14.04.1966
Neðri deild: 69. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (2353)

61. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á l. nr. 38 frá 14. apríl 1954 er um það, að við bætist eftir 5. gr., að setning í opinbera stöðu skuli jafnan vera til bráðabirgða og aldrei lengur en til fjögurra ára. Skal staðan jafnan auglýst laus til umsóknar, er sett hefur verið í hana í 4 ár.

Allshn. hefur haft þetta mál til meðferðar á nokkrum fundum sínum og leitað umsagnar um það. Það var shlj. álit nm., að rétt sé að setja hér ákveðnar reglur, en hins vegar var meiri hl. n. ekki reiðubúinn að afgreiða málið eins og það liggur fyrir, en telur rétt, að kannað verði nánar, hver séu lagaákvæði eða venja með nágrannaþjóðum okkar í þessu efni. N. varð sammála um að leggja til, eins og á stendur, að málinu verði vísað til ríkisstj., í trausti þess, að hún láti fara fram frekari athugun málsins og leggi það fyrir næsta reglulegt Alþ.