14.12.1965
Neðri deild: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er rætt um breytingar á húsnæðismálalöggjöfinni. Margir þurfa að leita eftir byggingarlánum, og þeir eru dreifðir um land allt, en heimili húsnæðismálastjórnar er hér í Reykjavík, svo sem eðlilegt má þykja. Þangað þurfa menn hvaðanæa af landinu að senda lánaumsóknir og þau mörgu skjöl, sem þar með þurfa að fylgja. Þegar svo húsnæðismálastjórn hefur úthlutað lánum, skilst mér, að þau séu öll afgreidd á einum stað, í einum banka í Reykjavík. Hvar sem menn eru búsettir á landinu, þurfa þeir að koma til Reykjavíkur til að veita lánum sínum móttöku eða hafa þar umboðsmenn til að taka á móti lánunum. Mér kemur í hug, að með þessu fyrirkomulagi séu mörgum mönnum gerð óþarflega erfið viðskiptin við húsnæðismálastjórn. Bankaútibú eru nú starfandi mjög víða um land. Gæti það ekki verið hentugt, að húsnæðismálastjórn semdi um það við bankaútibúin, að þau veittu viðtöku lánaumsóknum hver á sínu viðskiptasvæði og þau afgreiddu einnig lánin, eftir að húsnæðismálastjórn hefði samþykkt lánveitingarnar? Starfsmenn bankaútibúanna eru sjálfsagt eins færir um að ganga frá lánsskjölum og starfsbræður þeirra í höfuðborginni. Mér sýnist, að ef þessi háttur væri upp tekinn, mundi það auðvelda mönnum víða um land að ná í byggingarlánin. Ég vildi nú leyfa mér að mælast til þess við þá hv. n., sem hefur fjallað um þetta frv., að hún íhugi fyrir 3. umr., hvort hún gæti ekki fallizt á að flytja till. um ákvæði í frv. um þessa milligöngu bankaútibúanna, sem ég hér hef nefnt.