26.04.1966
Neðri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2543 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

174. mál, fiskveiðar í landhelgi

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég tel það mjög vel farið, að frv. þetta nái samþykki Alþ. Þörfin fyrir þá atvinnu, sem af því kann að leiða, er ákaflega mikil hjá vissum héruðum, en ég vil þó vekja athygli á því, að hér nefna menn aðeins Norðurland og meira að segja heyrði ég einhvern nefna landssvæðið frá Skagaströnd norður til Þórshafnar, sem þessar ráðstafanir ættu að miðast við. Ég held, að þetta sé ekki með neinni nákvæmni sagt, því að ástandið við Húnaflóa er ekki betra en norðar, og fiskibæirnir Hólmavík og Drangsnes í Strandasýslu eru sannarlega ekki á Norðurlandi, en þeir búa sízt við betra ástand í þessum efnum en bæirnir norðanlands. Ég vil vekja athygli á þessu vegna þess, að þar hefur atvinnuástandið verið ákaflega alvarlegt nú að undanförnu, jafnvel svo alvarlegt í atvinnumálum, að fjölskyldufeður hafa ekki getað sent unglinga sína í framhaldsskóla vegna þess, hvernig komið er tekjum þessa fólks, og þetta er fyrst og fremst fyrir fiskleysi í Húnaflóa. Ég sé ástæðu til að vekja athygli á þessu, en vil mæla með frv. og mun styðja það. Hitt tek ég einnig undir, að hér þarf að gæta mikillar varúðar um notkun þeirra heimilda, sem í frv. felast, og mér sýnist, að hv. sjútvn. hafi undirstrikað þá nauðsyn mjög vel m.a. með brtt. sinum, sem ég tel mjög réttmætar, og hún flytur nú.