29.04.1966
Neðri deild: 81. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2408 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

7. mál, atvinnuréttindi vélstjóra á íslenskum skipum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er nú til umr., um atvinnuréttindi vélstjóra á íslenzkum fiskiskipum hefur Ed. afgreitt eftir alllanga athugun á málinu og afgreitt það óbreytt, eins og það var upphaflega lagt fyrir. Frv. þetta er samið af n., sem skipuð var í febrúarmánuði 1964, en í henni áttu sæti Jón Þorsteinsson alþm., Gunnar Bjarnason skólastj., tilnefndur af Vélskólanum í Reykjavík, Guðmundur Pétursson vélstjóri, tilnefndur af Vélstjórafélagi Íslands, Jón S. Pétursson, tilnefndur af Mótorvélstjórafélagi Íslands, og Magnús J. Magnússon forstöðumaður mótornámskeiðanna, tilnefndur af Fiskifélagi Íslands. En hæstv. menntmrh. skipaði þessa n. Í stað Jóns S. Péturssonar tók varamaður hans, Halldór Guðbjartsson vélstjóri, sæti í n. og starfaði í henni þar til hún lauk störfum. Í tímabundinni fjarveru Guðmundar Péturssonar tvisvar sinnum starfaði í hans stað Örn Steinsson vélstjóri. N. vann mjög ötullega og vandlega starf sitt, og er sérstök ástæða til að færa henni þakkir fyrir störfin, sem voru mjög vandasöm og margbrotin.

Þetta frv. er eins konar nauðsynleg afleiðing af aðalstarfi n., sem var að semja frv. til l. um vélstjóranám, sem nú er um það bil að hljóta endanlega afgreiðslu Alþ. Í samráði við siglingamálaráðun. samdi n. síðar einnig það frv., sem hér er til umr., og leitaði að lokinni fyrstu samningu frv. álits ýmissa þeirra samtaka, sem málið er skyldast, svo sem Alþýðusambands Íslands, Landssambands ísl. útvegsmanna, Fiskifélags Íslands, skipaskoðunarstjóra, Vélstjórafélags Íslands, Mótorvélstjórafélags Íslands, lögskráningarfulltrúans í Reykjavík, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Frá flestum þessum aðilum bárust svör og ýmsar óskir og ábendingar um breytingar. Nokkrar af aths. aðila kveðst n. hafa tekið til greina og séu þær efnislega í gr. frv., en enn aðrar taldi n. sér ekki fært að taka undir. Eðlilegt er, að þn. sú, sem málið fær nú til umr., athugi þetta enn frekar, þó að málið hafi hlotið í Ed. allnána athugun og yfirvegun.

Höfuðbreytinguna í þessu frv. frá gildandi I. verður að telja þá stigbreytingu réttinda, sem fæst eftir próf í hverju hinna fjögurra námsstiga Vélskólans, svo sem þegar er kunnugt af skýringum með því frv. Hin tvenns konar réttindi mótorvélstjóranámskeiðs á vegum Fiskifélagsins yrðu með samþykkt frv. lögð niður, og reynslutími er styttur, en þess í stað eru gefin réttindi, svo sem fyrr er greint, eftir próf í hverju hinna fjögurra námsstiga, sem frv. þetta og frv. um Vélskólann gera ráð fyrir, eða eftir hvern vetur. Það skilyrði fyrir upptöku í Vélskólann að hlutaðeigandi hafi lokið iðnnámi í járnsmíði er og einnig fellt niður með ákvæðum frv. Þó verður sá vélstjóri, sem fær hæstu réttindi, áður að hafa lokið sveinsprófi í vélvirkjun, en því prófi má hann ljúka, eftir að hafa lokið vélskólanámi.

Um þegar áunnin réttindi vísast til 16. gr. frv., og hún staðfestir hugmyndir undirbúningsnefndarinnar um, að enginn einstaklingur, sem samkv. gildandi l. hefur tiltekin réttindi, lækkar í sessi frá þeim réttindum, sem hann nú hefur í dag. Lægstu og hæstu réttindi hækka að mun, og viðmiðun í þeim efnum er ekki lengur vélategund, eins og verið hefur, það er, hvort vélin er gufuvél eða mótorvél eða tonnafjöldi skips, heldur er hestaflafjöldi eða orka vélarinnar ein látin ráða, í hvaða skipi sem vélin annars er og hvert sem verkefni skipsins er.

Skylt er þó að taka fram, að allur samanburður á ákvæðum þessa frv. og gildandi l. er ákaflega erfiður, því að með frv. þessu er gerð skýr aðgreining á þremur skipategundum eftir verkefni þeirra, þ.e. fiskiskip, flutningaskip og farþegaskip. Núgildandi l. frá árinu 1946 með breytingum síðar eru hins vegar grundvölluð eftir vélartegund í tvo flokka, mótorskip og gufuskip. Er hér tekið tillit til þess, að hestaflafjöldi véla í skipum fer sífellt hækkandi frá því, sem áður var, og skipin fara einnig stækkandi. Eimskipum eða gufuskipum er nú sem óðast að fækka, án þess að sjálf skipin fari úr umferð. Í fjölmörgum eldri gufuskipum hefur verið skipt um vélar og mótor- eða dísilvél sett í stað hinna eldri gufuvéla, auk þess sem öll endurnýjun flotans er nánast með mótorvélum. Með þessar staðreyndir í huga væri fjarstæða að viðhalda hinni eldri viðmiðun um sjálfa vélategundina, þegar um er að ræða flokkun á atvinnuréttindum. Við þessa ákvörðun sína hafði n. hliðsjón af reglum um atvinnuréttindi vélstjóra hjá Dönum og Norðmönnum.

Reglum þessa frv. um lágmarksfjölda vélstjóra er ekki mikið breytt frá núgildandi I. Þó er yfirleitt um lækkun að ræða á skipum með eða undir 4000 hestafla vélar. Umtalsverðar breytingar eru hins vegar gerðar á ákvæðunum um starfstíma og siglingatíma, og er meginstefnan í þá átt að veita réttindi eftir skemmri starfstíma en áður við allar aflminni vélar. Því hærra námsstigi sem vélstjóri hefur lokið, þeim mun fljótari er hann að vinna sér inn réttindi til yfirvélstjórnar við sömu vélarstærð.

Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til þess, herra forseti, að ræða einstök ákvæði frv. frekar, þar sem mjög greinargóðar skýringar fylgja frv. og aths. þess við einstakar greinar. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. Ég vil ennfremur leggja áherzlu á það, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, þó að langt sé á það liðið, enda mikil áherzla á það lögð af hlutaðeigandi samtökum, sem af skiljanlegum ástæðum vilja sem fyrst fá að vita um þær breytingar, sem frv. hefur í för með sér, ef samþ. verður.