15.11.1965
Efri deild: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

58. mál, innflutningur á hvalveiðiskipi (leyfi til Hvals hf.)

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. nr. 76, mælir sjútvn. með því, að frv. þetta verði samþ. Í grg. fyrir frv. segir, að h/f Hvalur hafi farið þess á leit að fá að flytja inn hvalveiðiskip, sem er eldra en 12 ára, sbr. 35. gr. l. nr. 50 frá 1959. Kveðst félagið eiga kost á að kaupa nú slíkt skip í Noregi, sem henti mjög til hvalveiða hér við land, en nauðsynlegt sé að endurnýja hvalveiðiskipaflotann, og enn fremur, að þar sem hið umrædda skip sé eldra en 12 ára, en vandkvæðum bundið að kaupa yngra skip til hvalveiða, beri brýna nauðsyn til að heimild sé veitt til innflutnings skipsins, sbr. 35. gr. fyrrnefndra l. Þá kemur fram sem fylgiskjal með þessu frv., að Loftur Bjarnason, framkvstj. útgerðarfélagsins Hvalur, hefur snúið sér til skipaskoðunarstjóra, og mælir hann enn fremur með, að frv. þetta verði samþ. og leyfður innflutningur á skipinu. N. mælir, eins og fram kemur á nál., einróma með því, að þetta frv. verði samþ.