13.10.1965
Sameinað þing: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2788 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Á ríkisráðsfundi hinn 31. ágúst s.l. var utanrrh. Guðmundi Í. Guðmundssyni veitt lausn frá embætti samkv. eigin ósk. Í stað hans var ráðh. Emil Jónsson skipaður utanrrh. og alþm. Eggert G. Þorsteinsson skipaður ráðh. til að fara með þau störf, sem Emil Jónsson hafði þangað til haft með höndum. Ég þakka Guðmundi Í. Guðmundssyni ágætt samstarf og öll hans störf í ríkisstj. á undanförnum árum og býð Eggert G. Þorsteinsson velkominn til starfa.

Þrátt fyrir þessi mannaskipti og þau, sem áður hafa orðið, er ríkisstj. enn hin sama og skipuð var 20. nóv. 1959, samsteypustjórn Sjálfstfl. og Alþfl. Þegar sú ríkisstj. var mynduð, gaf þáv. hæstv. forsrh., Ólafur Thors, stefnuyfirlýsingu fyrir stjórnarinnar hönd. Meginstefna ríkisstj. er enn hin sama og þar var lýst, að tryggja heilbrigðan grundvöll efnahagslífsins, svo að framleiðsla aukist sem örast, atvinna haldist almenn og örugg og lífskjör geti farið enn batnandi.

Til þess að þetta náist, þarf að gæla þess, að viðunandi greiðslujöfnuður haldist við útlönd ásamt nægilegum gjaldeyrissjóði, enda er það forsenda frjáls innflutnings og lánstrausts þjóðarinnar erlendis. Enn fremur þarf að tryggja, að framkvæmdir fari ekki fram úr sparnaði þjóðarinnar og notkun erlends lánsfjár til langs líma og að hækkun kaupgjalds sé í samræmi við framleiðniaukningu og verðhækkanir á íslenzkum útflutningsvörum erlendis. Jafnframt verður að hafa greiðsluhallalausan ríkisbúskap og halda aukningu útlána banka innan hæfilegra takmarka.

Þá mun ríkisstj. og beita sér fyrir, að sett verði lög um verðtryggingu fjárskuldbindinga, þ.e. sparifjár og lána til langs tíma.

Til þess að draga úr hættunni á áframhaldandi kapphlaupi milli kaupgjalds og verðlags, leggur ríkisstj. áherzlu á málefnalegt samstarf við almannasamtök í landinu, jafnt innan einstakra atvinnugreina og við stéttarfélög verkalýðs og vinnuveitenda. Vinna ber að því, að þessi samtök nái sem víðtækustum samningum um ágreiningsmál sín.

Þ. á m. verði reynt að endurvekja samstarf framleiðenda og neytenda um ákvörðun búvöruverðs. Gerð verði gangskör að því að kanna, með hverjum hætti íslenzkur landbúnaður geti bezt séð þjóðinni fyrir landbúnaðarvörum með sem minnstum tilkostnaði, framleitt samkeppnishæfar vörur til útflutnings og tryggt bændum viðunandi lífskjör.

Á meðal skilyrða þess, að friður ríki milli stétta- og hagsmunahópa er, að fyrir hendi séu hlutlausar upplýsingar um ágreiningsefni og mun ríkisstj. stuðla að nauðsynlegum rannsóknum og fræðslu með þeim hætti, að samtök aðila telji sig mega treysta því, að rétt sé með farið.

Þá mun ríkisstj. beita sér fyrir, að stofnað verði hagráð skipað fulltrúum stjórnvalda, þ. á m. samtaka sveitarfélaganna, atvinnuvega, launtaka og vinnuveitenda. Hagráð ræði ástand og horfur efnahagsmála og meginstefnuna í þeim málum og fái til umsagnar þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir. Sérstakar áætlanir verði gerðar um framkvæmdir í einstökum landshlutum svipað og unnið er að fyrir Vestfirði nú.

Ríkisstj. leggur áherzlu á, að haldið verði áfram framkvæmdum við þá vinnuhagræðingu, sem hafin er í landinu, til þess með þeim hætti að bæta samkeppnisaðstöðu atvinnuveganna. Í sama tilgangi mun ríkisstj. styðja framkvæmdir og endurbætur, er miða að því að auka afköst og bæta nýtingu íslenzkrar efnivöru.

Ríkisstj. vill stuðla að því, að raunhæf verði sú stytting vinnutímans, sem kaupgjaldssamningar á s.l. sumri stefndu að, og beita sér fyrir nauðsynlegri lagasetningu í því skyni í samráði við aðila. Jafnframt verði athugað að setja reglur um orlof í samræmi við það, sem nú tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

Ríkisstj. mun beita sér fyrir endurbótum á löggjöf um aðstoð við húsbyggingar og framkvæmdum í þeim efnum í samræmi við yfirlýsingu sina hinn 9. júlí s.l.

Stefnt verður að því að koma á staðgreiðslukerfi skatta á árinu 1967. Hert verður á tollgæzlu og skatteftirliti, til þess að skatt- og tollheimta gangi jafnt yfir alla. Sett verður á stofn sérstök hagsýsludeild í fjmrn. til þess að tryggja sem bezt hagsýni og ráðdeild í meðferð opinbers fjár.

Ríkisstj. hefur látið semja grg. um möguleika á lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn og mun undirbúningi þeirrar réttarbótar haldið ósleitilega áfram.

Fyrirhugað er að leggja Framkvæmdabankann niður, en styrkja um leið stofnlánasjóði atvinnuveganna, koma á hagkvæmarí skipun þeirra sjóða og banka, sem fást við veitingu framkvæmdalána, og stofna framkvæmdasjóð strjálbýlisins.

Unnið er að því að koma upp nýjum atvinnugreinum. Kísilgúrvinnslu við Mývatn og alúminíumvinnslu í sambandi við virkjun Þjórsár. Enn er þó ekki sýnt, hvort samningar takist um þessi mikilsverðu mannvirki og mun Alþ. jafnóðum láta fylgjast með málum, enda er ákvörðunarvaldið um þau í þess höndum.

Ríkisstj. mun beita sér fyrir setningu laga um eignarog afnotarétt fasteigna.

Ráðgerð er heildarendurskoðun á þeim þáttum skólalöggjafarinnar, sem ekki hafa verið endurskoðaðir á undanförnum árum, í þeim tilgangi að laga námsefni og skipulag skólanna að breyttum þjóðfélagsháttum, setja nýjar og einfaldari reglur um samskipti ríkis og sveitarfélaga, um stofnun og rekstur skóla og endurskipuleggja yfirstjórn fræðslumála. Teknar verði upp skipulegar, vísindalegar rannsóknir í skóla- og uppeldismálum. Samin verður framkvæmdaáætlun um skólabyggingar á næstu árum og verður þar stefnt að því að fullnægja með skipulegum hætti þörf fyrir skólahúsnæði á öllum skólastigum. Gerð verður áætlun um eflingu íslenzkra rannsókna, bæði í raunvísindum og hagvísindum. Sérstök athugun mun fara fram í samráði við háskólaráð á nauðsynlegri eflingu Háskóla Íslands á næstu árum. Ríkisstj. mun beita sér fyrir, að sett verði ný löggjöf um iðnfræðslu.

Ríkisstjórnin mun, eftir því sem frekast gefst færi til, halda áfram að vinna að viðurkenningu annarra ríkja á rétti Íslands til landgrunnsins alls, sbr. ályktun Alþ. 5. maí 1959.

Kannað verður til hlítar, hvort rétt sé, að Ísland gerist aðili að Fríverzlunarbandalagi Evrópu, EFTA, og mun Alþ. látið fylgjast með athugun málsins.

Í utanríkismálum mun ríkisstj. enn sem fyrr taka heilshugar þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna, norrænni samvinnu og friðarvörzlu Atlantshafsbandalagsins.