu og mörgu öðru, sem alkunnugt er, er það ljóst, að meðal íslenzkra kjósenda er mikil og víðtæk andstaða gegn þessu máli, í því formi a.m.k., sem það liggur fyrir samkv. hinum gerða samningi, og þessi andstaða nær langt inn í raðir stjórnarflokkanna. Þegar þannig er ástatt að því er varðar mál, sem er stefnumarkandi, að því er varðar mál, sem markar nýja stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar, tel ég, að naumur þingmeirihluti, sem ekki hafði tök á því að leggja þetta mál fyrir í því ljósi, sem það er í nú, þegar kosið var við síðustu alþingiskosningar, og hefur því í sjálfu sér ekki umboð til þess að gera slíkan samning sem þennan, ég tel, að hann hafi ekki siðferðilegan rétt til þess að knýja fram á Alþ. úrslit í slíku örlagamáli. Ég tel, að Alþ. beri að fella þetta frv.

En fari nú svo, að hv. stjórnarsinnar fylgi sinni ríkisstj. fast í því að samþ. frv. með öllum þess göllum, þá tel ég, að það sé lágmarkslýðræðiskrafa í sambandi við slíkt mál sem þetta, að það verði borið undir dóm þjóðarinnar, að það verði lagt undir þjóðaratkvgr. Þjóðin á að segja til um það, hvort hún vill hér breyta til, breyta um stefnu, og hvort hún vill gera það á þann hátt, sem segir um í þessum samningi. Geri þjóðin það, samþykki hún slíkt frv. eða gjaldi því jákvæði að meiri hluta, þá er vitanlega ekkert við því að segja. Þjóðin er hæstiréttur í slíkum efnum eða á að vera það í stórmálum, örlagamálum.

Á það vil ég benda, að það er óvenjulega auðvelt að verða við þessari eðlilegu og sjálfsögðu varakröfu, sem ég tel þetta vera. Nú eru borgarstjórnar- og sveitarstjórnarkosningar á næstu grösum, borgar- og bæjarstjórnarkosningar fara fram núna í næsta mánuði og sveitarstjórnarkosningar svo sem mánuði síðar. Það mundi í rauninni ekki fresta neinu, það mundi í sjálfu sér ekki slá neinu á frest í sambandi við þetta mál, þó að það væri við bæjarstjórnar- og sveitarstjórnarkosningarnar í vor borið undir þjóðina. Við ætlum að virkja við Búrfell hvort eð er, hvort sem þessi samningur við Swiss Aluminium verður gerður eða ekki, og undirbúningsframkvæmdir þar þurfa því ekki að tefjast af þeirri ástæðu, að málinu sé skotið undir þjóðardóm. Aðrar framkvæmdir, að því er varðar til að mynda höfnina við Straumsvík eða framkvæmdir hins svonefnda Íslenzka álfélags, munu ekki eiga að hefjast fyrr en eitthvað síðar, a.m.k. virðist ekki þörf á því, að þær hefjist næstu einn til tvo mánuðina, þannig að ég sé ekki, að það þurfi að breyta neinu frá sjónarmiði þeirra, sem vilja koma þessu máli í höfn, þó að þeir skjóti því undir þjóðardóm. Það er þá ekkert annað heldur en ótti þeirra við dóm þjóðarinnar, sem gæti komið í veg fyrir það og kann að koma í veg fyrir það, að málinu verði skotið undir þann dómstól.

Eins og ég sagði áðan, þá er þetta mál, sem hér um ræðir, á ýmsan hátt ólíkt því, sem er um þau frv., sem við erum að fjalla um daglega. Hér er ekki hægt að breyta einum stafkrók. Með því að lögfesta þennan samning, með því að gera þetta frv. að l., þá er ekki verið að setja nein venjuleg I. Hér eru vitanlega oft sett lög, sem þm. hafa mismunandi skoðanir á að því er varðar einstakar greinar, og þeir leitast við að breyta þeim undir meðferð mála, og jafnvel hefur það oft komið fyrir og hlýtur að koma fyrir, að menn fylgi máli, þó að þeir sjái, að á því kunni nú að vera ýmsir gallar og ekki sízt að þeir gallar muni sennilega koma í ljós, þegar reynslan fer að dæma í málinu. En þá vita þm., að þetta er í fæstum tilfellum svo sérlega háskalegt, því að slíkum lögum er hægt að breyta. Það er hægt að breyta þeim á næsta þingi eða næstu þingum, ef ástæða þykir til og ef svo vill verkast og þörf gerist. Þetta má segja, að sé meginregla um venjuleg frv., að menn geta sætt sig við eitt og annað, vegna þess að þeir vita, að það er hægt og oft gert að breyta lögum, ef í ljós kemur, að það sem leitt var í lög, jafnvel fyrir skömmu, sé á einhvern hátt óheppilegt eða jafnvel skaðlegt.

En hér er engu slíku til að dreifa. Um þetta mál gilda í rauninni allt aðrar reglur. Hér er um það að ræða að staðfesta samning, sem á að gilda áratugum saman, fram á næstu öld, hvað sem í skerst og hversu fegnir, sem við eða eftirkomendur okkar vildu gera þar á breytingar eða losna við samninginn, þegar reynsla væri komin á það, hvernig þetta fyrirtæki gæfist. Og af þessari ástæðu ekki sízt þá lít ég þannig á, að það megi ekki minna vera, ef fullnægja á hinu fyllsta lýðræði, heldur en að þjóðin sjálf fái að dæma um þennan samning í þjóðaratkvgr. Ég lít svo á, að þetta sé lágmarkskrafa. Ég vil reyna á það, til þrautar, hvort það sé svo, að hér í þessari hv. d. endurtaki sig sama sagan eins og gerðist í Nd., að búið sé að handjárna svo rækilega alla hv. stjórnarþm., að þeir geti ekki eða megi ekki ljá því fylgi, að þessari algerlega fyllstu lýðræðislegu aðferð sé beitt, að láta þjóðina segja sitt álit.

Ég vil svo að lokum segja þetta: Ég vara hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarlið við því að knýja þetta mál fram nú í krafti örlítils þingmeirihluta síns. Það er ekki til of mikils mælzt, að þjóðinni sé leyft að segja sitt álit um slíkan samning sem þennan, og þá væri vitanlega einsætt að hlíta þeim dómi, hvernig sem hann yrði.