18.04.1966
Efri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði, sem ég þarf að minna á út af ræðu hæstv. landbrh.

Hann sagði, að Sexmannanefndin hefði eiginlega verið lögfest 1943, en hvernig var það árið 1944 og 1945 og 1946, hvaða aðilar fjölluðu þá um verðlagningu landbúnaðarafurða? Mig minnir ekki betur en að það væri stjórnskipuð n., svo kallað búnaðarráð, sem var skipað af þáv. stjórn, sem kallaði síg nýsköpunarstjórn. Og ég tel það ekki það sama, þó að það séu stjórnskipaðir menn í n. og þeir starfi eftir sömu leikreglum og þeir aðilar, sem öflugur félagsskapur stendur að baki, eins og Stéttarsamband bænda. Ég hygg, að samningsréttur bændastéttarinnar hafi fyrst verið tryggður, þannig að hann kæmi bændum verulega að notum, með setningu framleiðsluráðslaganna 1947.

Þá er það annað atriði í ræðu hæstv. ráðh., þar sem hann eiginlega sneri út úr. Ég sagði, að það hefðu svo seint tekizt samningar um verðlagsgrundvöllinn 1959 og 1960, að bændur hefðu aldrei beðið þess bætur á því verðlagsári, þó ég viðurkenni, að þeir hafa fengið þessa 3.18% hækkun, sem var útreiknuð af Hagstofunni. En hvernig væri ástandið í bændastéttinni, ef alltaf hefði verið útreiknað þeirra verðlag frá ári til árs, en aldrei samið? Í því liggur mismunurinn, að það var ekki samið þá um verðlagið. Það var þessi útreikningur, sem þeir fengu bættan, en þeir hefðu fengið miklu meira, ef það hefði verið samið, því að það hafa aldrei verið gerðir svo lélegir samningar, að ekki hafi eitthvað áunnizt umfram það, sem útreiknað verðlag hefur verið, þegar miðað var við grundvöllinn frá árinu áður.

Á það vil ég minna líka í þessu sambandi, að útflutningsuppbætur eru miklu eldri en frá árinu 1960. Þær eru allt frá árinu 1955, og þó að þær væru ekki beint teknar inn í framleiðsluráðslögin fyrri, voru önnur ákvæði í þeim l., sem áttu að verða bændastéttinni jafnnotadrjúg og útflutningsuppbæturnar. Löggjafinn gerði ráð fyrir því, að bændur mættu leggja ofan á innanlandsverðið, ef þeir næðu ekki upp sama verði fyrir útfluttar afurðir. Út af þessu var farið í mál, og fyrir dómstólum unnu bændurnir málið, en í staðinn fyrir það ákvæði, sem gilti, voru útflutningsuppbæturnar lögfestar, þannig að þar er ekki neitt nýtt af nálinni 1960, heldur voru greiddar útflutningsuppbætur áður, og það voru önnur ákvæði í framleiðsluráðslögunum, sem jafngiltu því sem útflutningsuppbæturnar voru áður og áttu að þjóna sama hlutverki.