08.03.1966
Neðri deild: 52. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í C-deild Alþingistíðinda. (2546)

133. mál, Iðnlánasjóður

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það er kunnara en segja þurfi, að iðnaðurinn hefur á undanförnum árum búið við stórfelldan og vaxandi lánsfjárskort. Það er að vísu rétt, að lán þau, sem iðnaðurinn befur fengið á þessu tímabili, hafa farið nokkuð hækkandi, en þó vantar mikið á, að það hafi nægt til þess að fullnægja vaxandi eftirspurn. Og til þess liggja að sjálfsögðu augljósar ástæður. Það er í fyrsta lagi um það að ræða, að ný fyrirtæki hafa komið til sögunnar eða koma til sögunnar, að eldri fyrirtæki hafa stækkað eða þurfa að stækka, og þó ekki sízt það, að við lifum nú á öld véltækni og vinnuhagræðingar og iðnfyrirtækin keppa að sjálfsögðu sem mest að því að endurbæta rekstur sinn á þann hátt, en það kostar að sjálfsögðu mikið fjármagn. Þess vegna hefur þetta farið svo, að þrátt fyrir það, þó að lán til fyrirtækja iðnaðarins hafi heldur hækkað í krónutölu á undanförnum árum, skortir mikið á, að það hafi nægt til þess að mæta vaxandi eftirspurn.

Hér er að sjálfsögðu um mjög mikið alvörumál að ræða, því að fátt er okkur nauðsynlegra, Íslendingum, en að efla iðnaðinn í landinu. Það er alveg óhætt að segja það, þrátt fyrir allt það gott, sem segja má um landbúnað og sjávarútveg, að það byggir engin þjóð á sterkum efnahagslegum grundvelli, sem þarf svo að segja eingöngu að styðjast við þessar tvær atvinnugreinar. Þess vegna er það, að allar þær þjóðir, sem þannig er ástatt um, leggja meginkapp á það um þessar mundir og hafa gert á undanförnum áratugum að efla sem mest iðnað sinn. Það er ekki sízt athyglisvert fyrir okkur Íslendinga að íhuga eða kynna okkur reynslu Dana í þessum efnum. Fyrir ekki löngu voru Danir álíka háðir landbúnaðinum í sambandi við útflutning og við erum nú háðir sjávarútveginum, en nú er svo komið í Danmörku vegna hinnar miklu uppbyggingar, sem þar hefur átt sér stað á sviði margháttaðs iðnaðar, að Danir flytja út nú orðið meira af iðnaðarvörum en landbúnaðarvörum hvað verðmæti snertir. Það er náttúrlega meginskilyrði þess, að iðnaðurinn geti blómgazt, að honum sé sköpuð samkeppnishæf aðstaða Og fátt er mikilvægara einmitt í þeim efnum en það að tryggja honum sæmilega hagstæð lánskjör. En mjög skortir á það, að íslenzkur iðnaður búi við svipuð lánaskilyrði og iðnaður í þeim löndum, sem við þurfum helzt að keppa við. Hér er, eins og ég áðan sagði, mjög mikill skortur á iðnaðarlánum. Það er bæði skortur á lánum til fjárfestingar og skortur á lánum til rekstrar. Að því verður að stefna að bæta úr þessu. Sjálfsagðasta leiðin er að tryggja honum jafnrétti við aðra atvinnuvegi hvað það snertir, að Seðlabankinn kaupi af honum framleiðsluvíxla líkt og af sjávarútvegi og landbúnaði. Um það mál liggur fyrir þinginu sérstök till. og hefur legið á undanförnum árum, og sé ég ekki ástæðu til þess að ræða það mál sérstaklega hér. Í annan stað er svo að vinna að því að bæta aðstöðu iðnaðarins til þess að fá fjárfestingarlán, en sjálfsagðasta leiðin til þess er að efla iðnlánasjóð, og að því er stefnt með því frv., sem hér liggur fyrir.

Mér finnst þá rétt í framhaldi af þessu að víkja nokkrum orðum að efni þessa frv., en segja má, að það sé þríþætt.

Fyrsta breytingin, sem frv. leggur til að gerð sé á l. um iðnlánasjóð, snertir tekjuöflun sjóðsins. Tekjuöflun sjóðsins er nú þannig, að hann fær visst gjald, sem iðnfyrirtækin í landinu greiða honum samkv. ákvæðum, sem eru nánar skilgreind í iðnlánasjóðslögunum. Mér skilst, að tekjur sjóðsins af þessu gjaldi á s.l. ári hafi verið í kringum 15 millj. kr., en séu áætlaðar 16-17 millj. kr. á þessu ári. Þá fær iðnlánasjóður 2 millj. kr framlag árlega úr ríkissjóði. Þetta eru allar þær tekjur, sem hann hefur til umráða eða fær árlega, en samkv. þessu hafa þær verið í kringum 17 millj. kr. á s.l. ári og verða milli 18 og 19 millj. kr. á þessu ári. Ef við lítum á aðra stofnlánasjóði atvinnuveganna, er annað upp á teningnum. Fiskveiðasjóður hefur tekjur, líkt og iðnlánasjóður, af víssu gjaldi, sem segja má að sjávarútvegurinn greiði honum, þ.e. af útflutningsgjaldi, en á móti þeim tekjum, sem hann fær af þessu gjaldi, fær hann jafnhátt árlegt framlag úr ríkissjóði, og það er áætlað á þessu ári samkv. fjárl. um 37.8 millj. kr. Auk þess fær fiskveiðasjóður árlega framlag úr ríkissjóði, sem nemur 2 millj. kr., þannig að á fjárl. þessa árs er gert ráð fyrir, að ríkið leggi fiskveiðasjóði til um 39.8 millj. kr. Um stofnlánadeild landbúnaðarins er það að segja, að hún hefur í fyrsta lagi tekjur af 1% álagi, sem lagt er á söluvörur landbúnaðarins, og er áætlað, að tekjur stofnlánadeildarinnar af þessu gjaldi verði um 15 millj. kr. á þessu ári. Í annan stað fær svo stofnlánadeildin árlegt framlag úr ríkissjóði, sem er jafnhátt þeim tekjum, sem sjóðurinn fær af þessu 1% álagi, sem ég áðan minntist á, eða samkv. því, sem áætlað er í fjárl. þessa árs, um 15 millj. kr. Auk þess fær stofnlánadeildin mörg framlög önnur úr ríkissjóði, þannig að samtals er áætlað, að hún fái úr ríkissjóði á þessu ári um 48.6 millj. kr. Iðnlánasjóður fær hins vegar ekki nema 2 millj. kr. árlega úr ríkissjóði, eins og ég áðan sagði, og sést á þessu, að hér er mjög á annan veg að honum búið heldur en að stofnlánasjóðum hinna atvinnuveganna, sjávarútvegs og landbúnaðar.

Siðan hið svokallaða iðnlánasjóðsgjald var tekið upp, þ.e. það gjald, sem iðnaðurinn greiðir beint í iðnlánasjóð, eins og ég áður hef rakið, hefur eðlilega komið sú krafa upp hjá iðnrekendum og iðnaðarmönnum, að ríkið greiði sjóðnum framlag, sem nemi jafnhárri upphæð og iðnlánasjóðsgjaldinu nemur. Er ekki nema eðlilegt, að þessi krafa komi fram, þar sem hér er ekki farið fram á annað en að sjóðurinn njóti jafnréttis við stofnlánasjóði hinna atvinnuveganna. Óskir um þetta hafa tvívegis verið samþykktar á Alþingi og ég hygg hjá iðnrekendum einnig. Þess vegna hefur okkur flm. þótt sjálfsagt að hreyfa þessu máli hér á Alþ, því að hér er um augljóst jafnréttis- og réttlætismál að ræða.

Fyrsta breytingin, sem við leggjum til, að gerð verði á iðnlánasjóðsl., fjallar einmitt um þetta atriði, þ.e. að í stað þess að ríkið leggi iðnlánasjóði aðeins 2 millj. kr. árlega, leggi hann sjóðnum árlega jafnhátt framlag og nemur tekjum þeim, sem sjóðurinn hefur af iðnlánasjóðsgjaldinu, en það er áætlað á þessu ári kringum 16—17 millj. kr. Þetta mundi þýða það, að framlag ríkisins til sjóðsins hækkaði úr 2 millj. í 16—17 millj. kr. á þessu ári, en þrátt fyrir það, eins og ég hef áður rakið, yrði framlag, sem sjóðurinn fengi, miklu lægra eða meira en helmingi lægra en þau framlög, sem ríkið leggur stofnlánasjóðum hinna atvinnuveganna.

Ég hygg, að þegar menn athuga í fyrsta lagi það, að hér er raunverulega ekki um annað en jafnréttis- og réttlætismál að ræða, og svo í annan stað þá miklu nauðsyn, sem er á því, að við vinnum að því að efla samkeppnishæfan iðnað í landinu, þá ættu menn að geta fallizt fúslega á þessa breytingu.

Önnur breytingin á iðnlánasjóðsl., sem felst í því frv., sem hér liggur fyrir, snertir þá grein frv., sem fjallar um heimild ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán fyrir sjóðinn eða veita honum heimild til lántöku. Í núgildandi l., sem voru samþ. á þinginu 1962, er þessi lánsheimild bundin við 100 millj. kr. Síðan Alþ. gerði þessa samþykkt, hefur orðið stórkostleg hækkun á öllum tilkostnaði í landinu, svo að það er ekki nema eðlilegt, að þessi upphæð hækki nokkuð í samræmi við það. Í annan stað er svo á það að líta, að lánsþörf iðnaðarins hefur stórkostlega aukizt á þessum tíma og þess vegna eðlilegt, að þessi lánsheimild verði aukin verulega frá því, sem nú er, eða ekki minna en tvöfölduð. Þrátt fyrir það, þó að þessari lánsheimild yrði alveg fullnægt, mundi vanta verulega á, að iðnlánasjóðurinn yrði jafnöflugur og stofnlánasjóðir hinna atvinnuveganna.

Þriðja breytingin, sem lagt er til í frv. að gerð verði á iðnlánasjóðsl., fjallar um lánstíma þeirra lána, sem sjóðurinn veitir. Í l. er svo ákveðið, að lán megi veita allt að 15 árum, ef um fasteignir er að ræða, en allt að 7 árum, ef um vélar er að ræða. Lagt er til, að þessi lánstími verði lengdur þannig, að hvað fasteignir snertir megi lánstíminn vera allt að 20 árum, en hvað vélar snertir allt að 10 árum. Þessi breyting er gerð til samræmis við það, sem segir í l. um hina stofnlánasjóðina, fiskveiðasjóð og stofnlánadeild landbúnaðarins. Þar er gert ráð fyrir, að lánstíminn megi vera, þegar um sambærilega framkvæmd er að ræða, allt að 20 ár hvað snertir fasteignir og 10—12 ár, þegar um vélar er að ræða. Er ekki nema sanngjarnt, að iðnaðurinn njóti sams konar aðstöðu í þessum efnum og hinir atvinnuvegirnir.

Ég held, að það eigi að vera alveg óþarft að ræða nánar um þetta mál, eins og ég hef áður sagt. Ef menn á annað borð unna iðnaðinum jafnréttis og réttlætis við aðra atvinnuvegi, er hér um breytingar að ræða, sem hljóta að teljast alveg sjálfsagðar. Og ef menn jafnframt skilja nauðsyn þess, að unnið sé kappsamlega að því að efla samkeppnishæfan iðnað Íslendinga sjálfra, er hér að sjálfsögðu verið að stíga spor í rétta átt.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og iðnn.