09.03.1966
Sameinað þing: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (2905)

87. mál, raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Í þessari till., sem ég er meðflm. að, er rætt um það, að ríkisstj. láti fara fram rannsókn á því, hvernig þeim byggðarlögum á Vestfjörðum verði tryggð afnot raforku, sem samveitur ná ekki til sakir strjálbýlis. Við gerum ráð fyrir því, að samveitur geti ekki náð til allra byggða á Vestfjörðum. En það er mikil spurning og mikið atriði, hvað það er mikið af byggð á Vestfjörðum, sem samveitur mundu ekki ná til. Ég hef tilhneigingu til að lita svo á, að það sé ekki endanlega ákveðið eða þurfi ekki að vera endanlega ákveðið, vegna þess að þar er á ýmislegt að líta.

Þegar ákveðið er það hámark vegalengdar, sem má vera á milli bæja, til þess að þeir fái samveitu, er lagður til grundvallar þeirri ákvörðun samanburður á stofnkostnaði og rekstrarkostnaði samveitna annars vegar og dísilstöðva hins vegar. En þetta er ekki eins einfalt mál og í fljótu bragði má virðast. Það er bæði, að samanburðargrundvöllurinn er breytilegur, svo og, að hér gætu ýmis önnur atriði komið til greina.

Það er svo, að stöðugt eru tækniframfarir, og á síðustu missirum hafa orðið tækniframfarir, sem stuðlað hafa að lækkun stofnkostnaðar við samveitur. Í því efni má minna á það, að áður var gert ráð fyrir tveggja víra línum, núna er hægt að nota eins vírs línur, nú er farið að nota plaststrengi, og fleira mætti sjálfsagt nefna af tækniatriðum, sem ég hef ekki kunnáttu til að rekja hér. En þessi atriði hljóta að mínu viti að ráða nokkru um það, hvar á að setja mörkin á milli samveitna og dísilstöðva, ef þar er lagður til grundvallar kostnaðarsamanburður.

Þá er spurning, hvort það geti ekki verið áhorfsmál, hvort rétt sé fyrir hið opinbera að leggja millj. kr. í einstakar framkvæmdir, svo sem skóla og menningarsetur, ef viðkomandi byggðarlag fær ekki rafmagn frá samveitu eða þá sérvatnsvirkjunum. Ég nefni t.d. einn hrepp, sem kemur til athugunar í þessu sambandi, Rauðasandshrepp í Barðastrandarsýslu. Þar er núna verið að byggja barnaskóla, sem kostar milljónir. Þar er heimilið í Breiðuvík. Og þar er nýbúið að reisa stóran flugvöll, þriðja stærsta flugvöll á landinu. Mér sýnist, að það sé einsætt, að í slíku byggðarlagi, þar sem þessar framkvæmdir hafa átt sér stað, þurfi að koma rafmagn og með hagkvæmara móti en með dísilstöðvum, annaðhvort með samveitum eða sérvatnsvirkjun.

Þessar hugleiðingar mínar byggjast á þeirri skoðun, og ég held, að menn séu almennt á þeirri skoðun, að rafmagn frá dísilstöðvum einstakra sveitabæja sé ekki sambærilegt við rafmagn frá samveitum. Það er ekki sambærilegt þegar af þeirri ástæðu, að slíkt rafmagn er ekki stöðugt. Menn keyra ekki vélarnar sólarhringinn út, og menn geta ekki notið ýmissa þæginda, sem rafmagnið skapar, eins og kæligeymslna, ísskápa og annars þess háttar. Og þegar gerður er kostnaðarsamanburður, sem skera á úr því, hvort sé hagkvæmara, dísilstöðvar eða samveitur, fyrir hin dreifðu bændabýli, þarf enn fremur að hafa í huga örar afskriftir af sjálfum dísilvélunum, vélgæzlu, aðdrætti olíu o.fl.

Þegar á allt er litið, er spurningin sú, hvort ekki geti verið þjóðhagslega hagkvæmara að rafvæða sveitirnar frekar með samveitum en talað hefur verið um fram til þessa. Ég hef séð útreikninga, sem benda til þess, að hagkvæmt sé að ganga verulega lengra í rafvæðingu sveitanna með samveitum en reiknað hefur verið með til þessa. Mér er tjáð, að þessir útreikningar séu gerðir af sérlærðum mönnum, en ég vil ekki fullyrða að svo stöddu um réttmæti þeirra. En mér finnst einsýnt, að þetta mál sé tekið til nýrrar yfirvegunar af raforkumálastjórninni, og þá kæmi mér ekki á óvart, þó að yrði komizt að þeirri niðurstöðu, að það gæti verið hagkvæmara þjóðfélagslega að ganga lengra í samveitum en reiknað hefur verið með fram til þessa. Mér finnst, að það sé nauðsynlegt í sambandi við úrlausn rafmagnsmálanna á Vestfjörðum að taka þetta atriði til athugunar, og ég bendi á það vegna þess, að það hefur ekki komið fram í þessum umræðum.

Ég vænti þess, að þessi till. fái skjóta og góða afgreiðslu hér á þinginu og að árangur hennar geti orðið sá að hrinda í framkvæmd ýmsum aðkallandi verkefnum í rafmagnsmálum Vestfjarða.