02.05.1966
Efri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

99. mál, ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta frv. til meðferðar, og eins og nál. á þskj. 665 ber með sér, leggur n. til, að frv. verði samþ., en einn nm., hv. 6. þm. Sunnl., var fjarverandi, þegar n. afgreiddi málið, og hefur hann því að sjálfsögðu óbundnar hendur um afstöðu til þess.

Ég vil í byrjun taka það fram, að ég harma það og veit mig þar mæla fyrir munn allra nm., einnig þess eina og kannske ekki sízt, sem fjarstaddur var, þegar n. afgreiddi málið, hversu stuttan tíma n. hefur haft til þess að athuga þetta mál. Það hefur borizt hingað í hv. d. alveg á síðustu dögum, en er búið að liggja alllengi í Nd. En hér er um allflókið mál að ræða og mál, sem ekki verður talið neitt smámál. Það hefur mikla þýðingu fyrir uppbyggingu ríkisreikningsins og jafnvel afgreiðslu fjárl. í næstu framtíð. Vona ég, að forðast verði í framtíðinni að viðhafa slík vinnubrögð, en ég vil taka það fram, að hæstv. fjmrh. á hér ekki sök á, því að málið var lagt fyrir Alþ. í tæka tíð til þess að hægt hefði verið að athuga það sómasamlega í báðum d. En með tilliti til þess, að hér er um verulegar umbætur að ræða í hinu opinbera bókhaldskerfi, bæði að dómi þeirra sérfræðinga, sem unnið hafa að frv. þessu, svo og að dómi hv. fjhn. Ed., sem einróma mælti með frv., taldi fjhn. rétt að afgreiða málið þrátt fyrir hinn allt of stutta tíma, sem hún hefur haft það til meðferðar. Þó að ég hafi, eins og aðrir, haft lítinn tíma til þess að kynna mér till. þær, er í frv. felast, í þeirri mynd, sem þær eru nú, vil ég þó fara örfáum orðum um þær mikilvægustu endurbætur, sem í frv. felast, þó að mér sé ljóst, að það bætir ekki hv. þdm. það upp, hve stuttan tíma d. hefur haft málið til meðferðar.

Til tiltölulega skamms tíma hefur sú skoðun verið ríkjandi bæði hér á landi og annars staðar að líta beri á ríkið sem hvert annað fyrirtæki, þannig að sama mælikvarða beri að leggja á það, hvort ríkisbúskapurinn sé rekinn með heilbrigðum hætti eins og ef um einkafyrirtæki væri að ræða. Tekjuöflun skyldi standa undir rekstursútgjöldum, en til fjárfestingar væri eðlilegt að taka lán innlend eða erlend. Mælikvarðinn á það, hvort fjárlagaafgreiðslan væri varleg eða ekki, var þá sá, hvort þau voru afgreidd án reksturshalla eða tekjuhalla.

Á heimskreppuárunum eftir 1930 hefur sú skoðun hins vegar rutt sér til rúms, að hlutverk ríkisbúskaparins væri ekki eingöngu að veita borgurunum þá þjónustu, sem væri þess eðlis, að hið opinbera gæti betur látið hana í té en einkaaðilar, heldur bæri jafnframt að líta á ríkisbúskap og fjárlög, sem hagstjórnartæki, sem annars vegar væri beitt til þess að koma í veg fyrir óæskilegan samdrátt í atvinnulífinu og atvinnuleysi, en hins vegar að hamla gegn verðbólguþróun. Þessi skoðun, sem er í meira samræmi við nútímaviðhorf, fór fyrst að hafa áhrif á fjárlagaafgreiðslu hér á landi kringum 1950. Áður hafði það verið talið nægja, til þess að fjárlagaafgreiðsla væri með sómasamlegum hætti, að þau væru tekjuhallalaus, þannig að fjár til allrar fjárfestingar mætti afla með lánum. Þetta þýddi auðvitað, að á fjárl. var að jafnaði stórfelldur greiðsluhalli, og átti það sinn þátt í því öngþveiti í efnahagsmálum, sem hér varð á árinu 1947 og lýsti sér í gjaldeyrisskorti og vöruskorti og strangari höftum og skömmtun en áður hafði þekkzt. Síðan hefur jafnan verið lögð áherzla á það, að fjárlög væru afgreidd án greiðsluhalla, sem talið hefur verið, að tryggði það, að ríkisbúskapurinn hefði ekki verðbólguáhrif.

En þó að flestar eða allar þær ríkisstj., sem síðar hafa setið að völdum, hafi fylgt þeirri stefnu í fjármálum, hefur bókhald ríkisins ekki enn verið endurskipulagt með tilliti til þessa. Það mundi hins vegar gerast með samþykkt þessa frv. og endurskipulagningu ríkisbókhalds og ríkisreikninga í samræmi við það. Jafnframt mundi ríkisreikningurinn framvegis gefa miklu fyllri og gleggri upplýsingar um ríkisbúskapinn en áður hefur verið.

Af nýjungum, sem með samþykkt þessa frv. væru uppteknar, má nefna þessar helztar: Ríkisreikningurinn skal framvegis skiptast í tvo hluta, A- og B-hluta, samkv. 6. gr. frv., þar sem A-hluti nær yfir fjárreiður ríkissjóðs og ríkisstofnana en B-hluti yfir ríkisfyrirtæki og sjóði í ríkiseign, þ. á m. almannatryggingar. Þá eru í öðru lagi settar fastar reglur um það, hvenær reikningum ríkisins skuli lokað og hver frávik megi frá því leyfa í undantekningartilvikum, en áður var það raunverulega á valdi fjmrh. að bíða með lokun reikninga, þangað til þeir sýndu niðurstöðu, er hann taldi viðunandi, og gefur auga leið, að slíkt gat gert ríkisreikningana meira eða minna ósambærilega ára á milli. Þá er nú í þriðja lagi gefin ákveðin skilgreining á hugtakinu greiðslujöfnuður. Má að vísu um það deila, hvort nota skuli nákvæmlega þá skilgreiningu, sem I. gefa eða einhverja aðra, en að mínu áliti skiptir það ekki meginmáli, heldur hitt, að ákveðin skilgreining sé gefin í þessu efni, svo að ekki verði lengur um það deilt, hvað um er að ræða. Þá gerir frv. enn fremur ráð fyrir því, að framvegis verði gefin séryfirlit yfir ýmsa þætti ríkisreikninganna, sbr. 45. og 61. gr. frv., eftir hagrænu eðli þeirra, og gerir þetta upplýsingar ríkisreikningsins miklu nothæfari en áður hefur verið við gerð þjóðhagsreikninga og þjóðhagsáætlana.

Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um hið nýja skipulag, sem hér er gert ráð fyrir, að upp verði tekið. Vissulega tryggir það landinu út af fyrir sig ekki betri eða heilbrigðari fjármálastjórn en hið gamla fyrirkomulag gerði. Slíkt getur auðvitað engin nýskipan opinherrar reikningsfærslu gert, en hitt má fullyrða, að ríkisreikningurinn verður framvegis betri og fullkomnari skýrsla um ríkisbúskapinn en hingað til hefur verið.

Herra forseti. Samkv. þessu leggur fjhn. til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.