18.04.1966
Efri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2529 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

174. mál, fiskveiðar í landhelgi

Frsm. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur tekið fyrir frv. það, sem hér er til umr. um breyt. á I. nr. 33 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi. Hefur n. mælt einróma með samþ. þessa frv.

Hér er um að ræða breyt. á l. nr. 33 frá 1922. Þegar þau l. voru sett, var skipað í einn bálk þágildandi l. og tilskipunum um rétt til fiskveiða í landhelgi. Ákvæðin um takmarkanir á heimild erlendra manna til fiskveiða við strendur landsins voru áður aðallega í tilskipun frá 12. febr. 1872 og I. nr. 35 frá 1901, um fiskveiðar hlutafélaga í landhelgi Íslands.

Við samningu l. frá 1922 var höfð hliðsjón af norskri löggjöf um þessi efni. En aðalbreytingin, sem gerð var með I. frá 1922, frá því, sem áður gilti, var sú, að ríkisborgararéttur var gerður að skilyrði fyrir rétti til fiskveiða í landhelgi. En áður var búseta í landinu skilyrði fyrir þessum réttindum. Tilskipunin frá 1872 var skýrð svo, að þau ákvæði, sem bönnuðu útlendingum fiskveiðar innan landhelgi, fælu einnig í sér bann við verkun veiðinnar innan landhelgi, og þessu var slegið föstu með 3. gr. l. frá 1922, þar sem bundinn er við íslenzkan ríkisborgararétt rétturinn til að flytja veiði í landhelgi eða á land til þess þar að verka hana.

Þessi regla, sem tekin var upp með l. frá 1922 að binda þessi réttindi við ríkisborgararétt, var sjálfsögð og hafði mikla þýðingu fyrir íslenzkt atvinnulíf. Þá var ástandið þannig, að erlendir menn áttu stór framleiðslutæki, síldarverksmiðjur og aðstöðu til síldarsöltunar á einstöku stöðum á landinu, eins og t.d. á Siglufirði. En á sama tíma sem þessir aðilar héldu uppi miklum atvinnurekstri og fengu hráefni til þess að vinna úr, þá var það svo, að erfiðleikar voru um sölu á sjávarafurðum Íslendinga. Það var því ákaflega óeðlilegt það ástand, að erlendir menn gætu sett afla sinn á land og unnið væri úr honum undir þeim kringumstæðum, sem þá voru. Ég hygg, að þetta ástand hafi verið ein meginástæðan fyrir því, að I. nr. 33 1922, um réttindi til fiskveiða í landhelgi, voru þá sett.

En þó að ástandið í heild hafi verið svona, eins og ég hef skýrt frá, þá var gert ráð fyrir í 9. gr. l., að hægt væri að gera undantekningu frá I. Í þessari grein var kveðið svo á, að atvmrh. geti veitt leyfi til þess, að eigendur síldarolíu- og síldarmjölsverksmiðja, eins og það var orðað, megi nota erlend skip til þess að fiska fyrir verksmiðjur þessar til eigin nota, þrátt fyrir bannið í 3. gr. I. Leyfin, sem veita má samkv. l., mega vera til tveggja ára í senn, og það ber að taka fram, að það veiti ekki erlendum skipum heimild til fiskveiða eða fiskverkunar í landhelgi.

Þessi heimild í 9. gr. I. hefur verið notuð, eftir því sem ég bezt veit, alla tíð, þó kannske ekki hafi verið mikið. Undanþáguheimildin hefur þýtt það, að síldarverksmiðjur hafa getað tekið erlend skip á leigu til þess að veiða fyrir verksmiðjurnar.

Eins og málum er nú háttað, hefur ýmsum þótt, að það þyrfti að gera fleiri undantekningar frá ákvæðum I. Það eru ýmsar ástæður, sem liggja því til grundvallar. Við höfum víðsvegar um landið og einkum á Norðurlandi og á Vestfjörðum stórvirkar síldarverksmiðjur og hraðfrystihús, sem ekki hafa verið fullnýtt á undanförnum árum. Ástæðan hefur verið sú, að það hefur verið hvað snertir síldveiðarnar aflabrestur fyrir Norðurlandi og í Húnaflóa. Þessi miklu mannvirki, sem Íslendingar eiga á þessum slóðum til að vinna úr sjávaraflanum, hafa því verið mikið til ónotuð nú um nokkurra ára skeið. En á sama tíma, sem þetta hefur verið, þá hefur verið mikil eftirspurn eftir íslenzkum sjávarafurðum. Það hefur ekki verið vandkvæðum bundið að selja íslenzkar sjávarafurðir, og það hefur verið hægt að selja meira heldur en við höfum getað framleitt.

Þegar ástandið er þannig, sýnist það einsýnt frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að það sé rétt að gera mögulegt, að þessi miklu framleiðslutæki okkar, sem ekki hafa verið fullnýtt eða lítt nýtt, fái að kaupa hráefni af útlendingum. En auk þess kemur hér til, að ýmis byggðarlög á Norðurlandi og á Vestfjörðum, sérstaklega í Strandasýslu, hafa átt í vök að verjast á undanförnum árum, vegna þess að ekki hefur verið næg atvinna. Það ástand hefur mjög ýtt. undir fólksflótta frá þessum byggðarlögum og komið í veg fyrir allar markvissar aðgerðir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins hvað þessi byggðarlög snertir.

Með tilliti til þessa ástands er komin upp sú hugmynd að veita rýmri heimild til undanþágu frá l. frá 1922 heldur en gert var í upphafi með 9. gr. þeirra l. Og með hliðsjón af þessu er komið fram frv. það, sem hér er til umræðu. Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að sjútvmrh. sé heimilað, þrátt fyrir bannið í 3. gr. l. frá 1922, að leyfa vinnslu- og verkunarstöðvum að kaupa afla af erlendum veiðiskipum í íslenzkum höfnum á tímabilinu frá I. júní til 31. maí 1967. Það er gert ráð fyrir, að ráðh. bindi leyfið við ákveðna staði eða landshluta, eftir því sem hagkvæmt þykir, og svo er gert ráð fyrir, að ráðh. geti bundið leyfið við ákveðnar tegundir fisks eða sjávarafla og sett skilyrði um magn, verð og sérstakar löndunarreglur. Þá er tekið fram í frv., að í leyfi beri að taka fram, að það veiti eigi erlendum skipum heimild til fiskveiða eða fiskverkunar í landhelgi.

Þó að flm. frv. komi saman um það, að það sé nauðsynlegt að rýmka þær reglur, sem gilt hafa um löndun fisks úr erlendum skipum, þá telja þeir samt, að það séu svo margar hliðar á þessu máli, að það þurfi í raun og veru gagngerðrar athugunar við. Með tilliti til þessa er heimild sú, sem gert er ráð fyrir í frv., bundin við ákveðið tímabil eða aðeins eitt ár frá 1. júní 1966 til 31. maí 1967. Það er talið, að það geti komið nokkur reynsla á í þessu efni, ef frv. verður samþ. Sú reynsla getur m.a. komið í þarfir í sambandi við heildarendurskoðun löggjafarinnar um rétt til fiskveiða í landhelgi. En jafnframt því, sem þetta frv. er hér borið fram í hv. Ed., þá hafa flm. ásamt 2. þm. Vestf. borið fram þáltill. í Sþ. um það, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á því, hvort ekki sé tímabært að gera endurskoðun á gildandi lagaákvæðum um löndun erlendra fiskiskipa á afla sínum í íslenzkum höfnum með það fyrir augum, eins og segir í þáltill., að bæta úr atvinnuerfiðleikum einstakra byggðarlaga, sem skortir hráefni til vinnslu.

Það er augljóst mál, að það þarf að endurskoða þessa löggjöf. Eins og ég sagði áðan eru margar hliðar á því máli, og það er sjálfsagt allvandasamt verk, því að auðvitað verður að gæta hvers konar íslenzkra hagsmuna, sem hér koma til greina. En það er samt talin svo mikil þörf á úrbótum í þessu efni, að það þykir rétt að bera fram frv. nú þegar á þessu þingi um vissar breyt. til þess að bæta úr þörfum þeim, sem ég hef hér gert grein fyrir.

Ég vænti þess, að hv. d. taki þessu frv. vel og það fái skjóta og góða afgr.