14.04.1966
Neðri deild: 69. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

184. mál, stofnun búnaðarmálasjóðs

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Með þessu frv. á þskj. 460 er enn á ný lagt til, að Alþ. framlengi með löggjöf 1/2% viðbótargjald af söluvörum landbúnaðarins, og á gjald þetta að renna eins og áður til Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda til þess að standa undir kostnaði við húsbyggingu félaganna við Hagatorg hér í Reykjavík eða hina svokölluðu Bændahöll.

Það er að sjálfsögðu engan veginn gleðilegt, að það skuli þurfa enn á ný að fara fram á það, að þetta gjald verði framlengt, og mér er nær að halda það og veit það raunar af viðtölum við ýmsa bændur, að þeir hafa orðið fyrir vonbrigðum, að það skuli þurfa að fara fram á framlengingu gjaldsins. En það má raunar segja, að frv. og þessi ósk um það, að gjaldið sé framlengt sé bein afleiðing af því, að þetta hús var byggt í því formi, sem það var byggt, og hefur af þeim sökum orðið margfalt sinnum dýrara en áætlað var í byrjun. Stjórn Búnaðarfélags Íslands og stjórn Stéttarsambandsins og búnaðarþing sjá ekki úrræði til þess að standa undir vöxtum og afborgunum af þeim lánum, sem hvíla á þessari byggingu, nema að fá þetta gjald til búnaðarmálasjóðs framlengt. Stjórn Búnaðarfélagsins og stjórn Stéttarsambandsins og ég held mikill meiri hl. Búnaðarþings hafa óskað eftir því, að Alþ. framlengdi gjaldið, og þeir hafa ritað hæstv. landbrh. bréf, þar sem þeir fara fram á það, að hann hlutist til um það, að þetta frv. væri lagt fyrir þingið og hljóti afgreiðslu á þessu þingi, og með bréfi, sem landbrn. skrifaði landbn. þessarar d. þann 31. marz sl., óskaði landbrn. eftir því, að landbn. flytti frv. Landbn. þótti sjálfsagt að verða við þessari beiðni, en hún hefur ekki sem slík tekið neina afstöðu til þessa máls enn þá og hefur algerlega óbundnar hendur í afgreiðslu málsins.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr.