14.03.1966
Neðri deild: 54. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (2400)

141. mál, lax- og silungsveiði

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég lit svo á, að hér sé um landsmál að ræða, þar sem er verið að reyna að auka fiskiræktina í ám og vötnum og gera laxveiði þannig að meiri atvinnuveg. Ef þessi skilningur hæstv. ráðh. væri réttur, að þeir einir ættu að greiða, sem verksins nytu, gætu þeir haldið fram með sömu rökum, að þeir einir ættu að greiða höfn, sem gerð er, sem hennar njóta, en hvergi til að koma þátttaka ríkissjóðs. Við höfum litið svo á, Íslendingar, að hér væri um almenningsmál að ræða, og þótt ákveðið svæði nyti hafnarinnar, bæri ríkissjóði að leggja fram fé í höfnina, af því að það væri almenningsmál. Eins er með þetta. Það er verið að svipta þarna nokkurn hóp manna réttindum og tekjum, sem hann hefur haft og hefur möguleika til að hafa, án þess að ríkissjóður ætti að greiða þeim nokkrar bætur. Þetta er ekki frambærilegt. Álagið, sem verður lagt á þessi veiðisvæði með þessu ákvæði frv., er það mikið, að það verður ofvaxið. Þess vegna treysti ég því, að hv. Alþ. sjái sér fært að breyta þessu ákvæði frv. í fyrra horf, þó þannig, að það má leggja þann hluta, sem heima fyrir kemur, á veiðisvæðin, ef menn vilja það heldur, en það er með öllu óhugsandi, að það geti verið um það að ræða, að við séum með frv. að vinna að því að efla fiskiræktina í landinu og ætlum ríkissjóði algerlega að sleppa við fjárframlög til þess arna. Það er ekki fært, og það er algerlega nýtt „prinsip“, ef við förum að halda þannig á málum, eins og hæstv. ráðh. gat um hér áðan, og ég treysti því, að hv. Alþ. fari ekki inn á það svið.