13.10.1965
Sameinað þing: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2803 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Eysteinn Jónsson:

Það eru fáein orð út af ræðu hæstv. forsrh. Ég sá það, þegar hæstv. forsrh. hóf mál sitt hér í dag, þó að ég hefði ekki orð á því þá, að hann er búmaður og býr sig undir helgidagahald með því að semja prédikun fyrirfram, því ég sá, að hann dró úr pússi sínu ritaða ræðu. Mér fannst þetta raunar ekki neitt tiltökumál, þó hann gerði þetta og hafði ekki orð á því, en vegna þess að hann tók eftir búmennsku minni, að ég hafði ritað hjá mér á blað nokkuð af því, sem ég sagði, sé ég ástæðu til að benda á, að það eru fleiri búmenn en ég hér á hv. Alþingi. Ætti ekki að vera nema gott um það að segja.

Þá fór öðruvísi en ég ætlaði, því hæstv. forsrh. hafði sig í að halda því fram, að viðreisnin hefði heppnazt. Það hefði í raun og veru í aðalatriðum farið eins og átt hefði að fara. Verð ég að segja það, að þetta kom mér á óvart. Þetta hélt ég, að enginn mundi taka sér fyrir hendur. Að reyna að halda slíku fram. Hann færði það til, að það hefði batnað gjaldeyrisaðstaðan við útlönd og lausaskuldir væru minni.

Já, við höfum eignazt nokkuð af gjaldeyri, en skuldir hafa vaxið stórkostlega, þannig að jafnvel sjálfur forsrh. varð áðan að upplýsa, að skuldasöfnunin er svo stórkostleg, að hún er aðeins 179 millj. kr. minni heldur en allur gjaldeyrissjóðurinn, sem svo mikið hefur verið talað um, þegar miðað er við árslok 1959. Ávinningurinn á þessum árum, í þessu tilliti, er þá þessar 179 millj., sem hæstv. ráðh. er mjög ánægður með, og kemur dæmið þó allt öðruvísi út, ef miðað er við árslok 1958. Þetta er þá það, sem talið er í aðra hönd af öllu þessu brambolti, eftir sjö mestu góðærisár, sem nokkru sinni hafa yfir þjóðina komið. En dýrar eru þessar 179 millj., þegar þær kosta allt það öngþveiti og alla þá ringulreið og öll þau rangindi, sem stofnað hefur verið til í landinu með ráðstöfunum ríkisstj. Lausaskuldir eru meiri við útlönd en áður var.

Hæstv. ráðh. segir, að menn hafi haft næga vinnu nema á vissum stöðum, og þá sé það náttúruöflunum að kenna. En hverjum skyldi það þá vera að þakka, að menn hafa haft nóga vinnu annars staðar? „Þar kom ég til“, meinar víst hæstv. ríkisstj. Þar sem illa gengur og lítið er um atvinnu, þar eru náttúruöflin að verki, en ef vel gengur, þá er það vegna stefnu hæstv. ríkisstj. En ætli það sé ekki þetta stórkostlega góðæri, sem við höfum lifað, sem hefur bjargað frá þyngsta áfallinu, sem hefði að öðrum kosti stafað af framkvæmd stefnunnar?

Ég benti á það hér áðan, að aðalatriðið í stefnunni átti að vera stöðvun verðbólgu og dýrtíðar, en verðbólguvöxtur og dýrtíðarvöxtur hefur verið meiri en nokkru sinni áður við hliðstæð skilyrði. Ég benti á, að það átti að afnema uppbótarkerfið. Við búum enn við uppbótarkerfi í mörgum myndum. Ég benti á, að það átti að afnema vísitölukerfið. Hæstv. ríkisstj. hefur lögleitt það aftur. Ég benti á sterkar yfirlýsingar um greiðsluafgang á ríkisbúskapnum, en við höfum búið við greiðsluhalla í 2 ár. Ég benti á öll loforðin um ráðdeild og sparnað, sem hafa nálega öll verið svikin, og er það alveg óumdeilt, að það er stórfelldari útþensla í ríkiskerfinu en nokkru sinni fyrr.

Á þessi atriði benti ég og ég geri það aftur, til þess að sýna fram á, hvernig framkvæmdin hefur orðið. Ég benti á loforðið um lækkun beinu skattanna. Fólkið sjálft hefur möguleika til þess að sjá, hvernig við það hefur verið staðið. Ég benti á, hvernig ástatt er um opinberar framkvæmdir og mun gera það nánar í þeim umræðum, sem verða um fjárlögin. Og hliðslætt mætti segja um húsnæðismálin og fleiri mál, sem ég mun ekki vegna tímaskorts fara út í að ræða hér.

En e.t.v. er þó alvarlegast af öllu, að þrátt fyrir allt hið mikla góðæri og aukna þjóðarframleiðslu af þeim sökum, er þó kaupmáttur tímakaupsins í landinu mun minni en hann var, áður en hæstv. ríkisstj. tók við. Þetta er alvarlegasti áfellisdómurinn yfir hæstv. ríkisstj. Hæstv. ráðh. talaði fáein orð um áætlunarbúskapinn. Ég held því fram, að þessar bollaleggingar um nýjar áætlanir séu mestmegnis reykský, og þær muni reynast í framkvæmdinni hliðstætt og sú framkvæmdaáætlun. sem þegar hefur verið gerð og við höfum búið við. Við sjáum, hvernig framkvæmdin á henni hefur farið úr hendi.

Ég held því miður, að það sé ekki mikils bata að vænta, þegar hæstv. forsrh. lítur á málin eins og nú hefur komið fram í þessum umræðum, né undir forystu þess ráðherra, sem gerir sig ánægðan með framkvæmd þeirra stefnumála, sem hér hafa verið rifjuð upp, eins og hún hefur orðið.

Hér hefur svo komið fram af hendi hæstv. forsrh., eins skýrt og verða má, það sem er aðalatriðið, og það er mér alveg nógur árangur af þessum umræðum að hafa fengið það atriði skýrt fram. Hæstv. forsrh. margendurlók sem sé í síðari ræðu sinni, að meginstefnan ætti að vera enn hin sama og, að hann væri ánægður með þann árangur, sem náðst hefði í framkvæmd þeirrar meginstefnu. Því vitum við nú, að hæstv. ríkisstj. er enn við sama heygarðshornið. Ég spái því, að það fari hrollur um marga við þessar yfirlýsingar hæstv. forsrh. Ég held, að það sé ekki sagt út í bláinn. Menn telji sig ekki eiga á góðu von.

Niðurstaðan af þessum umræðum er alveg óumdeilanlega sú,að staðfest er og játað af hæstv. forsrh., að stjórnarstefnan er óbreytt og ekki neinar verulegar breytingar fyrirhugaðar á framkvæmd hennar.