29.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Ég vil ekki láta þessari umr. ljúka, án þess að gera fáeinar athugasemdir við ræðu hæstv. iðnmrh. hér fyrr í kvöld. Hann tilkynnti það í lok l. umr. og aftur í byrjun ræðu sinnar hér áðan, að hann mundi svara hv. 3. þm. Norðurl. v. og mér.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur nú gert því skil, sem að honum sneri, og maður skyldi nú ætla, að ég hefði ýmislegt að segja um þá ræðu, sem tvívegis var tilkynnt, að væri flutt til þess að svara mér. En sannleikurinn er sá, að í ræðu hæstv. iðnmrh. kom ekkert fram, sem hrakti neitt af því, sem ég hafði sagt í ræðu minni við 1. umr. þessa máls, en þá tók ég mér það fyrir hendur að skýra frá því, hvernig ákvæði samninganna um úrskurð deilumála og lagagrundvöll hefðu þróazt, eins og þmn. sá það. Og ég lagði mig fram um það í þeirri ræðu að rekja þetta efnislega eins og það kemur fram í fundargerðum þmn., og ræða hæstv. iðnmrh. ber vitni um það að mínum dómi, að mér hafi tekizt það allvel, því að efnislega hrakti hann ekkert af því, sem ég sagði.

En hins vegar komu fram í ræðu hans nokkur atriði, sem ég vil aðeins gera að umræðuefni.

Í fyrsta lagi sagði hæstv. ráðh., að ekkert það væri í bókun okkar Ingvars Gíslasonar frá 14. fundi n., sem færi í bága við ákvæði þessa samnings um úrskurð deilumála, gerðardóm o.s.frv. En þar segir, að við leggjum áherzlu á það atriði við áframhaldandi samningaumleitanir, að verksmiðjufyrirtækið lúti í einu og öllu íslenzkum lögum. Og það var ekki annað að skilja á hæstv. ráðh. en hann liti svo á, að þetta skilyrði væri þá algjörlega uppfyllt í þeim samningi, sem hér liggur fyrir.

Í rauninni ætti ekki að þurfa að deila um þetta. Slíku er kannske hægt að halda fram í Morgunblaðinu, en ætti ekki að vera haldið fram á hv. Alþ. Fyrirtæki, sem getur brugið sér í líki svissnesks þegns samkv. 47. gr. þessa samnings, þegar það þarf á að halda, lýtur ekki í einu og öllu íslenzkum lögum. En í 47. gr., tölulið 47.01, segir, að samkv. 25. gr., 2. tölul. d) SID-sáttmálans fallast ríkisstj. og Alusuisse á, að litið sé á ISAL sem svissneskan þegn í merkingu nefnds sáttmála. Ég veit ekki heldur, hvort í rauninni hægt sé að halda því fram í alvöru, að fyrirtæki, sem getur skotið deilumálum sínum við íslenzka ríkið, íslenzka opinbera aðila og fleiri, undir erlenda dómsaðila og þar með skotið sér undan íslenzku dómsvaldi, lúti í einu og öllu íslenzkum l. Þetta virðist mér liggja alveg ljóst fyrir.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefðu aldrei komið neinar till. frá mér eða Ingvari Gíslasyni, hv. 5. þm. Norðurl. e., um það, að fella gerðardómsákvæðin í burtu úr samningsuppköstunum. Mér er nú spurn, var mikið um það í þmn., að þm. legðu fram till. um það, hvað skyldi vera og ekki vera í þessum samningi? Ég verð nú að segja það, að ég man ekki eftir einni einustu. Og hvernig hefur hæstv. ráðh. sjálfur skilgreint hlutverk n. og þeirra manna, sem þátt tóku í störfum hennar? Um það segir í 14. fundargerð:

„Ráðh. kvað þátttöku í störfum n. ekki bindandi fyrir alþm. um afstöðu þeirra til málsins, þegar til meðferðar þess á Alþ. kæmi, heldur aðeins til þess að þingflokkarnir gætu kynnzt málinu, áður en það kæmi til kasta Alþ. Ráðh. kvaðst vita, að ágreiningur væri um ýmis principatriði málsins og frv. í heild.“

Ég get nú vel bætt því við þessa yfirlýsingu ráðh., að ég leit þannig á, að hlutverk n. væri nú öllu meira en þetta, nefnilega að láta líka í ljós álit sitt á ýmsum efnisatriðum málsins, þó að ég hafi hins vegar aldrei litið á það sem hlutverk n. að gera till. um, hvað skyldi standa eða ekki standa í samningunum. En um það verður ekkert villzt, eins og ég rakti í ræðu minni við 1. umr. málsins, að frá hálfu okkar í þmn. var staðið fast á því, og hæstv. ráðh. gerði það raunar líka, að hinn erlendi aðili ætti að sætta sig við íslenzkt dómsvald. Ég held, að ég sé ekki að eyða tímanum í að rekja aftur þetta, sem ég rakti í ræðunni við l. umr. Það liggur fyrir í þingtíðindum, og það kemur fram, að fram á seinustu stund létu þm. í ljósi þessa skoðun. (Dómsmrh.: Má ég spyrja, hvaða skoðun?) Þá skoðun, að Svisslendingarnir ættu að sætta sig við íslenzkt dómsvald.

Á 19. fundi n. 28. okt. 1965 stendur m.a. í fundargerð: Rætt um ýmis atriði skýrslunnar, einkum, svo eru tveir tölul., sem ég hleyp yfir. Svo kemur 3. tölul. um gerðardómsákvæðin, sem talið var æskilegt, að hægt væri að takmarka, — þá var að vísu byrjað undanhald, — enda væru íslenzkir dómstólar nægileg trygging fyrir Alusuisse. En undanhaldið hjá ráðh. var meira, vegna þess að hann bætir þá við. Um þetta atriði, sagði ráðh., að Alusuisse legði mjög mikið upp úr þessu ákvæði, og hann teldi sig ekki geta metið, hvort nægileg trygging væri í meðferð dómstólá einna, og vitnaði til þess, að ljóst væri af samþykkt Alþjóðabankans um gerðardóm í ágreiningsmálum ríkja og erlendra fyrirtækja, að hér væri um alþekkt vandamál að ræða og engin áhætta fyrir okkur að sætta okkur við slíkan gerðardóm. Þarna er enn látin í ljós svona seint sú skoðun af hálfu þmn., að íslenzkir dómstólar séu nægileg trygging fyrir Alusuisse.

Og næsti fundur þar á eftir er ekki haldinn fyrr en mánuði seinna, 26. nóv., og þá liggur fyrir nýtt uppkast, sem hefur inni að halda ákvæði, sem eru mjög svipuð, en ekki í því endanlega formi samt, sem þau eru nú, en mjög svipuð því, sem þau eru nú. Þetta uppkast höfðu þm. í n. tengið í hendur líklega 1–2 dögum áður en þessi fundur var haldinn 26. nóv. 1965, og það kemur fram, ekki að vísu í fundargerðinni sjálfri, en í umsögn um þetta uppkast, sem lá fyrir fundinum, að þá er enn verið að tala um, að þetta ákvæði þurfi breytinga við, og undir það var að sjálfsögðu tekið. En þegar þangað var komið, var ekki tóm lengur til neinna hluta í þessu sambandi, vegna þess að 4 dögum seinna er samninganefnd sezt á fund með Svisslendingunum og tveimur dögum eftir það gefin út yfirlýsing um efnislegt samkomulag af hálfu iðnmrn.

Ég vil líka leggja á það áherzlu í þessu sambandi, að samkv. hinni margnefndu SID-samþykkt skulu aðilar báðir samþykkja í hvert einstakt sinn, sem deilumáli er þangað skotið. En ég skil 47. gr. þannig, að ríkisstj. og Alusuisse beri að vísa deilumálum sínum þangað, þegar samningurinn hefur verið fullgiltur af ríkisstj. og ríkisstj. svissneska sambandslýðveldisins án fyrirvara eða skilyrða, eins og þar segir. Og á þessu tvennu er auðvitað mikill munur.

Ég verð að gera aths. við eitt lítið atriði í viðbót. Hæstv. ráðh. fór enn að tala um grg., sem fulltrúar ríkisstj. Íslands gerðu um samningsuppkast frá Alusuisse og dags. er 12. ágúst, grg., sem einu sinni — það var nú í Nd. — var talin bera vott um það, að ég hefði verið þessu öllu ákaflega sammála, þar sem hæstv. ráðh. gerði sig sekan um svolitla ónákvæmni, sem ég vona, að hafi verið óviljandi, en ég gjarnan vildi leiðrétta. Hann sagði frá breytingu, sem gerð hafði verið í tilefni af því, að hann og ég hefðum báðir gert aths. við orðalag í þessari grg. íslenzku samningamannanna, efst á bls. 5. í grg., sem margnefnd er, og sagði, að þessu orðalagi hefði verið breytt, áður en grg. var send Svisslendingunum. Hann las upp hið breytta orðalag, sem ég hef séð áður, en ég vissi, að þessi breyting mundi verða gerð. Orðalagsbreytingin var að sjálfsögðu til bóta, en hún var á þá leið, að í því fælist engin áhætta fyrir Alusuisse, að hagsmunir þess af verksmiðjunni yrðu látnir lúta handleiðslu þeirra, og svo bætti hæstv. ráðh. við, og það var þar sem hann gerði sig sekan um svolitla ónákvæmni, þ.e.a.s. að láta íslenzk lög gilda. Hér er ekki bara um það að ræða. Hér er ekki bara um það að ræða að láta íslenzk, lög gilda, því að þar segir svona: Það er skoðun fulltrúa. ríkisstj., að þróun íslenzks réttar og réttarstofnana, og svo hið breytta orðalag, sem ég hef nú ekki orðrétt fyrir mér, að í því fellst engin áhætta fyrir Alusuisse að lúta handleiðslu þeirra. Þetta verður ekki misskilið. það er ekki hara þróun íslenzks réttar, heldur líka réttarstofnana, og það get ég ekki skilið öðruvísi en sem dómstóla.

Þetta voru nú ekki miklar aths., en ég hef nú samt tæmt það, sem ég tel ástæðu til að segja um þann þáttinn í ræðu hæstv. ráðh., sem sneri að því að svara mér, og get ég þess vegna látið máli mínu lokið, því að það var aðeins þetta, sem ég vildi koma á framfæri, en skal ekki á þessu stigi málsins taka upp ný efnisatriði til umr.