08.02.1966
Neðri deild: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2294)

81. mál, loðdýrarækt

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Með endurflutningi þessa furðulega loðdýrafrv. frá s.l. þingi er augljóst, að minkamönnum er full alvara í að gera minkinn að viðurkenndum borgara í íslenzku dýraríki og einnig eiga frumkvæðið að því að viðhalda villiminknum. Þessa menn virðist ekki varða fyrri saga í sambandi við þekktar landplágur af völdum innfluttra dýra, plágur, sem á ýmsum tímum hafa kostað hálfgerða upplausn í ýmsum greinum íslenzks landbúnaðar, svo sem vegna fjárkláðans, sem oftar gekk yfir, og vegna annarra meindýra, eins og afleiðingar af karakúlfénu, sem flutti inn með sér fjárpestir, sem hafa kostað milljónahundruð. Með sífelldu eftirliti og lyfjagjöf hefur tekizt að halda sumum hinna aðfluttu plága í skefjum, án þess að þeim hafi verið útrýmt. En við aðrar hefur ekki verið ráðið, eins og t.d. villiminkinn.

Þetta er vitanlega öllum kunnugt, jafnt hv. flm. þessa frv. sem öðrum, kunnugt um, hve mikið fjárhagslegt tjón ríkið hefur beðið við tilkomu villiminksins og afleiðinga hans. Það var ekki af neinu hverflyndi þeirra manna, sem lagt höfðu fram miklar fjárfúlgur til að kaupa og flytja inn minkastofn og reynt að framleiða loðskinn, að þeir gáfust upp. Það var ekki heldur sér til gamans gert, að Alþ. á sínum tíma lögfesti bann við minkaeldi og eyðingu þess litla minkastofns, sem enn var þá til í vörzlum manna. Ákvörðunin var tekin eftir ýtarlega athugun, byggð á því, að villiminkastofn væri vaxinn upp í landinu, sem engu eirði og öllum virtist illviðráðanlegur. Þær staðreyndir blöstu við, að villiminkurinn ógnaði eyðingu margra dýrategunda og þá sérstaklega fuglategunda, jafnt þeim, sem voru til mikils augnayndis, og þeim, sem töldust til nytja. Þá hafði einnig komið í ljós og reynzt enn réttara síðar, að villiminkurinn ógnaði einnig nytjafiskastofninum í ám og vötnum. Fengust fljótt sannanir fyrir því, að minkurinn lá í silungi og laxi, enda heldur hann sig mest í námunda við ár og vötn og tekur þar mest af fæðu sinni, a.m.k. þann tíma, sem meira er á völ en úti í íslenzkri náttúru að vetrarlagi.

Þegar tekin var ákvörðun um, hvort banna skyldi minkaeldi eða ekki, virtist enginn geta neitað þeirri staðreynd, að minkurinn hafði reynzt mikið skaðræðisdýr, sem í raun og veru hefði sýnt sig óalandi og óferjandi. Hins vegar létu nokkrir þá skoðun í ljós, að komið gæti til mála að banna frekari innflutning minksins og ný minkabúr, en láta kyrrt liggja, a.m.k. í bili, með þau fáu dýr, sem enn voru í eldi og í vörzlu manna f búrum, töldu, að hér væri um valinn dýrastofn að ræða, sem mikið verðmæti fælist í, og ef enn væri hert á ákvæðum um búr og vörzlu, ætti ekki að þurfa að óttast, að þessi dýr slyppu.

Minkaandstæðingar bentu á, að það væri staðreynd í öðrum löndum, að aldrei væri hægt til langframa að tryggja svo vörzluna, að ekki slyppu dýr úr búrum, og hvert dýr, sem slyppi, væri verulegur stofnauki við villiminkastofninn. Væri slíkt byggt m.a. á erlendri reynslu, að hvert dýr væri talið mikill uppalandi villiminka vegna þeirrar miklu tímgunarhæfni, sem þessi kvikindi hafa til að bera.

Niðurstaðan varð því sú, að allt minkaeldi skyldi afnumið og öllum eldisminkum skyldi fargað og mikið fé lagt til höfuðs villiminkum. Er nú árlega varið svo að milljónum skiptir vegna eyðingar minks, og er enn óvíst, hvernig þeirri baráttu lýkur. En minkamennirnir láta nú svo sem hér hafi ekkert gerzt, engin óhöpp staðið í sambandi við tilraunir um loðdýrarækt og slíkt þurfi ekki að eiga sér stað.

Það eru ekki mjög margir áratugir síðan loðdýrarækt var fyrst reynd hér á landi. Byrjað var með mórauða fjallarefinn, síðan bláref og silfurref. Eins og kunnugt er, er grávara mikill tízkuvarningur, og hefur oft ríkt mikil bjartsýni um skjótfenginn gróða í þeirri framleiðslu. En tízkan er og var hverful, og hlutu menn því að gefast upp á refaræktinni, eftir að sú skinnavara hafði stórlega fallið í verði. Átti þá minkurinn að bjarga málum. Var hann þá fluttur inn og minkabú stofnuð. Síðan liðu um tveir og hálfur áratugur og valt á ýmsu með útkomuna. Lágu þá að lokum fyrir þær staðreyndir, að flestir minkabúseigendur höfðu gefizt upp, vegna þess að minkaræktin borgaði sig ekki, og nokkur dýr höfðu sleppið úr búrum, og tímguðust þau ört sem villiminkur. Var þar með vaxinn upp meindýrastofn, sem ekki leit út fyrir að haminn yrði eða eyddur.

Hrakfallasögu loðdýraræktarmannanna hér á landi vilja loðdýraræktarmennirnir nú ekki lita á, en vilja óðir og uppvægir stofna til annars slíks leiks í von um gróða. Fyrri reynsla er þeim lítils eða einskis virði. Mætti þó ætla, að minni áföll en þau, sem skeð hafa, fældu menn frá frekari aðgerðum. Minkamennirnir láta í veðri vaka, að hinn innflutti minkastofn hafi verið gallaður, og þar með vilja þeir væntanlega gefa skýringu á rekstrarhalla á minkabúunum fyrrum. Þeir telja einnig, að hafi einhverjir slíkir gallar í dýrastofni átt sér stað í fyrstu, sé nú auðvelt úr að bæta.

Fyrrverandi loðdýraræktarmenn höfðu um 25 ára reynslu, áður en þeir gáfust upp eða þeim var bönnuð starfsemin, og virðist það vera meir en nógur tími. En reynslutíminn á nú að nægja 2 ár skv. frv. Það er því óhætt að fullyrða, að miðað við það, sem nú á að framkvæma, hafi áður ekki verið almennt til staðar vankunnátta í meðferð eða eldi meðal loðdýraræktarmanna hér fyrrum og því megi telja, að sú tilraun, sem koðnaði niður beint af fjárhagslegum ástæðum, hafi sýnt, hvað þessi starfsemi er, vægast sagt, ótrygg og hverful.

Áður fyrr var minkaræktin meðfram gyllt á þeim grundvelli, að loftslagið hér mundi valda því, að dýrafeldir yrðu af sjaldgæfum gæðum, og það er ekki laust við, að núverandi minkamenn impri á sama slagorðinu. Og hér er hampað öðru í sambandi við eldi dýranna. Það er fiskúrgangurinn, sem sé hér ódýr og handhægur, handhægari en víðast hvar annars staðar þekkist. Þessi söngur er nú síendurtekinn. En ég hefði haldið, að hagstætt loftslag hér hefði ekki mikið til sins ágætis í þessu efni, fremur en t.d. í Noregi og Svíþjóð. Og hvað snertir eldið höfðu fyrri minkamenn meira og minna aðgang að gefins fóðri, fóðri, sem þeir þurftu aðeins að hirða, bæði í fiskvinnslustöðvum og frá sláturhúsum, svo að varla hafa þessir minkamenn nú þar mikið til framdráttar, miðað við hina fyrri minkamenn. Nú er fiskúrgangur, sem á að vera allra fjárhagslegra meina bót, þó að hækka og mun vera að jafnaði nálægt 4 kr. til dýraeldis, og því er spáð, að slíkur fiskúrgangur muni hækka á næstu árum, meðfram fyrir þá tækni, sem nú er kunn, að hægt er að vinna fiskúrgang til manneldis.

Það er eins og hv. alþm. hafa nú og áður heyrt, að áróðurinn fyrir minknum er ekki sparaður í ýmsum dagblöðum. Gróðavonin vegna minkaeldisins á að vera stórfengleg, og í því efni bera þeir flutningsmenn t.d. fyrir sig orð dansks sérfræðings, að vegna yfirburða aðstæðna hafi engin þjóð í heimi aðra eins möguleika til minkaræktar og Íslendingar. Ekki er nú sneiðin smátt skorin. En samt er eins og hjá hv. frv: mönnum leynist einhver uggur um þetta fyrirhugaða hnoss. Þeim þykir a.m.k. áferðarbetra að fara hægt í sakirnar 2 fyrstu árin, meðan reynslan fæst, og hún á að vera auðfengnari nú en fyrir 25—30 árum. Að sjálfsögðu leggja þeir ekkert upp úr þeirri fyrri 25 ára reynslu, en nú eiga 2 reynsluár að nægja, en síðan á að sleppa öllu lausu. Þetta ákvæði um takmörkun er augljóslega látalæti, að nokkur viðhlítandi reynsla um rekstraraðstæður og annað fáist á 2 árum með starfsemi 5 búa. En hvað um það, nema aðrir en hinir hamingjusömu eigendur þessara 5 hinna svokölluðu loðdýragarða verða að sætta sig við að biða eftir þeim stórgróða, sem boðaður er, og verða með biðinni að líða stórtjón, eins og frv.-menn segja að þjóðin hafi á undanförnum árum beðið í þessum efnum vegna minkabannsins.

Ýmsar fleiri öfgafullar ýkjur hafa verið bornar á borð til framdráttar þessu máli. Má þar til nefna þá staðhæfingu, að hvergi nema hér á landi hafi menn af villiminkum að segja og stafi slíkt mest af hirðu- og ábyrgðarleysi Íslendinga i slíkum efnum sem þessum. Slíka umsögn og þessa var hægt að lesa í einu útbreiddasta blaði hér í Reykjavík á s.l. vetri, þegar frv. var til meðferðar í Alþ. Hið sanna mun vera, að t.d. í Noregi og Svíþjóð eru taldar vaxandi áhyggjur manna yfir sífjölgandi villimink, sem auðvitað er kominn út af eldisminkunum, sem sloppið hafa úr búrum. En samhliða þessu eiga Íslendingar að vera án þeirrar áhættu, þótt slíkt þekkist og hafi tíðkazt í öðrum löndum, t.d. á Norðurlöndum, þar sem minkarækt á sér stað. Er hér um eina af mörgum missögnum minkamanna að ræða. Ber þar allt að sama brunni um áróðurinn.

Eitt atriði frv. er það, að ekki skal heimilt að stofna loðdýragarð, eins og minkabúin heita á frv.-máli, í sveitarfélögum þeim, sem villiminkur hefur ekki náð öruggri fótfestu í. Verða með þessu ákvæði furðufá héruð eða landssvæði undanþegin minkasælunni, því að vitað er, að villiminkurinn hefur þegar lagt undir sig Suður- og Suðvesturland, Vesturland og mikið af Norðurlandi. Er víst, að minkurinn er fótfastur í Bárðardal eða jafnvel lengra austur, en ég veit ekki með fullum sannindum, hvort minkurinn hefur náð öruggri fótfestu í Mývatnslöndum og Kelduhverfi, en líklegt má það teljast. Nálgast þá villiminkurinn Norðausturland og Austurland, Norður-Þingeyjasýslu, Vopnafjörð, Fljótsdalshérað og svo áfram, og hefur þá fljótlega lokið landnámi sinu svo að segja um allt land nema Vestfirði. Má gera ráð fyrir, að minknum hafi boðizt brattara, þó að hart sé oft í veðrum á Norðausturlandi, snjóasamt, frost og ísar, en að nema þar lönd, þar sem fiskur vakir í flestum heiðarvötnum og ám. Þetta bann mun því reynast skammgóður vermir hlutaðeigandi byggðarlögum. Það má því gera ráð fyrir, að t.d. hv. 3. þm. Austf. þurfi ekki mörg ár að bíða loðdýrafengs síns. Hitt er svo annað mál, hve margir Austfirðingar eru og verða honum þakklátir fyrir þessi villidýr. Það mun reynslan sýna, þegar til kemur.

Þessi biðtími, bæði 2 árin og að ekki sé stofnað minkabú, þar sem ekki sé búið að sanna tilvist villiminksins, er því meira látalæti og bragðvísi í þeirri trú, að ákvæðin muni villa fyrir mönnum. Frv.-menn sýnast vilja auðsýna meiri gætni og hófsemi f þessu máli en er í rauninni. En hvað er að óttast, mætti spyrja hv. minkamenn, ef nú á að verða útilokað, að eldisminkurinn sleppi úr vörzlu, en hins vegar öllum til tjóns að mega ekki strax setja upp umrædda minkagarða? Hér sem víða rekst áróðurinn og fullyrðingarnar hvort á annars horn. Nýlunda mun það teljast, en mun eiga að líta út sem sérstök varúð og öryggi, að landbrh. á sjálfur með eigin hendi að fara fingrum um feldi þeirra dýra, sem innflutningsleyfi er leitað fyrir um. Ef úrskurður ráðh. hljóðar á þá lund, að umrætt dýr skuli teljast til loðdýra, skal leyfið veitt. Verður þá ekki um frekara málsskot að ræða. Blessun ráðh. gildir um upptöku kvikindanna í íslenzkt dýralíf, sama hvað sérfræðingar og dýrafræðingar segja, hvort sem þeir telja, að hér sé um að ræða aðra óþurftardýrategund á borð við mink, bara ef það ber loðinn feld og getur gefið af sér skinn, sem eitthvað getur verið upp úr að hafa. Er auðvitað, að fleiri marðategundir en minkurinn bera loðinn feld, svo sem hreysikötturinn og otur, svo að dæmi séu nefnd.

Ekki skal ég fullyrða, hvort Íslendingar kunna að hafa áhuga fyrir eldi þessara dýra eða annarra, sem teljast til loðdýra. Hitt virðist ljóst, að ef þetta loðdýrafrv. verður að lögum, er opinn innflutningur á öllum þeim villidýrum, sem kallast loðdýr, og landbrh. sker einn persónulega úr, ef ágreiningur verður, eins og ég vék að áðan, þótt fróðir menn telji hlutaðeigandi dýrategund hættulega öðru dýralífi í landinu. Mér er spurn : Eru minkamennirnir ekki að leika nokkuð djarfan leik að opna þannig allar gáttir fyrir hverri þeirri dýrategund, sem ber loðinn feld? Hvers vegna að ganga orðalaust fram hjá fræðimönnum í þessu efni og láta hæstv. landbrh. á hverjum tíma skera þar einan úr, hvað má leyfa og ekki leyfa? Og væri ekki nær sanni að leita til einhverra fróðra manna í efnum sem þessum í sambandi við samningu slíks frv. sem þessa og enn fremur fyrir hv. Alþ. í sambandi við rannsókn slíks frv. og athugun slíks frv. sem þessa. En ég spyr vegna þess, að ég veit ekki til, að til slíkra manna hafi verið leitað á síðasta Alþ., þegar málið var til meðferðar.

En þótt ákvæði frv. hljóði aðallega upp á loðdýr, er náttúrlega langt frá því, að manni sé ekki fullljóst, að hverju er stefnt og eftir hverju er sótzt. Það er minkurinn, — minkurinn, sem þeir reyna þó að forðast að nefna á nafn í lengstu lög í frv., svipað og það orð væri bannorð. Og það má segja, að nálgist nokkurt dýranafn það nú orðið að vera bannorð hjá okkur Íslendingum, held ég, að minkurinn nálgist það.

Hv. flm. virðist nokkuð ljóst, að það er fjöldi manna hér á landi, sem eru á móti nýrri tilraun í sambandi við minkaeldi, og má vera, að af því stafi það, að minkurinn er varla nefndur á nafn í þessu frv., en þess ekki gætt um leið, að það getur kostað nokkuð, það virðist kosta það að binda frv. ekki við minkinn, heldur við öll loðdýr, sem gætu reynzt hættuleg og hafa reynzt skaðleg í ýmsum öðrum löndum álíka og minkurinn.

Minkamennirnir virðast vera mjög sigurreifir og vongóðir um framgang síns máls hér á hv. Alþ., og er það sennilega að vonum eftir þá afgreiðslu, sem málið fékk s.l. vetur hér í þd. Enn fremur vekur það athygli, að þremenningarnir, sem báru frv. fram á s.l. þingi, virðast hafa notað tímann milli þinga og farið í liðsbón eins og Brennu-Flosi forðum, og eru flm. nú orðnir fimm. Er augljóst, að málið skal reka af meira kappi en forsjá, engu síður en á s.l. vetri.

Mér virðist eðlileg og sanngjörn ósk, að sú hv. þn., sem fær málið til meðferðar, athugi meira en virðist hafa verið gert á síðasta vetri, hvort opna eigi svo skilyrðislaust og hömlulaust fyrir þessum innflutningi eins og frv. gerir ráð fyrir, sem sagt opna allar gáttir fyrir hvers konar meindýrategundum. Mér virðist, að væntanlegri hv. þn. beri að íhuga betur en áður hefur verið gert sinn gang í málinu í heild og m.a. að leita álits sérfróðra manna, svo sem manna innan Náttúrufræðifélagsins, en þar munu vera flestir okkar sérfræðingar, dýrafræðingar og náttúrufræðingar, og enn fremur virðist ekki óeðlilegt, að leitað væri álits þeirra manna í náttúruverndarráði, sem láta slík mál sem þetta sig einhverju varða. Með því finnst mér, að það beri þó ekki eins á þeim sjálfbirgingshætti, sem mér virtist vera ráðandi í málinu á s.l. vetri.

Ég skal ekki fara að ræða hinar einstöku gr. frv., t.d. það, að hlutaðeigandi ráðh. er ætlað að hafa allt vald í innflutningi, en á það mætti benda, að í þeirri reglugerð, sem gert er ráð fyrir að samin verði, er ekkert gefið hæstv. ráðh. í skyn, hvert ákvæði reglugerðarinnar á að vera í sambandi við sektir. Það er ekki sjáanlegt, að minkamennirnir láti það sig miklu skipta, hvort hér eiga að vera sektir, að nafninu til eða við hæfi og eftir eðli þess að hafa brotið varasöm lög.

En ég ætla aðeins að lokum að víkja að 8. gr. frv. Þar er ákveðið, að tekið skuli vera útflutningsgjald af loðskinnum, sennilega í viðbót við hið venjulega lögákveðna. Skal féð ganga til þess að rannsaka vísindalega eðli og lifnaðarhætti villiminksins og einnig til sérstakra ráðstafana til að útrýma honum. Hér hafa þessir minkamenn eins og víða uppi látalæti. Það er fallegt í munni að tala um vísindalega rannsókn á einu og öðru. En mér er spurn: Hefur ekki þegar stór hópur landsmanna með dýrkeyptri reynslu sinni sannprófað, hverjir eru lifnaðarhættir villiminksins?

Ég held, að það séu margir Íslendingar, sem þurfa ekki neitt fé til þess að sannprófa lifnaðarhætti villiminksins. Margir og allt of margir hafa reynt það á sínum húsdýrum og öðrum nytjadýrum. En það er talið nauðsynlegt að fá þetta fé til meðferðar, og væri þá fyrst hæfilegt, að hv. flm. væru teknir í læri í þessum efnum, sem kallað er.

Enn fremur er sagt í þessari gr., að afla skuli fjár til sérstakra ráðstafana til útrýmingar villiminknum, sem sagt verja til einhverra sérstakra ráðstafana til útrýmingar villiminknum. Mér er spurn: Hverjar eru þessar sérstöku ráðstafanir, sem frv.-mennirnir hafa í huga, og er ekki rétt, að a.m.k. veiðistjóri fái þetta leynivopn og þannig sparist milljónir á milljónir ofan árlega úr ríkissjóði vegna kostnaðar við útrýmingu minksins? Það væri því eðlilegt, ef minkamennirnir hafa slíkt leynivopn í fórum sínum, að þeir gæfu það upp.

Hv. 1. flm. málsins vék að því, að hér væri um að ræða mikið bjargráð fyrir sjávarútveginn og að flm. hefðu betur komið fyrr fram með þetta mál, enda hefði þjóðin beðið stórtjón af því, að minkaeldi væri lagt niður og að sjávarútvegurinn hefði með minkabanninu ekki átt kost á að nota fiskúrganginn á réttan hátt. Mér dettur í hug, að hér á sjálfsagt að vera eitt af þeim málum til atvinnuaukningar og bjargráða fyrir Norðurland, sem fólkið í þeim landshluta keypti hæstv. ríkisstjórn. Ég vil aðeins óska og vona, að önnur bjargráð finnist, sem farsælli mættu reynast því, sem nú er hér borið fram.