30.04.1966
Efri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (2320)

81. mál, loðdýrarækt

Frsm. minni hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er ekki neinum vafa undirorpið, að það hafa á sínum tíma verið mistök að leyfa það, að minkur yrði fluttur til landsins. Það má e.t.v. segja, að það sé enginn vandi að vera vitur eftir á. Við höfum nú beiska reynslu af þeim innflutningi. Eins og allir vita, er hér í landinu í ýmsum byggðarlögum til staðar villiminkur, og þessum villimink hefur ekki tekizt að útrýma. Það má kannske í hæsta lagi segja, að það hafi tekizt að hefta útbreiðslu hans eitthvað, en það eru því miður engar horfur á því, að honum verði eytt. Það er út frá þessari staðreynd, sem verður að líta á þetta mál hér, þetta frv. um loðdýrarækt, sem í raun og veru felur það í sér að leyfa á nýjan leik minkaeldi í landinu.

Það eru ýmsir, sem hafa mikla trú á því, að minkaeldi geti orðið mjög arðvænlegur atvinnuvegur. Um það treysti ég mér ekki til þess að dæma, og það kann vel að vera, að það ríki of mikil bjartsýni hjá mönnum í þeim efnum. En við, sem skipum minni hl. landbn. og skilum hér séráliti, erum þeirrar skoðunar, að það sé eðlilegt að gefa þeim mönnum, sem hafa þá trú, nokkurt tækifæri til þess að sýna, hvað þessi atvinnuvegur geti gefið af sér. Við litum svo á, að það sé í rauninni skaðlaust að leyfa það að setja upp minkabú eða loðdýrabú í þeim byggðarlögum landsins, þar sem villiminkurinn er fyrir og er útbreiddur, og úr því að minkurinn er til staðar hér á landi sem villidýr, finnst manni það óneitanlega nokkuð andkannalegt, að það skuli vera óheimilt að hafa hann í búrum.

Það mun sjálfsagt vera rétt, sem hv. frsm. meiri hl. gat um í sinni ræðu, að þeir, sem hyggja hér á minkaeldi, ef þetta frv. yrði samþ., munu ætla sér að flytja inn nýja minkastofna eða ræktuð kyn, eins og það er, held ég, nefnt. Og ég lít svo á, að þá verði að hafa þann hátt á, sem fyrir er mælt í 4. gr. l. um innflutning búfjár frá 1962, sem er getið um í nál. meiri hl. Ég ræddi einmitt um þetta, spurðist fyrir um þetta hjá yfirdýralækni, og hann taldi, að það yrði að hafa þann hátt á, að það yrði að hafa þar við sóttvarnarreglur og einangrun og hafa dýrin í sérstökum einangrunarbúrum, áður en þeim væri hleypt í þessa loðdýragarða, þar sem þau yrðu ræktuð og alin.

Það má því segja, að það sé eiginlega undirstöðuatriði í skoðunum okkar, sem skipum minni hl., eins og ég hef reyndar tekið fram, að það sé óskynsamlegt, úr því að villiminkurinn er hér til staðar í landinu, að leyfa ekki að hafa loðdýrabú í þeim héruðum, þar sem hann er fyrir. Við teljum, að skaðinn sé þegar orðinn. Auðvitað getur það verið rétt, og það er aldrei hægt að fullyrða um það með vissu, að nýtt minkakyn, sem yrði flutt hingað og sett hér í loðdýragarða, slyppi aldrei út. Það er aldrei neitt hægt að fullyrða um það, Við höfum reynsluna af því. Þó að menn hafi kannske lært af henni og mundu hafa þessar girðingar öruggari, er samt sem áður aldrei hægt að treysta því. En það er þá ekki annað skeð en nokkur dýr bætast í þann mikla hóp, sem fyrir er og gengur villtur.

Um þann atvinnurekstur og þann ábata, sem menn kynnu að hafa af minkaeldi, skal ég ekki fjölyrða, en endurtaka það, sem ég hef þegar sagt reyndar, að við eða a.m.k. ég tel mig ekki færan um að meta það, þó að maður vilji gefa mönnum tækifæri, en ég vil aðeins þó í þessu sambandi leyfa mér að vitna til ummæla, sem Bjarni Finnbogason ráðunautur viðhafði í búnaðarþætti í ríkisútvarpinu í vetur, en þar sagði hann svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Sú framleiðsla í norskum landbúnaði, sem mest hefur aukizt á síðustu árum, er framleiðsla á minkaskinnum. Framleiðslan hefur aukizt um helming. Á 4 árum, frá 1960 og 1964, fluttu Norðmenn út 1 millj. 220 þús. skinn. Því er spáð, að þessi framleiðsla muni enn aukast.“

Ég vil taka það fram persónulega, að ég er ekki alls kostar ánægður með frv., eins og það liggur hér fyrir. Ég mundi áskilja mér rétt til þess síðar að flytja brtt. við bráðabirgðaákvæði þessa frv., en ég ætla ekki að hafa hana uppi hér við þessa umr., heldur bíða og sjá, hver örlög málsins verða.