18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Frsm. 1. minni hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Það er að vísu óþarfi, að ég sé að eyða fleiri orðum um þetta. Ég vil aðeins vekja á því athygli, að hæstv. fjmrh. fer nú dálítið á hlið við það, sem ég sagði, í sinni ræðu. Hann segir t.d., að hvaða gagnrýni sem höfð sé uppi, þá séu það engin rök gegn skatti. Það er alveg undir því komið, hvernig sú gagnrýni er. Auðvitað geta í slíkri gagnrýni verið fólgin rök gegn viðkomandi skattformi og það ber svo sannarlega hæstv. ríkisstj. að hlusta á og athuga, ef fram kemur gagnrýni á veikum hliðum í skattlagningu. Þá ber henni að taka það til greina.

Hitt er annað mál að það hafa allir við að athuga skatta yfirleitt, allir gagnrýna skatta almennt, það er annað mál, sem ekki er til umr. hér.

Ég skal lýsa því yfir í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði, að líklega væri ég á móti þessum skatti, sem um er að ræða í 2. gr., að það er ég alls ekki að öllu leyti. Ég samþykkti hér í fyrra þreföldun matsins. En þegar kemur að því að sexfalda fasteignamatið, þá vil ég, að það mál sé athugað betur, sérstaklega hvernig það kemur heim og saman við ýmiss konar ákvæði, sem enn gilda í lögunum um eignarskattinn. Þetta tel ég ekki, að hafi verið athugað nógu rækilega einmitt í sambandi við þetta frv. Hér er slumpað á. Okkur vantar peninga, við þrefölduðum í vor, nú skulum við sexfalda, en einmitt við þá breytingu getur verið ástæða til þess að athuga fleira í sambandi við skattlagninguna á eignir.

Hæstv. ráðh. virtist skilja orð mín þannig áðan, að ég færi fram á það við hann, að hann afturkallaði eitthvað af sínum ákvörðunum. Það gerði ég ekki. Ég bað hann ekki um að afturkalla neitt, ég bað hann aðeins um að athuga sinn gang betur. Það var það, sem ég fór fram á, en ekki að hann afturkallaði neitt. Ef hann vill ekki athuga sinn gang betur, þá getur hæstv. ráðh. staðið upp og lýst því yfir nú, en það var það, sem ég fór fram á, og ekki annað.