25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (2346)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Reykv., hafði orð á því í byrjun ræðu sinnar áðan, að ég hefði ekki haft mig mikið í frammi í þessum umr. Þeir, sem hlustuðu á þessa síðustu ræðu hans, skilja auðvitað ósköp vel, að ég hef ekki talið mikla þörf á því að hafa mig mikið í frammi.

Ég hef gert ýtarlega grein fyrir minni afstöðu í sambandi við þær ádeilur, sem bornar hafa verið á mig. Ég hef ekki, eins og þessi hv. þm., talið nauðsynlegt að koma aftur og aftur og tyggja upp það sama mörgum sinnum í mörgum ræðum. Ég ætlast til þess, að þm. hafi yfirleitt þá dómgreind, að það þurfi ekki að segja nema einu sinni við þá sama hlutinn, og ég er viss um, að þeim finnst það a.m.k. miklu skemmtilegra, ef þessi hv. þm. hefði talað svolítið minna og svolítið sjaldnar, því að efni stóðu ekki til þess að halda þessa ræðu, sem hann hefur haldið.

Svo vil ég segja annað í sambandi við þessa ræðu hv. 5. þm. Reykv., að mér finnst ekki, að þm. megi lítilsvirða aðra þm. á þann hátt, sem hann gerði, með því að vitna í ræðu, sem nýlega er búið að flytja í þinginu og í áheyrn okkar allra, og segja efni hennar allt annað en það er, fara ekki aðeins með útúrsnúninga, heldur bein ósannindi. Hæstv. forsrh. lagði ríka áherzlu á, að hann vildi ekki, að sín orð skildust á neinn hátt sem áfellisdómur um Gizur Bergsteinsson og Þórð Eyjólfsson, heldur þvert á móti viðhafði mjög sterk orð til hóls og heiðurs báðum þessum mönnum. Samt sem áður kemur þessi hv. þm., þegar hann er búinn að fara heim og fá sér kvöldmat, matarbita, og fer að segja okkur hér, að hæstv. forsrh. hafi sagt allt annað en hann sagði. Það er til skammar að bjóða þm. að hlusta á slíkt.

Það hefur verið talað um oft og mörgum sinnum, að embættisveitingin í Hafnarfirði, sem hér hefur mest verið rædd, sé einsdæmi og það sé ekki hægt að benda á neitt líkt. Menn hafa ruglað algerlega saman því, hvað hér er einsdæmi. Skipunin er ekkert einsdæmi í þessu sambandi. Hitt er alveg rétt, að það er einsdæmi, að einn og sami maðurinn hafi setið jafnlengi settur í embætti, umfangsmiklu embætti, eins og hér er um að ræða. Mér er alveg ljóst, að menn geta haft mismunandi skoðanir á því, hversu ríkan, meiri eða minni rétt slíkt skapi þessum manni til embættisins umfram aðra, og um það hafa menn mismunandi skoðanir. Við höfum innan ríkisstj. á þessu mismunandi skoðanir, eins og fram hefur komið. Hæstv. utanrrh. hefur gagnstæða skoðun á því við mig, og höfum við báðir gert grein fyrir okkar sjónarmiðum. En það er ekkert einsdæmi, að skipaðir séu í embætti aðrir menn en settir hafa verið í þau. Hitt er einsdæmi, sem hér er um að ræða, hversu þessi setti embættismaður hefur lengi einn setið í embættinu. Það hefur hins vegar verið talað um skipunina bæði hér af hv. þm. og eins í blöðunum sem einsdæmi í siðleysi, einsdæmi í ranglæti, og rithöfundur sunnudagspistla í Tímanum, sem sumir renna nú grun í, hver muni vera, taldi, að þetta væri slíkt einsdæmi í siðleysi, að annað eins hafi aldrei skeð, eftir að stjórnin færðist inn í landið upp úr aldamótunum.

Þessu hef ég vísað á bug, og þetta fær ekki staðizt. Að mínum dómi er það, eins og ég hef sagt, ekki rétt að láta slíkt ráða eins miklu um skipun embættis og menn vilja vera láta, vegna þess að með því er gengið fram hjá aðstöðu manna til þess að sækja um embættið, annarra lögmanna, sýslumanna og bæjarfógeta til þess að koma til greina, þegar slíkt embætti losnar, eins og hér er um að ræða, og þegar í það er skipað.

Ef ætti að framfylgja skilningi þeirra, sem hér hafa ávitað mig, hv. stjórnarandstæðinga margra, er auglýsingin að þeirra dómi algert formsatriði, og samkvæmt því ætti sá embættismaður, sem settur er í embætti, ekki í raun og veru af veitingarvaldinu, heldur af þeim fyrrv. bæjarfógeta og sýslumanni, allan rétt til embættisins. Það er þessi tvímælalausi siðferðilegi réttur, sem talað er um að ráða skuli, sem ég get ekki fallizt á. Þetta er það, sem menn getur að sjálfsögðu greint á um, hvort mín skoðun sé réttari en þeirra, að hafa ekki valið þennan mann. En hitt fær ekki staðizt, að með því móti sýni ég á nokkurn hátt neitt sérstakt ranglæti eða yfir höfuð nokkurt misrétti og þaðan af síður siðleysi.

Hv. flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir til umr., talaði hér á fundinum fyrr í dag. Þar segir bann, að ég hafi játað, að það hafi verið kunningsskapur minn við Einar Ingimundarson, sem hafi ráðið því, að ég veitti honum embættið. Tíminn hafði fundið þetta út, hann setti þetta á forsíðu blaðsins, þegar hann sagði frá umr., sem hér áttu sér stað á mánudaginn var, í þriðjudagsblaðinu. Nú er ekki aðeins það, að þessi hv. þm. hafi glæpzt á því að trúa Tímanum, það var auðvitað höfundurinn að þessu, hv. 5. þm. Reykv., sem talaði hér áðan. (Gripið fram í.) Nú, er það kannske hv. 4. þm. Reykn. sjálfur? (Gripið fram í: Já.) Ég bið hv. 5. þm. Reykv. afsökunar. En þá er það hv. 4. þm. Reykn. sjálfur, sem er höfundurinn að þessu, eins og þessu var nú líka fallega stillt upp í blaðinu með myndinni af honum sjálfum, og líklega hefur hann þá ráðið því líka, hvað klisjan var stór. En hann les hér sjálfur upp úr ræðu minni það, sem ég segi, að mér detti ekki í hug að halda, að kynni mín af Einari Ingimundarsyni, kynni mín af því, hvernig hann hafi rækt sitt embætti, og kynni mín af því, hvernig hann hafi rækt sína þingmennsku, hafi ekki haft áhrif á embættisveitinguna, enda ætti það að hafa áhrif á hana. Og svo er sagt, að ég hafi játað, að kunningsskapur minn við Einar Ingimundarson hafi ráðið úrslitum.

Eins og hæstv. forsrh. sýndi fram á áður, þá er auðvitað kunningsskapur og kynni af verkum sitt hvað, og ég hef margháttuð kynni af þm. hér, alveg eins og hann vék að, án þess að á milli okkar sé nokkur kunningsskapur. Það hlýtur að vera nokkuð hæpinn málstaður þeirra, sem gera sig seka um slíkan málflutning. Maður hlýtur að hafa leyfi til þess að álykta, að þegar farið er út í þá sálma beinlínis að falsa ræður þm., verandi með þær milli bandanna og falsa þær samt, og hælast svo yfir því að hafa sett falsið á prent í þokkabót, þá sé málstaðurinn meira en lítið bágborinn.

Nei, sannleikurinn er sá, að mér hefur ekki fundizt af þessum umr., sem þó hafa verið nokkuð miklar og langar, að það væri mikil þörf fyrir mig að gera frekar grein fyrir mínu máli en ég hafði gert í upphafi þessa máls, og ég er sannfærður um, að þm. hefur orðið alveg ljóst í þessum umr., að allar getsakirnar og ásakanirnar og brigzlin í minn garð fyrir siðleysi og réttleysi og ég veit ekki hvað annað illt, sem um minn verknað hefur verið sagt, það fær með engu móti staðizt. Og ég þykist vera nokkuð öruggur um það einnig, að þeim öðrum utan þingsins, sem fylgzt hafa með þessu máli og hafa áhuga á því að fylgjast með því, muni einnig eftir þessar umr. betur skiljast, hversu mjög langt hefur verið skotið yfir markið í þeim ásökunum, sem ég hef verið borinn. Ég sagði við upphaf málsins, að mér þætti vænt um, að það gæfist tækifæri til þess að ræða þessa embættisveitingu hér í sölum þingsins, og þær umr., sem fram hafa farið, staðfesta það enn betur í huga mínum, að það var mjög gott fyrir mig, að mínum dómi, að þessar umr. hafa farið fram hér.