28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2271 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. (HV), sem gefið hefur út nál. um málið á þskj. 606, er ekki viðstaddur hér, eins og stendur, en ég tel alveg víst. að hann hefði hér gert grein fyrir afgreiðslu málsins í n. af sinni hálfu. En e.t.v. verður hann nú kominn hér áður en umr. lýkur. Ég mun ekki ræða hér um málið af hans hálfu, heldur langaði mig til þess að segja hér nokkur orð almennt um þetta mál og lýsa nokkuð minni skoðun eða afstöðu til þess.

Með frv. þessu er verið að gera ráðstafanir til þess að taka að nýju upp það fyrirkomulag um verðlagningu á landbúnaðarafurðum, sem í gildi hefur verið nú um nokkra hríð, og þó með nokkrum breytingum. Eins og skýrt hefur komið fram hér í umr. um málið, rofnaði grundvöllurinn fyrir verðlagningu landbúnaðarafurða á s.l. hausti, þár sem einn af þeim aðilum, sem áttu að standa að Sexmannanefndinni, sem sé A.S.Í., lýsti því yfir, að það vildi ekki eiga fulltrúa í þessari n. lengur og teldi ekki lengur vera grundvöll til þess að standa að verðlagningunni á þann hátt, sem gert hafði verið þá um nokkurra ára bil.

Nú hefur komið fram í þessum umr. einnig, að afstaða A.S.Í. í þessum efnum er óbreytt. Það er því ekki um það að ræða að setja upp sexmannanefndarskipulagið að nýju, byggt á þeim grundvelli, sem áður var. Þeir, sem standa að þessu frv., gera sér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því, að þeir eru hér að móta allt annað skipulag en ríkjandi hefur verið samkv. lögum. Það á að vísu að koma ný Sexmannanefnd, en það er alveg augljóst, að það er ekki hægt að tala um það, að viðsemjendur fulltrúa bænda um verðlagsmálin verði þeir fulltrúar neytenda, sem miðað hefur verið við fram til þessa. En það er vitanlega hægt að halda í meginatriðum þessu kerfi, sem verið hefur, á þann hátt, að alltaf séu til einhverjir sex menn í nefnd, sem eigi að þinga um verðlagsmálin. En hinu verður að sjálfsögðu ekki neitað, að það er horfið frá þeim grundvelli, sem byggt hefur verið á í þessum málum nú um langa hríð.

Ég tel, að það hafi verið ofur eðlilegt, að til þess leiddi, að taka þurfti til endurskoðunar það skipulag, sem var á verðlagsmálunum, áður en það rofnaði nú á s.l. hausti. Það var ekkert um það að villast, að upp var komin mikil óánægja með þetta skipulag bæði í hópi bænda og í samtökum verkalýðsfélaganna í landinu, sem þarna var stærsti mótaðilinn.

Það var auðvitað alveg ljóst, að eftir að þær breyt. voru gerðar á efnahagsmálum landsins, sem ákveðnar voru með efnahagslögunum árið 1960, og ákveðið var. að ekki mætti miða útreikninga á kaupgjaldi við verðlagsvísitölu lengur, hlaut vitanlega til þess að koma, að þetta gamla skipulag fengi illa staðizt. Þetta kom mjög greinilega fram í ritum bændasamtakanna, en þar var því beinlínis lýst yfir, að það væri skoðun margra í röðum bænda, að með þeirri lagasetningu hefði verið kippt grundvellinum undan því samstarfi, sem annars gat átt sér stað samkv. framleiðsluráðslögunum áður, því að þegar það var orðið þannig, að launþegar höfðu samið jafnvel upp úr vinnudeilu um tiltekna launahækkun og síðan kom á eftir sem beinn fylgifiskur ákveðin hækkun á landbúnaðarvörum, sem vitanlega tók þá aftur til baka talsverðan hluta af þeirri kauphækkun, sem um hafði verið samið, hlaut það að leiða til þess, að óánægja skapaðist í röðum launþega, sem þá áttu ekki lengur neinn rétt til þess að fá laun sín bætt að nýju vegna hækkunarinnar á landbúnaðarafurðum. Eins og ég segi, hafði komið fram mjög greinilega í ritum bænda full viðurkenning á þessu. Reynslan varð líka sú, að það var ekki hægt að standa að verðlagsmálunum á eftir í Sexmannanefnd nema með mestu hörmungum, og það var greinilega um vaxandi úlfúð að ræða á milli bænda og launþega í þorpum og kaupstöðum, eftir að svona hafði verið skipað málum.

Af hálfu bænda komu fram ítrekaðar samþykktir úr ýmsum áttum um það, að breyta yrði gildandi lögum um verðlagsmál. Og hvað eftir annað komu fram kröfur um það, að bændur fengju óskoraðan samningsrétt um mál sín en ekki slíkan takmarkaðan rétt, sem þeir byggju við með ákvæðunum um yfirnefnd samkv. gamla skipulaginu.

Í þessum efnum vil ég m.a. vitna til þess, að samþykkt var gerð á búnaðarþingi árið 1961, þar sem m.a. er sagt um þetta mál orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Skoraði þingið því á stjórn Stéttarsambands bænda að semja frv. til l. um breyt. á nefndum lögum (þ.e.a.s. um verðlagningarmálin), er tryggi aukinn rétt bænda í þessu efni og skapi landbúnaðinum jafnréttisaðstöðu við aðra atvinnuvegi.“

Að þessari samþykkt stóð m.a. forseti Stéttarsambands bænda, sem nú er, Gunnar Guðbjartsson. Úr ýmsum áttum komu aðrar og jafnvel enn þá háværari samþykktir frá bændasamtökum í landinu um það, að ekki yrði lengur unað við það skipulag í þessum málum, sem bændastéttin þá bjó við, sem sagt það, að komið gæti til úrskurðar yfirnefndar um það, hver verðlagningin á landbúnaðarvörum yrði hverju sinni.

Það er því ekkert um að villast, og er hægt að færa fram mörg sönnunargögn um það, að í röðum bænda voru orðnar uppi sterkar kröfur um það að fá breytingar á þessu verðlagsfyrirkomulagi, og óánægja þeirra með verðlagninguna ár eftir ár var slík og síðan málflutningur fulltrúa þeirra, sem að verðlagsmálunum höfðu staðið, að það gat ekki leitt til annars en þess, að það hitti ýmsa af forustumönnum verkalýðssamtakanna, sem m.a. höfðu þarna verið við samningaborðið, og því miður hafði ekki tekizt samkomulag á milli þessara aðila um niðurstöðu í verðlagsmálum. Þetta leiddi síðan til þess, að A.S.Í. tekur þá afstöðu, að það óskar eftir því að draga fulltrúa sinn til baka og vera ekki aðili að þessum verðlagsmálum lengur, og grundvallarástæðan til þess, að þetta er gert, er sú, að forustumenn verkalýðssamtakanna vilja ekki eiga hlut að því, að það skapist fullur fjandskapur á milli vinnandi fólks í sveitum landsins og vinnandi fólks við sjávarsíðuna eða í þéttbýlinu. Ég skal taka það fram í þessu sambandi, að það hefur lengi verið skoðun mín, að það væri æskilegt að efla samstöðu með vinnandi fólki í sveitum landsins og hinu, sem vinnur við sjávarsíðuna, og einnig varðandi verðlagsmál landbúnaðarins þyrfti einmitt að nást samstaða með þessum aðilum. en það verður þá að vera grundvöllur fyrir því, að hægt sé að standa að lausn þeirra mála á þann hátt, að æskileg samstaða geti orðið. Sú reynsla, sem við höfum af verðlagsmálunum á þessum síðustu árum, eða því. hvernig að þeim var staðið og hvernig þau gengu, var sannarlega ekki á þann veg, að hún yki á samstarf þessara stétta, heldur þvert á móti.

Þegar þessi mál voru komin svona, var ofur eðlilegt, að það sjónarmið kæmi upp meðal forustumanna í verkalýðshreyfingunni að taka undir þær óskir, sem mjög höfðu komið fram frá bændum, og bjóðast til þess að standa með því, að þeir fengju fullan samningsrétt um mál sín og semdu við þá aðila um verðlagninguna, sem eðlilegast væri að semja við, eins og málum var þá komið. Það er að vísu rétt, að sú breyting hefur aftur orðið á, að verkalýðshreyfingin í landinu knúði það fram, að vísitölutrygging á kaup var aftur tekin upp. En þó að það fengist, sem skapaði talsvert betri aðstöðu þó, til þess að vinna að þessum málum á gamla grundvellinum, þá er ekkert um það að villast, að verðlagsmálin í landinu, almennt séð, voru orðin þannig, að það var mjög erfitt að komast hjá því að eiga beina samninga við ríkisvaldið í hvert skipti, sem átti að ganga frá verðlagsmálum landbúnaðarins, enda varð líka reynslan sú nú á síðustu árum, að það var ekki hægt að ganga frá ákvörðunum um verð á landbúnaðarvörum án þess að eiga þýðingarmikla samninga um leið við ríkisstj. um ýmsar hliðarráðstafanir. En þegar málin höfðu skipazt á þennan hátt, bregður svo undarlega við, að ýmsum þeim mönnum í röðum forustumanna bændastéttarinnar, sem óánægðastir höfðu verið með verðlagninguna ár eftir ár og gert grein fyrir sérafstöðu sinni og þeirri gífurlegu óbilgirni, sem komið hefði fram af hálfu fulltrúa neytenda, og mjög haldið á lofti því, að bændastéttin jafnvel ein allra í landinu byggi við raunverulegan gerðardóm í kaupgjaldsmálum sínum, snýst allt í einu hugur, og þeir vilja fyrir alla muni halda í gamla kerfið og jafnvel standa að því að þvinga þann aðila inn að samingaborðinu á móti sér, sem mest hafði verið kvartað undan viðskiptunum við áður. Þetta verð ég að segja, að er alveg furðuleg afstaða í mínum augum.

Ég skil mætavel afstöðu hæstv. landbrh., þegar hann vill gjarnan hafa Sexmannanefnd áfram í eitthvað svipuðum búningi og hún var, til þess að hann eigi svolítið betra með að skjóta sér undan hinni beinu ábyrgð í þessu vandasama máli. Hann vill síður mæta fulltrúum bændastéttarinnar við samningaborðið og bera beina ábyrð á samningunum við bændastéttina um verðlagningu landbúnaðarafurða. Hann vill gjarnan hafa einhvern stuðpúða fyrir sér til að taka svona af sér mestu erfiðleikana í þessu efnum. Ég ásaka hann ekki fyrir þetta, síður en svo. Ég skil hans afstöðu mætavel. En afstöðu ýmissa fulltrúa Framsfl. í málinu skil ég ekki með neinu móti og allra sízt á þann hátt, sem afstaða þeirra kemur nú fram í sambandi við stuðninginn við það frv., sem hér liggur fyrir.

Ég tek undir þá skoðun, sem hér hefur komið fram, að langeðlilegast sé, eins og þessum málum er háttað nú í okkar landi, að við tökum upp nokkuð svipað skipulag varðandi ákvörðunina í verðlagsmálum eins og er í gildi í Bretlandi og Noregi. Upplýst er, að þar eiga sér stað samningar á milli samtaka bænda annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar. Þetta hefur hvað eftir annað verið undirstrikað, m.a. í ritum þeim, sem gefin eru út á vegum bændastéttarinnar hér á landi, og þá hefur alltaf verið skrifað um þetta sem tiltölulega æskilegt fordæmi. Þar væri viðurkenndur samningsréttur bænda á alveg ótvíræðan hátt, en hér væru þeir undir þá sök seldir, að ákveðinn yfirdómur gæti ákveðið þeim verðið. En þegar tillögur koma nú fram um það að taka upp skipulag, sem byggt yrði á þessum grundvelli, ja, þá bregður svo við, að þeir fulltrúar, sem áður höfðu mjög fundið til gallanna á því skipulagi, sem við höfum búið við og verið óánægðir með framkvæmdina, geta ekki hugsað sér að taka upp slíkt skipulag, en vilja reyna að þvinga fram gamla skipulagið á nýjan leik, jafnvel þó að þeir viti það, að stærsti aðilinn, sem hefur verið við samningaborðið með þeim, sem sagt fulltrúi A.S.Í., fáist ekki til þess að vera þar við samningaborðið lengur.

En það er meira einkennilegt í þessum málum en það, sem ég hef hér gert aðallega að umtalsefni, og það er einnig varðandi þann búning, sem frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur, því að þar er þó gert ráð fyrir nokkrum breytingum á því fyrirkomulagi, sem gilt hefur í þessum efnum. Það á að vísu að vera Sexmannanefnd, sem á að fjalla um samkomulag, en nú er lagður með þessu frv. nokkuð annar grundvöllur en áður var. Áður hafði verið gengið út frá því, að verðlagningin skyldi fara fram á þeim megingrundvelli, að launakjör bænda yrðu í sem nánustu samræmi við launakjör verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna í landinu, og tiltölulega fastar reglur höfðu skapazt um það, hvernig finna átti út laun þessara stétta og hver viðmiðunin skyldi vera um laun bændanna hverju sinni. Nú er hins vegar lagt til að hverfa frá þessum grundvelli og skv. 5. gr. frv. á grundvöllurinn nú að vera þessi:

„Í verðlagsgrundvelli skal, sbr. ákvæði 6. gr., tilfæra ársvinnutíma bóndans, skylduliðs hans og hjúa á búi af þeirri stærð, sem miðað er við hverju sinni, og virða vinnutíma til samræmis við kaupgjald verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, eins og það er við upphaf hvers verðlagstímabils. Eigi skal þó taka til viðmiðunar ákvæðisvinnu verkamanna og iðnaðarmanna né aflahlut sjómanna.“

Hér er um mjög mikla efnisbreytingu að ræða. Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að þau viðmiðunarlaun, sem gengið hefur verið út frá, hafa að talsverðu leyti verið jafnhá og þau hafa verið vegna þess, að heildarlaun verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna hafa verið lögð til grundvallar, þ.e.a.s. það kaup, sem kemur út úr yfirborgunum fram yfir kauptaxta eða kaupsamninga, eða það kaup, sem kemur fram vegna uppmælingartaxta eða hins tiltölulega háa aflahlutar sjómanna, sem nú hefur verið í nokkur ár. En nú á sem sagt að slá því föstu, að viðmiðunarkaupið verður ekki þetta. Það á að vera hið umsamda tímakaup verkamanna, sjómarina og iðnaðarmanna. Það skal ekki taka tillit til aflahlutar sjómanna. Ja, ég vek aðeins athygli á því, að hér er greinilega verið að slá því föstu, að viðmiðunin á að vera á lægra stigi en verið hefur áður. Og þegar menn hafa svo það einnig í huga, að kauphækkun bæði verkamanna og iðnaðarmanna hefur nú síðustu árin að langmestu leyti komið einmitt fram samkvæmt ýmsum launagreiðslureglum, sem ekki falla inn í hið tiltekna kaup fyrir hvern vinnutíma, þ.e.a.s. allverulegur hluti af laununum hefur fengizt eftir yfirgreiðslureglum eða uppmælingartöxtum eða öðru slíku eða bónus-fyrirkomulagi, þá er vitanlega alveg augljóst mál, að hér er beinlínis stefnt að því að miða við lægra kaup en áður hefur verið. Ég á líka von á því, að þetta sé meining fulltrúa Alþfl., þeir þykist hafa náð þessum árangri í samningunum. En hins vegar koma svo þeir, sem tala hér sérstaklega fyrir hönd bænda, og ég á líka von á því, að þeir segi, að þeir hafi nú ekki verið að semja um lægri viðmiðunargrundvöll en áður hefur verið, m.a. vegna þess, að í þessari gr. er það að finna, að nú skuli tilfæra í sambandi við verðlagninguna ársvinnutíma bóndans og skylduliðs hans við búið og það skuli virða vinnutímann til samræmis við kaupgjald verkamanna og iðnaðarmanna. En hver veit, hvað þetta þýðir? Hefur nokkur reynzt fær um að skýra það hér í þessum umr.? Hver vill skýra þetta? Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um skýringuna. Ég veit það, að einn aðilinn, sem stendur að þessu samkomulagi, meinar þetta og annar meinar hitt. (Gripið fram í: Hvað meinar þú?) Ég á ekki að bera ábyrgð á þessu ákvæði, ég hef ekki sett það hér inn í frv. Þeir ættu að segja, hvað þeir meina, sem að þessu frv. standa. Ég skal fyllilega játa það, að ég veit ekkert, hvað á bak við þetta er, og ég er sannfærður um það fyrir mitt leyti, að í sambandi við þetta ákvæði kaupir bændastéttin köttinn í sekknum. Hún veit ekkert, hvað í þessum sekk er.

Það er vitanlega hægt að deila lengi um það, hvort það viðmiðunarkaup, sem gengið hefur verið út frá á undanförnum árum í sambandi við verðlagninguna á landbúnaðarafurðum, hefur verið of hátt eða of lágt. Ég fyrir mitt leyti er þó á þeirri skoðun, að það sé enginn vafi á því, að reynslan hafi leitt í ljós, að það kaup, sem bændastéttin hefur borið úr býtum miðað við þessa verðlagningu, hefur, þegar á meðaltalið er litið, reynzt lægra en hjá viðmiðunarstéttunum. Ég vil þó ekki taka undir þau orð, sem sumir fulltrúar bænda hafa látið frá sér fara um þetta raunverulega kaup, sem hafi komið út úr verðlagningunni til handa bændum, þar sem þeir hafa dregið sínar ályktanir af skýrslum Hagstofunnar um þessi efni. Ég tel, að þær ályktanir, sem ýmsir fulltrúar bænda hafa dregið af þeim, séu rangar, en hitt segi ég sem mína skoðun, að það muni þó vera þannig, að það kaup, sem bændur hafa að meðaltali fengið á liðnum árum út úr verðlagningunni, hafi raunverulega legið nokkuð fyrir neðan það, sem viðmiðunarstéttirnar hafa haft. Ég tek því það fram sem mína skoðun, að ég sá enga ástæðu til þess og sé enga ástæðu til þess að fara að breyta viðmiðunarreglunni frá því, sem verið hefur.

Ég hef heyrt hér þær skoðanir settar fram áður, að það sé ekki eðlilegt að taka með inn í meðaltalsútreikninginn, þegar viðmiðunarkaupið er fundið, aflahlut sjómanna, vegna þess að hann geti farið upp, geti hækkað mikið, þegar um aflahrotur sé að ræða. Jú, það er nú svo, að það getur vissulega átt sér stað. En ég er á þeirri skoðun, að það sé eðlilegt að taka kaup sjómanna eins og það kemur inn í viðmiðunina, og það sé engin ástæða til að fella þar niður aflahlutarkaupið fremur en annað. Eins og verðlagningin hefur verið byggð upp, er þetta ekki aðeins hagnaður fyrir bændurna. Það er rétt, að það er vitanlega hagnaður fyrir þá við verðlagninguna, þegar kaup sjómanna hækkar mikið vegna hagstæðs afla. En svo kemur aftur hitt, að það getur vitanlega hlaupið á snærið hjá bændum líka. Það getur komið góðæri til landsins ekki síður en til sjávarins. Framleiðsla landbúnaðarins getur stórvaxið á einu ári vegna góðæris. Kjötframleiðslan getur stórlega aukizt á einu ári bara vegna þess, að meðalþungi dilka er mun hærri á einu ári en öðru. Og jarðargróður getur líka stórlega aukizt. Og þegar það gerist, er líka tekið fullt tillit til þess við næstu verðlagningu og þá fá ekki bændur að njóta þessa einir sér, því að í næstu verðlagningu er einmitt miðað við það, að meðalbúið hafi skilað meira en áður var, og þetta er því algjörlega gagnkvæmt út af fyrir sig.

Í mínum augum er spurningin aðeins þessi: Er það réttmætt og er það framkvæmanlegt að reyna að tryggja bændunum í landinu sambærilegt kaup við það, sem aðrar vinnustéttir hafa? Ég held, að þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í sambandi við okkar landbúnað, sé hægt að tryggja bændum þetta kaup. Og þó að við verðum í ýmsum tilfellum að taka á okkur nokkuð hátt verðlag á landbúnaðarafurðum, lít ég þannig á, að talsverður hluti af því sé hreinlega dreifbýlisvandamál, sem verður að borga. Flestar þjóðir, sem reyna að glíma við hliðstætt vandamál hjá sér, verða að verja umtalsverðum fjármunum til þess. Sums staðar í slíkum strjálbýliseða harðbýlishéruðum landanna er það t.d. beinlínis ákveðið, að hið almenna kaupgjald skuli vera miklu hærra á hverja einingu en annars staðar. Ég álít því fyrir mitt leyti, að þó að þurft hafi að leggja nokkuð á sig til þess að standa hér undir tiltölulega háu landbúnaðarvöruverði á undanförnum árum, þá hafi íslenzka þjóðarbúið ekkert látið of mikið til íslenzku bændastéttarinnar, þegar á allt er litið.

Ég veit, að það eru til ýmsir menn og jafnvel heilir flokkar, sem halda, að þeir slái einhverjar pólitískar keilur á því að segjast vilja skammta bændum minna en gert hefur verið. En ég fyrir mitt leyti tek ekkert undir slíkan söng. Ég álít, að hann sé mjög óeðlilegur og rangur. En það hefur nú gerzt í sambandi við þetta stóra hagsmunamál bænda, að nú hafa allt í einu orðið ásáttir þeir aðilar, sem mest hafa óskapazt út í stuðninginn við bændastéttina og hið háa landbúnaðarvöruverð, þeir, sem í tíma og ótíma hafa haldið ræður um vandamál landbúnaðarins, og svo hinir, þessir sjálfstimpluðu bændavinir í ýmsum flokkum, nú hafa þeir orðið ásáttir um það frv., sem hér liggur fyrir. Og það er þá byggi á þeim grundvelli m.a. að ákveða fyrir fram, að viðmiðunarkaupið, sem á að miða kaup bóndans við, skal vera lægra en það hefur verið og inn í þá viðmiðunarupphæð skal ekki ganga sú kauphækkun, sem sannanlega hefur orðið til verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna, en fer hins vegar ekki fram í gegnum kauptaxtana sjálfa. Ef hún fer fram eftir samningum um bónuskerfi, uppmælingarkerfi eða annað slíkt, sem meiri hlutinn af kauphækkuninni er farinn að gera nú, skal ekki tekið tillit til þess samkv. því frv., sem hér liggur nú fyrir.

Það er því í mínum augum alveg furðulegt, að til skuli vera þeir forsvarsmenn bændastéttarinnar, sem nú vilja neita því að fylgja eftir þeim samþykktum, sem ýmis bændasamtök hafa verið að gera á undanförnum árum, að vinna að því að tryggja stéttarsamtökum bændanna fullan og óskoraðan samningsrétt um verðlagsmálin og á þann hátt koma bændastéttinni undan því að þurfa að búa við gerðardómsákvæði, gerðardómsákvæði yfirn., og um leið að leggja það á sig að vilja taka upp skipulag, sem allt bendir til að verði bændastéttinni stórum óhagstæðara en það, sem þó var miðað við áður.

Ég vildi láta þessa afstöðu mína koma hér skýrt fram í sambandi við þetta mál. Ég tel, að eins og þessum málum hefur þokað fram að undanförnu, þá eigi að viðurkenna þá staðreynd, að grundvöllur gamla sexmannanefndarfyrirkomulagsins er hruninn, hann er ekki til staðar lengur. Þeir aðilar, sem þar var byggt á, treysta sér ekki til þess að standa að því lengur. Og þegar svo er komið, er ofur eðlilegt, að byggt verði upp skipulag, sem beinlínis geri ráð fyrir því, að bændastéttin fái samningsaðstöðu við þann eina aðila, sem raunverulega getur samið við hana um þessi mál, eins og nú er komið. Og ég vorkenni ekki fremur íslenzku ríkisstj. og landbrh. hér, en ríkisstj. í Noregi eða Bretlandi og kollegum hans þar að taka á sig þann vanda að standa í samningum við bændastéttina um þessi mál. Það er vitanlega sjálfsagt að reyna að byggja það skipulag upp þannig, að samningar geti átt sér stað á tiltölulega traustum upplýsingagrundvelli, m.ö.o. reynt að bæta upplýsingakerfið um rekstur landbúnaðarins og afkomu hans verulega frá því, sem að nú er. Og það held ég, að yrði líka gert, ef ríkisstj. yrði þarna beinn aðili að samningum, en þá held ég líka, að bændastéttin fengi nokkuð svipaða aðstöðu og aðrar stéttir hafa. Hitt er eins og hver annar fyrirsláttur, sem hér kom fram m.a. hjá hæstv. landbrh., að það sé ekki gott skipulag fyrir bændur að þurfa að semja við ríkið, vegna þess að ríkið sé svo sterkur aðili. Ég hygg, að launasamtökin í landinu verði nú m.a. að semja við ríkið í ýmsum greinum og stundum um mjög mikilvæga kaupgjaldsþætti, þar sem ríkið er alveg beinn samningsaðili. Og ég held, að þetta volduga ríki hafi ekkert kinokað sér við að koma fram að samningaborðinu á beinan eða óbeinan hátt, þar sem launþegarnir hafa átt í hlut. Og sé því slegið föstu fyrirfram með löggjöf, að tryggja skuli bændastéttinni hliðstæð launakjör við tilteknar atvinnustéttir, eins og verið hefur, þá ætla ég, að það sé ekkert of gott fyrir ríkisstj. að beita bændasamtökin í landinu órétti í slíkum samningum. Takist ekki samningar á milli ríkisvaldsins og samtaka bænda, er vitanlega sjálfsagt, að samtök bænda búi við nákvæmlega hliðstæð kjör og samtök launþega í landinu. Þau geta vitanlega auglýst sitt verð á landbúnaðarafurðunum, ef þau vilja. Verkamenn eiga kost á því að auglýsa kaupgjaldstaxta sinn. Það getur hins vegar kostað talsvert að reyna að halda slíkri auglýsingu í fullu gildi. En þá sem sagt sæti bændastéttin nákvæmlega við sama borð og aðrar stéttir í þessum efnum og yrði vitanlega að vinna að sinum hagsmunamálum á eðlilegum stéttarlegum grundvelli. En feluleikur í þá átt, að verið sé að tilnefna, jafnvel með valdi, ákveðna aðila, sem eiga að semja við bændastéttina, og síðan er ákveðinn yfirdómur, sem getur fellt úrskurð, það er vitanlega ekki skemmtilegt fyrirkomulag, eins og greinilega hefur komið fram í afstöðu bænda.

Ég skal ekki að svo komnu máli lengja mál mitt frekar, en vildi gjarnan lýsa þessari almennu afstöðu minni til málsins.