02.05.1966
Neðri deild: 85. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég hef nú litlu að mótmæla hjá hv. 3. þm. Austf., vegna þess að hann hrakti ekki nokkurn skapaðan hlut af því, sem ég hafði sagt, ekki ein einasta röksemd um það, að það væri ekki rétt hjá mér, að samkv. þessum l. væru bændur lægst launaða stétt á landinu. Það kom ekkert málinu við, þó að ég hefði sagt um eitthvert annað atriði, að það yrði kannske ekki farið nákvæmlega eftir því, sem stæði skrifað, það á við allt annan hlut. Ég sé ekki, að ég þurfi að svara neinu viðvíkjandi því. Það er óhrakið, að ef þetta er framkvæmt eins og það er í l., að miðað sé við tímakaup, skráð tímakaup þessara manna og undanþegin ákvæðisvinnan, verður niðurstaðan þessi. Það er í því tilfelli, að það skiptir engu máli, hvað skráð er á pappírnum, tímakaupið, þegar menn vinna fyrir miklu hærra kaupi, og allir vita það. Það má ekki miða við það, t.d. akkorðin, og meira að segja hjá verkamönnunum hérna verður miðað við tímakaupið, en ekki það, sem þeir fá raunverulega. Þetta er alveg óskyldur hlutur og það stendur alveg óhrakið, sem ég sagði. Hitt er svo annað mál, að það má vel vera, að það verði eitthvað hægt á fyrsta ári að blekkja með því að reikna vinnutíma bóndans lengri en hann í raun og veru er, ég skal ekkert segja um það, eða reikna einhverja kostnaðarliði í því. Það er bara út í loftið, það er ekki nein ástæða til að ætla, að það verði í framtíðinni. En ég veit það vel, að Stéttarsamband bænda samþykkir þessa lagagr., hún er orðrétt eins og Sæmundur Ólafsson samdi hana. Það er hara skotið einu orði inn. Það kemur fram í grg., birt orðrétt, hvað Sæmundur Ólafsson lagði til, og það er einu orði skotið inn þar í gr.

Formaður Stéttarsambands bænda sagði hér áðan, að það væri ekki átt við sjómenn, heldur farmenn. Hvað stendur skrifað hér? „Tilfæra ársvinnutíma bóndans, skylduliðs hans og hjúa á búi af þeirri stærð, sem miðað er við hverju sinni, og virða vinnutímann til samræmis við kaupgjald verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna“. Það er ekki minnzt á farmenn. Þáð má vera, að þeir teljist til sjómanna. Svo heldur áfram: „Eins og það er við upphaf hvers verðlagstímabils. Eigi skal taka til viðmiðunar ákvæðisvinnu verkamanna og iðnaðarmanna né aflahlut sjómanna.“ Hvað er verið að gera með að tala um aflahlut sjómanna, ef á að miða við farmenn? Hvers konar endileysuþvættingur er þetta? Og segja, að meiningin sé, að það eigi að miða við farmenn. Því geta menn ekki skrifað það, sem þeir meina. Það er betra, að þeir útskýri ekki málin en koma á eftir og segja, að þeir meini allt annað en er bókfært. Hvaða dómstóll mundi dæma, að þetta væru farmenn en ekki sjómenn? Hvað er verið að tala um aflahlut sjómanna, ef það á ekkert að miða við sjómenn? Það á auðvitað að miða við sjómenn, en ekki víð aflahlut þeirra, eins og sagt er í I. Hvaða dómstóll mundi dæma þarna, að það væri átt við farmenn, en ekki fiskimenn eða síldarmenn? Það er e.t.v. vegur að koma farmönnum undir sjómenn, en það eru fyrst og fremst fiskimennirnir, sem veiða síld og fisk, sem teljast sjómenn. Rétta orðið yfir hina er farmenn, og þá á náttúrlega að skrifa farmenn en ekki sjómenn. Það kann ekki góðri lukku að stýra, þegar lagagr. eru svona dæmalaust vitlaust orðaðar, og svo kemur form. Stéttarsambandsins og segir, að það sé átt við farmenn, þeir eru bara hvergi nefndir nema ef þeir eiga að tilheyra sjómönnum. Því skrifa menn ekki það, sem þeir meina? Það er þá betra að vera ekkert að segja frá því, hvað þeir meina, ef þeir geta ekki skrifað það, sem þeir meina. Þetta er nefnilega að gera hlutina hlægilega. Það stendur þarna alveg skýrum stöfum: það á að miða við sjómenn, en ekki við aflahlut þeirra. Það getur skeð, að dómstólar mundu dæma, að farmenn væru sjómenn, og tel ég það vafamál. Farmenn eru farmenn og sjómenn eru sjómenn, það má vera, en alls ekki, að það sé hægt að ganga fram hjá sjómönnum eða tryggingu þeirra, því að það er einmitt tekið alveg skýrt fram, að það á að miða við sjómenn, en ekki aflahlut þeirra. Þetta er alveg skýrt og þó að Sæmundur hafi orðað till., er það engin afsökun fyrir hina aðilana að vita ekki, um hvað er verið að semja. Þetta vildi ég nú taka fram og þetta staðfestir það, sem ég eindregið undirstrikaði áðan, að það þarf að semja þessar lagagr. þannig, að menn viti, við hvað er átt og hafa þetta svona á sæmilegu máli, það má ekki minna vera. En upphaflega er þetta ekki samið af Stéttarsambandinu, svo að ég er ekkert að bera á þá, að þeir séu klaufar í íslenzku máli, að þeir skrifi ekki það, sem þeir meina. En það er alveg sama, úr því að þeir hafa átt að fá þetta leiðrétt, svo að ekki batnar það nú við þessa útskýringu, þessi 5. gr., og væri sannarlega þörf þá að taka það fram, við hvað átt er, fyrst þessi skýring er nú komin á því. Það mætti ekki minna vera en nefna farmenn a.m.k. Auk þess eru farmenn nú það lágt launaðir, að þeir hafa sagt mér, að það væri ómögulegt að lifa á því nema þeir hefðu einhver hlunnindi og það var náttúrlega smyglið, sem þeir höfðu. Ég veit ekki, hvort þetta breytist eitthvað, það verði tekið harðara á því, þegar verið er að hækka fastakaup við þá, og það sagði mér einn maður, sem stjórnar millilandasiglingum, að það væri ómögulegt annað en hækka kaupið við þá, ef þeir fengju engu að smygla. Þetta væri talið eins og nokkurs konar liður í kaupgjaldi þeirra. Ég býst við, að það verði aldrei dæmt bændum til hlunninda.

Þá kem ég að a-liðnum. Það kom fram hjá formanni Stéttarsambands bænda, að það væri ætlunin að taka af verði sumarmjólkurinnar, að mér skildist, til þess að bæta upp útflutningsvörur. Ekki batnar það við það. Því í ósköpunum er þetta þá ekki orðað eins og það á að vera þar líka, að ákveða mismunandi hátt útborgunarverð, mismunandi hátt útborgunarverð til framleiðenda og nota þann mismun til verðuppbóta á útfluttar vörur? Því er þetta ekki tekið fram í stað þess að segja að ákveða mismunandi hátt útborgunarverð til framleiðenda eftir árstímum? Þetta er sérstakur liður. Það er hvergi tekið fram í þessari mgr. eða þessum hluta hennar, að þetta eigi að vera til útflutningsuppbóta. Ég skildi þetta þannig, að það væri tekið jafnt af mjólkurlítra allt árið, en bara að framleiðslufélögunum væri sagt að greiða mismunandi verð og svo kemur: „og innheimta verðjöfnunargjald af innveginni mjólk.“

Mér skilst, að það eigi að vera af öllu mjólkurmagninu, en það virtist koma fram hjá formanni Stéttarsambandsins, að það ætti fyrst og fremst að nota þennan verðmun, sem væri á útborgunarverðinu, til þess að bæta upp útflutningsvörurnar. Þá fer nú ekki að batna, ef á að taka það svo að segja allt af sumarmjólkinni, sem mér skilst, að eigi að vera lægri, taka svo að segja allt til útflutningsuppbótanna. Það gæti nú bara orðið skildingur. Ef ætti að bæta upp útflutningsafurðirnar, gætu þetta orðið svona 2 kr. á ltr. Ég held, að það fari að verða bezt fyrir okkur Húnvetninga og Skagfirðinga að taka höfuðin af þessum beljum okkar. Það skánar sannarlega ekki við þessa útskýringu. En ef menn ætlast til þess, að þetta sé framkvæmt á þennan hátt, því í ósköpunum er þetta ekki orðað svo, að það sé hægt að skilja það, en ekki annaðhvort svo óljóst eða bara alveg öfugt við það, sem á að vera? Ég hef ekki farið fram á neitt annað en að þetta sé gert sæmilega skiljanlegt og auk þess álít ég, að það sé ekki verjandi að ákveða kaupgjald bænda miðað við skráð kaup verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna, þegar aflahlutur eða ákvæðisvinnan er tekin frá, því að með því móti, ef hin atriðin eru rétt reiknuð hjá bændum, vinnutíminn við að fóðra hverja skepnu og vinnutíminn við að afla heyja, ef það er rétt reiknað, sem á náttúrlega að verða í framtíðinni og engin mynd annað en gera það og þetta þarf að rannsakast alveg hlutlaust, eru bændur, eins og nú er, tvímælalaust lægst launaða stéttin í landinu. Við það stend ég. En hitt er annað mál, að það má vera, að það verði einhverjir aðrir liðir rangt reiknaðir, svo að það komi fram núna á 1. eða 2. ári, en til lengdar verður það ekki, þannig að ef bóndinn á að fá svipað og aðrir, þá verðum við að taka breiðari grundvöll en aðeins tímakaup verkamanna, iðnaðarmanna og tryggingu eða við skulum segja skráð kaup háseta. En svo eru ýmsir liðir, sem þeir hafa í millilandasiglingum. Í fyrsta lagi eru nú, hugsa ég, þessir menn í millilandasiglingum oft engir kappar, þannig að ég er ekkert viss um, að það yrði nú mikið úr þeim við búskap og í öðru lagi hafa þeir ýmsar aukasporzlur, sem hvergi eru skráðar og ómögulegt verður að komast eftir. Það vita allir menn, þó að það sé ekki viðurkennt opinberlega.