29.11.1965
Efri deild: 21. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

68. mál, almannatryggingar

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um viðauka við 49. gr. l. nr 40 1963, um almannatryggingar, og breyt. og viðauka við 78. gr. sömu laga. Þegar 1. umr. fór fram hér í þessari hv. deild, gerði hæstv. ráðherra grein fyrir efni frv. Til upprifjunar skal þó enn rakið efni þess í höfuðdráttum.

Efnisatriði má segja að séu í fyrsta lagi þrjú, og þá fyrst og fremst, að í frv. felst það, að sjúkrasamlögum skuli skylt að greiða verulegan hluta af óhjákvæmilegum ferðakostnaði lækna til sjúklinga og flutningskostnað með sjúklinga í sjúkrahús. Héraðssamlögin skulu síðan endurgreiða sjúkrasamlögunum 3/4 hluta þess kostnaðar, sem á þau fellur vegna ferðakostnaðar samlagslækna og flutningskostnaðar sjúklinga, eftir sömu reglum og það endurgreiðir sjúkrahúskostnað. Sum sjúkrasamlög munu nú þegar greiða hluta af þessum kostnaði, en slíkt hefur þó ekki verið lögskipað, svo sem ráð er fyrir gert í frv. Kostnaður sá, sem hér um ræðir, er að sjálfsögðu nauðsynlegur, eins og læknisþjónustan sjálf, og því eðlilegt, að sjúkratryggingarnar nái einnig yfir hann.

Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir, að læknisvitjanasjóðir verði lagðir niður. Skulu þeir renna til viðkomandi héraðssamlaga eða sjúkrasamlaga. Er það eðlileg afleiðing þess, að frv. gerir ráð fyrir, að sjúkrasamlögin taki að sér hlutverk læknisvitjanasjóða, og ekki þykir æskilegt, að fleiri aðilar hafi með höndum sama hlutverk á þessu sviði.

Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir, að Tryggingastofnun ríkisins annist styrkveitingar til örkumla manna og fatlaðra til kaupa á gervilimum, umbúðum og öðrum slíkum tækjum, svo og til lamaðra, sem þarfnast æfingarmeðferðar, nudds og rafmagnsaðgerða utan sjúkrahúsa. Þessar styrkveitingar eru nú á vegum ríkissjóðs skv. l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Talið er eðlilegt, að Tryggingastofnun ríkisins hafi á sínum vegum kostnað þann, sem l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla leggja á ríkissjóð, og er því frv. þetta spor í þá átt, að Tryggingastofnunin taki þetta verkefni að sér.

Heilbr.- og félmn. hefur fjallað um frv. og leggur einróma til, að það verði samþ. Einn nm., hv. 4. þm. Vestf., var fjarstaddur, þegar n. afgreiddi málið frá sér. Gildistökuákvæði frv. er 1. jan. 1966. Tími til stefnu er því skammur og því æskilegt, að frv. sæti ekki ástæðulausum töfum í meðferð Alþingis.