25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2249 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Þetta eru nú aðeins örfá orð. Ég vil aðeins láta það koma fram núna þegar við þessa 1. umr. um þetta mál, að ég tel stefnt í rétta átt með þessu frv. Ég hef alltaf álitið, að bændur og neytendur eigi að reyna til þrautar samkomulag um afurðaverðið og ef slíkt samkomulag næst ekki, þá eigi með aðstoð hlutlauss aðila að reyna að ná samkomulagi, eins og gert er nú ráð fyrir í þessu frv. Takist slíkt ekki, kemur til kasta yfirnefndar að fella úrskurð, eins og var samkv. eldri lögum, þar sem báðir aðilar eiga fulltrúa, en hlutlaus oddamaður sker úr. Með frv. er búið svo um hnútana, að yfirnefnd verður ekki óvirk, þó að annar hvor aðili neiti að tilnefna mann í hana. Sexmannanefnd og yfirnefnd verða hvorug óvirk vegna þeirra ákvæða, sem nú eru ný í þessu frv.

Ég skal láta það í ljós, að mér finnst til stórbóta, að neitunarvald er afnumið í Sexmannanefnd og tel, að meiri líkur verði þá fyrir því, að n. leggi sig fram um það að ná samkomulagi.

Í 5. gr. eru viðmiðunarákvæði um kaup bóndans, eins og hæstv. landbrh. rakti hér nokkuð, og eru þau nú eins og áður miðuð við verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn. Þessi viðmiðunarákvæði eru ekki nú fremur en áður fullkomlega skýr, svo að um þetta verður á hverjum tíma hér eftir sem hingað til að reyna á samkomulagsvilja og sanngirni aðilanna. En ef slíkt samkomulag næst ekki, kemur til úrskurðar yfirnefndar um þetta.

Ég get tekið undir það, sem hæstv. landbrh. sagði um ýmis ákvæði þarna í þessari gr. um viðmiðunarákvæðin. Ég tel í raun og veru eðlilegast að miða við það kaupgjald, sem gildir á hverjum tíma fyrir þær stéttir, sem miðað er við, og hef út af fyrir sig ekkert að athuga við þá breyt., sem þarna hefur verið gerð.

þegar verið var snemma í vetur að knýja brbl. frá síðasta sumri um landbúnaðarverðið hér í gegnum þessa hv. þd., þá mótmælti ég þeim brbl. fyrst og fremst á þeim grundvelli, að réttur bænda til íhlutunar um sín kjör var með þeim enginn gerður. Ég benti þá á það, að ég vonaðist eftir því, að sú sjö manna n., sem hæstv. landbrh. skipaði í þetta mál, mundi ná samkomulagi og þess vegna væri engin ástæða til þess að knýja brbl. í gegn. Það var hyggilegt, eins og síðar var gert, að láta afgreiðslu þeirra bíða í Ed., og nú er þetta frv. komið fram og búið að ganga gegnum þá hv. d. Æskilegast hefði auðvitað verið, að allir nm. í sjö manna n. hefðu getað orðið sammála en eins og þegar er búið að lýsa og áður var kunnugt, þá er fulltrúi A.S.Í., sem í n. fjallaði um þetta mál, hv. 5. þm. Vestf. (HV), með sérstöðu í málinu og leggur sennilega fram sérálit hér.

Mér dettur nú ekki í hug að ætla það, þó að ég geti fallizt á þær breyt., sem gerðar hafa verið, og sé þeim í raun og veru samþykkur, að þetta mál sé með þessu frv. leyst í eitt skipti fyrir öll og að það megi ekki um það bæta á ýmsan hátt síðar, eftir því sem reynslan kennir. Ég geri ráð fyrir, að það sé almennt álit manna, að þessi lausn sé tímabundin. Höfuðatriðið, fyrir mér a.m.k., í þessu máli er, að með þessu er fullur réttur bænda aftur tekinn til greina og þeim fenginn hann og fengin sú aðild, sem ég tel, að þeim beri til þess að fjalla um sín kjaramál, eins og almennt er viðurkennt að hverri stétt manna og hverjum einstaklingi beri og er auðvitað einn þátturinn í almennum mannréttindum. Þetta er fyrir mér höfuðatriðið í sambandi við þetta mál og eins og ég hef þegar lýst, mun ég styðja framgang þessa frv. hér,. fyrst þessi réttur er fyllilega til greina tekinn.