28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2421 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

188. mál, landshöfn í Þorlákshöfn

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er komið frá hv. Ed. og var samþ. þar samhlj. með þeirri breyt. einni, sem frá greinir á þskj. 584, um að fjölga stjórnarmönnum landshafnarinnar úr 5 mönnum í 7 menn. Að öðru leyti var frv. samþ. eins og það var upphaflega fram lagt.

Frv. er að meginefni það, að þær framkvæmdir, sem þegar hafa verið gerðar í Þorlákshöfn og fyrirhugaðar eru, verði gerðar að landshöfn, þeirri þriðju í röðinni.

Þegar undan eru skildar aðgæzluverðar hafnir á Eyrarbakka og Stokkseyri og þær byrjunarframkvæmdir, sem átt hafa sér stað í Þorlákshöfn, er ennþá um algert hafnleysi að ræða á allri suðurströnd landsins, vestan frá Grindavík austur að Hornafirði. Úti fyrir landinu eða í Vestmannaeyjum er að vísu fullkomin og ágæt höfn, en þar er um að ræða stærstu verstöð landsins með sífellt stækkandi vélbátaflota, og vart verður hægt að gera ráð fyrir, að sú höfn annist mikla þjónustu umfram þá, sem nauðsyn ber til að veita heimaflota Vestmanneyinga, ásamt óumflýjanlegri þjónustu við kaupskipaflota þar.

Það er óþarft að fara mörgum orðum um það, hver nauðsyn er á að úr þessum vanda verði bætt fyrir suðurströnd landsins. Þar eru ein fengsælustu fiskimið landsins og hafa stundum verið nefnd einar gjöfulustu gullkistur íslenzks sjávarútvegs.

Á tímum áraskipanna var útræði frá Þorlákshöfn verulegt, en lagðist niður með tilkomu vélskipanna. Þrátt fyrir þær mismunandi öru breytingar, sem átt hafa sér stað á stærð og útbúnaði veiðiflotans, má segja, að umræður um staðsetningu hafnar í Þorlákshöfn hafi verið uppi allt frá síðustu aldamótum, og er merkust sú áætlun, sem N. B. Kirk verkfræðingur gerði um framkvæmdir í Þorlákshöfn árið 1919 og frá er skýrt í grg. frv. Framkvæmdir samkv. þessari áætlun urðu þó minni en ráð hafði verið fyrir gert. Byggðir voru nokkrir skjólgarðar, er bættu lítið eitt lendingarskilyrði í svokallaðri Norðurvör í Þorlákshöfn, enn fremur byrjað á smíði Suðurgarðs.

Árið 1946 taka sýslurnar, þ.e. Árnes- og Rangárvallasýslur, höndum saman um að hrinda framkvæmdum af stað á ný. Jörðin Þorlákshöfn er þá keypt og nauðsynlegar endurbætur eru gerðar á þeim litlu mannvirkjum, er fyrir voru, ásamt vegagerð til Þorlákshafnar. Þær framkvæmdir, sem með þessum hætti eiga sér stað í Þorlákshöfn til ársloka 1960, kosta um 14 millj. kr., og er greinilega frá þeim skýrt í grg. frv.

Yfirstandandi framkvæmdir í Þorlákshöfn hefjast svo með útboði Vitamálaskrifstofunnar árið 1961 með undangengnum undirbúningsrannsóknum. Samkv. útboði þessu var ætlazt til, að höfnin myndaði 1900 fm athafnasvæði fyrir vélbáta. Verksamningur samkv. útboði þessu var undirritaður við fyrirtækið Efrafall s.f. í maí 1962, og hófust framkvæmdir skömmu síðar. En ári eftir undirritun þessa samnings er aftur undirritaður viðbótarsamningur, sem gerir ráð fyrir tvö þús. fm aukningu á athafnasvæði hafnarinnar.

Á grundvelli framangreindra samninga hafði hinn l. des. s.l. verið unnið fyrir nálega 50 millj. kr. Þrátt fyrir þessar háu fjárhæðir telur vitamálastjórnin, að enn muni skorta 30 millj. kr., miðað við núverandi verðlag, til að ljúka þeim áfanga, sem boðinn var út 1961.

Af framangreindum tölum er ljóst, að þau héruð, sem hér eiga landfræðilega hlut að máli, geta af eigin rammleik ekki staðið undir afborgunum og vöxtum af þegar fengnum lánum og þá að sjálfsögðu enn síður undir kostnaði við framhaldsframkvæmdir. Það fer því ekki á milli mála hjá þeim, sem raunsætt vilja á málið líta, að áframhaldandi framkvæmdir í hafnarmálum Þorlákshafnar verður að leysa með atbeina og beinni forgöngu ríkisins.

Af framangreindum ástæðum er í frv. þessu lagt til, að Þorlákshöfn verði gerð að landshöfn. Í sambandi við þær framkvæmdir, sem ég nú minnist á, að þegar hefðu verið gerðar í Þorlákshöfn, og vegna þeirra blaðaskrifa, sem orðið hafa opinberlega um þessar framkvæmdir, óskaði ég eftir því við vitamálastjórnina, að gerð yrði nokkru nánari grg. eða grein fyrir þeim framkvæmdum og hvernig þær hefðu átt sér stað, því að ég tel rétt nú við þessa i. umr. málsins hér að gefa eftirfarandi upplýsingar, sem vitamálastjóri hefur látið mér í té. En þær eru svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Þýzka verktakafyrirtækið Hochtief gerði á sínum tíma athuganir og áætlun og útboðsteikningar varðandi stækkun Þorlákshafnar. Á þeim grundvelli var verkið boðið út og síðan gerður samningur við Efrafall s.f. í maí 1962 um framkvæmdir verksins. Sá samningur var byggður á hreyttri gerð mannvirkja samkv. till. Efrafalls. Við frekari athugun á aðstæðum kom í ljós, að ýmsir annmarkar voru á framkvæmd verksins, svo sem upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Meginorsök þess var, að þar sem álitið var, að fastur botn væri fyrir hendi, var ekki um hann að ræða, heldur aðeins grjótlag, sem ekki hafði verið komizt í gegnum við fyrri boranir. Þá var það, að steypuefni og fyllingarefni, sem hugsað hafði verið að taka í næsta nágrenni hafnarinnar, var mjög til þurrðar gengið, þar sem ekki þótti ráðlegt að taka frekara efnismagn úr malarkömbunum sunnan hafnarinnar, þar sem allmikil hætta var þá á skemmdum á landi af völdum sjávargangs.

Þessar tvær meginástæður urðu til þess, að endurskoða varð byggingaráætlun og gerð mannvirkja alla. Var sú endurskoðun gerð á vegum Efrafalls í samráði við vitamálaskrifstofuna og leiddi til breyttrar gerðar mannvirkja, þannig, að í fyrsta lagi var aðalgarðurinn breikkaður úr 12.5 m í 14.5 m og undirstöðum hans breytt. Þá var og fengið steypuefni að með ærnum tilkostnaði. Verð suðurgarðsins samkv. tilboði, þegar tekið er tillit til aðkeypts steypuefnis, hefði átt að vera 20 millj. 526 þús. kr., en einingarverð, reiknað á sama hátt, — þýðir verkið eins og það var unnið, þ.e.a.s. með breikkun og öðrum breytingum, er gera varð, — var 26 millj. 729 þús. kr., þannig að hækkanir vegna breytinga voru um 6.2 millj. kr. eða 33%.

Ef tilboði Hochtief hefði verið tekið, má búast við, að tilsvarandi breytingar hefði orðið að gera á mannvirkjum með tilsvarandi hækkunum. Endanlegur kostnaður til verktaka vegna efniskaupa við suðurgarðinn hefur orðið um 35 millj. kr., þannig að hækkanir af völdum verðlagsbreytinga hafa orðið um 7.6 millj. kr., eða 28% af grunnverði mannvirkisins.

Hvað varðar norðurgarðinn, þá var hann í upphafi ráðgerður 12 m breiður og 187 m langur, þ.e.a.s. hinn nýi hluti hans.

Með tilkomu hinna stóru báta og sívaxandi útgerðar í Þorlákshöfn var síðan ákveðið að breikka garðinn um rúma 2 m, þannig að hann yrði gerður 14.35 m breiður og jafnframt ákveðið að lengja hann um 13 m, þannig að heildarlengingin verður nú um 200 m. Jafnframt var framálmu garðsins snúið nokkuð, þannig að allmiklu meira rými fæst innan garðanna en áður, auk þess sem með frekari lengingu garðsins er möguleiki á að auka það rými enn frekar.

Samhliða þessari breytingu var jafnframt athugað, hvort ekki væri hægt að gera innri garðinn nokkuð ódýrari en tilboð Efrafalls bar með sér. Ef reiknað er með, að aukning á breikkun garðsins kosti jafnmikið á rúmmetra og aðrir hlutar garðsins, sem er mjög nálægt lagi, þá hefði garðurinn fullbúinn, 187 m langur, átt að kosta 31.4 millj. kr., miðað við einingarverð verðtilboðsins, eða 168 þús. kr. á lengdarmetra.

Eftir endurskoðun og útreikninga á nýrri gerð verksins, virðist svo sem hver metri í garði ætti ekki að kosta meira en 130 þús. kr., miðað við einingarverð, þannig að um allverulegan sparnað hefði verið að ræða við endurskoðunina.

Af innri garðinum hafa þegar verið fullgerðir 53 m, og hefur kostnaðurinn við það orðið alls um 9.5 millj. kr. Þá var og eldri hluti norðurgarðsins hækkaður og breikkaður, og varð kostnaður við það tæplega ein millj. kr. Áætlað verð þess, sem eftir er af nyrðri garðinum, miðað við verðlag í dag, er rúmar 30 millj. kr. Heildarkostnaður við verkið, eins og það stendur í dag, mun vera um 51 millj. kr., og er þá reiknaður allur kostnaður vitamálaskrifstofunnar og verktaka, efnis birgðir og kostnaður greiddur fyrirfram í innréttingum á vinnustað, stálmótum og öðru þess háttar, sem afreiknast mun á þeim hluta verksins, sem eftir er.

Samkvæmt framanskráðu má draga niðurstöðurnar saman þannig, að tilboðsverð var 43.67 millj. kr., en verður eftir breytingar þær, er nauðsynlegt var að gera vegna breyttra áðstæðna, 58.1 millj., eða hækkun um 33%. Líklegt heildarverð mannvirkjanna að óbreyttu verðlagi frá því sem nú er er 82 millj. kr., þ.e. verðhækkanir um 24 millj., eða 41%.“

Þessar upplýsingar taldi ég rétt að kæmu fram nú þegar að gefnu tilefni, eins og ég áðan skýrði frá, að gefnu tilefni á opinberum vettvangi.

Sú takmarkaða hafnaraðstaða, sem þegar er fyrir hendi í Þorlákshöfn, hefur sannað, svo að ekki verður um villzt, nauðsyn á lúkningu hafnarinnar, bæði hvað fiskiskipaflotann áhrærir hvaðanæva af landinu og ekki síður þann þjónustuauka, sem farskip hafa þar þegar fengið með upp- og útskipun hvers konar nauðsynjavarnings. Það verður vart dregið í efa af neinum, sem kynnir sér alla málavöxtu, að eðlilegt sé að gera Þorlákshöfn að landshöfn, þeirri þriðju í röðinni.

Ég skal ekki tefja tímann með því að fjölyrða um einstakar gr. frv., þar sem þær eru í aths. frv. mjög greinilega skýrðar hver um sig, en þær eru almennt efnislega samhljóða gildandi l. um landshafnir í Njarðvíkum og Rifi. En í sambandi við framkomu þessa máls hér nú vildi ég í sambandi við flutning þessa frv. og framkomu þess hér nú í hv. þd. nota tækifærið til að lýsa því yfir, að ríkisstj. hefur ákveðið, að fram verði látin fara endurskoðun á hinum almennu hafnarlögum í framhaldi af þeim athugunum, sem nú standa yfir, á tekjumöguleikum hinna einstöku hafna.

Herra forseti. Það er till. mín, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.