12.04.1966
Neðri deild: 68. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (2569)

180. mál, sala varphólma og sellátra fyrir Ljótunnarstaðalandi í Strandasýslu

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta smámál, sem hv. þm. hafa fyrir framan sig á þskj. 442, hef ég verið beðinn að flytja, en efni þess er, eins og menn sjá á 1. gr. þess, aðeins þetta, að ríkisstjórninni verði heimilað að selja varphólma og sellátur, sem liggja fyrir landi bújarðarinnar Ljótunnarstaða í Bæjarhreppi í Strandasýslu til eigenda Ljótunnarstaða. Annað er efni frv. ekki.

Málið er að fullu skýrt í meðfylgjandi grg., stuttri grg., og skal ég, ef þm. kynnu ekki að hafa þetta við höndina, aðeins rekja meginefni hennar.

Jörðin Ljótunnarstaðir í Bæjarhreppi í Strandasýslu hefur um aldir verið prestssetur. En snemma á 18. öld mun prestssetrið hafa verið flutt á næstu jörð, Prestsbakka, en siðan voru Ljótunnarstaðir kirkjujörð og prestarnir á Prestsbakka sáu um það að leigja hið fyrrverandi prestssetur út.

Fyrir landi Ljótunnarstaða eru nokkrir varphólmar og sellátur, og þessir hólmar bera heitið Ljótunnarstaðahólmar, enda eru þeir fyrir miðju landi þeirrar jarðar. Til þess að sýna þessa afstöðu, hefur verið prentað hér landabréf. Það er stækkuð mynd af herforingjaráðskortinu, og sýnir það glöggt legu þessara hólma fyrir miðju landi Ljótunnarstaða. Þessir hólmar hafa, eins og nafnið bendir til, um aldir heyrt til Ljótunnarstöðum og allt þangað til breyting varð á þessu á 19. öldinni. Þá voru Ljótunnarstaðir leigðir, án þess að hólmarnir fylgdu með, og siðan fór fram sala, og um þá sölu hefur sjálfsagt presturinn á Prestsbakka þáverandi séð, og við sölu á Ljótunnarstöðum voru hólmarnir ekki látnir fylgja með. Eftir það hafa þessir hólmar heyrt til prestssetrinu á Prestsbakka og presturinn þar nytjað þessa hólma, að svo miklu leyti sem þeir hafa verið nytjaðir. Um flóð er einn þessara hólma um 200 m frá landi frá Ljótunnarstöðum, en um fjöru er gengt út í hólmana, og hefur Ljótunnarstaðabóndi veruleg óþægindi af því, að hólmarnir liggja svo nærri og að það fjarar út í þá, því að hann á oft að vetri til sérstaklega í erfiðleikum með að verja því, að fé hans fari út í þessa hólma, og á sumum þeirra er flæðihætta, svo að hann verður til þess að bjarga sínu fé að hafa verulega fyrirhöfn af því að verja, að fé hans fari þarna út í hólmana, en nytsemi hefur hann hins vegar enga af þessum hólmum.

Í grg. er gjörla skýrt frá, hvernig þessir hólmar liggja. Þar er stuðzt við frásögn núverandi eiganda Ljótunnarstaða, Skúla Guðjónssonar, og hygg ég, að þar sé mjög nákvæmlega með farið. Þeir hólmar, sem liggja næst Prestsbakka, eru sker, sem fara í kaf um flóð, og í þeim skerjum eru sellátrin, en þó eru þau einnig fyrir landi Ljótunnarstaða og langt frá landamerkjum Ljótunnarstaða og Prestsbakka, sem eru við svokallaða Bakkaá, sem rennur niður með Prestsbakkabænum, en farvegur þeirrar ár sést mjög greinilega á meðfylgjandi uppdrætti.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé í samræmi við anda l. nr. 50 frá 16. nóv. 1907, um kirkjujarðir, og sérstaklega í samræmi við anda laga nr. 113 frá 21. des. 1952, um lausn ítaka af jörðum, að þessir hólmar verði aftur eign Ljótunnarstaða, eins og upphaflega var og lengstum hefur verið, og að þannig beri Alþingi að verða við ósk núverandi eigenda Ljótunnarstaða, þ.e.a.s. Skúla Guðjónssonar og Björgvins, sonar hans, en þeir búa nú á Ljótunnarstöðum, eins og mörgum er kunnugt.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég er þeirrar skoðunar persónulega, að Alþingi eigi að leiðrétta þetta með því að heimila ríkisstj. að selja þessa varphólma og sellátur, sem skv. landfræðilegri legu og sögulegri hefð heyra þeirri jörð til, en hafa vegna sérstakrar aðstöðu prests á Prestsbakka verið lagðir undir þá jörð, fyrst með leigumála og síðan við sölu jarðarinnar.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði, þegar umr. er lokið, vísað til hv. landbn.