22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

174. mál, fiskveiðar í landhelgi

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. lýsti réttilega því erfiða ástandi, sem skapazt hefur á Norðurlandi og við Húnaflóa og jafnvel lengra vestur á bóginn við það, að síldin hefur horfið af sínum fornu slóðum og tekið að veiðast út af Austfjörðum eða öllu heldur einhvers staðar í Atlantshafinu milli Íslands og Evrópu. Það var alveg hárrétt, sem 1. þm. Norðurl. v. sagði um afleiðingarnar af þessari þróun í síldveiðunum, og hann dró upp rétta mynd af því vandamáli, sem við það hefur skapazt. Það var líka rétt, að mínum dómi, sem hann sagði,að samþykkt þess frv. sem hér um ræðir, er engin örugg úrbót til þess að bæta þetta ástand. Með frv. er lagt til, að um eins árs skeið verði það heimilað, að útlendingar leggi upp fiskafla hér á landi til vinnslu. Slík leyfi munu að sjálfsögðu, ef þau verða notuð að einhverju leyti, auðvelda útlendingum fiskveiðar við landið, þótt ekki sé í landhelgi. Mér finnst þá vera mikil spurning, ef við gerum ráð fyrir, að árangurinn af þessari tilraun verði varla umtalsverður og það sé nánast sjálfsblekking að halda því fram, að þetta undanþáguleyfi frá fiskveiðalöggjöfinni geti verið nein veruleg úrbót í atvinnuástandi Norðurlands, hvort tiltilraunin sé þess virði, að hún sé gerð. Allt, sem gert er til þess að auðvelda erlendum fiskveiðiskipum veiðar við landið og þ. á m. það að landa afla hér á landi, eykur ágengni á fiskimið okkar og getur dregið alvarlegan dilk á eftir sér, eins og nú er komið. Ég vildi aðeins láta þetta sjónarmið koma fram við þessa umr., áður en þetta mál fer til sjútvn. þessarar hv. d., þar sem ég á sæti, og kemur þar til athugunar. Ég tel, að slík tilraun, þegar árangurinn er fyrirfram mjög vafasamur, geti verið of dýru verði keypt.