02.05.1966
Sameinað þing: 43. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2626 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Einn af talsmönnum stjórnarandstöðunnar hér í kvöld sagði, að núv. stjórn hefði setið svo lengi að völdum, að reynslan hefði skorið úr um það, hvers hún væri megnug. Þegar þessi ríkisstj. settist að völdum, spáðu stjórnarandstæðingar eymd, atvinnuleysi og kreppu. Nú tala þeir ekki lengur um slíka hluti, heldur góðæri og velmegun. Já, reynslan hefur svo sannarlega skorið úr.

Það mál, sem mest hefur verið um rætt og mest deilt um á Alþ. að undanförnu, er samningur ríkisstj. við svissneskt fyrirtæki um álbræðslu í Straumsvík. Ég tel, að í samningi þessum og fylgisamningum hans hafi verið haldið vel á málstað okkar, og ég treysti Íslendingum til þess að hafa í fullu tré við útlendinga við samningaborðið, enda þótt samningsgerðin sé á því sviði, þar sem við höfum litla reynslu fyrir. Flestar þjóðir sækjast eftir erlendri fjárfestingu í einni eða annarri mynd að vissu marki. Það hlaut því að vera íhugunarefni fyrir okkur, hvort hófleg erlend fjárfesting gæti treyst efnahag þjóðarinnar, örvað tækniþróun í landinu, aukið gjaldeyristekjurnar og skapað meiri fjölbreytni í atvinnuháttum. Við getum ekki við því búizt, að erlend fjárfesting á Íslandi sé án annmarka og áhættu, og auðvitað ber okkur að fara varlega í sakirnar og rasa ekki um ráð fram. Samningur um álbræðsluna í Straumsvík, sem nú hefur verið lögfestur á Alþ., er að mínum dómi þannig úr garði gerður, að réttmætt var að fallast á hann. Staðsetning verksmiðjunnar hefur verið gagnrýnd, en þar hlaut það að ráða úrslitum, á hvaða landsvæði við getum framleitt ódýrustu raforkuna. Í því efni verða hagsmunir einstakra landshluta að víkja fyrir þjóðarhag. Um þetta mál megum við ekki hugsa sem Norðlendingar eða Sunnlendingar, heldur sem Íslendingar. Þess ber að gæta, að þegar fram í sækir, mun afrakstur okkar af álbræðslunni gera okkur kleift að verja stórfelldum fjármunum til uppbyggingar og atvinnuaukningar út um hinar dreifðu byggðir landsins, þannig að öll þjóðin nýtur góðs af. Að vísu þarf að bíða langan tíma eftir þessum ábata og hámarki sínu nær hann ekki fyrr en eftir áratugi, en samt sem áður má ekki vanmeta þessa þýðingarmiklu hlið málsins, því það er skylda okkar allra að hugsa langt fram í tímann.

Að því hefur verið fundið, að söluverð raforkunnar til Svisslendinganna væri lægra en í öðrum ríkjum, þar sem fyrirtæki þeirra hefur reist álbræðslu. Í þessu sambandi er rétt að minna á ummæli fyrrv. formanns Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík, er hann viðhafði í erindi um erlenda stóriðju haustíð 1961, en ummæli þessi birtust í Tímanum án athugasemda. Þau voru á þessa leið:

„Viljum við leita samstarfs við erlent áhættufjármagn til uppbyggingar okkar atvinnuvega, hvað höfum við þá upp á að bjóða? Við höfum vatnsorku og getum á vissum stöðum boðið upp á ódýrari raforku en þekkist annars staðar í Evrópu.“

Það er einmitt þessi staðreynd, sem formanni F.U.F. var svo ljós, sem á drjúgan þátt í því, að Svisslendingarnir reisa álbræðslu sína hér á Íslandi en ekki einhvers staðar annars staðar. Þótt við séum færir um að selja raforkuna heldur ódýrara en aðrar þjóðir, er ekki þar með sagt, að við höfum minni hagnað af okkar orkusölusamningi en aðrir, t.d. Norðmenn. Hins ber svo að gæta, að þegar við metum hagnað okkar af samningum við svissneska álfyrirtækið, megum við ekki horfa um of á einstök atriði hans út af fyrir sig, heldur líta á samninginn í heild og öll atriði hans. T.d. má ekki gleyma því, að Svisslendingum ber að reisa stóra hafskipahöfn í Straumsvík, okkur að kostnaðarlausu, sem kostar allt að 100 millj. kr. En þessa höfn verður hægt að nota til margra annarra hluta en þarfa álbræðslunnar.

Okkur má heldur ekki sjást yfir það, að þegar álbræðslan hefur náð fullum afköstum, mun hún á hverjum áratug skila okkur gjaldeyristekjum að fjárhæð 300 millj. kr. Andstæðingar ríkisstj. halda því fram, að álbræðslan í Straumsvík njóti ýmiss konar forréttinda umfram íslenzkan atvinnurekstur. Þetta er að vísu rétt, þegar einhliða er litið á málið, en hafa verður hugfast, að álbræðslan tekur líka á sig margvíslegar skyldur umfram það, sem innlendir atvinnurekendur gera, t.d. verður álbræðslan að borga fyrir rafmagnið, þótt hún noti það ekki og miklar skorður eru settar gegn því, að draga megi úr framleiðslunni. Ef eitthvert íslenzkt fyrirtæki væri svo öflugt, að það gæti í stað svissneska alúmínfélagsins reist álbræðslu í Straumsvík og keypt stórfellt orkumagn frá Búrfellsvirkjun, mundi slíkt fyrirtæki að sjálfsögðu eiga kost á sömu kjörum og Svisslendingarnir njóta og væntanlega betri kjörum. Þegar málið er skoðað í þessu ljósi, er ekki um forréttindi að ræða.

Til byggingar og reksturs álbræðslunnar í Straumsvík þarf allmikinn mannafla og því hafa menn bent á það með nokkrum rétti, þar sem mikil atvinna er í landinu og vinnuaflsskortur ríkjandi, að bygging og starfræksla verksmiðjunnar í Straumsvík auki spennuna í efnahagslífi þjóðarinnar og ýti undir verðbólgu. Hér sem fyrr er nauðsynlegt að horfa lengra fram í tímann. Undanfarin ár hafa verið blómaskeið í atvinnulífinu og mikil eftirspurn eftir vinnuafli. Eigi má draga þá ályktun af þessu, að aldrei geti komið til atvinnuleysis í næstu framtíð. Svo kynni að fara einhvern tímann á næstu áratugum, að rekstur álbræðslunnar tryggði 450 heimilisfeðrum fulla atvinnu, sem annars kostar gengju atvinnulausir. Bygging álbræðslunnar kann að vísu að örva verðbólguna, en þegar frá líður og rekstur verksmiðjunnar hefst, fá Íslendingar raforku til eigin nota frá Búrfellsvirkjun á miklu lægra verði en ella, vegna orkusölusamningsins við svissneska félagið. Sú trygging, sem þessi samningur veitir fyrir lægra raforkuverði en annars væri kostur, er því að sínu leyti trygging gegn vaxandi verðbólgu, þar sem rafmagnsverðið hefur áhrif á verðlag margs konar framleiðsluvara og þjónustu.

Andstöðuflokkar ríkisstj. krefjast þjóðaratkvæðis um álsamningana, þar sem þeir telja, að stjórnarflokkarnir hafi ekki umboð þjóðarinnar til þessarar samningsgerðar, enda hafi erlendar stóriðjur lítt borið á góma í kosningabaráttunni 1963. Hér er um misskilning að tefla. Í áramótagrein, sem þáv. form. Framsfl., Hermann Jónasson, ritaði í Tímann á gamlársdag 1961, segir svo:

„Ríkisstjórnin er því byrjuð á að hugsa fyrir nýjum stórloforðum fyrir næstu kosningar og það er þegar tekið að bóla á sumum þeirra.“ Síðan segir Hermann Jónasson eftir að hafa talið upp tvö fyrstu loforðin: „Hið þriðja er að koma á fót stóriðju í landinu með erlendu fjármagni.“

Nú hafa framsóknarmenn hins vegar kallað það svik við þjóðina, að ríkisstjórnarflokkarnir skuli ætla sér að efna eitt af stórloforðum sínum. Þannig snúa þeir staðreyndunum alveg við. Stjórnarandstöðuflokkarnir telja sig hafa umboð kjósenda sinna til að hafna stóriðjusamningnum, en ríkisstjórnarflokkarnir telja sig með alveg sama hætti hafa umboð kjósenda sinna til að staðfesta þennan samning. Andstæðingar stjórnarinnar kröfðust þess aðallega, að stóriðjusamningurinn yrði felldur á Alþ., en til vara, ef meiri hl. Alþ. samþykkti hann, eins og raun varð á, skyldi þeirri niðurstöðu áfrýjað til þjóðarinnar. Hins vegar töldu þeir óþarft að spyrja þjóðina álits, ef meiri hl. Alþ. hefði hafnað samningnum. Afstaða þeirra var með öðrum orðum sú, að ef Alþ. féllist á þeirra sjónarmið, skyldi niðurstaða þingsins vera óhagganleg, en féllist Alþ. ekki á þeirra sjónarmið, skyldi þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram um málið Ríkisstjórnarflokkarnir hafa, eins og öllum er ljóst, fullt umboð þjóðarinnar til að stjórna landinu í 4 ár, ekki hvað sízt hafa þeir umboð til að efna þau fyrirheit, sem gefin voru fyrir alþingiskosningarnar 1963. Um meðferð þessa umboðs og efndir á gefnum fyrirheitum fær þjóðin að kveða upp sinn dóm í alþingiskosningunum á næsta ári. Með samningnum um álbræðsluna í Straumsvík er ekki fyrst og fremst verið að marka nýja stefnu, heldur er verið að gera skynsamlega tilraun um hagnýti erlendrar fjárfestingar á Íslandi. Að þessum stóriðjusamningi gerðum eigum við að minni hyggju að bíða í langan tíma og sjá, hvernig reynslan verður af þessum samningi. Að fenginni þeirri reynslu eigum við svo að marka framtíðarstefnuna í þessum málum.

Á yfirstandandi Alþ. hefur farið fram rækileg endurskoðun á lögum um verðlagningu landbúnaðarafurða. Upphaf þeirrar endurskoðunar er að rekja til brotthlaups fulltrúa A.S.Í. úr Sexmannanefnd á s.l. hausti. Það hefur verið ríkjandi stefna verkalýðssamtakanna í tvo áratugi að eiga aðild að samningum við bændur um verðlagningu búvöru. Meiri hl. Alþýðusambandsstjórnar hefur nú skyndilega kúvent frá þessari stefnu og telur, að neytendur eigi ekki að hafa afskipti af verðlagsmálum landbúnaðarins, heldur sé það einungis málefni ríkisvaldsins og bænda. Þessi stefnubreyting á sér enga stoð í samþykktum Alþýðusambandsþinga, en hana ber væntanlega að skilja á þann hátt, að meiri hl. Alþýðusambandsstj. telji, að A.S.Í. sé ekki lengur einn af málsvörum neytenda í landinu. Hvað sem um brotthlaupið úr Sexmannanefnd má segja, hafði það þann kost í för með sér, að nauðsynlegt reyndist að endurskoða lög um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu o.fl. Þeirri endurskoðun er nú lokið og eru helztu breytingarnar þessar: 1) Sexmannanefnd er gerð virk á nýjan leik og tryggt, að hún geti haldið áfram störfum, þótt einhver hlaupist á brott úr nefndinni. Neitunarvald innan nefndarinnar er afnumið og einfaldur meiri hl. látinn ráða úrslitum mála. 2) Sáttasemjari ríkisins skal taka deilur til meðferðar, áður en þeim er vísað til yfirnefndar. 3) Búreikningaskrifstofa ríkisins skal árlega afla rekstursreikninga frá bændum, er verði m.a. til afnota fyrir Sexmannanefnd. 4) Sexmannanefnd getur ákveðið, ef þrír eða fleiri nefndarmenn krefjast þess, að efna til sérstakra rannsókna á framleiðslu- og dreifingarkostnaði landbúnaðarvara, vinnutíma o.fl. Skylt er einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum að láta rannsóknarmönnum í té nauðsynlegar upplýsingar. 5) Verðlagsgrundvöllur búvöru skal frá haustinu 1967 að telja gilda í tvö ár í senn í stað eins árs. 6) Kaup bóndans og skylduliðs hans skal miðað við ársvinnutíma á búinu, virtan til samræmis við kauptaxta verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna og samningsbundin fríðindi. Þó skal eigi taka til viðmiðunar ákvæðisvinnu né aflahlut sjómanna. Með þessu er felld niður sú viðmiðunarregla, er gilt hefur í framkvæmd, að miða kaup bóndans við úrtak árstekna framantalinna atvinnustétta.

Hér að framan hef ég talið upp í 6 liðum meginbreytingarnar á löggjöfinni um búvöruverðlag. Annars vegar miða þessar breyt. að því taka upp nýja og betri starfshætti og efla ýmiss konar rannsóknarstarfsemi, hvort tveggja í því skyni að auka líkurnar á samkomulagi í Sexmannanefnd. Hins vegar miða breyt. að því að draga úr víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags á landbúnaðarafurðum, sem jafnan hefur verið ein af undirrótum dýrtíðarinnar. Á ég þar einkum við ákvæði um lengingu gildistíma verðlagsgrundvallarins úr 1 ári í 2 og bann við því að miða kaup bóndans við ákvæðiskaup og aflahlut. Með þessum nýju reglum er það sjónarmið viðurkennt, að eigi sé réttmætt að hækka árstekjur bóndans vegna þess, að verkamenn og iðnaðarmenn leggja á sig lengri vinnudag en áður eða vegna þess, að hlutarsjómenn hafi góðan aflahlut, sem að jafnaði er fenginn með löngum vinnudegi og miklu vinnuálagi. Hins vegar er bóndanum tryggt það, að raunverulegur ársvinnutími hans sé metinn, þótt ég viðurkenni, að það mat kunni að verða erfitt í framkvæmd. Þótt mikilvægar endurbætur hafi þannig verið gerðar á búvörulöggjöfinni, tel ég þeim endurbótum samt áfátt í tveim greinum. Annars vegar er það, að breyt. á kaupi bóndans skuli miðast við kaupbreytingar í öðrum atvinnugreinum en landbúnaði. Ég lit svo á, að í framtíðinni ættu laun bænda að hækka aðallega í samræmi við þá viðmiðun eina, að tiltekinn hluti af verðmæti þeirrar framleiðsluaukningar, sem landbúnaðurinn skilar, án tilsvarandi hækkunar framleiðslukostnaðar, falli bændum í skaut sem launabót. Með því móti ættu bændur launakjör sín undir sínum eigin atvinnuvegi, en ekki undir greiðslugetu annarra atvinnuvega, en það allt ég heilbrigðast og bændum mest að skapi. Hins vegar er það, að eigi skuli hrófla við ákvæðum laganna um útflutningsuppbætur. Gildandi ákvæði um uppbæturnar á útfluttar landbúnaðarafurðir voru sett á Alþ. velurinn 1959–1960. Var áætlað í fjárlögum ársins 1960, að útflutningsuppbæturnar næmu 5 millj. kr., en í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir, að þær nemi 214 millj. kr. Eru þessar bætur komnar í hámark, miðað við núv. verðlag, þ.e.a.s. þær nema nú 10% af heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar í landinu, þar með talið til búvöruframleiðslunnar auk mjólkur og kjöts laxveiði, tómatar, skrauthlóm og grásleppa. Útflutningsuppbæturnar hrökkva nú eigi til, því að bændastéltin verður sjálf að taka á sig 70–80 millj. kr. halla á ári, vegna þess að útfluttar landbúnaðarafurðir seljast ekki nema fyrir brot af framleiðslukostnaðarverði. Á útfluttar mjólkurafurðir, osta, mjólkurduft og smjör þarf að greiða yfir 300% uppbætur til þess að ná framleiðslukostnaðarverði og mjólkurbú, sem eingöngu framleiddi mjólkurafurðir til útflutnings, yrði að fá mjólkina gefins, til þess að framleiðslukostnaðurinn færi ekki upp fyrir verðlagið erlendis. Þetta sýnir okkur ljóslega, að stefnan í framleiðslumálum landbúnaðarins þarf endurskoðunar við. Þjóðfélagið getur ekki til lengdar staðið undir svona miklum uppbótargreiðslum, enda verður það að teljast efnahagsleg fásinna að auka framleiðslu á vörum, sem þurfa stórfelldrar meðgjafar úr sjóði skattborgaranna. Ég lít svo á, að nauðsynlegt sé að draga úr útflutningsuppbótargreiðslunum í áföngum og stefna að því að eigi verði greiddar hærri uppbætur en 100% á neina vörutegund. Vandinn er hins vegar sá að draga úr uppbótargreiðslunum án þess að skerða kjör þeirra bænda, sem hafa lítil bú, en þeir eru tekjulægsta stétt þjóðfélagsins. Ég vil ekki halda því fram, að sá vandi sé auðleystur, til að leysa þetta mál þarf sennilega að grípa til margvíslegra samræmdra aðgerða. Ég nefni sem dæmi að stöðva stofnun nýbýla, að styrkja smábændur til að auka sauðfjárrækt, að ríkið kaupi á viðunandi verði jarðir og byggingar á jörðum þeirra bænda, er vilja bregða búi. Einkanlega á þetta vel við um jarðir, sem eru illa í sveit settar, þar sem áframhaldandi búskapur krefðist mikilla ríkisframlaga til vegagerðar og rafvæðingar. Mönnum er að verða æ ljósara, að hér er um aðkallandi úrlausnarefni að ræða og ég trúi því, að viðunandi lausn muni finnast á næstu árum, ef allir leggjast á eitt, en ég get fullyrt, að ekki mun standa á Alþfl. í þessu efni.

Í n. þeirri, sem endurskoðaði verðlagslöggjöf landbúnaðarins, átti sæti einn fulltrúi frá A.S.Í. Var það forseti sambandsins, Hannibal Valdimarsson. Hann hafði sérstöðu og hélt því fram, að bændur ættu að semja við ríkisvaldið en ekki neytendur. Að endingu urðu þó till. hans á þá leið að selja bændum raunverulega sjálfdæmi um verðlagninguna. Ríkisvaldið átti aðeins að fá að hlusta á kröfur þeirra, en ef það vildi ekki samþykkja þær, áttu bændur landsins að geta löggilt kröfur sínar með almennri atkvæðagreiðslu um þær. Í till. Hannibals Valdimarssonar var engar reglur að finna um málsmeðferðina, ef bændur felldu kröfur sinar við atkvæðagreiðslu, enda voru allar reglur um það að sjálfsögðu óþarfar. Menn geta svo velt því fyrir sér, hvernig forseta A.S.Í. mundi ganga að kveða niður verðbólguna, ef reglur hans um verðlagningu landbúnaðarafurða ættu að gilda. Ég get ekki skilið svo við landbúnaðarmálin, að ég minnist ekki örlitið á ræðu hv. þm. Ágústs Þorvaldssonar. Hann sá eftir því, að á bændur skuli vera lagt að greiða gjald til stofnlánadeildar landbúnaðarins, en eins og kunnugt er, greiða neytendur þar verulegt gjald á móti og einnig er um mikil ríkisframlög að ræða og það er hlutverk þessarar stofnlánadeildar að styrkja landbúnaðinn í landinu með lánum til uppbyggingar og ræktunar í sveitum. Eftir þessu stofnlánagjaldi sá Ágúst mikið, en hins vegar mun hann og flokksbræður hans og ýmsir fleiri, sem telja sig bændavini, vera að aðhyllast það að leggja á þessa sömu bændastétt 7 millj. kr. gjald á ári til þess að standa undir rekstrarhalla Bændahallarinnar, þ.e.a.s. til gistihúsareksturs og að reka vínstúkur í Reykjavík.

Í framhaldi af ræðu Ágústs má gjarnan benda á, að kaupmáttur launa bóndans hefur hækkað verulega í tíð núv. ríkisstj. Hins vegar lækkaði kaupmáttur launa bóndans til muna á þeim árum, sem Framsfl. var í stjórn með Sjálfstfl., þ.e.a.s. frá 1950–1956. Síðasta aldarfjórðunginn hefur ríkt mikil verðbólga á Íslandi. Allir íslenzkir stjórnmálaflokkar hafa talið það eitt af meginverkefnum sínum að andæfa gegn verðbólgunni og hefta vöxt hennar. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa átt aðild að ríkisstjórnum á þessu tímabili, en engri ríkisstj. hefur þó til lengdar tekizt að stöðva framgang verðbólgunnar og er núv. ríkisstj. engin undantekning í því efni. Rétt er þó að undirstrika, að stundum hefur vöxtur verðbólgunnar verið örari en á valdatímabili núv. ríkisstj. Það á þó ekki að vera ríkisstj. nein afsökun, þótt öðrum hafi eigi tekizt betur en henni að glíma við verðbólguna. Svo margt hefur þessi ríkisstj. gert betur en aðrar ríkisstj., að í verðbólgumálunum ætti frammistaða hennar einnig að vera betri en raun ber vitni. Menn verða þó að gera sér grein fyrir því, að lausn þessa máls er mjög vandasöm. Það er tilgangslítið að meiri hl. Alþ. samþykki ráðstafanir til að draga úr verðbólgu eða stöðva hana, nema þær ráðstafanir eigi ríkan hljómgrunn meðal almennings í landinu og svo sé um hnútana búið, að einstökum hagsmunasamtökum, hvort heldur samtökum launþega eða framleiðenda, haldist ekki uppi að brjóta slíkar ráðstafanir á bak aftur. Þetta er kjarni þess vandamáls, sem hver ríkisstj. á fætur annarri hefur glímt við með heldur slökum árangri. Það gerir málið enn örðugra viðfangs, að sérhver ríkisstj., sem gera vill heiðarlega tilraun til að stöðva dýrtíðina, getur gengið út frá því nokkurn veginn vísu, að stjórnarandstaðan neyti áhrifa sinna innan hagsmunasamtakanna í landinu til að gera hverja slíka tilraun óvirka. Niðurstaðan verður jafnan sú, að hver ein ríkisstj. lætur ekki einungis hjá líða að gera róttækar ráðstafanir í verðbólgumálunum, af því hún óttast framleiðslustöðvun og ófrið á vinnumarkaðinum, heldur er gengið lengra til móts við kröfur framleiðenda og launþega en æskilegt er með tilliti til þess markmiðs að hafa hemil á verðbólgu og dýrtíð. Útkoman verður oftast sú sama hjá öllum ríkisstj., af tvennu illu er það skárra, að verðbólgan vaxi en framleiðslan stöðvist. En hvað má þá til varnar verða gegn verðbólgu og dýrtíð? Þrjú grundvallarskilyrði hafa mikla þýðingu í þessu sambandi að mínum dómi. Einbeittari vilji ríkisstjórnar, ábyrgari stjórnarandstaða og raunsærri afstaða hagsmunasamtaka.

Við getum hér minnzt tveggja atburða, sem gefa fordæmi í baráttunni gegn verðbólgunni. Haustið 1943 gáfu bændur eftir 9 vísitölustig af kaupi sínu til að reisa skorður gegn vaxandi verðbólgu. Í desembermánuði 1952 var allsherjarverkfali í Reykjavík, sem leystist með samningum um niðurfærslu. Það er þetta hugarfar, sem bændur sýndu haustið 1943 og verkalýðurinn í Reykjavík sýndi jólamánuðinn 1952, sem nú þarf að endurvekja. Á Alþ. er verið að lögfesta frv. um vísitölutryggingu fjárskuldbindinga. Í því felst heimild til að vísitölutryggja sparifé og leggja vísitöluálag á skuldir, þ.e. fjárfestingarlán til langs tíma, sem stofnað verður til eftir gildistöku laganna. Með þessu móti mætti rétta hlut sparifjáreigenda og draga úr óheilbrigðri fjárfestingu, sem miðar fyrst og fremst að verðbólgugróða. Með þessari löggjöf er smíðað nýtt vopn til notkunar gegn verðbólgunni. Þegar þetta mál var til meðferðar á Alþ. skárust stjórnarandstæðingar úr leik. Fundu þeir málinu flest til foráttu og vildu láta

fresta því. Þeir segjast að vísu vilja kveða niður verðbólguna, en láta lítt uppi, hvernig að því skuli farið. Boðskapur framsóknarforingjanna til þjóðarinnar er einfaldlega þessi: Færið oss völdin í hendur og þá munum vér afhjúpa leyndardóminn um töfralyfið okkar, sem er allra meina bót.

Það er eftirtektarvert, að sambúð vinstri stjórnarinnar og verkalýðshreyfingarinnar, sem var góð í upphafi, fór smátt og smátt versnandi, unz vinstri stjórnin missti traust verkalýðshreyfingarinnar og varð að hrökklast frá völdum. Á annan veg er þessu nú farið. Segja má, að frá upphafi hafi sambúð núv. ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar verið heldur stirð, en hún hefur sífellt farið batnandi. Samkomulag hefur tekizt milli þessara aðila á undanförnum árum um mörg mikilvæg málefni, svo sem vísitöluuppbætur á kaup, vinnutímastyttingu, húsnæðismál, skattamál og atvinnumál. Þetta samkomulag hefur m.a. borið þann árangur, að kaupmáttur tímakaups verkamanna hefur frá árinu 1963 hækkað um 10–17%, eftir því um hvaða tegund verkamannavinnu er að ræða. Í samningaviðræðum við ríkisstj. hefur innan verkalýðshreyfingarinnar átt sér stað gott samstarf milli alþýðuflokksmanna og lýðræðissinna í A.S.Í. En hinir eiginlegu kommúnistar, sem hafa haft allt á hornum sér, hafa verið settir til hliðar. Þetta hefur átt sinn þátt í því, að árangur samninganna hefur orðið heilladrjúgur fyrir almenning í landinu.

Nú eru enn á ný framundan samningsviðræður milli ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar. Í þeim viðræðum verða báðir aðilar að leggja höfuðáherzluna á stöðvun verðbólgunnar, m.a. til að tryggja, að það, sem áunnizt hefur, glatist ekki. En það eitt dugir ekki, að ríkisstj. semji við verkalýðshreyfinguna, heldur verður hún einnig að taka upp samninga um þessi mál við hagsmunasamtök framleiðenda, svo sem bændur, útvegsmenn og iðnrekendur og helzt á sama tíma. Fari hins vegar svo, að samningar um stöðvun verðbólgunnar takist ekki, sé ég ekki annað ráð vænna en að ríkisstj. feti í fótspor minnihlutastjórnar Alþfl. og lögfesti svipaðar ráðstafanir til varnar gegn verðbólgu og dýrtíð og gerðar voru á árinu 1959. Þjóðin tók þeim aðgerðum vel og skildi nauðsyn þeirra, enda þótt framsóknarmenn og kommúnistar kölluðu þetta hættulegar ráðstafanir, valdníðslu og kauprán.

Núv. ríkisstj. hefur gert hvert stórátakið af öðru í húsnæðismálum. Fátt er nauðsynlegra í þeim efnum en að reyna að lækka hinn óhóflega byggingarkostnað. Nú er unnið að stórfelldri framkvæmdaáætlun, þar sem gera á tilraunir með nýja tækni og ný vinnubrögð í því skyni að reyna að lækka kostnaðarverð íbúða. Ljóst er, að framtíðin felur það í sér, að við byggingarframkvæmdir verður að verulegu leyti að hverfa frá handverki til verksmiðjuiðnaðar. Frumkvæði ríkisstj. í þessum efnum, sem haft er í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, er því hið mikilvægasta og getur, ef vel tekst til, lækkað þann útgjaldalið, sem þyngst hvílir að jafnaði á hverri fjölskyldu. Þrátt fyrir vaxandi framleiðsluvelmegun og framkvæmdahug hafa vissir landshlutar orðið nokkuð út undan vegna erfiðs árferðis og annarra orsaka. þessum byggðarlögum þarf að rétta hjálparhönd. Ýmiss konar lagabreytingar hafa að undanförnu verið gerðar, sem stefna í þessa átt. Áætlunargerð fyrir Vestfirði er komin á góðan rekspöl og verið er að hefja gerð framkvæmdaáætlunar fyrir Norðurland. Ráðgerð er aukning síldarflutninga til Norðurlandshafna á komandi vertíð, en það þarf að gera af slíkum myndarbrag, að enginn staður verði út undan. Áætlanir eru góðra gjalda verðar, en það má ekki dragast um of að ljúka þeim og hrinda þeim í framkvæmd.

Fyrir nokkrum vikum síðan átti Alþfl. hálfrar aldar afmæli. Þá var það rifjað upp, að Alþfl. hefur þrisvar sinnum klofnað á árunum 1930–1956. Klofningsmennirnir hafa ávallt horfið úr röðum Alþfl. í því skyni að vinna að einingu íslenzkrar alþýðu. Reynslan hefur hins vegar leitt óvefengjanlega í ljós, að einingin hefur ekki vaxið við þessar aðgerðir, heldur sundrungin. Það má furðulegt heita, að enn skuli sá einfaldi sannleikur vefjast fyrir ýmsum góðum og gegnum mönnum, að íslenzk alþýða verður aldrei sameinuð í samstarfi við kommúnista, þá þarf að einangra. Ég vona, að þessi sannleikur fari nú senn að renna upp fyrir ýmsum lýðræðissinnuðum vinstrimönnum. Þegar það er orðið, viljum við Alþfl.-menn gjarnan eiga við þá góða samvinnu. Þá kann að skapast grundvöllur fyrir öflugri sókn íslenzkra alþýðustétta til aukinna áhrifa í íslenzku þjóðfélagi. — Góða nótt.