15.12.1965
Efri deild: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er ekki ýkjalangt síðan allur innflutningur til landsins var háður leyfisveitingum, og hið sama var að segja um ráðstöfun á gjaldeyri til annarra þarfa en vöruinnflutnings. Þá tíðkaðist, að innheimt var svonefnt leyfisgjald af þeim leyfum, sem gefin voru út til vöruinnflutnings eða annarrar ráðstöfunar á gjaldeyri. Var þetta leyfisgjald notað til þess að standa undir kostnaði við innflutningsskrifstofu eða stofnun, sem annaðist leyfaúthlutun, þótt undir ýmsum nöfnum væri, og hafði sú skrifstofa raunar á síðari árum sinnt fleiri verkefnum, svo sem t.d. verðlagseftirliti. Það eru því ekki nema 5–6 ár síðan í raun og veru var tekið gjald af öllum vöruinnflutningi til landsins og allri ráðstöfun gjaldeyris til annarra þarfa en vöruinnflutnings, og hafði svo verið um áratuga skeið.

Á þessu var gerð gagnger breyting á árinu 1960, þegar ákveðið var að gefa verulegan hluta af innflutningi til landsins frjálsan og látið sama gilda um ráðstöfun gjaldeyris til ýmissa annarra þarfa. Samtímis var svonefnd innflutningsskrifstofa lögð niður, en slík skrifstofa hafði þá starfað um þriggja áratuga skeið undir ýmsum nöfnum til þess að hafa yfirstjórn á innflutningshöftunum og þeim takmörkunum, sem voru á ráðstöfun erlends gjaldeyris. Þegar þessi breyting var gerð 1960 og skrifstofan var lögð niður, var öðrum aðila falið að hafa með höndum þá leyfisútgáfu, sem enn var við haldið, og um það bil 1/6–1/5 hluta af vöruinnflutningnum. Bankarnir ásamt viðskmrn. tóku að sér að starfrækja skrifstofu, sem hafa skyldi þessa leyfisútgáfu með höndum, og var í lögunum, sem þá voru sett, l. um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála, heimilað að innheimta allt að 1% gjald af leyfum til vöruinnflutnings og leyfum til annarrar gjaldeyrisnotkunar til þess að standa undir kostnaði við þessa svonefndu gjaldeyrisdeild bankanna og jafnframt til að standa undir kostnaði við verðlagseftirlit, en skrifstofuhald innflutningsskrifstofu og verðlagseftirlits hafði áður verið sameiginlegt.

Síðan 1960 hefur þeirri stefnu verið haldið áfram að undanþiggja æ fleiri vörur og æ fleiri tegundir af gjaldeyrisráðstöfunum undan leyfisveitingum, svo að þetta svonefnda leyfisgjald hefur verið innheimt af síminnkandi hluta vöruinnflutnings og gjaldeyrisráðstöfunar. Auk þess var heimildin aldrei notuð að fullu. Heimild til 1% leyfisgjalds var aldrei notuð nema að hálfu leyti. Síðan 1960 hefur leyfisgjaldið numið ½%.

Á s.l. ári námu tekjur af þessum ½% leyfisgjöldum 6.9 millj. kr., og var þeim ráðstafað þannig, að 3.3 millj. var varið til þess að greiðakostnað við leyfaúthlutun og 3.6 millj. var varið til þess að greiða kostnað við verðlagseftirlit.

Það hefur verið rætt nokkuð undanfarið, að ástæða væri til þess að hækka nokkuð leyfisgjaldið með sérstakri hliðsjón af því, sem ég gat um áðan, að leyfisgjaldið hefur á undanförnum árum verið innheimt af æ minnkandi hlutfallstölu af innflutnings- og gjaldeyrisráðstöfunum. Af því hefur þó ekki verið látið verða. Í þessu frv. felst það hins vegar, að heimilt er að hækka leyfisgjald úr ½% upp í 1% og jafnframt að innheimta smávægilegt afgreiðslugjald af gjaldeyrisráðstöfun til vöruinnflutnings og annarra þarfa, sem ekki eru háðar leyfisveitingum, þannig að verði þetta frv. samþ., eins og þegar hefur verið gert í Nd., mun framvegis verða um að ræða 1% gjald af þeim vöruinnflutningi og þeirri gjaldeyrisráðstöfun, sem háð er leyfisveitingum, en ½% gjald af ráðstöfun gjaldeyris til annarra þarfa en þeirra, sem háðar eru leyfisveitingum. Er áætlað, að heildartekjur af gjöldum skv. þessu frv. muni nema um 35 millj. kr.

Það er rétt, að ég láti þess getið þegar í upphafi þessarar umr. hér í hv. Ed., sem ég tók fram að gefnu tilefni í umr. í hv. Nd., að með engu móti verður litið á ákvæði þessa frv, sem tilraun til gengisbreytingar eða raunverulega gengisbreytingu, af þeim ástæðum, sem nú skal greina:

Í reglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem flest aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru aðilar að, er gert ráð fyrir heimild til þess að hafa mismun kaup- og söluverðs á erlendri mynt eða erlendum gjaldeyri allt að 1%. Sú umboðsþóknun, sem seðlabönkum eða gjaldeyrisbönkum er heimilt að taka fyrir að verzla með erlendan gjaldeyri, má nema allt að 1%. Í gengisbreytingarlögunum frá 1960 var ákveðið að nota þessa heimild aðeins að mjög litlu leyti. Þar var ákveðið, að mismunur kaup- og sölugengis skyldi vera aðeins ¼%. Munur sölugengis annars vegar og kaupgengis hins vegar, sitt hvorum megin við stofngengi, er ekki nema um 0.25% eða ¼%.

Jafnvel þó að þessu ½% afgreiðslugjaldi, sem bankarnir nú taka, sé bætt við þann gengismismun, sem nú á sér stað í gjaldeyrisviðskiptum, verður hann 1%, eins og alþjóðlegar heimildir segja til um, á leyfisvörum, þ. e. þeim um það bil 10% af vöruinnflutningi, sem enn þá er háður leyfisveitingum, og þeim gjaldeyri til annarra þarfa, sem háður er leyfisveitingum. En að því er snertir aðra gjaldeyrisráðstöfun nemur þessi mismunur 0.75% og er þannig ¼ undir því, sem alþjóðlegar venjur og reglur segja til um. Er rétt að taka það fram. fyrst þessu máli hefur verið hreyft á annað borð, að hér getur með engu móti verið um að ræða og má með engu móti skoðast, að með þessu afgreiðslugjaldi, sem hér er heimilað, sé að neinu leyti verið að hrófla við gengi íslenzks gjaldeyris.

Að svo mæltu, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.