20.10.1965
Sameinað þing: 6. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2665)

10. mál, ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar 1974

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka mjög undir þessa þáltill. hæstv. ríkisstj. og þá ræðu, sem hæstv. forsrh. hélt. Ég held, að það sé alveg ótvírætt, að það er sannarlega tími til kominn, að við förum að undirbúa þá hátíð, sem ætti að verða hér 1974, sérstaklega svo framarlega sem sá undirbúningur ætti að verða okkur til verulegs vegs á hinum ýmsu sviðum vísinda og lista, þannig að við minntumst þessara merkilegu tímamóta í sögu okkar þjóðar á þann hátt, sem mest gagn yrði að eftir á. Ég tel það einmitt mjög gott, að hæstv. ríkisstj. hefur flutt þetta nú þegar, því að ef þetta hefði verið látíð bíða fram á síðustu stundu, þá er bæði ýmsu þá hroðað af og þetta yrðu þá meira hégómahátíðir með veizluhöldum og slíku, en minna gert aftur á móti af því, sem varanlega mundi halda uppi minningu þessara tímamóta.

Ég vil alveg sérstaklega taka undir það, að við reyndum á þessum tíma, þessum 9 árum, að gera verulegar ráðstafanir í sambandi við Íslandssöguna. Þetta er ekki vansalaust, eins og þetta er hjá okkur núna, ekki sízt þar sem meginið af 19. og 20. öldinni er raunverulega að heita má lítt rannsakaður tími í Íslandssögunni, jafnvel svo að menn, prófessorar við háskólann, treysta sér vart til að kenna um 20. öldina og skera sig þannig úr frá öllum háskólum í veröldinni annars. Það er hægt að nema sögu hvers lands og skrifa um hana, taka doktorsritgerð í henni og annað slíkt, ég tala nú ekki um tímabil eins og síðasta stríð, meira að segja tímabilið 1950—1960. En hér á Íslandi er eins og menn þori ekki yfirleitt á þessu að snerta. Og ég vil lýsa þeirri skoðun minni, að til þess að vinna þetta verk, ættum við að vera mjög djarfir og ekki skammta of smátt. Ef við á þessum 9 árum leggjum fram árlega nokkurt fé til að vinna að þessu, ætti þetta að geta orðið til þess að efla verulega bæði okkar sagnfræði og ýmsar aðrar greinar okkar menningar. Við eigum nóg af sagnfræðingum, líka utan háskólans og ekkí síðri en þá, sem í honum eru prófessorar. Og við eigum að nota þessa krafta. Það má ekki viðgangast hjá okkur, að við látum krafta, sem eru með beztu vísindamönnum, þræla sér út við það að vera kennarar hér við gagnfræðaskóla eða annað slíkt milli þess, sem þeir eru kannske háskólakennarar í Osló eða Kaupmannahöfn. Það er alveg ófært, að verulega góðir vísindamenn hafi enga aðstöðu til þess t.d. að skrifa um Íslandssöguna, einmitt þann hluta hennar, sem sízt er rannsakaður, og það er vart hægt að búast við því, að prófessor háskólans hafi við hliðina á kennslunni nema mjög takmarkaðan tíma til þess að skrifa. Ég held þess vegna, að það væri ákaflega gott fyrir okkur að nota slíkt tækifæri eins og undirbúninginn að svona mikilli minningarhátíð til þess, eins og hæstv. forsrh. kom inn á, að gera verulega gangskör að því, að Íslandssagan verði skrifuð sem heillegust, yfirlit yfir söguna alla og eins þau sérstöku tímabil, sem hvað sízt eru rannsökuð enn þá. Því miður er það svo, — ég tek undir það, sem hann minntist eins ágæts prófessors í sögu hér, — því miður er það svo, að við erum alltaf að missa menn, sem hefðu getað, ef þeim hefði verið gefinn tími til þess, látið okkur í té þekkingu, sem nú er meira eða minna glötuð. Ég man, að ég fór alloft fram á það við þá menn, sem þá réðu, meðan prófessor Ólafur Lárusson enn þá lifði, að það yrði reynt að fá að skrifa upp, t.d. af einkaritara, þá miklu þekkingu, sem hann hafði um íslenzka sögu, ekki sízt þjóðveldistímann og miðaldirnar, en hann var hins vegar þannig gerður maður, að hann lét hluti aldrei frá sér fara, fyrr en hann var orðinn 100% öruggur um þá. En ef við hefðum fengið þekkingu slíks manns setta niður, þótt það væru gerðar aths. við frá hans hálfu, að hann væri ekki viss í öllu saman, hefði það getað hjálpað okkur ákaflega mikið, ekki sízt við ýmis erfiðustu tímabilin okkar, eins og 14. og 15. öldina, sem hann var svo sérstaklega vel að sér í. En við erum sem sé alltaf að missa af slíkum tækifærum, og við látum alltaf undir höfuð leggjast að nota þau, meðan þau gefast, og þetta má ekki svo til ganga hjá okkur. Þess vegna held ég, að undirbúningur slíkrar minningarhátíðar, þar sem veruleg fjárframlög væru lögð fram um leið til þess, gæti hjálpað okkur stórkostlega til þess að missa nú ekki eða a.m.k. grípa nokkuð af þeim tækifærum, sem við hefðum enn þá.

Það var annað líka í þessu sambandi, og það var viðvíkjandi okkar listamönnum. Ég man það, þegar við undirbjuggum t.d. sögusýninguna í sambandi við lýðveldisstofnunina, að þá fórum við til listamannanna okkar til þess að fá þá til að reyna að búa til söguleg málverk úr okkar sögu, svo að segja öllum hennar skeiðum. Nefndin var seint stofnuð hjá okkur. Þetta var skammur tími, og þetta var náttúrlega ekki nokkur undirbúningur, sem listamönnunum var gefinn. Út úr þessu komu samt hlutir, sem urðu þó til þess, að við höfum hér eina mynd frá þjóðfundinum, þó að ýmislegt sé gallað í sambandi við hana. Sannleikurinn er, að ef á að fara út í að búa til verulegar myndir, kostar það ákaflega mikla rannsókn af hálfu listamannanna. Þeir þurfa að setja sig svo vel inn í tímabilið og lifa sig svo inn í það til þess að geta skapað út frá því listaverk. Og manni rennur til rifja, þegar komið er t.d. í þinghúsin á Norðurlöndum og þar birtist allur sá auður, sem þeir eiga í málverkum frá sinni sögu, hvað við erum fátækir í þessum efnum.

Ég hef stundum rætt við okkar listamenn um þetta, málarana, og svarið hjá þeim hefur verið: Það er sannarlega ekki vegna þess, að við viljum ekki búa til söguleg málverk eða treystum okkur ekki til þess. En hver á að kaupa þau, ef við búum slíkt til? — Slíkt er venjulega ekki búið til nema eftir pöntun, þannig að það er alveg tilvalið, ekki sízt þegar höfð er fyrirhyggja eins og nú er um þetta, að byrja nú alllöngu fyrir fram og jafnvel með eins konar samkeppni á milli málara um, að þeir reyni nú að búa til söguleg málverk úr okkar sögu.

Ég man eftir því í sambandi við undirbúninginn undir lýðveldishátíðina, þegar við báðum t.d. menn eins og Jón Engilberts og Þorvald Skúlason að mála þarna, að þá voru sumir í sögusýningarnefndinni hjá okkur dálítið efasamir á, hvernig menn, sem höfðu t.d. mjög miklar tilhneigingar til að mála abstrakt, mundu komast frá slíku. Svo fór, að þau málverk, sem Þorvaldur Skúlason t.d. og Jón Engilberts bjuggu þá til, — þau voru um tíma einokunarinnar og okkar mestu niðurlægingartíma, — urðu til að setja alveg sérstakan ljóma á þá sýningu, og er það vel gert. Því miður er ég hræddur um, að ýmislegt af þessum málverkum kunni að vera glatað. Samt þarf að athuga það, þau áttu að vera geymd í háskólanum. En nú sem sé gæfist öllum þessum listamönnum okkar, ef hugsað væri þarna til í tíma, verulegur möguleiki til þess að vinna þarna vel að.

Alveg sama máli mundi gegna um þá músik eða um þær kvikmyndir eða annað slíkt, sem við mundum gera í sambandi við þetta. Ég gæti trúað t.d., að það yrði mjög uppi að vilja búa til svo að segja klassíska kvikmynd um Ísland, bæði að einhverju leyti sögulega, ef menn treystu sér til þess. en sérstaklega þó af náttúru okkar lands, til þess m.a. að geta sýnt úti um heim til að vekja eftirtekt á okkar landi, og þá þarf að vera tími til stefnu.

En eitt er það, sem mig langaði til að minnast á, þegar við erum að hugsa um svona hlut. Það er venjulega ekki hugsað um það fyrr en á síðustu stundu, þegar þarf að bjóða þeim mönnum, sem boðið er til slíkra hátíðahalda. Þá er oft farið meira kannske eftir tign manna og öðru slíku heldur en ýmsum verðleikum. Eitt er það, sem mér fyndist vera ákaflega æskilegt, að haft yrði í huga, þegar að þessu kæmi. Það væri, að 1974 yrði séð til þess, að þeim vísindamönnum úti um alla veröld, sem alla sína ævi eða mestallan hluta ævi sinnar hafa unnið meira eða minna fyrir Ísland, til þess að vekja þekkingu á Íslandi, til þess að kenna um Ísland, prófessorar við háskóla og aðrir menn, sem hafa gert okkar landi stórgagn með sinni iðju, slíkum mönnum væri boðið til landsins til þess að geta dvalizt þar, helzt 1—2 mánuði, þjóðin legði sérstaka rækt við það að finna á þessum tíma út, hvar þeir menn eru, sem vinna þannig fyrir okkur. Hvað eftir annað rekumst við á það, þegar við ferðumst um hin og þessi lönd, að allt í einu hittum við menn, sem eru ákaflega vel að sér um Íslandssögu, sem eru búnir að kenna um Ísland og Íslandssögu og íslenzkar bókmenntir og sérstaklega okkar fornbókmenntir, kannske áratugum saman, við sína háskóla og þekkja Ísland svo vel, að maður undrast, — menn, sem hafa aldrei til Íslands komið og horfa svo kannske fram á að hverfa svo í burtu, að þeir geti aldrei til Íslands komizt, því að þetta eru venjulega ekki menn, sem eru annars hátt settir í þjóðfélaginu, en því áhugasamari um þetta. Sömuleiðis höfum við orðið varir við það, hvernig eru menn úti um allan heim, sem hafa lært íslenzku, þýða íslenzkar bækur og hafa fengið svo mikla ást á okkar landi,

en koma kannske aldrei nokkurn tíma til þess. Við ættum að hafa þetta í huga, að þegar við minnumst nú okkar 11 alda byggðar, gætu komið hér saman þessir Íslandsvinir og verið hér um tíma, ekki sízt upp á það, að þessir menn hittu hver annan. Að vísu hefði verið heppilegt, að margir af þessum mönnum hefðu getað komið hingað áður, og gjarnan mætti hafa það í huga, af því að margir eru þeir nú orðnir svo gamlir, að þeir máske lifi ekki þennan tíma. En eitt af því, sem við ættum að hafa í huga, þegar að þessu kæmi, væri þetta.

Ég skal ekki fara hins vegar neitt inn á það, sem hæstv. forsrh. kom hér inn á um byggingarnar. Það er alveg rétt, að við mættum gjarnan setja okkur það að hafa komið slíkum byggingum upp og fara að ræða þau mál, sem við erum ákaflega ólíkra skoðana um, og reyna a.m.k. að lokum að koma okkur niður á, hvað heppilegast þyki í þeim efnum.

Ég vil þess vegna mjög taka undir þessa þáltill. hæstv. ríkisstj. og vonast til þess, að sú n., sem hún fer til, vinni vel að henni, og sem sagt, að hugmyndir um þetta komi sem fyrst fram, því að það er oft svo, að beztu hugmyndirnar um svona hluti þurfa hvað lengstan undirbúning.