20.10.1965
Sameinað þing: 6. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2664)

10. mál, ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar 1974

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er gamall og góður siður, ekki einungis á Íslandi, heldur víðast hvar, að minnast merkisafmæla, og má raunar segja, að við höfum stundum frekar haft ofrausn í slíku heldur en vanrækt, sbr. það, þegar mönnum í fyrra sumum þótti miður, að ekki skyldi efnt til sérstakrar stórhátíðar út af 20 ára afmæli endurreisnar lýðveldisins. Öðrum þótti jafnsögurík þjóð, sem svo margs hefur að minnast eins og Íslendingar, hafa ærin tilefni til hátíða, þótt ekki væri gert sérstakt eða óeðlilegt stáss af einungis slíku 20 ára afmæli. En hvað sem um það er, er ljóst, að 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar, sem minnzt var 1874, og 1000 ára afmæli Alþingis, sem minnzt var 1930, skildu eftir djúp spor í vitund allra þeirra, sem voru staddir við þær hátíðir, sem haldnar voru. Má e.t.v. segja, að þær hafi markað tímamót í sögu þjóðarinnar. Alveg er víst, að enginn þeirra, sem þátt tóku í þessum hátíðahöldum, hefði viljað vera án þess og þeirra minninga, sem við þá atburði voru tengdar. Svipað má raunar segja um lýðveldishátíðahöldin 1944, en þar stóð öðruvísi á, vegna þess að þá var verið að halda upp á atburð, sem var að gerast, en hitt voru minningarhátíðir um löngu liðna atburði.

Nú er það að vísu svo, að 1100 ára minning er e.t.v. ekki jafnhelg og 1000 ára minning, afmælið ekki jafneftirminnilegt. En þó hygg ég, að flestum komi saman um, að 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar sé svo merkilegt afmæli, að þá sé rík ástæða til þess að efna til mjög veglegra hátíðahalda. Slíkt sé ekki aðeins í samræmi við það, sem við höfum sjálfir áður gert, heldur það, sem flestar aðrar þjóðir eða allar mundu gera, ef svipað stæði á. Það má t.d. á það drepa, ég hygg, að það sé á næsta ári, sem Kanadabúar ætla að minnast með mjög veglegum hátíðahöldum og margvíslegum, m.a. mikilli sýningu, þess, að þá eru 100 ár liðin frá því, að þeirra sambandsríki var stofnað og þeir fengu að mestu sjálfstæði í innanlandsmálum. Og er það afmæli ólíkt tilkomuminna en það 1100 ára afmæli, sem við getum haldið upp á á árinu 1974. Ég vona, að það þurfi ekki um það að deila, að sjálfsagt sé að halda upp á þetta afmæli.

Hitt mundu kannske sumir segja, að óþarflega snemma væri farið um það að hugsa með þessari till. Ég hygg þó, að við athugun komist menn að raun um, að svo sé ekki, vegna þess að hér kemur vissulega margt til álita.

Það er fyrst á það að minnast, að enn höfum við ekki neina heillega frambærilega Íslandssögu. Þjóðvinafélagið og menningarsjóður hafa að vísu unnið mjög gott verk við útgáfu þeirra hrota af Íslandssögu, sem efnt hefur verið til á vegum þessara aðila, en þar er ekki um neitt heillegt sagnfræðirit að ræða og raunar mjög mikið ósamræmi milli einstakra hluta þess. Í fyrsta lagi þarf að vinda að því bráðan bug að ljúka því verki, og þegar því er lokið, þarf á grundvelli þess að semja heillega Íslandssögu við almenningshæfi. Það var mikill missir, að prófessor Jón Jóhannesson skyldi falla frá fyrir aldur fram. Hann hafði bezt unnið að því að hefja slíka samfellda sögu. En um það tjáir ekki að fást, að hans nýtur ekki lengur við, áreiðanlega kemur maður í manns stað þar eins og annars staðar. En öllum má vera ljóst, að hér er tvöfalt óleyst verkefni varðandi sagnfræðingana, sem mjög væri ánægjulegt, ef hægt væri að ljúka fyrir 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar.

Þá mundi auðvitað mjög koma til álita að hafa víðtækar sýningar; bæði úr sögu þjóðarinnar, svipað og efnt var til í sambandi við lýðveldisstofnunina 1944 og þeir höfðu mikla ánægju af að skoða, sem þess áttu kost. Á það jafnt við um almennar listsýningar og listahátíðir auk almenningsbátíðahalda, hvort sem æskilegt og rétt þykir að hafa slíka hátíð aðallega á Þingvöllum eða hér í Reykjavik, vegna þess, hvernig byggð Reykjavíkur er nátengd byggðasögu landsins í heild. Það má um þetta deila og hafa á því ólíkar skoðanir, hvor hátturinn væri eðlilegastur, hvar megin hátíðahöldin ættu að fara fram, auk þess sem sjálfsagt er, að í einstökum byggðarlögum séu sérhátíðahöld. Þetta þarf að hugleiða og gera sér grein fyrir.

Þá vitum við það einnig, að mjög er nauðsynlegt að koma upp tilteknum þjóðhýsum, eins og nýju Alþingishúsi og stjórnarráðshúsi. Til stjórnarráðs er búið að safna þó nokkru fé og búið að gera frumuppdrætti, sem virðast vel koma til álita. En öllu seinfarnara hefur gengið með þinghús, en sú bráðabirgðalausn, sem fengin er, má ekki með nokkru móti verða til þess að tefja framkvæmdir í þeim efnum. Þar stendur mest á samkomulagi um staðarval og eru sannast að segja, — ekki jafnmargar hugmyndir eins og þm. eru, það væri of mikið að segja, — en fullkomið ósamkomulag á milli manna, ekki eftir stjórnmálaskoðunum, heldur öðru í því efni. Það kemur ekki beint þessu máli við, en ég vil þó láta það uppi hér, að eftir því sem ég hugleiði það mál betur, hneigist ég sjálfur — það er eingöngu mín persónulega skoðun — meira að þeirri hugmynd, sem ég hygg að hv. þm. Benedikt Gröndal sé upphafsmaður að, að ætla þinghúsinu stað hér vestur af þessari byggingu. Þá væri hægt að koma því fyrir í nánum tengslum við hina gömlu Ingólfsbyggð. Ef það yrði ekki beint þar sem bær hans stóð, yrði það a.m.k. andspænis fyrsta túninu, sem ræktað var á Íslandi, fyrsta kirkjugarðinum og kirkjunni í Reykjavík og í nánum tengslum við okkar sögu. Það hefur verið haft á móti því, að þetta yrði of kostnaðarsöm lóð. Það er rétt, að hún mundi kosta töluvert mikið, ef nægilega stór spilda yrði tekin. En að því kemur, að þarna verður byggt upp, og með einhverjum hætti verður kostnaðurinn af þeim byggingum lagður á almennings bak, og ég sé sannast sagna ekkert athugavert við það, að menn safni smám saman fé í það með skattlagningu, eins og það yrði tekið af mönnum með álagningu á vöru eða einhvern annan hátt, sem ella mundi í þetta fara. En ég minnist á þetta hér vegna þess, að það færi auðvitað mjög vel á því, ef hægt væri að tengja báðar þessar nauðsynjabyggingar, nýtt stjórnarráðshús og nýtt alþingishús, við slíka stórhátíð eins og þessa 1100 ára hátíð.

Ýmislegt fleira kemur hér til álita, og skal ég ekki þreyta menn með því að rekja það í einstökum atriðum. En ég vonast til þess, að menn séu mér sammála um, að það sé ekki of snemma, sem þetta mál sé upp tekið, og æskilegt væri, ef góðir menn fengjust til þess að setjast á rökstóla nú þegar til íhugunar öllum þeim atriðum, sem hér koma til greina, svo að þessi hátíð gæti orðið okkur til sams konar vakningar eins og ég vil segja, að hátíðirnar 1874, 1930 og lýðveldishátíðin, þótt með ólíkum hætti væri, áreiðanlega hafa orðið. Og það er þá ekki einungis til vakningar með þjóðinni sjálfri og hvatningar, heldur einnig til þess að styrkja stöðu okkar út á við og vekja athygli á þeim þætti, sem við eigum í að hafa varðveitt og haldið við sameiginlegri menningu vestrænna þjóða. Nú er það að vísu svo, að ekki er þess að vænta, vegna þess að mun meira heyrist af okkar landi þjóða á milli nú í hinum stóra heimi heldur en var t.d. 1874 og 1930, en þær hátíðir urðu mjög til þess að vekja athygli á Íslandi í umheiminum, að sama nýjabragðið þyki að og þá.

Mönnum er Ísland ekki eins gerókunnugt nú eins og þá var. En þó kemur það enn glögglega fram, t.d. í sambandi við uppgötvun þessa korts um Vínlandsferðir, sem virðist vera mjög merkileg heimild, að mörgum er furðulega ókunnugt bæði um þær sögulegu staðreyndir, sem þetta kort er einungis eitt af mörgum vitni um, og þann þátt, sem Íslendingar áttu í þeim merkilegu ferðum, sem þá voru farnar. Það er okkur til styrktar, fámennum og af mörgum lítt metnum, ef menn þannig kynnast því, hvað þessi litla þjóð hefur þó gert og afrekað í sinni 1100 ára sögu. Ég held þess vegna, að þetta mál megi ekki skoðast sem neitt hégómamál, heldur sé hér mjög merkilegt viðfangsefni, sem við eigum að beina hug okkar að að leysa á þann veg, að þjóðinni verði til varanlegrar sæmdar og gagns.