18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

68. mál, almannatryggingar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér að láta í ljós, að ég tel, að hér sé stórt mál á ferðinni. Ég álít þá breyt., sem felst í þessu frv., vera spor í rétta átt, og tel, að hér sé um að ræða endurbót á tryggingakerfinu. Ég tek alveg undir það, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að læknisvitjanasjóðirnir hafa reynzt ófullnægjandi, þó að það hafi að baki þeim búið góð hugsun, og ég tel þá breyt., sem ráðgerð er í þessu efni, eðlilega. Ég tel þess vegna sjálfsagt að veita þessu frv. allan stuðning og alla þá fyrirgreiðslu, sem hægt er, og ég get um leið látið í ljós, að hið sama á við um það frv., sem næst stendur hér á dagskrá á eftir.