30.11.1965
Efri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Umr. um þetta mál hafa hér orðið allmiklar og raunar minnst af þeim snúizt um málið sjálft, heldur almennt um fjármálastefnu og efnahagsmálaþróun. Það er sennilega ekkert undarlegt, að svo hafi orðið, því að vissulega er þetta mál þáttur í aðgerðum í sambandi við ríkisfjármálin og ekkert þess vegna um það að segja, þó að menn hafi nokkuð talað vítt og breitt um þetta mál.

Ég ætla ekki að fara hér við þessa umr. út í fjármálastefnuna almennt eða efnahagsmálaþróunina, heildarstefnu í skattamálum eða slíkt. Fjárlagaumr. eru á næsta leiti, og má gera ráð fyrir, að þá beri þetta mál aftur á góma og það með eðlilegri hætti. En það eru þó nokkur atriði, sem ég vildi segja í sambandi við málið og þær umr., sem hér hafa farið fram.

Hv. 6. þm. Sunnl. (HB) sagði, að ég hefði í umr. um þetta mál um daginn viðurkennt, að það væri nauðsynlegt að breyta fjármálastefnu og taka upp nýja fjármálastjórn, og taldi það þakkarvert, þó að ég að öðru leyti hefði valdið vonbrigðum á ýmsan hátt. Ég verð því miður að valda honum þeim vonbrigðum til viðbótar, að þetta er ekki nákvæmlega það, sem ég sagði, að þyrfti að breyta um fjármálastefnu og fjármálastjórn. Ég hins vegar tók það fram, sem er hárrétt og ég var honum og hv. stjórnarandstæðingum sammála um það atriði, og um það eru allir sammála, að þróunin varðandi verðlagsmál eða verðbólgumál, ef svo má segja, hafi verið mjög óheillavænleg og það sé mjög nauðsynlegt, að sú þróun breytist. Fjármálastefnan varðandi fjármál ríkisins hefur verið hin sama og er enn í dag og hlýtur í rauninni að verða, hver sem um þann stjórnvöl heldur, að það sé hallalaus ríkisbúskapur og í sambandi við þann þátt fjármála þjóðarinnar sé því ekki annað en standa andspænis því, hvort menn vilja draga úr útgjöldum ríkissjóðs eða þá afla nýrra tekna, ef endarnir nást ekki saman.

Þetta er í rauninni það viðfangsefni, sem við er að fást, þegar við ræðum um ríkisbúskapinn, fjárlög og ríkisfjármál í þrengri merkingu, og það er það, sem við að sjálfsögðu stöndum andspænis í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og þær ráðstafanir, sem ég hef gert hinu háa Alþ. grein fyrir að þyrfti að gera til þess að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög, eru óhjákvæmilegur liður í.

Ég held því, að þessi stefna eigi ekki fyrir sér að breytast og að við hljótum í rauninni að geta verið sammála um, að þetta sé grundvallarstefna hvað snertir ríkisbúskapinn í þrengri merkingu. Hitt er svo allt annað mál, þegar við förum að ræða um efnahagsmálaþróunina og hvernig hún verki á ríkisbúskapinn, og þróunin í þeim málum, fjárhagsástandið í þjóðfélaginu yfirleitt, hefur verið ríkisbúskapnum ákaflega óhagstætt og ríkissjóði og hefur valdið því, eins og við vitum, að nú er svo komið, að mikill halli hefur myndazt á rekstri ríkissjóðs. Ef menn vilja skoða það mál ábyrgum augum, tjóir ekki að segja sem svo, að það sé af því, að það sé einhverri óheillavænlegri efnahagsmálastefnu fylgt, sem að sjálfsögðu er ekki hægt að segja að sé óheillavænleg efnahagsmálastefna, þó að þróunin hafi verið óheillavænleg, vegna þess að það má í rauninni segja, að sú sama þróun hafi verið við allar þær stefnur, sem fylgt hefur verið síðustu áratugi og hver sem hefur verið í stjórn, að menn hafa ekki ráðið við verðbólguvandamálið. Þetta er það, sem allar ríkisstjórnir hafa staðið andspænis, því miður, og væri betur, að það væri orðinn vaxandi almennur skilningur hjá öllum þeim aðilum, sem úrslitaáhrif hafa í því efni, að sú þróun verði að stöðvast. Við vitum það öll hér í hv. þd., að vald Alþ. og ríkisstj. er ekki nema þáttur í því máli. Það eru margir aðrir þættir, sem þar koma til greina og hafa úrslitaáhrif í þeim efnum, og það eitt út af fyrir sig að neita ríkisstjórn um fjármagn til þess að geta innt af hendi skuldbindingar ríkissjóðs, er ekki nokkur lausn eða nokkur leið til þess að knýja fram lausn á þeim vanda. Það er aðeins til þess fallið, að skapa algert öngþveiti í þjóðfélaginu, og það veit ég, að þessir hv. þm., sem þann boðskap flytja, vita alveg jafnvel og ég, og þess vegna er sú afstaða þeirra að segja: Við erum á móti öllum þeim ráðstöfunum til þess að rétta ríkisbúskapinn af og jafna halla ríkissjóðs, — þær kenningar eru auðvitað eingöngu til þess fallnar, að þeir geti verið á móti þessum ráðstöfunum án þess að þurfa sjálfir að benda á nokkur úrræði til lausnar vandanum, heldur aðeins segja almennt: Við erum á móti þessu, við viljum ekki láta ríkisstj. hafa peninga, vegna þess að hún fylgir skakkri stefnu, og það má jafna ríkisbúskapinn með allt öðrum hætti, einhverjum hætti þó, sem aldrei fæst neinn botn í, hvernig á að vera. Þetta er gallinn á þessum málflutningi öllum saman.

Varðandi þetta einstaka mál, sem hér liggur fyrir, hafa menn sagt sem svo, að hér sé í rauninni mál á ferðinni, sem sé óeðlilegt vegna þess. að m. a. sé þessi tekjuöflun fyrir ríkissjóð ekki eðlileg, hér sé verið að hækka ýmiss konar þjónustugjöld til þess að afla ríkissjóði tekna og slíkt eigi ekki að gerast með þessum hætti. Að vísu er jafnóljóst, með hvaða öðrum hætti það á að gerast, en látum það liggja á milli hluta.

Það hefur verið talað um það, sem rétt er, að þessi gjöld voru síðast hækkuð 1960. Ég held, ef menn skoða þetta mál niður í kjölinn, að þeir hljóti að gera sér grein fyrir því, að hér er ekki raunverulega um að ræða neitt annað en að hækka þessi gjöld með eðlilegum hætti. Ef menn skoða, hvaða kostnaður er við alla þá þjónustu, sem veitt er í sambandi við þau ótalmörgu atriði, sem aukatekjulögin fjalla um, held ég, að menn komist að raun um það, að síðan 1960 hefur kostnaðurinn við þessa þjónustu við þjóðfélagsborgarana vaxið miklum mun meira en sem svarar þeim upphæðum, sem gert er ráð fyrir að afla með hækkun þessara gjalda, þannig að hér er, eins og segir í grg., í rauninni um mjög eðlilega hækkun að ræða, til þess að sama hlutfall verði á milli þessara gjalda og kostnaðarins við að veita þessa þjónustu.

Þetta held ég, að sé kjarni málsins, og hvort sem það heitir í sambandi við aukatekjulög eða aðra þjónustu, — við skulum taka þjónustu ýmissa stofnana hér, afnotagjald af útvarpi, póstburðargjöld og annað slíkt, þá sé það ósköp eðlilegt, að þetta sé hækkað, en ekki látið lenda á ríkissjóði, sem verður þá að afla þessara tekna með einhverjum öðrum sköttum.

Ég held sannast sagna, að við getum öll verið sammála um það, ef við skoðum málið af nokkurri sanngirni og réttsýni, að það er auðvitað algerlega út í hött að halda því fram, að hækkun þessara réttargjalda verki í þá átt að draga úr möguleikum manna til þess að sækja mál sín fyrir dómstólum. Það er sagt, að það sé varla hægt að ræða það mál með nokkurri alvöru, því að það sé svo fráleitt. Hitt er allt annað mál, sem er rétt, þó að það komi ekki þessu máli hér við, að það er mikið vandamál, hvað það er kostnaðarsamt að reka mál fyrir dómstólum, og ég held, að versti vandinn í því sé sá, hvað það getur orðið dýrt fyrir mann, sem lendir í málaferlum algerlega að ósekju, þ.e.a.s. fyrir mann, sem er stefnt í máli í einhverju þvargi og verður af þeim sökum fyrir stórkostlegum útgjöldum, sem eru mörg dæmi til, þó að maðurinn sé svo gersamlega sýknaður af öllum kröfum gagnaðila. En þetta er allt annað vandamál. Þetta er vandamál, sem í rauninni varðar ákvörðun dómstóla hverju sinni, hvernig þeir taka á þeim málum, að þeir úrskurða ekki mönnum þann málskostnað, sem eðlilegur er og t.d. lögfræðingastéttin setur upp í sambandi við sína þjónustu, þannig að maðurinn, sem er sýknaður að fullu og hefur lent í málarekstrinum algerlega að ástæðulausu, að segja má, eða a.m.k. að ósekju, hann getur orðið þar fyrir stórkostlegum útgjöldum. Þetta er, held ég, eitthvert versta vandamálið, sem er í sambandi við málarekstur í dag, að þeir, sem hafa rétt mál að sækja eða rétt mál að verja og í rauninni eru sýknaðir af öllu, þeir verða samt fyrir stórkostlegum kostnaði. En það á ekkert skylt við þau réttargjöld, sem hér eru. Það er aðeins lítið brot af þeim kostnaði, sem þar er um að ræða.

Um það, hvaða leið eigi að fara til þess að jafna metin í fjárlögum, er auðvitað endalaust hægt að fílósófera. Menn hafa talað um það, þegar hafa komið fram till. um að hækka söluskatt, að það væri hin mesta óhæfa að ráðast þannig á alla þjóðfélagsborgara með slíkri skattheimtu. Nú tala menn jafnt um það, að það sé í rauninni enn þá meiri óhæfa að ætla að leysa þetta með þeim hætti að leggja á gjöld á takmörkuðum sviðum, m. a. vegna þess, að þessi gjöld hafa ekki sömu áhrif á vísitölu og valda því ekki, að tilkostnaður allur hækki raunverulega í sama mæli og gjöldin, sem á eru lögð. Ég held, að allir hljóti að gera sér grein fyrir því, að þegar um það er að ræða eins og hér að jafna hallarekstur hjá ríkissjóði og ef menn ekki beinlínis yrðu að skerða þá þjónustu, sem ríkið nú veitir, og ég hef ekki heyrt nokkra till. koma fram um það, þá er það sannast sagna ekkert óeðlilegt, að það sé reynt að finna úrræði, sem er ekki alveg aftur snúið á ríkissjóð með fullum þunga, þannig að þetta gefi í rauninni engar tekjur. Menn geta sagt, að það sé að falsa vísitölu, og annað þess konar. En ég held, að við komumst ekki fram hjá þeirri staðreynd, að öfugþróunin í þessu öllu saman er sú, að tilkostnaður hækkar á öllum sviðum, og þegar við höfum þetta óbrúaða bil, brúum við ekki bilið með því móti að tryggja á móti, að ríkið verði fyrir alveg nákvæmlega jafnmiklum nýjum útgjöldum að auki. Þá er þetta hreinn skollaleikur og hringavitleysa.

Varðandi það, að vísitalan hreyfist ekki út af þeim sköttum, sem hér hefur verið talað um að leggja á, hreyfist hún nú töluvert, og frá mínum bæjardyrum séð hreyfist hún of mikið, því miður. En það verður að sjálfsögðu að taka afleiðingunum af því. Það má segja, að sé kannske nokkuð einkennileg kenning, að það er neitað að styðja till. um fjáröflun til handa ríkissjóði og því jafnframt lýst yfir, að í rauninni sé ástæðan ekki hvað sízt sú, að það sé fyrirsjáanlegur stórkostlegur halli hjá ríkissjóði þrátt fyrir þessar tekjuöflunarleiðir. Ég vil að sjálfsögðu þakka þá umhyggju, sem hér kemur fram, að það sé nauðsynlegt að afla meiri tekna fyrir ríkissjóðinn, og ég get vel fallizt á það, að það er teflt mjög tæpt og á yztu nöf með það, hvort ríkisbúskapurinn verður hallalaus á þessu ári. En ég fæ ekki beint samræmi í það að neita um tekjustofna og halda jafnframt fram þessari kenningu. Það er alveg rétt, að það er ekki í fjárl. nú gert ráð fyrir neinni sérstakri aðstoð við sjávarútveginn hliðstæðri þeirri, sem ákveðin var með sérlögum snemma á árinu 1965. Og ég held, að það liggi nokkuð í augum uppi, af hverju það er. Fyrir því liggja tvær ástæður: Fyrst og fremst sú, að það hefur enginn maður í dag neina hugmynd um, hvað hér er verið að tala um, það liggur alls ekki fyrir, og fara að afla einhverra tekna eða gera till. um það nú á þessu stigi, án þess að endanlegar athuganir hafi farið fram á aðstöðu sjávarútvegsins nú. væri auðvitað fráleitt með öllu. Á hinn bóginn er svo þess að gæta, að þessi fjárútlát hafa aldrei verið tekin í fjárlög og voru ekki á þessu ári. Þeim var að vísu mætt að nokkru með niðurskurði opinberra fjárfestingarframkvæmda, þannig að segja má að vísu, að með tekjustofninum hafi að vísu verði reiknað í fjárlagafrv., en ekki útgjöldunum. En ég gerði grein fyrir því í fjárlagaræðunni við 1. umr. fjárl., að vitanlega. hefði ríkisstj. haft það í huga. að hér væri um vandamál að ræða, sem kynni að þurfa að standa andspænis, og að sjálfsögðu munu verða gerðar till. um það, þegar þar að kemur. En að slík hugsanleg viðbótarútgjöld ríkissjóðs leiði til þess, að það eigi ekki að mæta þeim útgjöldum, sem þegar eru sjáanleg frá ríkissjóði. fæ ég ekki nokkurn botn í, að það sé eðlilegt að álykta á þann veg. Ég held einmitt, ef menn komist að þeirri niðurstöðu, sem ég get tekið undir með hv. 4. þm. Norðurl. e. að sé rétt, að það séu allar líkur til, að ríkið þurfi á meiri fjármunum að halda, þá skapi það ekki grundvöll til þess að neita þá um þá fjáröflun, sem hér er um að ræða.

Varðandi svo aðeins eitt atriði hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., þegar hann var að bera saman hækkun ríkisútgjalda og launahækkanir frá árinu 1959 eða 1960 og til þessa dags og taldi, að álögurnar á almenning hefðu hækkað miklum mun meira en launahækkanir á þessum tíma, þá var vitanlega það dæmi sett upp á mjög óraunsæjan hátt, vegna þess að ég veit, að hv. þm. er fullkunnugt um það, að á þessu tímabili hefur ríkið tekið á sig stórkostleg útgjöld til kjarabóta fyrir launþega umfram það, sem þeir hafa fengið í beinum kauphækkunum. Og það hefur oft og tíðum komið fyrir einmitt til lausnar á kjaramálum eða kjaradeilum, að þá hefur verið stuðlað að þeirri lausn með því, að ríkið hefur tekið á sig ný og ný útgjöld í því sambandi, sem að verulegu leyti er skilað borgurunum aftur í öðru formi en beinum kauphækkunum. Ég veit, að hv. þm. t.d. er það kunnugt, hvað stórkostleg hækkun hefur orðið á almannatryggingum á þessu tímabili, sem er auðvitað ekki annað en millifærsla á fé, og allt það rennur til borgaranna eða þeirra, sem miður mega sín í þjóðfélaginu, og hefur oft og tíðum einmitt verið um slíkar ráðstafanir að ræða í sambandi við kjaramálin. Varðandi aukaútgjöld í sambandi við húsnæðismál þekkjum við, og það hefur verið rætt hér fyrir ekki löngu. Niðurgreiðslurnar þekkjum við líka, þá stórkostlegu hækkun þeirra, sem hefur lagzt á ríkissjóð í stórkostlega auknum mæli og er að sjálfsögðu ekki til þarfa ríkisins, heldur er skilað borgurunum aftur og mundi annars leiða til þess, að allt verðlag hækkaði stórum í landinu.

Ég get aðeins með því að nefna hér tvær tölur, sem eru þær veigamestu í þessu sambandi, sýnt það, hvað hér er um að ræða stóran þátt í þeirri aukningu ríkisútgjaldanna, sem orðið hefur á þessu tímabili, að 1959 voru framlög ríkissjóðs til almannatrygginga 101 millj. kr., en í fjárl. fyrir 1966 er gert ráð fyrir, að þau útgjöld verði 695 millj. Framlög ríkisins til útflutningssjóðs 1959, þ. á m. til niðurgreiðslna og annarra slíkra ráðstafana, voru 152 millj., en niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur nema nú í fjárlagafrv. fyrir 1966 770 millj. kr. Ef við aðeins tökum þessar tvær tölur, sem vitanlega er ekki hægt að segja að sýni neina sérstaka aukningu ríkisútgjalda sem slíkra eða útþenslu í ríkisbákninu, — þegar við skoðum þessar tvær tölur einar út af fyrir sig, sjáum við, að það eru engar smáfjárhæðir, sem á þessu tímabili hafa gegnum þessa aukningu, sem orðið hefur á ríkisútgjöldunum, beinlínis horfið til borgaranna aftur og má segja að sé viss þáttur í hækkun kaupgjalds, sem ríkið hafi stuðlað að. Þetta veit ég, að hv. 4. þm. Norðurl. e. viðurkennir fullkomlega og skilur.

Ég held ekki, herra forseti, að ég hafi ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál. Eins og ég sagði í upphafi míns máls, væri auðvitað fróðlegt að ræða margt um þau ummæli, sem hér komu fram frá fulltrúum beggja minni hl. hv. fjhn. um efnahagsmál og ríkisfjármál almennt, en ég tel rétt, að þær hugleiðingar bíði hins eðlilega vettvangs, sem eru umr. um fjárl., sem verða væntanlega í þessari viku.