21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að Framkvæmdabanki Íslands verði lagður niður, en í staðinn verði stofnaður Framkvæmdasjóður Íslands. Í rauninni er hér ekki gert ráð fyrir ýkjamiklum breytingum, þó að svo virðist við fyrstu sýn, því að gert er ráð fyrir því, að þessi nýi framkvæmdasjóður eigi að taka við öllum störfum Framkvæmdabankans og starfa í öllum meginatriðum, sýnist mér, á svipuðum grundvelli og Framkvæmdabankinn hefur gert. Þó eru gerðar þar á minni háttar breytingar.

Aðalbreytingin, sem í þessu frv. felst að mínum dómi, er sú, að gert er ráð fyrir því að færa það valdsvið, sem hefur verið, og þau verkefni, sem verið hafa hjá Framkvæmdabankanum, þeirri sérstöku stofnun, yfir til Seðlabankans. Að vísu er gert ráð fyrir því, að sérstök stjórn verði fyrir þessum nýja Framkvæmdasjóði, en framkvæmdastjórn sjóðsins á að vera í höndum Seðlabankans. Mér sýnist því, að aðalbreytingin sé þessi, sem ég sagði, að hér er verið að færa yfir til Seðlabankans í öllum meginatriðum þau störf, sem áður voru hjá Framkvæmdabankanum, og það valdsvið, sem hjá honum lá.

Hæstv. forsrh. sagði hér, þegar hann talaði fyrir þessu máli, að hann teldi, að með þessu breytta fyrirkomulagi mundi fást nokkuð aukin samræming í veitingu fjárfestingarlána, og það er greinilegt, sérstaklega, þegar þau önnur frv. eru höfð í huga, sem hér liggja nú einmitt fyrir á dagskrá þessa fundar og fjalla um stofnlánasjóði, að það virðist vera stefnan að tengja meira og meira stofnlánasjóðina og verkefni þeirra beint við Seðlabankann. Og það má vitanlega segja það, að með því að færa meira og meira af þessu valdi yfir til eins og sama aðila, þ.e.a.s. yfir til Seðlabankans, megi búast við því, að meira samræmi yrði þar í störfum heldur en áður hefur verið.

En ég held, að hér sé ekki tekið rétt á málunum. Ég held, að það sé alltaf verið að færa verkefni Seðlabankans lengra og lengra frá því, sem til var ætlazt í upphafi með Seðlabankann, og frá því, sem í raun og veru eiga að vera grundvallarverkefni Seðlabanka. Seðlabankinn á að vera banki bankanna, eins og sagt hefur verið. Hann á að hafa sín beinu viðskipti við bankastofnanir, og það á að skilja hans verkefni sem allra mest frá hinum venjulegu störfum viðskiptabanka, þ.e.a.s. þeim störfum, sem lúta að því að hafa samband við þá, sem taka lánin eða standa í rekstri með einum eða öðrum hætti. En með þeim breytingum, sem bæði felast í þessu frv. og öðrum þeim, sem flutt eru hér samhliða þessu, um sama efni, er beinlínis verið að draga Seðlabankann meira og meira inn í það að skipta sér af hinum almennu viðskiptabankastörfum eða störfum almennra fjárfestingarlánasjóða. En störf þeirra eru allt annað verkefni heldur en verkefni eiginlegs seðlabanka.

Ég tel, að þessi stefna sé röng og óheppileg. Eins og ég tel, að það sé rétt að reyna að byggja lánakerfið upp þannig, að stofnlánasjóðirnir séu sem mest aðgreindir frá viðskiptabönkunum, eins held ég, að það sé nauðsynlegt að halda Seðlabankanum vel aðgreindum, bæði frá stofnlánasjóðum og viðskiptabönkum. Yfirstjórn hans á peningamálunum á að vera þess eðlis, að hann setur sínar almennu reglur, hefur eftirlit með því, sem hinar einstöku greinar í þessu fjármálakerfi hafa með að gera, en Seðlabankinn á ekki að dragast inn í þessi störf beint. En það er alveg sýnilegt, að ef að því ráði verður horfið, sem stefnt er að með þessu frv. og öðrum þeim stofnlánafrv., sem hér liggja nú fyrir, verður verksvið Seðlabankans að mjög miklu leyti orðið bundið við það að hafa bein áhrif á það, hvernig verður háttað í einstökum atriðum veitingu stofnlána og lána, sem tengjast mjög við hinn almenna rekstur í landinu. Ég held, að Seðlabankinn sé þegar kominn of langt á þessari braut og það eigi ekki að bæta þar við.

Um hitt atriðið, að leggja Framkvæmdabankann niður eða skipta um nafn hans og kalla hann hér eftir Framkvæmdasjóð og láta hann í meginatriðum hafa þau verkefni, sem tilgreind eru í þessu frv., er ekkert sérstakt að segja. Ég held, að þessi sjóður gæti vel komið að góðu gagni og samkv. því formi, sem þessum framkvæmdasjóði er sniðið með þessu frv., væri hægt að bæta nokkuð þær útlánareglur, sem í gildi hafa verið hjá Framkvæmdabankanum, og það væri hægt að auka samræmi meira í veitingu fjárfestingarlána frá því, sem verið hefur, án þess að þörf sé á því að ákveða, að þessi Framkvæmdasjóður skuli vera nokkurs konar deild í Seðlabankanum eða í vörzlu Seðlabankans og raunverulega undir daglegri stjórn hans.

Um önnur atriði, sem hér koma fram í þessu sérstaka frv., sé ég ekki ástæðu til að vera margorður að þessu sinni. Sá kafli frv., sem fjallar um Efnahagsstofnunina, táknar enga breytingu frá því, sem verið hefur, og það nýja hagráð, sem gert er ráð fyrir í frv., að sett verði á fót, það má vissulega segja, að það geti orðið til einhvers gagns, en fremur held ég nú, að það yrði takmarkað, hvað slíkt ráð fengi áorkað, eins og aðstæður eru allar hjá okkur.

Við þessa umr. vildi ég sérstaklega láta þetta koma fram sem mína almennu skoðun. Ég hef ekki á móti því, að Framkvæmdasjóður verði settur á fót með þeim verkefnum, sem mörkuð eru í frv., en ég tel mjög óhyggilegt að blanda honum á nokkurn hátt saman við Seðlabankann og það sé búið að gera of mikið af því að draga Seðlabankann inn í þau verkefni, sem hann á að halda sér frá, og að því leyti til er ég andvígur því ákvæði, sem um það fjallar í þessu frv.