19.04.1966
Neðri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

149. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Samgmn. hefur haft þetta mál til meðferðar og fengið um það umsagnir Félags sérleyfishafa og skipulagsnefndar fólksflutninga. N. varð ekki sammála um afgreiðslu þess, og fylgi ég hér úr hlaði áliti minni hl. n.

Við, sem minni hl. skipum, teljum, að á frv. séu alvarlegir ágallar, sem séu þess eðlis, að ekki sé ástæða til að samþ. frv., ef þeir fást ekki leiðréttir. Í heild virðist okkur, að samþykkt frv. skipti ekki mjög verulegu máli, enda þótt segja megi, að það horfi til einhverra bóta að fá leiðréttingu á skipulagi þessara mála. Það virðist vera helzti tilgangur frv. að tryggja, að ekki aðeins áætlunarferðir og fastar ferðir hér innanlands verði bundnar við sérleyfi frá ríkisstj., heldur og hvers konar hópferðir á fólksflutningabifreiðum, sem taka fleiri farþega en 8. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að þegar ráðh. veitir slíkt leyfi, megi hann binda það ýmsum skilyrðum. Í 2. gr. h-lið segir, að hann megi binda það því skilyrði, að sérleyfishafi sé skuldbundinn til að kaupa þær fasteignir og bifreiðir, sem notaðar hafa verið áður til rekstrar á sérleyfisleiðinni og teljast nauðsynlegar og henta viðkomandi rekstri. Einnig kemur það fram í sömu grein, að meðal þeirra skilyrða, sem ráðh. getur sett, er það, að réttindi til hópferðaaksturs séu því aðeins veitt, að rétthafi skuldbindi sig til að hafa bifreiðir sínar á afgreiðslustöðum, sem skipulagsnefnd fólksflutninga samþykkir.

Við, sem skipum minni hl. n., teljum, að bæði þessi skilyrði, sem ráðh. er heimilt að setja, séu óeðlileg. Við sjáum ekki, hvaða ástæða á að vera til þess, að útgáfa sérleyfis sé bundin við eigendaskipti á bifreiðum og fasteignum, enda liggur í augum uppi, að slíkar eignir geta verið í mismunandi góðu ástandi, þegar nýr sérleyfishafi tekur við. Um þetta atriði varð m.a. ágreiningur í skipulagsnefnd fólksflutninga, og minni hl. n. segir um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Ég tel óeðlilegt, að skapaður sé möguleiki fyrir því með ákvæði í l., að ráðh. og skipulagsnefnd séu áður en varir farin að sýsla með eignasölu. Ég tel fráleitt, að þótt einhver maður, sem hefur tekið að sér sérleyfisakstur og hann af einhverjum ástæðum vill hætta þeirri atvinnu, t.d. vegna þess að bifreiðakostur hans er orðinn of gamall og of slitinn og hann telur hagkvæmara að festa fé sitt í öðru en að endurnýja bifreiðakostinn, hafi fortakslaust endursöluákvæði sérleyfi. Það mætti fyllilega gera ráð fyrir því, að sumir sérleyfishafar vildu jafnvel losna við sérleyfið, ef þeir ættu það víst, að um leið og þeir segðu því lausu, gætu þeir selt hinar gömlu og úr sér gengnu bifreiðar.“

Um seinna skilyrðið, sem ég nefndi, viljum við segja það, að við teljum ástæðulaust að keppa að því, að hver einasta hópferð, sem farin er í landinu og fellur undir hin víðu ákvæði þessara l., að hver einasta slík hópferð sé endilega farin frá fastákveðnum afgreiðslustöðvum, enda þótt við viðurkennum hins vegar, að fastar ferðir og áætlunarferðir sé nauðsynlegt að binda við slíkar stöðvar.

Í þriðja lagi teljum við, að í 3. gr. frv. sé um óeðlilega tvísköttun að ræða, þar sem gert er ráð fyrir, að þessir hópferðaréttindahafar greiði ekki aðeins sérleyfisgjald, heldur einnig sérstakt árlegt gjald fyrir hópferðaréttindi. Þetta atriði gagnrýndi minni hl. í skipulagsnefnd fólksflutninga, Einar Ögmundsson, alveg sérstaklega og taldi það mjög ranglátt ákvæði. Við erum á sama máli í minni hl. n. og viljum, að þetta ákvæði sé fellt niður.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, þar sem á nál. 496 kemur glöggt fram, hverjar brtt. við gerum og ég hef hér lýst.