30.11.1965
Efri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft mál það, sem hér liggur fyrir, til meðferðar, en eins og þskj. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur n. ekki náð samstöðu um afgreiðslu málsins. Eins og nál. meiri hl. á þskj. 108 ber með sér, leggjum við, sem að því áliti stöndum, til, að frv. verði samþ. með brtt., sem við flytjum á þskj. 110. Einstakir okkar, sem að meirihlutaálitinu stöndum, höfum þó áskilið okkur rétt til þess að flytja eða fylgja frekari brtt., og á þskj. 109 hefur hv. 4. landsk. þm., Jón Þorsteinsson, borið fram brtt., en um hana hafa aðrir, sem að meirihlutaálitinu standa, óbundnar hendur. Tveir hv. nm., þeir hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 1. þm. Norðurl. e., hafa skilað sérálitum og tjáð sig andvíga frv., en hv. 4. þm. Norðurl. e. var fjarstaddur, þegar n. afgreiddi málið, og hefur hann því auðvitað óbundnar hendur um það.

Ég ætla aðeins að víkja að þeim brtt., sem meiri hl. flytur á þskj. 110. Veigamest þessara brtt. er 1. brtt., sem fólgin er í því að ákveða, að ekki skuli greiða réttargjöld af málum um innheimtu vinnulauna. Það var hv. 4. landsk. þm., Jón Þorsteinsson, sem frumkvæði átti að því, að þessi brtt, var flutt, en hann hefur um skeið verið lögfræðingur A. S. Í. og er því þessum málum kunnugur. En þannig mun vera, að töluvert ósamræmi mun vera í framkvæmd varðandi þetta á ýmsum stöðum á landinu, en kröfur þessar eru þess eðlis, að telja má eðlilegt, að ekki séu greidd réttargjöld í málum um innheimtu vinnulauna. Um það var meiri hl. sammála.

Hvað snertir aðrar brtt., sem meiri hl. flytur, eru þær meira til leiðréttingar og flestar þannig til komnar, að þar er komið til móts við ábendingar, sem hv. 9. landsk. gerði við 1. umr. frv. Sé ég ekki ástæðu til að rekja það nánar. Að öðru leyti hefur meiri hl. fallizt á þau sjónarmið, sem eins og lýst er í grg. frv. liggja því að baki, að frv. þetta er flutt, og hæstv. fjmrh. hefur einnig gert grein fyrir í framsögu sinni við 1. umr. málsins. En í grg. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta, m. a.:

„Með tilliti til breytinga, sem orðið hafa á verðlagi og kaupgjaldi undanfarin ár, og þarfa ríkissjóðs fyrir auknar tekjur, þykir nú nauðsynlegt að hækka ýmsa tekjuliði aukatekjulaganna, einkum þá, sem eru fastákveðnir í l., en fylgja ekki breyttu verðlagi á hverjum tíma.“

Núgildandi lög um þessi efni eru frá því í febrúar 1960. Þau voru sett um það bil sem efnahagsráðstafanirnar voru gerðar á því ári, en eins og kunnugt er, hefur verðlag hækkað um 80% síðan, ef miðað er við vísitölu framfærslukostnaðar, og mun sú hækkun, sem hér er gert ráð fyrir, upp og ofan varla nema meira og í mörgum tilfellum minna. En annars er ýtarleg grein gerð fyrir því í grg. fyrir frv., hve miklu þessar hækkanir nema á einstökum liðum. Þá má auðvitað um það deila, bæði hvenær greiða skuli slík réttargjöld og enn fremur hve há þau séu, en þegar þessi gjöld hafa verið ákveðin, verður að telja eðlilegt, að þau fylgi hinu almenna verðlagi. Hér kemur líka annað sjónarmið til heldur en tekjuöflunarsjónarmiðið eitt, en það er þetta, að ef þessi gjöld verða óeðlilega lág, freistar það fólks óneitanlega til þess að leita til dómstóla með lítilvæg mál.

Hv. 4. landsk. hefur flutt brtt., sem ég nefndi, á þskj. 109, sem hann mun gera grein fyrir, en þar er gengið lengra í því efni en frv. gerir að hækka gjöld fyrir fyrirtekt mála, og skilst mér að þetta sjónarmið, sem ég hef nefnt, liggi því að baki. Nú er það auðvitað álitamál. hversu langt skuli ganga í þessu efni, og eins og ég sagði, hafa aðrir, sem að meirihlutanál. standa, óbundnar hendur í þessu efni. En sjónarmiðið á að mínu áliti fullan rétt á sér, og á það má benda í þessu sambandi, að fyrir fáum árum var ákveðin alimikil hækkun á þóknun til lækna, sem gegndu kvöld- og næturþjónustu, og sú hækkunin á þóknuninni skyldi einmitt greiðast af þeim, sem vitjuðu læknanna, ekki af sjúkrasamlögunum. En það var út frá því sjónarmiði, að þessi gjöld væru orðin svo óeðlilega lág, að það beinlínis freistaði fólks til þess að leita læknis, þegar það var óþarft. Ég hygg, að um það hafi ekki neinn ágreiningur verið, að þetta væri réttmætt. En eigi það við um læknaþjónustuna, ætti þetta í enn ríkara mæli að mínu áliti að eiga við um aukatekjurnar.

Herra forseti. Eins og ég hef gert grein fyrir, leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem hann flytur á þskj. 110.