06.12.1965
Neðri deild: 25. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Frsm. 1. minni hl. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur nú verið hér í ræðustól og talað alldigurbarkalega um þetta mál og talið eins og hans er vandi, að það, sem við framsóknarmenn segjum hér á Alþ., sé hræsni, í raun og veru ekkert annað en hræsni. Það getur nú verið að svoleiðis málblóm prýði hæstv. landbrh. eða að hans áliti sé það honum til prýði að nota svona munnsöfnuð hér í ræðustól á hv. Alþ. Ég fyrir mitt leyti lít þannig á, að þess háttar munnsöfnuður sé engum til prýði og sízt ráðh., því að vissulega flytja menn hér fyrst og fremst skoðanir sínar og sinna umbjóðenda, en ekki það, sem á að kalla hræsni. Það er ekki hræsni, skoðanir okkar framsóknarmanna hér, og það veit hæstv. ráðh., en hann er með þessu móti að reyna að gera lítið úr því, sem sagt er hér af okkar hálfu, en slíkt hefur engin áhrif, slíkt hefur engin á mig a.m.k. Hann ræddi hér mjög mikið um það, hvað okkar verk hefðu verið slæm í garð landbúnaðarins, á meðan Framsfl. var hér við völd 1957 og 1958. Ég get gert honum það til þægðar að minna á það, að bændunum fækkaði frá því 1957 og þangað til 1963, þeim fækkaði um 689. Af hverju halda menn, að þessi fækkun stafi? Er það af því að bændastéttin hafi það svo gott, að menn vilji þar ekki vera, því að þar sé allt of mikið að hafa? Nei, vissulega er það af öðrum ástæðum. Það er af því, að það hefur stórhrakað aðstöðu manna til þess að lifa og starfa í sveitunum. Ég játa það, að það eru enn þá til bændur í sveitunum, sem hafa það gott, það hefur alitaf verið. Meira að segja á hinum verstu kreppuárum voru til menn, sem leið vel í sveitinni, og eins er enn í dag. Það eru til einstakir menn með einhverja sérstaka aðstöðu eða með sérstakan dugnað, sem hafa það gott í dag. En það gildir ekki fyrir fjöldann, og það þýðir ekkert að mæla alla við einstaka menn. Nei, þeim hefur fækkað á þessum árum um 689. Það er sama sem svona ca. 3000–3500 manna fækkun í sveitum landsins á þessum árum. Það þýðir það. Ég hygg, að það hafi aldrei verið meiri blóðtaka fyrir sveitirnar í fólksfækkun, síðan vesturfarirnar voru mestar upp úr 1890 og þangað til núna á þessum árum. Þetta er það, sem hæstv. landbrh. er að stæra sig af hér. Og hvaða menn voru það, sem fyrst og fremst fluttu í burtu? Það voru fyrst og fremst leiguliðar. Skýrslur Hagstofunnar sýna það, að þeim hefur fækkað miklu meira, leiguliðunum, en sjálfseignarbændunum. Hver er skýringin? Skýringin er sú, að þeir áttu hægara með að komast í burtu, af því að þeir þurftu ekki að selja eignir sínar. Þeir áttu ekki jarðirnar sjálfir og þurftu ekki að selja þær. Þess vegna gátu þeir farið í burtu. Þetta er skýringin.

Það er sannað með skýrslum Hagstofunnar, að meðaltekjur bænda voru á árinu 1963, ég nota aðeins þær tölur, sem komnar eru frá Hagstofunni, þær voru 116.500, meðaltekjur bænda. Þær voru í Norður-Múlasýslu 84 þús., þar voru þær lægstar. Hæstar voru þær í Eyjafirðinum 156.4 þús.

Þetta er nú allur blóminn, sem þessi hæstv. ráðh. hefur til þess að stæra sig af.

Og hvað hafði gerzt í skuldamálum bænda á þessu tímabili, sem hann er alltaf að stæra sig af? Það hafði gerzt það, að á árinu 1957 voru skuldir bænda allar 403 millj., en í árslok 1963 voru þær orðnar 819.6 millj. Þær höfðu vaxið um meira en helming á þessu tímabili.

Og hvernig var með vextina? Meðalvextir bænda voru samkv. þessum skýrslum Hagstofunnar 1957 4.1 %. En hvað voru þeir í árslok 1963? Þeir voru 5.9%. Þar að auki var svo kominn stofnlánadeildarskatturinn, sem réttast er að bæta við vextina. Ég hef ekki tölur um það, hvað það væri þá mikið, ef það væri talið með vöxtunum, en sennilega ekki undir 10%, sem bændur mega greiða til Búnaðarbankans.

Og þá skulum við líta á, hvað bændur hafa gert, hvað þeir hafa lagt sig fram um það að styðja viðreisnina. Hæstv. landbrh. hefur allan þennan tíma verið að hrópa til bænda: Stækkið þið búin og aukið þið framleiðsluna. Og hvað hafa bændurnir svo haft upp úr öllu þessu striti sínu? Ég sé ekki, að það sé mikið, sem þeir hafa haft upp úr því, og ég hef áður komið hér að því. Ég get gjarnan lesið hér upp þær tölur, hvað bændur hafa lagt mikið á sig fyrir þetta. þeir lögðu í fjárfestingu á árinu 1961 277.7 millj. kr., og frá ríkinu fengu þeir 30.5 millj. kr. Hæstv. landbrh. og hans fylgifiskar hér á hinu háa Alþ. höfðu nefnilega sett fasta landbúnaðarvísitöluna, og þannig hafði jarðræktarframlagið ekki fylgt hinni auknu dýrtíð. Það sat fast í fjögur ár. Það voru 30.5 millj. kr., sem ríkið lagði fram á móti þessum 277 millj. Það var allt og sumt, sem það lagði fram. Úr lánasjóðum Búnaðarbankans voru 51.5 millj. og önnur lán, sem bændur fengu á þessu ári, voru 15.1 milljón. En þeir lögðu sjálfir fram, kreistu undan nöglunum á sér, 180.6 millj. til fjárfestingarframkvæmda á þessu ári, 1961. Þannig brugðust þeir við kallinu. Og árið 1962 lögðu bændur í fjárfestingu upp á 285.2 millj.,kr. Þeir fengu frá ríkinu 31.2 millj. kr. Það var allt og sumt í framlögum. 64.3 millj. lánaði Búnaðarbankinn, en 85.4 millj. fengu þeir í víxlum og ýmsum lausalánum, en 104 millj. lögðu þeir fram sjálfir. Þeir höfðu þannig dregið ofurlítið af sér á árinu 1962 við það að leggja fram úr eigin vasa. En svo herða þeir á þessu aftur á árinu 1963, þá leggja þeir í fjárfestingarframkvæmdir upp á 388.8 millj. Þá fá þeir frá ríkinu 44.6 millj., úr lánasjóðum Búnaðarbankans 73.4 millj. og önnur lán annars staðar að í víxlum 73.4 millj., og sjálfir leggja þeir fram 197.4 millj.

Vaxtabyrðin hafði aukizt á þessum árum, sem hæstv. landbrh. er alltaf að guma af, hvað hafi verið góð fyrir landbúnaðinn. Vaxtabyrði bændanna var, eins og ég sagði áðan, 4.1% í árslok 1957, meðalvextir, þ.e.a.s. um 16 millj. og 500 þúsund, sem þeir þurftu að borga, en í árslok 1963 þá er búið að hækka þetta um 200%, þá er vaxtabyrðin orðin 48.3 millj. kr. Þetta eru sporin eftir þennan hæstv. landbrh., og svo segir hann hér, þegar rætt er um þau brbl., sem hann hefur sett hér, að þeir, sem séu á móti slíkum lögum, þeir séu að vinna skemmdarverk gegn bændastéttinni. En í ofanálag á allt, sem ég hef hér verið að lýsa, er búið að taka réttinn af bændunum með þessum brbl., sem ég tel að hafi verið alger óþarfi, og þannig líta bændur yfirleitt á.

Hann spyr, hvort ég hafi rætt við forustumenn Stéttarsambands bænda um þessi mál. Hann telur, að þeir séu allir ánægðir. En hvað gerði stjórn Stéttarsambands bænda? Ég veit ekki betur en að hún mótmælti strax brbl. Það var hennar fyrsta verk, þegar gefin höfðu verið út brbl., þá mótmælti hún þeim. Af hverju var hún að því, ef hún hefur verið með í ráðum í þessu öllu saman? Hann telur, að nál. mitt verði sögulegt plagg, og það tel ég að muni vera alveg rétt. Það er sögulegt plagg, það gefur innsýn í það ástand, sem hæstv. landbrh. og hæstv. ríkisstj. hefur innleitt. Það verður alltaf til sýnis þetta plagg um það, að svo miklu leyti sem það útskýrir það, en það er ekki nema viss þáttur málanna, sem þar er farið inn á. Það hefur engin ríkisstj. hér áður mér vitanlega farið inn á það að svipta bændastéttina samningsrétti. Þetta er sú fyrsta. Þess vegna er þetta plagg sögulegt, það segir frá þessum þætti, og ég er stoltur af því.

Hann segir, að hv. 5. þm. Norðurl. v. (BP) hafi ekki viljað skrifa undir þetta. Nei, hann vildi ekki skrifa undir þetta. Það er helzt að heyra á hæstv. landbrh., að hv. 5. þm. Norðurl. v. sé einhvers konar ráðunautur hæstv. landbrh. og þetta allt saman hafi í raun og veru verið gert í samráði við hann. Það getur vel verið, að þeir eigi einhver launmæli sin á milli um þetta mál stundum, ég skal ekkert segja um það, en svo mikið er víst, að ekki vildi hv. 5. þm. Norðurl. v. skrifa undir neitt nál. með mér. Hann vildi heldur, ef það gæti orðið hæstv. landbrh. til einhvers stuðnings, þá vildi hann vera laus allra mála. Það er náttúrlega eðlilegt, að hæstv. landbrh. þyki vænt um slíkt. Ég skal viðurkenna það.

Eitt af því, sem hæstv. landbrh. ber fyrir sig hér, þegar ég minntist á fundarsamþykkt, sem gerð var norður í Suður-Þingeyjarsýslu, sem bændur í Suður-Þingeyjarsýslu gerðu, þá segir hann, að það sé alvanalegt, að gerðar séu ýmiss konar vitlausar samþykktir á þessum bændafundum. Hann segir: „Það kemur stundum fyrir á bændafundum, að það séu gerðar vanhugsaðar samþykktir.“ Já, það getur vel verið, að þetta sé rétt hjá honum, ég veit ekki um það, ég hygg að bændur yfirleitt vandi til tillögugerðar sinnar. Ég hef a.m.k. vanizt því, þar sem ég er á fundum, að þeir láti sína vitrustu menn fjalla um þau mál. Og ég hef nú aldrei heyrt, að Suður-Þingeyingar væru neinir heimskingjar. Ég veit ekki annað en að það séu menn vel viti bornir og þjálfaðir í félagsmálum, en þó segir hæstv. landbrh., að þetta séu vanhugsaðar samþykktir, sem þeir eru að gera. Og þá hefði ég haldið, að honum fyndist það vanhugsað, sem þeir voru að gera á Egilsstöðum. Þeir samþykktu þar líka um þetta mál, og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, það er 2. liður í þeirra samþykkt:

„Fundurinn lýsir mótmælum gegn brbl. landbrh. og lítur á þau sem mjög óvinsamlega og óþarfa valdbeitingu gegn bændastéttinni.“

Þetta hefði ég nú haldið, að hann teldi vanhugsað. Og 3. liðurinn er þannig:

„Fundurinn gerir kröfu til þess, að fulltrúafundur Stéttarsambands bænda verði kvaddur saman sem fyrst. Sá fundur er réttur aðili til að hafa frumkvæði að nýjum ráðstöfunum og starfsreglum í verðlagsmálum bænda.“

Þetta er sjálfsagt vanhugsað allt saman, en mér finnst fyrir mitt leyti sem bónda, að þetta séu ákaflega eðlileg viðbrögð í þessu máli og ekki nema sjálfsögð. Það getur vel verið, að landbrh. reiðist svona samþykktum og telji þær vera vanhugsaðar. Ég vil segja það, þó að ég sé nú enginn stuðningsmaður hæstv. landbrh., að ég vil ætla það, að honum hafi verið sárnauðugt að gefa þessi brbl. út, ég get ekki ímyndað mér annað. Að gefa út brbl. um það, að það sé tekinn samningsréttur af þessari einu stétt í landinu. Hvers vegna var þessi leið valin? Hvers vegna var ekki reynt að semja við stéttarsambandsstjórnina, og ef það var engin leið að komast að samkomulagi við hana í þetta sinn, úr því að svona stóð á, af hverju var þá ekki reynt að koma upp einhverri yfirnefnd til þess að úrskurða í málinu að þessu sinni, þangað til annar grundvöllur hefði verið fenginn?

Ég verð að álíta, að þetta allt saman hafi verið mikið fljótfærnislega gert. Mér dettur ekki í hug, að það hafi verið gert af neinum illvilja, en ég tel, að það hafi verið gert af mikilli fljótfærni, og ég hygg, að hæstv. landbrh. sjái ekki eftir öðru meira en að hafa farið svona að í málinu.